Enn fjölgar í fjölskyldu Valorka hverflanna. Gerð V-5, eða "fimman" hefur nú verið smíðuð sem 50 cm líkan og fór í fyrstu prófanir á jólaaðventunni 2011. Fyrstu niðurstöður sýna mjög góðan árangur í orkunýtni, eða allt að 30 % meira en fengist hafði með þeirri gerð sem áður var best; V-4. Ekki er þó unnt að staðfesta þennan frábæra árangur fyrr en að loknum frekari prófunum og að fengnum álitum sérfræðinga. Ekki er heldur unnt að lýsa fimmunni að neinu marki fyrr en lagðar hafa verið inn einkaleyfisumsóknir fyrir þeim nýju aðferðum sem hún byggir á. Umsóknirnar verða ekki lagðar inn fyrr en búið verður að prófa og besta ýmsa þætti; gera teikningar o.fl.
Fimman byggir á fyrri gerðum að verulegu leyti og má segja að hún sameini kosti þeirra en sé laus við ýmsa vankanta þeirra. Hún er einföld að byggingu líkt og V-4 en hefur meiri samanlagðan þrýstiflöt blaða á straumsnið en sú gerð og er laus við innbyrðis spennu sem þar myndaðist. Unnt er að raða mörgum hverfilhjólum á sama öxul; blaðstærð getur orðið mikil og unnt að fara ýmsar leiðir með burðarþol og efnisval. Aðalsmerkið er einfaldleiki.
Fimman virðist hafa yfirburði í afköstum við öll álagsstig. Ekki virtist skipta máli hvort hún gekk ólestuð eða fulllestuð; alltaf var hún 25-30% yfir fjarkanum. Verði þessi góði árangur staðfestur í áframhaldandi prófunum er ljóst að Valorka stendur stóru skrefi framar en áður í átt að takmarkinu: nýtingu sjávarstrauma utan stranda.