Áhugaverða grein um sjávarorku má lesa á vegum vísindaveitunnar Elsevier, undir heitinu "Resource assessment for future generations of tidal-stram energy arrays".  Höfundar eru M. Lewis; S.P. Neill; P.E. Robins og M.R. Hashemi; allir starfandi hjá School of Ocean Sciences í Bangorháskóla í Bretlandi. 

Í greininni gerðu þeir nákvæma greiningu á allstóru hafsvæði í Írlandshafi, þar sem allmikið liggur fyrir af mælingum á straumahegðun, straumhraða og botnlagi.  Sett var upp reiknilíkan fyrir hegðun sjávarfallastrauma í 32 daga.  Síðan var metið hve mikið svæði væri virkjanlegt með skrúfuhverfli sem verið hefur um tíma í tilraunakeyrslu og því mögulegt að setja inn í líkanið.  Til þess var valinn hverfillinn Sea-Gen frá MCT. 

maelingar irlandshafNiðurstaðan var sú að einungis 90 km² af Írlandshafi, eða 0,12% yfirborðsflatarmáls, væri virkjanlegt með þessum hverfli; samtals um 24 GWst/a.  SeaGen byrjar ekki að snúast fyrr en straumhraði er yfir 1 m/sek og er ekki hagkvæmur til orkuvinnslu fyrr en komið er yfir 2,5 m/sek.  Þennan hverfil, og skrúfuhverfla sem hafa álíka vinnslugetu, skilgreindu vísindamennirnir sem "fyrstu kynslóð" (1st generation) sjávarfallahverfla. 

Þeir héldu síðan áfram útreikningum sínum og skilgreindu hve mikið væri virkjanlegt fyrir tækni sem þeir nefndu "aðra kynslóð" (2nd generation) sjávarfallahverfla; sem gætu stundað hagkvæma orkuvinnslu við 2 m/sek.  Af þeirri gerð er líklega hverfill Tidal Sails í Noregi, að sögn þróunaraðila.  Þannig tækni mætti nýta á 800 km² svæði í Írlandshafi, og hann gæti skilað um 111 GWst/a eða rösklega ferföldu orkumagni. 

Enn var reiknað, og nú athugað hve miklu mætti ná með hagkvæmum hætti ef notaðir væru hverflar sem ynnu við um 1,5 m/sek straumhraða.  Niðurstaðan varð sú að slíkur hægstraumhverfill væri nothæfur á um 6.046 km² hafsvæði í Írlandshafi og myndi skila orku sem næmi 182 GWst á ári, eða rösklega sjöföldu því orkumagni sem SeaGen væri fær um.

Nú vill svo til að hverfill Valorku er eini hverfill heims sem vitað er um að sé kominn nærri sjóprófunum af þeim sem líklegir eru til hagkvæmrar orkuvinnslu úr svo hægum straumi.  Að vísu er hugsanlegt að nýta mætti drekavirkjun Minesto, en þá aðeins á mjög miklu dýpi.  Hverfill Valorku þarf hinsvegar ekki meira en 20-30 m dýpi.  Hverfill Valorku hefur að auki hæfileika til hagkvæmrar orkuvinnslu úr enn minni straumhraða og mun því að öllum líkindum geta aukið enn við vinnanleg orkusvæði.  

Þessi niðurstaða fræðimannanna er ekki einungis uppörvandi fyrir Valorku og gerir það verkefni mun verðmætara en áður var ætlað; heldur er nú ljóst að sjávarfallaorka er mun mikilvægari orkugjafi en hingað til hefur verið álitið.  Lesendum er bent á að "gúggla" þessa grein og lesa hana í heild.