Um áramótin 2015-2016 er við hæfi að tylla sér á sjónarhólinn; líta í sjónhendingu yfir síðasta ár og íhuga það sem framundan er. Hjá Valorku ehf er unnið að spennandi verkefnum; aðferð til að beisla orku sem hingað til hefur ekki verið nýtt en verður án nokkurs vafa mikilvægur hluti orkunotkunar heimsins innan fárra ára. Ekkert starf getur talist mikiilvægara en það að undirbyggja velferð komandi kynslóða; ekki bara manna heldur alls lífs á jörðinni.
Glögglega kom í ljós á nýyfirstaðinni loftslagsráðstefnu í París hve mannkynið hefur á tiltölulega stuttum tíma komist nærri því að tortíma mestöllu lífi á jörðinni. Niðurstaða ráðstefnunnar var langt frá því sem fullnægjandi getur talist í átt til þess að bæta skaðann, en verður þó að teljast nokkuð mikil viðurkenning á alvarleika þessarar öfugþróunar og skammsýni. Í ljósi reynslunnar verður þó að ætla að gróðahagsmunir muni tefja fyrir framgangi góðra fyrirheita. Enn býr heimurinn við hagkerfi sem byggir á ofnotkun jarðefnaeldsneytis; ofneyslu ríkra þjóða; kúgun fátækra þjóða og skefjalausrar fólksfjölgunar í fátækustu ríkjum heims; svo ekki sé minnst á hina geigvænlegu vopnaframleiðslu sem byggir á því að kynda undir ófriði og viðhalda honum. Parísarsáttmálinn á eftir að ganga í gegnum hreinsunareld eigiinhagsmuna hverrrar þjóðar. Ekki er ástæða til að fagna fyrr en efndir koma í ljós.
Orð á blaði hafa nefnilega ekki alltaf leitt til efnda; eru jafnvel stundum minna virði en pappírinn sem blekinu heldur. Má í því efni benda á hina miklu og jákvæðu yfirlýsingu sem forsætisráðherra Íslands gaf fyrir hönd sinnar ríkisstjórnar varðandi þróunarstarf Valorku, og sjá má hér á forsíðunni. Ekki vantar þar þakklæti, lof og fyrirheit um velvilja stjórnvalda. Hinsvegar var blekið vart orðið þurrt í undirskrift forsætisráðherra þegar hann og öll hans ríkisstjórn hafði synjað verkefninu um lítilsháttar aðstoð til að verkefnið stöðvaðist ekki, eins og lýst hefur verið hér á síðunni. Og niðurrif ríkisstjórnarinnar hefur ekki eingöngu beinst gegn þessu eina þróunarverkefni Íslendinga á sviði nýtingar umhverfisvænustu orkuframleiðslu heims, heldur einnig gegn allri þróun í grænni umhverfistækni. Ríkisstjórnin hóf feril sinn með því að leggja niður grænan samkeppnissjóð og grænan fjárfestingarsjóð sem lögð höfðu verið drög að með þingsályktun allrra flokka á Alþingi. Niðurrif sjóðanna var sagt vera í sparnaðarskyni, þar sem þeir hefðu ekki verið fjármagnaðir. Sá fyrirsláttur stenst ekki, þar sem vel er þekkt að sjóðir starfi án mikils fjár meðan hart er í ári, en verði megnugri þegar góðæri ríkir, líkt og þessi ríkisstjórn segir nú vera. Framlög ríkissjóðs til græna hagkerfisins tók forsætisráðherra traustataki og flutti í önnur óskyld verkefni; og lét sem vind um eyru þjóta alvarlegar athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Afrekaskrá iðnaðarráðherraveður einnig að teljast all dapurleg frá sjónarhóli þeirra sem fást við þróun grænnar orkutækni. Ráðherra hefur haldið Orkusjóði í slíku fjársvelti að honum er gert ómögulegt að sinna hlutverki sínu. Sjóðurinn hefur ekki getað veitt mótframlög við styrki Tækniþróunarsjóðs, sem er í raun yfirlýsing stjórnvalda um að þau vilji ekki að hérlendis sé