Valorka hefur undanfarin misseri unnið að tvíása afbrigði hverflanna; svonefndri Val-X gerð eða Valex. Fyrri gerðir voru einása; þ.e. með einum meginási. Í Valex eru tveir meginásar, auk þess sem fleiri milliásar geta verið eftir þörfum. Þó ýmis grunnatriði séu þau sömu hefur þessi gerð allmikla yfirburði varðandi afköst og notagildi. Í raun má segja að hér sé um færiband að ræða, eins og greina má af rissinu hér vinstra megin. Blöðum er fest á tvö eða fleiri bönd sem ganga um endahjól; flöt fyrir straumi á annarri hliðinni en með röndina í straum á hinni. Ýmislegt í búnaðinum er einkaleyfishæft og því ekki lýst frekar að svo stöddu. Kostir Valex eru ýmsir. Í fyrsta lagi er hverfillinn mjög einfaldur að allri gerð og í hann má nýta vel þekkt, ódýr og umhverfisvæn efni. Í öðru lagi er átaksdreifing mjög jöfn, sem þýðir að blöð og aðra hluti má hafa efnislitla og úr léttum efnum. T.d. er 25 metra langt sjóprófunarlíkan ekki nema rúm 50 kg að þyngd að frátöldum endabúnaði. Í þriðja lagi er hverfillinn mjög grunnur í hlutfalli við lengd og heildarflöt virkra blaða. Þetta er gríðarlegur kostur á fyrirhuguðum nýtingarstöðum hverfilsins, því oft er virkjanlegt dýpi ekki nema fáeinir metrar þó röstin sé all löng. Í fjórða lagi getur lengd hverfilsins verið eins mikil og aðstæður á virkjunarstað leyfa; jafnvel kílómetri eða meira. Sjávarfallastraumar eru orkurýrir á flatareiningu, sem þýðir að fullþróaðir sjávarfallahverflar í hægstreymandi röstum munu verða langstærstu hverflar heims. Í fimmta lagi hefur Valorka unnið að lausn til lagningar, starfrækslu og endurheimtu hverflanna sem gerir kleyft að þjónusta þá alfarið án köfunar og á mjög einfaldan og ódýran hátt, en sá þáttur er mjög mikilvægur varðandi hagkvæmni. Lagning og endurheimta yrði lítt fyrirhafnarmeiri en dráttur fiskilínu, þó búnaður bátsins sé vissulega frábrugðinn.
Val-X hefur verið prófaður í straumkeri með góðum árangri. Prófanirnar hafa m.a. sýnt að unnt er að fara ýmsar leiðir í útfærslu, t.d. við festingu og hegðun blaðanna; opnun þeirra og "lokun". Veturinn 2017-18 var smíðað stærra líkan til prófana í sjó. Ekki tókst þó að koma því í prófanir sumarið 2018 eins og til stóð vegna skorts á stuðningi samkeppnissjóða, en stjórnvöld, stofnanir og sjóðir gera nú harða hríð að verkefninu eins og lýst er hér á fréttasíðunni, og hefur það verið án alls stuðnings síðan vorið 2018. Sjóprófunarlíkanið er 25 metra langt, með 16 blöðum, en hvert blað verður um 2,5 m² að flatarmáli. Heildarflötur blaða er því 40 m²; tæpur helmingur hans virkur á hverjum tíma. Efnið í blöðunum er ál og léttur dúkur, en sem áður segir er heldarþyngd þessa stærsta hverfils landsins einungis liðlega 50 kg.
Til prófana hverfilsins verður notaður búnaður Valorku; sjóprófunarflekinn, sem aðlagaður verður þessari gerð; átaksmælir, straummælir, gúmbátur og öflugur bátur; Bjartur, sem keyptur var 2018.
Gert er ráð fyrir að fyrstu sjóprófanir fari fram sumarið 2019; hvað sem líður hindrunum stjórnvalda og sjóðakerfisins, en vissulega væri ánægjulegt ef stjórnvöld stæðu í fæturna gagnvart verkefninu og stæðu um leið við sínar yfirlýsingar í nýsköpunarmálum og skudbindingar í loftslagsmálum.
Mikil gróska er nú víða um heim varðandi þróun sjávarfallahverfla, enda er ný tækni til hreinnar orkuframleiðslu knúin áfram af Parísarsamkomulaginu og öðru ákalli um orkuskipti. Flestir þróunaraðilar beina kröftum sínum að straumhörðum sundum, þar sem unnt er að beita skrúfuhverflum af ýmsum toga; enda er þar mesta orku að hafa á flatareiningu. Slík sund eru þó mjög takmörkuð auðlind í samanburði við gríðarstór hafsvæði annesjarasta, þar sem straumurinn er mun hægari og orkan dreifðari. Tækni sem nær tökum á nýtingu þeirrar orku á hagkvæman hátt mun líklega sjöfalda það umfang sjávarfallaorku sem hingað til hefur verið talið nýtanlegt, eins og sjá má í annarri frétt hér á síðunni sem byggir á áliti vísindamanna.
Enginn stendur núna framar en Valorka í þróun slíkrar tækni. Það hlýtur því að teljast hrein glópska þegar íslensk stjórnvöld standa í vegi fyrir tækniþróun sem færir þjóðinni svo einstaka möguleika á forystu í umhverfisvænni tækniþróun og opnar ný framleiðslutækifæri.