CB023439Á þeim þremur árum sem liðin eru frá því að þróunarstarf Valorka hverflanna hófst hefur starfsemi Valorku aukist verulega. Hér er þó ekki um sömu útþenslu að ræða og einkenndi "snillingafyrirtækin" sem komu þjóðinni í þrot, heldur er unnið að því á sífellt fleiri sviðum að leggja grundvöll að nýtingu einnar mestu auðlindar Íslendinga og undirbúa verðmætasköpun með aukinni framleiðslu hátæknibúnaðar, en Íslendingar hafa verið eftirbátar annarra þjóða á því sviði.  Aðferðafræði Valorku ehf er sú sama í rekstri eins og við uppfinningarnar sjálfar; "einfaldleiki, rökfesta og traust uppbygging". 

Sífellt kemur betur í ljós að viðfangsefni Valorku er ekki aðeins að þróa tæknilausnir, heldur þarf einnig að glíma við staðnað hugarfar, hjátrú og hindurvitni á sviði orkumála; skort á stefnumörkun og yfirsýn stjórnvalda; ónóga almenna menntun og fræðslu; skort á orkurannsóknum; fordóma í garð íslenskra uppfinninga og meingallað stuðningsumhverfi nýsköpunar.  Til allrar hamingju eru þó á þessu ýmsar góðar undantekningar og án nokkurra framsýnna einstaklinga væri þetta nýsköpunarverkefni steindautt, líkt og fleiri gagnlegar íslenskar uppfinningar.

