Í síðustu frétt hér á vefsíðu Valorku var drepið stuttlega á fáeina galla stuðningsumhverfis íslenskrar nýsköpunar, en þeir hafa iðulega torveldað framgang verkefna Valorku og stundum stofnað því í bráða hættu. Hér verða nefndir nokkrir fleiri af annmörkum þessa stuðningsumhverfis, sem sífellt tekur til sín auknar fjárveitingar af almannafé án þess að nægt eftirlit sé haft með árangri þess, stjórnun eða öðru. Stjórnvöld hafa iðulega látið ábendingar frá notendum kerfisins sem vind um eyru þjóta, og kerfið hefur síðan refsað þeim sem á þær benda, t.d. með synjun um stuðning eða annarri sniðgöngu. Þessu hefur verkefnastjóri Valorku fengið að kynnast, og þessi er reynslusaga margra annarra frumkvöðla sem fyrir eigin rammleik og af vanefnum reyna að koma gagnlegum hugmyndum að notum fyrir sína þjóð.
Hér verða nefnd örfá dæmi í viðbót um óeðlilega starfshætti nýsköpunarumhverfisins; öll úr reynslubanka Valorku. Verður því nú beint til viðeigandi eftirlitsstofnana, svo og til Alþingis, að taka þessi dæmi til skoðunar og hefja án tafar raunhæfa skoðun og úrbætur á þessu kerfi; að sjálfsögðu með aðkomu hugvitsmanna og frumkvöðla sjálfra, sem kerfið á að þjóna:

1. Nýsköpunarmiðstöð Íslands bar á góma í fyrra pistli. Mjög aðkallandi er að skipulag og lagagrunnur þeirrar stofnunar verði tekinn til gagngerrar uppstokkunar. Ekki nær nokkurri átt að halda lengur áfram á þeirri braut sem nú er; þar sem stofnuninni er öðrum þræði ætlað að vera hlutlaus og óháður stuðningsaðili fyrir frumkvöðla en leyfist um leið að beita sér gegn þeim skjólstæðingum sínum, m.a. með því að sölsa til sín ýmsa þá styrki samkeppnissjóða sem í boði eru. Annað atriði sem þarf að bæta í NMÍ er stjórnunin. Það er hvorki fallið til árangurs né trausts að einn maður stýri þessari mikilvægu stofnun áratugum saman með alræðisvald eins og nú er; og er þar með engin afstaða tekin til þess manns sem því starfi gegnir nú. Nýsköpunarmiðstöð þarf að styðjast við mun traustari lagagrunn og starfsreglur en nú er; og hún þarf að lúta ábyrgri stjórn sem í sitja bæði fagaðilar og fulltrúar þeirra sem stofnunin á að þjóna; jafnt sem stjórnvalda. Stofnunin þarf að mótast af þörfum notenda sinna og þjóðarhags, en ekki annarlegum sjónarmiðum, s.s. kunningjatengslum og eiginhagsmunum. Sem dæmi um þetta má nefna uppákomu frá síðasta vetri. Valorka hafði þá gert samning við NMÍ um að NMÍ yrði ráðgefandi samstarfsaðili Valorku. M.a. hafði NMÍ tekið að sér aðstoð við umsóknargerð varðandi Tækniþróunarsjóð. Þegar leið að skilum umsóknar þurfti NMÍ hinsvegar að sinna sínum eigin verkefnaumsóknum í sama sjóð. Þá var Valorku tilkynnt að verkefnið væri einskis virði og tilgangslaust væri að sækja um styrk fyrir það til TÞS. Engin rök voru samt færð því til stuðnings, enda eru þau ekki til. Umsóknin var samt lögð inn og styrkurinn fékkst, þrátt fyrir þessa tilraun NMÍ til niðurrifs. Hinsvegar getur Valorka alls ekki treyst NMÍ til að vera trúverðugur stuðningsaðili eftir þetta, og þarf líklega í staðinn að leita til erlends ráðgjafaraðila, með þeim kostnaði og áhættu sem því fylgir.

2. „Átak til atvinnusköpunar" er sjóður af opinberu fé, og hefur NMÍ umsjón með auglýsingum eftir styrkumsóknum í hann ár hvert. NMÍ mun einnig vera ráðgefandi um styrkveitingar og hélt undirritaður, eins og fleiri, að þar væru ákvarðanir teknar um veitingar. Eftir að Valorku hafði verið synjað um styrki úr þessum sjóði í fjórða sinn án nokkurra skýringa var leitað eftir þeim. Þá kom í ljós að stjórn sjóðsins er í höndum þriggja manna; þar af eru tveir starfsmenn atvinnuvegaráðuneytisins. Annar þeirra hefur í áratugi verið helsti fulltrúi ráðuneytisins í nýsköpunarmálum en hinn er pólitískt ráðinn aðstoðarmaður núverandi atvinnuvegaráðherra. Þeir gera tillögur til þess sama ráðuneytis um styrkþega og þær eru samþykktar af því sama ráðuneyti. Hér eru því sömu mennirnir allt í kringum borðið. Talandi dæmi um það ógangnsæi og þann óheiðarleika sem einkennir nýsköpunarumhverfið. Og „skýringarnar" sem Valorka fékk á synjununum voru svo fráleitar að ætla mætti að umsóknin hefði ekki verið lesin. „Átak til atvinnusköpunar"er sjóður sem þarf að afnema í sinni mynd og koma á raunhæfara og gegnsærra úrræði í hans stað. Yfir höfuð er ekki eðlilegt að NMÍ sjái um úthlutun styrkja; það samræmist illa meginhlutverki stofnunarinnar. Til að tryggja heiðarleg og gagnsæ vinnubrögð við úthlutun styrkfjár væri æskilegast að hún væri öll á hendi einnar stofnunar, t.d. Rannís. En einnig þar þarf að yfirfara alla verkferla og stokka upp í mosavaxinni yfirstjórn. Í núverandi mynd er hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands illa skilgreint og mótsagnakennt; dæmi um ríkisstofnun sem sogar til sín fjárveitingar án skilvirkni.