stunduð önnur þróun í orkutækni en sú sem orkurisarnir sjálfir standa fyrir. Ekki voru það næg spöll á sjóðnum að mati ráðherra, heldur skipaði hún afsettan pólitíkus sem stjórnarformann. Til að koma þeirri bitlingaveitingu fyrir stóðu stjórnarflokkarnir fyrir lagabreytingu þar sem orkuráð var lagt niður og við hlutverkum þess tók þriggja manna "ráðgjafarnefnd". Fyrsta verk þessa nýja formanns var að samþykkja styrkveitingar til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem lýtur alræðisstjórn bróður hans; er styrkt af almannafé og býr yfir trúnaðarupplýsingum um sína samkeppnisaðila. Lítilsvirðingin á lagabókstafnum lýsir sér þó best í því að þessumpólitíska skjólstæðingi iðnaðarráðherra kom ekki til hugar að víkja af fundi við gerninginn. Enn var botninum þó ekki náð í hinni pólitísku spillingu: Þegar kvartað var til iðnaðarráðherra undan lögbrotum þessarastofnana sem undir hana heyra þá brást hún ekki við á þann hátt sem eðlilegt hefði verið í lýðræðisríki; að víkja hinum brotlegu frá störfum og láta vinna málin að nýju með trúverðugum hætti. Nei; iðnaðarráðherra var í hefndarhug gagnvart framkvæmdastjóra Valorku og misnotaði opinberan vef ráðuneytisins til birtingar á röngum upplýsingum, þar sem fjárveitingar til Valorku voru ýktar og rifnar úr öllu samhengi. Ráðherra kaus að verja sinn pólitíska skjólstæðing fremur en eðlilega stjórnarhætti og lagaframkvæmd. Þannig vinnubrögð eru jú helstu einkenni spilltra stjórnvalda.
Valorka hefur því þurft, auk þróunarstarfs síns, að standa í tímafrekum kærum á hendur stjórnvöldum til að tryggja eðlilegan starfsfrið í fjandsamlegu stjórnkerfi, þar sem klíkuskapur og spilling virðist ráða um of. Þar á ofan bætist mikil vinna vegna hins meingallaða stuðningsumhverfis, sem kallar á gegndarlaust pappírsflóð og tilgangslausa skýrslugerð að hálfu þeirra fáu sem auðnast að hljóta styrki til sinna verkefna. Í heild má ætla að meira en helmingur af vinnutíma frumkvöðulsins fari því í ýmiskonar skýrslugerð, bréfaskriftir og kærur til að halda sínum réttmæta sess í stuðningsumhverfinu og tryggja nauðsynlegan stuðning. Þannig frumkvöðlaumhverfi er ekki líklegt til að skila þeirri verðmætasköpun til þjóðfélagsins sem efni standa til.
En þá að verkefnunum sjálfum. Eins og lýst hefur verið hér í fyrri fréttum þá stöðvaðist þróunarstarfið alveg í þrjú misseri, þar sem heildarhugsun skortir algerlega í stuðningsumhverfið. Framhaldsstyrkur Tækniþróunarsjóðs fékkst svo aftur á miðju ári 2015; eftir að verkefnistjóri hafði þurft að draga fram lífið á atvinnuleysisbótum og verkefnið að safna skuldum, m.a. til að halda leiguhúsnæði sínu. Stuðningsumhverfið rétti þó ekki höndina nema hálfa leið: Styrkur TÞS er háður því að 50% mótframlag fáist úr öðrum sjóðum. Orkusjóður brást í því efni, eins og hér var lýst, og því má vel vera að styrkur TÞS falli niður af þeim sökum; með þeim afleiðingum að verkefnið eyðileggist. Verkefnin fóru af stað á haustmánuðum 2015. Strax var ljóst að þau myndu einskorðast við gerð lítilla líkana og prófana þeirra í keri í byrjun, bæði vegna fjárskorts og tímaskorts. Styrkur TÞS stendur undir lágmarkslaunum eins manns, leigu aðstöðu og lítilsháttar efniskaupum, en ekki miklu umfram það.
