CB023439Á þeim þremur árum sem liðin eru frá því að þróunarstarf Valorka hverflanna hófst hefur starfsemi Valorku aukist verulega. Hér er þó ekki um sömu útþenslu að ræða og einkenndi "snillingafyrirtækin" sem komu þjóðinni í þrot, heldur er unnið að því á sífellt fleiri sviðum að leggja grundvöll að nýtingu einnar mestu auðlindar Íslendinga og undirbúa verðmætasköpun með aukinni framleiðslu hátæknibúnaðar, en Íslendingar hafa verið eftirbátar annarra þjóða á því sviði.  Aðferðafræði Valorku ehf er sú sama í rekstri eins og við uppfinningarnar sjálfar; "einfaldleiki, rökfesta og traust uppbygging". 

Sífellt kemur betur í ljós að viðfangsefni Valorku er ekki aðeins að þróa tæknilausnir, heldur þarf einnig að glíma við staðnað hugarfar, hjátrú og hindurvitni á sviði orkumála; skort á stefnumörkun og yfirsýn stjórnvalda; ónóga almenna menntun og fræðslu; skort á orkurannsóknum; fordóma í garð íslenskra uppfinninga og meingallað stuðningsumhverfi nýsköpunar.  Til allrar hamingju eru þó á þessu ýmsar góðar undantekningar og án nokkurra framsýnna einstaklinga væri þetta nýsköpunarverkefni steindautt, líkt og fleiri gagnlegar íslenskar uppfinningar.

Eftirfarandi þættir verða fyrirferðarmiklir í starfi Valorku á næstu misserum:
1.  Þróun hverfla til nýtingar lághraðastraums, einkum til nýtingar þeirrar sjávarfallaorku sem algeng er í röstum utan fjarða.  Þetta er meginverkefni Valorku og grunnur annarra þátta.   Það greinist svo í undirþætti, en af þeim ber þessa hæst á næsta ári; a) Áframhaldandi prófanir þeirra fjögurra gerða sem mótaðar hafa verið.  Einkum verður lögð áhersla á V-4, en hún verður prófuð í keri; með gúmbát og sem stærra líkan á fleka.  b) Smíði líkana af nýrri gerð; V-5, sem nú er á hugmyndastigi.  Þessi gerð sameinar kosti fyrri gerða en verður einfaldari og væntanlega afkastameiri.  Látið verður reyna á nýnæmi og einkaleyfishæfi. 
2.  Þróun ölduvirkjunar.  Hugmynd Valdimars um aðferð til virkjunar ölduorku er eldri en hugmyndir að fallavirkjunum.  Ýmsar ástæður urðu til þess að hún var lögð til hliðar, m.a. sú að henni var hafnað af Rannís á sínum tíma.  Enn er þó hugmyndin í fullu gildi og ýmislegt bendir til þess að hún sé hæfari en flestar núverandi humyndir til að leysa höfuðvandamálið á þessu sviði; ógnarátök á yfirborðinu í verstu aðstæðum.  Líklegt er að smíðað verði líkan á næsta ári og leitað eftir einkaleyfi.
3.  Rannsóknir á sjávarorku.  Engar rannsóknir hafa farið fram hérlendis á umfangi sjávarfallaorku, hvorki í heild né á einstökum svæðum utan fjarða.  Verra er þó fyrir framgang verkefna Valorku að engar straummælingar liggja fyrir á þeim stöðum sem gætu orðið vænlegir til prófana og nýtingar hverflanna.  Nú er orðið ljóst að þessi skortur á rannsóknum verður verkefninu til trafala þegar á næsta ári, þegar sjóprófanir hefjast.  Ef takast á að halda verkefninu áfram hérlendis er því ljóst að Valorkar þarf sjálf að hefja þessar rannsóknir; að sjálfsögðu í samvinnu við sérfræðinga og fagaðila.  Valorka hefur því stofnað til rannsóknarverkefnisins "Rannsóknamiðstöð sjávarorku" í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og Verkís.  Leitað verður eftir fé til kaupa á botnlægum dopplermælum, en Hafrannsóknastofnun hefur boðist til að sjá um lagningu þeirra og aflestur.  Niðurstöður mun Hafró nýta til sinna verkefna; Verkís mun nýta þær til uppfærslu á fyrirliggjandi sjávarfallalíkani Siglingastofnunar og Valorku munu þessar niðurstöður nýtast til staðarvals prófana og lagningar hverflanna.  Byrjunarfjárveiting hefur þegar fengist á fjárlögum Alþingis og vænst er viðbótar á næsta ári þannig að þá megi hefja þetta nauðsynjaverk sem orðið hefur útundan í íslenskum orkurannsóknum.  Í framhaldinu verður væntanlega farið inn á aðra þætti sjávarorku, s.s. ölduorku.  Á vegum RMS verkefnisins verður settur upp opinber gagnagrunnur sem nýtast mun í ýmsum tilgangi. 