Eftirfarandi þættir verða fyrirferðarmiklir í starfi Valorku á næstu misserum:
1.  Þróun hverfla til nýtingar lághraðastraums, einkum til nýtingar þeirrar sjávarfallaorku sem algeng er í röstum utan fjarða.  Þetta er meginverkefni Valorku og grunnur annarra þátta.   Það greinist svo í undirþætti, en af þeim ber þessa hæst á næsta ári; a) Áframhaldandi prófanir þeirra fjögurra gerða sem mótaðar hafa verið.  Einkum verður lögð áhersla á V-4, en hún verður prófuð í keri; með gúmbát og sem stærra líkan á fleka.  b) Smíði líkana af nýrri gerð; V-5, sem nú er á hugmyndastigi.  Þessi gerð sameinar kosti fyrri gerða en verður einfaldari og væntanlega afkastameiri.  Látið verður reyna á nýnæmi og einkaleyfishæfi. 
2.  Þróun ölduvirkjunar.  Hugmynd Valdimars um aðferð til virkjunar ölduorku er eldri en hugmyndir að fallavirkjunum.  Ýmsar ástæður urðu til þess að hún var lögð til hliðar, m.a. sú að henni var hafnað af Rannís á sínum tíma.  Enn er þó hugmyndin í fullu gildi og ýmislegt bendir til þess að hún sé hæfari en flestar núverandi humyndir til að leysa höfuðvandamálið á þessu sviði; ógnarátök á yfirborðinu í verstu aðstæðum.  Líklegt er að smíðað verði líkan á næsta ári og leitað eftir einkaleyfi.
3.  Rannsóknir á sjávarorku.  Engar rannsóknir hafa farið fram hérlendis á umfangi sjávarfallaorku, hvorki í heild né á einstökum svæðum utan fjarða.  Verra er þó fyrir framgang verkefna Valorku að engar straummælingar liggja fyrir á þeim stöðum sem gætu orðið vænlegir til prófana og nýtingar hverflanna.  Nú er orðið ljóst að þessi skortur á rannsóknum verður verkefninu til trafala þegar á næsta ári, þegar sjóprófanir hefjast.  Ef takast á að halda verkefninu áfram hérlendis er því ljóst að Valorkar þarf sjálf að hefja þessar rannsóknir; að sjálfsögðu í samvinnu við sérfræðinga og fagaðila.  Valorka hefur því stofnað til rannsóknarverkefnisins "Rannsóknamiðstöð sjávarorku" í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og Verkís.  Leitað verður eftir fé til kaupa á botnlægum dopplermælum, en Hafrannsóknastofnun hefur boðist til að sjá um lagningu þeirra og aflestur.  Niðurstöður mun Hafró nýta til sinna verkefna; Verkís mun nýta þær til uppfærslu á fyrirliggjandi sjávarfallalíkani Siglingastofnunar og Valorku munu þessar niðurstöður nýtast til staðarvals prófana og lagningar hverflanna.  Byrjunarfjárveiting hefur þegar fengist á fjárlögum Alþingis og vænst er viðbótar á næsta ári þannig að þá megi hefja þetta nauðsynjaverk sem orðið hefur útundan í íslenskum orkurannsóknum.  Í framhaldinu verður væntanlega farið inn á aðra þætti sjávarorku, s.s. ölduorku.  Á vegum RMS verkefnisins verður settur upp opinber gagnagrunnur sem nýtast mun í ýmsum tilgangi. 
4.  Breytingar á stefnumörkun stjórnvalda og lagaumhverfi.  Þegar Valorka hóf sína starfsemi lá engin stefnumörkun fyrir að hálfu stjórnvalda um neina þætti sjávarorku.  Öll stefnumörkun og allt lagaumhverfi hefur miðast við  nýtingu vatnsfalla og jarðhita, auk innfluttra jarðefnaorkugjafa.  Engu er líkara en öðrum sjónarmiðum og möguleikum hafi markvisst verið haldið úti, og hafa þar e.t.v. fremur ráðið hagsmunir einstakra fyrirtækja og stofnana en almennings.  Sem betur fer hafa stjórnmál nú þróast á þann hátt að meiri víðsýni gætir almennt á Alþingi og þingmenn eru óhræddari að hugsa á nýjan hátt; horfa á nýjar launsnir og losa sig úr viðjum stórra hagsmunaaðila.  Það er e.t.v. einn jákvæðasti þáttur hrunsins.  Valdimar hefur lagt sig fram um að kynna þingmönnum þá möguleika sem Íslendingar nú eiga á sviði nýtingar sjávarfallaorku og að komast í fremstu röð tækniþróunar á því sviði.  Fyrir beiðni hans og aðstoð var á vordögum 2011 lögð fram þingsályktunartillaga um rannsóknir og nýtingu sjávarfallaorku og stuðning við tækniþróun í þeim efnum.  Frummælandi tillögunnar er Skúli Helgason en alls eru flutningsmenn 22 úr öllum flokkum á þingi.  Má því heita öruggt að tillagan verði samþykkt á komandi vetri, sem hlýtur að teljast verulegur áfangi í starfsemi Valorku ehf og fyrir greinina.
5.  Menntun háskólanema.   Þessi þáttur í starfsemi Valorku hefur farið vaxandi og líkur eru á að svo verði áfram.  Valorka ehf er eina fyrirtæki landsins í tækniþróun á sviði sjávarorku.  Sú ánægjulega staðreynd blasir nú við að sífellt fleiri ungmenni kjósa að leggja stund á orkutækni og verkfræði í nýjum greinum.  Því er ekki óeðlilegt að leitað sé til Valorku um aðstoð og samvinnu.  Á síðasta vori útskrifaðist einn nemandi sem valdi þátt í þróun Valorka hverflanna sem lokaverkefni. Valorka veitti honum aðgang að ýmsum upplýsingum og aðstoðaði hann með tilraunir; báðum til hagsbóta.   Á þessu hausti hafa nokkrir nemendur leitað eftir samvinnu af svipuðum toga.  Valorka ehf mun þurfa að leita sérfræðiþekkingar um ýmsa þætti í sinni starfsemi og því er sjálfsagt að liðka fyrir menntun eins og unnt er.  Hinsvegar væri þörf á að um þetta væri mótaður skýrari rammi.   
6. Kynning og fræðsla.  Valorka ehf hefur lagt sig fram um kynningu og fræðslu á sínu starfssviði. Mikil vanþekking er ríkjandi um allt sem lýtur að þessari orkuauðlind; umfangi hennar og nýtingarmöguleikum og hvernig staðan er á heimsvísu varðandi tækniþróun og stefnumörkun.  Úr þessari vanþekkingu vill Valorka bæta, eftir því sem framast er unnt.  Hluti af því er sú hægfara uppbygging þessarar vefsíðu sem nú er að birtast.  Hér hefur verið sett upp undirsíðan "fróðleikur og skýrslur" og á henni mun væntanlga birtast ýmislegt efni sem á erindi við almenning.  Ekki eingöngu varðandi þróun Valorka hverfilsins, heldur einnig almennur fróðleikur; skýrslur, yfirlit, blaðagreinar o.fl.  Á sl. vetri var tekið saman ritið "Sjávarfallaorka og hagsmunir Íslendinga", sem nú má sjá á þessari síðu.  Því var dreift víða í stjórnkerfinu og vakti athygli.  Nú er þarna komin inn samantekt um stöðu sjávarfallaorku á heimsvísu árið 2011, byggð á skýrslum helstu stofnana á þessu sviði.  Margt fleira er til í gagnasafni Valorku sem þarna mun vonandi rata inn á næstunni.