Megináherslan hefur verið á þróun fjölása hverfils, sem byggir á fyrri einása hverflum. Með því að byggja hverflana á tvo eða fleiri ása má ná stærra þversniði í sjónum án þess að efniskostnaður aukist hlutfallslega, og þar með meira afli. Þetta er mjög mikilvægur þáttur í því að ná hagkvæmni í rekstri hverfilsins; hann er ætlaður til virkjunar hægstraums með mjög litla orkuþéttni á flatareiningu en gríðarlegt hafflæmi. Kostnaður við efni og rekstur skiptir því sköpum um hagkvæmnina. Ekki er enn unnt að lýsa þeim hverfilgerðum sem prófaðar hafa verið árið 2015, en þar er um nokkurn breytileika í aðferðum að ræða. Sumar aðferðir hafa ekki skilað viðunandi árangri, en aðrar eru þróaðar áfram. Einkum er síðasta gerð hverfilsins áhugaverð, enda hefur hún staðið undir væntingum enn sem komið er. Vonast er til að hægt verði að sækja um einkaleyfi á vordögum, og þá verður unnt að lýsa tækninni opinberlega.
Framtíð verkefnisins á næsta ári veltur að sjálfsögðu annarsvegar á árangri prófana og hinsvegar á því hvort nægt fé fæst til þess sem gera þarf. Vonast er til að í kjölfar frekari frekari kerprófana verði unnt að hefja teiknihönnunarvinnu í febrúar eða mars, og í framhaldi af henni að sækja um einkaleyfi á nýrri tegund. Gert er ráð fyrir að þá verði smíðað stórt líkan og það prófað í sjó. Enn er horft til hinnar góðu aðstöðu í Hornafirði varðandi prófanir; þar er enn meginhluti prófunarflekans sem Valorka hannaði og smíðaði. Þó geta mál hugsanlega tekið aðra stefnu; hugsanlegt er að strax verði prófað í annnesjastraumum; sett niður stórt sýnilíkan við raunverulegar aðstæður. Gera verður ráð fyrir að stuðningsumhverfið fari að starfa á eðlilegri hátt en nú er, í kjölfar úrskurða frá umboðsmanni Alþingis og Samkeppniseftirliti, sem nú skoða kærur Valorku.
Ekki er unnt að skilja við þennan áramótapistil án þess að þakka þeim sem helst hafa reynst verkefninu ómetanlegur bakhjarl og hjálparhellur. Er þar fyrst að nefna konu mína Guðbjörgu Sigurðardóttur, sem óhrædd hefur lagt með mér í þessa óvissuferð og hjálpað til við að "ausa bátinn í ólgusjó og ágjöfum". Önnur er sú kona sem aldrei hefur misst trú á verkefnið og stutt það með margvíslegu móti, en það er Elinóra Inga Sigurðardóttir. Má segja að hún eigi stóran þátt í að verkefnið er enn við líði. Þá verður seint fullþakkað framlag Veiðarfæraþjónustunnar í Grindavík, sem hefur veitt gjaldfrjáls afnot af prófunarkerinu og staðið undir raforkukostnaði við það, sem er beinn fjárstyrkur til verkefnisins. Valgeir Páll Björnsson verkfræðingur aðstoðaði á ýmsan hátt á nýliðnu ári, en hann vann að útskriftarverkefni sem tengdist hverflinum. Mörgum fleirum ber að þakka, sem ekki verða upp taldir hér; það bíður síðari pistla.
Valorka ehf og undirritaður óska öllum velunnurum sínum og áhugafólki um hreinni og betri heim, árs og friðar með þökk fyrir liðið ár.
Valdimar Össurarson
frkvstj Valorku