Út er komin 1. útgáfa þessarar samantektar á vegum Valorku ehf. tilgangur hennar er að draga saman ýmis gögn til þess annars vegar að sýna stöðu þróunar og rannsókna á sviði sjávarfallaorku; innan- sem utanlands, og hinsvegar að leiða í ljós ríkjandi skort á stefnumörkun og vekja athygli á helstu tækifærum sem liggja á þessu sviði og snerta þjóðarhag. Mikill hluti skýrslunnar snýst um rannsóknir írskra stjórnvalda á umfangi sjávarfallaorku þar við land; samanburð írskra, breskra og norskra rannsókna og hugleiðingar um hvernig þær niðurstöður mætti yfirfæra á hérlendar aðstæður. Niðurstaða þess samanburðar leiðir í ljós að sennilega er sjávarfallaorka langstærsta orkulind Íslendinga, eða í heild yfir 330 TWst/ári. Þetta verður þó ekki staðfest nema með rannsóknum af því tagi sem Valorka ehf beitir sér nú fyrir í samastarfi við Hafrannsóknastofnun og Verkís. Þessu næst er fjallað um stöðu virkjanatækni í stórum dráttum og lýst nokkrum hverflum sem komnir eru langt í þróun. Lýst er þeim fjórum gerðum Valorka hverfilsins sem þróaðar hafa verið. Í lokin er vakin athygli á því tækifæri sem Íslendingum býst nú til að stórauka tækniútflutning sinn og komast í fremstu röð þjóða á þessu eftirsótta sviði virkjanatækni og hreinnar orku. Má helst líkja þeim tækifærum við þau sem Finnum buðust í kreppunni uppúr 1990 þegar þeir hagnýttu tækifæri sem þá var að opnast á sviðum gsm-tækni. Sú tækni var þá á jafnmiklu frumstigi og sjávarorkutækni er í dag.
Skýrslunni hefur verið dreift til allra þingmanna og til margra stofnana á sviði orkumála og umhverfisverndar.