valdimar verdlaun_2011Valdimar Össurarson hlýtur hin virtu International Inventors´ Award árið 2011 fyrir uppfinngu sína; Valorka hverflana.  Verðlaunasamkeppni IFIA, Alþjóðasamtaka hugvitsmanna er að þessu sinni beint að uppfinningum á sviði endurnýjanlegrar orku, loftslags og umhverfisverndar.  Verðlaunin voru afhent á 125 ára afmælissýningu SUF sem haldin er í Stokkhólmi 4.-7.okt 2011.  Á meðfylgjandi mynd er Valdimar t.h. ásamt Agne Johansson, en stofnun hans gefur verðlaunaféð.  Agne er nú 87 ára og hefur lagt mikið að mörkum til hvatningar uppfinningamanna, bæði í Svíþjóð sem á alþjóðavísu en auð sinn á hann að þakka eigin uppfinningum og eljusemi.  Ýmsir hafa líkt honum við Alfred Nobel og verðlaununum við nóbelsverðlaunin á sviði uppfinninga.  Dómnefnd taldi Valorka hverfilinn vera raunhæfustu og framsæknustu hugmyndina að þessu sinni og kom fram við verðlaunaafhendinguna að með henni sé að öllum líkindum rudd braut á nýju sviði orkuöflunar.  Verðlaunaupphæðin er 300.000 sænskar krónur eða um 5,2 milljónir ísl.kr og mun koma sér vel í því mikla þróunarstarfi sem nú er framundan hjá Valorku ehf.

Valorka ehf kynnti starfsemi sína á sýningunni með plakötum og myndbandi, en Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna hafði 2 bása til ráðstöfunar.  5 aðrir íslenskir aðilar kynntu þar sín verkefni.  Töluverð aðsókn var á íslenska básinn, ekki síst eftir verðlaunaafhendinguna.  Í lok sýningarinnar hlaut hann 3. verðlaun fyrir góða kynningu, sem er allgóður árangur í hópi þeirra mörghundruð sýningaraðila sem þarna voru.  Þá hlaut Steinunn Ketilsdóttir bronsverðlaun fyrir sína nýsköpun. 

Valdimar og fyrirtæki hans þakka stuðningsaðilum sínum fyrir þeirra mikla þátt i verðlaununum.  Ekki síst fær Elinóra Sigurðardóttir þakkir, en hún hvatti eindregið til þátttöku og greiddi fyrir henni.  Þakkir fá ennfremur hinir fjölmörgu sem sent hafa heillaóskir og sýnt verkefninu áhuga eftir að verðlaunaveitingin varð kunn.