4.  Breytingar á stefnumörkun stjórnvalda og lagaumhverfi.  Þegar Valorka hóf sína starfsemi lá engin stefnumörkun fyrir að hálfu stjórnvalda um neina þætti sjávarorku.  Öll stefnumörkun og allt lagaumhverfi hefur miðast við  nýtingu vatnsfalla og jarðhita, auk innfluttra jarðefnaorkugjafa.  Engu er líkara en öðrum sjónarmiðum og möguleikum hafi markvisst verið haldið úti, og hafa þar e.t.v. fremur ráðið hagsmunir einstakra fyrirtækja og stofnana en almennings.  Sem betur fer hafa stjórnmál nú þróast á þann hátt að meiri víðsýni gætir almennt á Alþingi og þingmenn eru óhræddari að hugsa á nýjan hátt; horfa á nýjar launsnir og losa sig úr viðjum stórra hagsmunaaðila.  Það er e.t.v. einn jákvæðasti þáttur hrunsins.  Valdimar hefur lagt sig fram um að kynna þingmönnum þá möguleika sem Íslendingar nú eiga á sviði nýtingar sjávarfallaorku og að komast í fremstu röð tækniþróunar á því sviði.  Fyrir beiðni hans og aðstoð var á vordögum 2011 lögð fram þingsályktunartillaga um rannsóknir og nýtingu sjávarfallaorku og stuðning við tækniþróun í þeim efnum.  Frummælandi tillögunnar er Skúli Helgason en alls eru flutningsmenn 22 úr öllum flokkum á þingi.  Má því heita öruggt að tillagan verði samþykkt á komandi vetri, sem hlýtur að teljast verulegur áfangi í starfsemi Valorku ehf og fyrir greinina.
5.  Menntun háskólanema.   Þessi þáttur í starfsemi Valorku hefur farið vaxandi og líkur eru á að svo verði áfram.  Valorka ehf er eina fyrirtæki landsins í tækniþróun á sviði sjávarorku.  Sú ánægjulega staðreynd blasir nú við að sífellt fleiri ungmenni kjósa að leggja stund á orkutækni og verkfræði í nýjum greinum.  Því er ekki óeðlilegt að leitað sé til Valorku um aðstoð og samvinnu.  Á síðasta vori útskrifaðist einn nemandi sem valdi þátt í þróun Valorka hverflanna sem lokaverkefni. Valorka veitti honum aðgang að ýmsum upplýsingum og aðstoðaði hann með tilraunir; báðum til hagsbóta.   Á þessu hausti hafa nokkrir nemendur leitað eftir samvinnu af svipuðum toga.  Valorka ehf mun þurfa að leita sérfræðiþekkingar um ýmsa þætti í sinni starfsemi og því er sjálfsagt að liðka fyrir menntun eins og unnt er.  Hinsvegar væri þörf á að um þetta væri mótaður skýrari rammi.   
6. Kynning og fræðsla.  Valorka ehf hefur lagt sig fram um kynningu og fræðslu á sínu starfssviði. Mikil vanþekking er ríkjandi um allt sem lýtur að þessari orkuauðlind; umfangi hennar og nýtingarmöguleikum og hvernig staðan er á heimsvísu varðandi tækniþróun og stefnumörkun.  Úr þessari vanþekkingu vill Valorka bæta, eftir því sem framast er unnt.  Hluti af því er sú hægfara uppbygging þessarar vefsíðu sem nú er að birtast.  Hér hefur verið sett upp undirsíðan "fróðleikur og skýrslur" og á henni mun væntanlga birtast ýmislegt efni sem á erindi við almenning.  Ekki eingöngu varðandi þróun Valorka hverfilsins, heldur einnig almennur fróðleikur; skýrslur, yfirlit, blaðagreinar o.fl.  Á sl. vetri var tekið saman ritið "Sjávarfallaorka og hagsmunir Íslendinga", sem nú má sjá á þessari síðu.  Því var dreift víða í stjórnkerfinu og vakti athygli.  Nú er þarna komin inn samantekt um stöðu sjávarfallaorku á heimsvísu árið 2011, byggð á skýrslum helstu stofnana á þessu sviði.  Margt fleira er til í gagnasafni Valorku sem þarna mun vonandi rata inn á næstunni.