Winner of the International Inventors Award 2011.
Valdimar Össurarson has been granted the prestigious IIA 2011 awards for his invention, the valorka turbine. IFIA (International Federation of Inventors) grants this awards for the best invention in the chosen category. This year the category was "sustainable energy, climate and environment". The IIA 2011 awards were the collaboration of IFIA and SUF (the Swedish Inventors´ Association) and the prize sum, 450 000 SEK is funded by Agne Johansson Memorial Fund. Valdimar got the 1st prize; Rasmus Norling, Sweden, got the 2nd prize and Khaled Abdul Hamed, Egypt, got the 3rd. The Award ceremony took place during National Inventors' Day on 5 October at the Inventions for the Future trade fair at the Scandinavian Technical Fair. The SUF celebrated its 125th anniversary with a great exhibition where hundreds of inventors and innovators presented their ideas and products. Valdimar(to the right on the picture below) was presented the 1st awards by Agne Johansson (left); a document and award sum of 300 000 SEK. This prize is very important to the Valorka project. It underlines its importance and usefulness and it will pave the way for further development. The prize money will be used entirely for development, along with the support from the Icelandic funds; Taeknithounarsjodur and Orkusjodur. Valdimar Össurarson wishes to thank IFIA; SUF and Arne Johansson Memorial Fund for this award. Also thanks to the many supporters and collaborators of Valorka, but not least to Elinora Sigurdardottir who encouraged Valdimar to apply for the IIA awards. This award may contribute to a faster development for mankind towards a better environment and sustainable energy.

styrkur_os_2011Úthlutað hefur verið rannsóknarstyrkjum úr Orkusjóði fyrir árið 2011.  Samtals var úthlutað 27,4 milljónum króna til 15 aðila.  Hæsti styrkurinn kom í hlut Valorku ehf; 4,2 milljónir króna, til 2. þróunaráfanga Valorka hverfilsins.  Úthlutunin fór fram í Þjóðmenningarhúsinu og afhentu Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Mörður Árnason formaður Orkuráðs styrkþegum staðfestingarskjöl.

Styrkurinn kemur sér sérlega vel fyrir þróunarstarf Valorku á þessum tíma, en án hans hefði áður fenginn styrkur Tækniþróunarsjóðs ekki nýst sem skyldi.  Með þessum tveimur styrkveitingum sýna stjórnvöld framsýni og skilning varðandi mikilvæga grein nýsköpunar.  Hinsvegar skortir enn verulega á að sami skilningur sé sýndur við rannsóknarstarf á sviði sjávarfallaorku, eins og fram kemur hér annarsstaðar á vefsíðunni.

 

althingi_logoÁ Alþingi hefur nú verið lögð fram „Tillaga þingsályktunar um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi“ (þskj. 1168-657. mál)  Flutningsmenn eru 22, úr öllum flokkum á Alþingi, en fyrsti flutningsmaður er Skúli Helgason.  Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að fela iðnaðarráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands.  Jafnframt er ráðherra falið að byggja upp gagnagrunn um nýtingu sjávarorku; stuðla að framgangi tækniþróunar á þessu sviði og athuga með alþjóðlegt samstarf.

Tillagan markar tímamót í sögu orkumála á Íslandi, á fleiri en einn hátt.  Í fyrsta lagi er hér í fyrsta skipti mótuð stjórnvaldsstefna um rannsóknir á sviði sjávarorku; stærstu orkulinda landsins.  Í athugasemdum er vikið sérstaklega að því samstarfi sem Valorka átti frumkvæði að; Rannsóknamiðstöð sjávarorku, sem er samstarfsverkefni með Hafró, Verkís og e.t.v. fleirum.  Í öðru lagi er hér kominn sá jarðvegur sem nauðsynlegur er til að Ísland hafi möguleika á að verða leiðandi í tækniþróun á sviði sjávarorkunýtingar.  Með samþykkt þessarar tillögu standa verkefni eins og þróun Valorka-hverflanna jafnfætis við önnur þróunarverkefni, t.d. að því er varðar stuðning samkeppnissjóða, og er verkefnis Valorku getið sérstaklega í athugasemdum.  Í þriðja lagi má gera ráð fyrir því að í kjölfar tillögunnar komist á fót hérlendis aðili sem einbeitir sér að söfun og utanumhaldi gagna og fróðleiks á þessu sviði og gegni þar miðlunarhlutverki.  Verulega hefur á þetta skort, eins og glögglega hefur komið fram í starfi Valorku ehf.  Líklega er gagnasafn Valorku ehf nú það heillegasta og best uppfærða á landinu varðandi þennan málaflokk, og mun fyrirtækið áfram leggja sig fram um gagnasöfnun og -miðlun á þessu sviði.  Í fjórða lagi er nú stefnt að því að Ísland verði aðili að alþjóðasamstarfi á sviði sjávarorku.  Þetta er enn ein forsenda þess að Ísland sé hæft í samkeppni um tækniþróun og hagnýtingu á þessu sviði.  Að öllu þessu samanlögðu má fullyrða að fátt hefur Alþingi tekið sér fyrir hendur í seinni tíð sem hefur jafn mikla þýðingu fyrir komandi kynslóðir Íslendinga. 

Valorka ehf hefur beitt sér nokkuð fyrir því að hafin verði stefnumörkun af þessu tagi.  Verkefnisstjóri hefur átt fundi með þingmönnum, en einnig var dreift á Alþingi samantektinni „Sjávarfallaorka og hagsmunir Íslands“, sem e.t.v. hefur vakið umhugsun.  Margt í orðalagi tillögunnar má rekja til þess sem Valorka hefur lagt til.  Annað hefur ratað inní hana frá öðrum; sumt af því til bóta en annað ekki.  Ljóst er að Valorka mun gera athugasemdir til lagfæringa á orðalagi á stöku stað þegar tilagan fer í umsagnaferli.

Tillagan markar e.t.v. ekki síður tímamót á hinu pólitíska sviði, en að henni stendur rúmur þriðjungur alls þingheims; 22 þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi; jafnt úr stjórn og stjórnarandstöðu.  Þessi mikla samstaða er öflugur vitnisburður þess að þegar kemur að framtíðarsýn og umhyggju fyrir hag komandi kynslóða geta allir þingmenn verið sammála; öll pólitísk landamæri hverfa.  Þingmenn eiga miklar þakkir skildar; ekki síst þeir sem mikið hafa lagt á sig við undirbúning og framlagningu tillögunnar.

(mynd úr vinnustofu)
Valorka ehf hefur nú flutt vinnustofu sína um set, þó innan sama húsnæðisí frumkvöðlasetrinu Eldey að Ásbrú.  Miklar breytingar standa nú yfir í Eldey á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) sem sér um reksturinn fyrir hönd ríkisins.  Valorku bauðst að fá aðstöðu sem hentaði beturen hin fyrri, og var það þegið.  Nýja aðstaðan er þokkalega rúmgóð, með stórum dyrum og geymslulofti.  Með henni er unnt að koma allri geymslu- og verkstæðisaðstöðu á einn stað, en áður var leigt sérstakt hús fyrir bát.  Eftir sem áður er skrifstofuaðstaða á heimili Valorku og verkstjóra, að Skógarbraut 1104, en þar fer einnig fram hönnunarvinna o.fl.  Frumkvöðlasetur af því tagi sem ÞK býður uppá í Eldey eru mikilvæg úrræði fyrir frumkvöðlaverkefni.  Þar er bæði unnt að fá aðstöðu fyrir verkefni sem ekki þurfa annað en skrifstofuaðstöðu og einnig þau sem þurfa verkstæðisaðstöðu. 

 Tveir gallar eru þó enn óleystir varðandi Eldey, og e.t.v. önnur setur af því tagi.  Annarsvegar væri mikil þörf á sameiginlegum vélasal, þar sem leigjendur gætu komist í vélar til afmarkaðra verkefna.  Þa myndi skapa mikið hagræði í stað þess sem nú er; að hver þurfi að eiga dýrar vélar sem notast lítið.  Þetta myndi þó kosta umsjónarmann með tækjunum, og þann kostnað hefur ÞK ekki viljað leggja í ennþá.  Hitt atriðið er svo það að leiga aðstöðu í Eldey er tiltölulega há, a.m.k. fyrir þau frumkvöðlaverkefni sem eiga erfitt með fjármögnun.  Leiga Valorku núna er 500 kr/m², sem er lítið undir markaðsverði.  Hlýtur að teljast undarlegt að ríkissjóður, sem er bakhjarl ÞK, skuli þannig íþyngja verkefnum sem kunna að reyna þjóðhagslega hagkvæm.  Þær mótbárur hafa heyrst að leiga þurfi að vera nokkuð há til að „losna við starfsemi sem ekki getur flokkast undir frumkvöðlastarfsemi“.  Spyrja má á móti hvort ekki sé skynsamlegra að vera með gott og stöðugt mat og eftirlit að hálfu rekstraraðila.

Subcategories