3. Landsvirkjun er einokunaraðili í orkuvinnslu og orkusölu á Íslandi, sem langstærsti aðilinn á þeim sviðum. Að nafninu til er Landsvirkjun í eigu þjóðarinnar. Hinsvegar er stjórnun og starfsemi fyrirtækisins með þeim hætti að hún ber öll einkenni einkarekstrar þeirra sem þar gegna forstjórastöðum hverju sinni. Pólitískt skipuð stjórn er þeim til ráðgjafar, en hún virðist í raun ekki annað en stimpilstofnun fyrir vilja forstjóranna. Hér verður ekki fjallað um ævintýralegar hugdettur forstjóra Landsvirkjunar, svo sem sæstrenginn, sem þó virðast vera teknar alvarlega af sumum ráðamönnum þjóðarinnar. Fráleitar vangaveltur um ævintýralega framkvæmd; um sölu á raforku sem ekki er til og verður ekki til í nánustu framtíð; fjárhættuspil með skattfé þjóðarinnar sem mun valda stórhækkun á raforkuverði til almennings. Ekki meira um það hér. Valorka leitaði til Landsvirkjunar um að verða fjárhagslegur bakhjarl verkefna Valorku um tækniþróun til sjávarorkunýtingar. Sú umleitan er mjög eðlileg í ljósi þess annarsvegar að Landsvirkjun tekur inn nær allan hagnað sem íslenska þjóðin hefur af sölu orkuauðlinda sinna og hinsvegar vegna þess að LV nýtir þennan arð þjóðarinnar í miklum mæli til eigin gæluverkefna í orkuþróun, og eru vindmylludraumarnir gleggsta dæmið um það. Landsvirkjun hefur ekkert til sparað í áróðri sínum fyrir vindmyllum, og væri fróðlegt að vita hve miklu af almannafé hefur verið varið í auglýsingar og áróður fyrir þessum hugðarefnum forstjóranna. Forstjórar Landsvirkjunar slógu hinsvegar beiðni Valorku um samstarf strax útaf borðinu; án samráðs við stjórn LV, og báru við þeim fráleitu „rökum" að fyrirtækinu væri óheimilt að stunda tækniþróun! Á sama tíma notar LV almannafé til þróunar vindorkutækni fyrir íslenskar aðstæður og til að kaupa sig inní fyrirtækið Sjávarorku sem vinnur að virkjun Hvammsfjarðarrastar. Hér er um grófa mismunun ríkisfyrirtækis að ræða, ásamt þvi að almannafé er nýtt til að skekkja samkeppnisaðstöðu. Landsvirkjun hefur þar á ofan leitast við að bregða fæti fyrir Valorku með ýmsu móti. Landsvirkjun, líkt og NMÍ, er ríki í ríkinu; án fullnægjandi aðhalds og eftirlits; þar sem valdamiklir stjórnendur fara sínu fram án ábyrgrar fjölmennisstjórnar og án gagnsærra og heiðarlegra verkferla; þar sem ríkisstyrkt stofnun skekkir samkeppnisaðstöðu og hindrar eðlilega þróun. Atvinnuvegaráðuneyti og Orkustofnun virðast fara í einu og öllu að óskum og vilja stofnunarinnar og móta sínar aðgerðir eftir hennar hagsmunum; þó það kosti að traðkað sé á hagsmunum sprotafyrirtækja s.s. Valorku. Þessar lykilstofnanir orkumála í landinu geta alls ekki talist óvilhallar eftir langvarandi þjónustu við þennan orkurisa. Alþingi virðist iðulega falla í sömu gryfju, og er skemmst að minnast hatrammrar umræðu í þinginu, þegar Landsvirkjun reyndi að koma fjölda virkjanakosta þar í gegn; framhjá ferli Rammaáætlunar, og með aðstoð hliðhollra þingmanna og orkumálastjóra. Landsvirkjun myndi ekki muna mikið um að veita hinum einstöku orkuþróunarverkefnum Valorku nokkurra milljóna stuðning, t.d. til að brúa hið mikilvæga mótframlag við styrk Tækniþróunarsjóðs, í samanburði við milljarðabruðl í sínar eigin vindmyllur, og gríðarmikinn áróðurskostnað fyrir eigin ímynd. Hér er á ferð slæmt dæmi um það að fyrirtæki í einokunaraðstöðu notar almannafé til að skekkja samkeppnisaðstöðu, því enda þótt LV skili lítilsháttar arði til ríkissjóðs þá rennur hann ekki til orkuþróunar svo nokkru nemi. Furðulegt má heita að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gert athugasemdir við starfshætti Landsvirkjunar og stofnana sem henni tengjast. Valorka mun nú senda beiðni þar að lútandi.

4. Græna hagkerfið. Vorið 2012 samþykkti Alþingi þingsályktun sem miðaði að eflingu græns hagkerfis á Íslandi. Megintilgangurinn var sá að efla sjálfbærni og umhverfisvernd, þannig að Ísland yrði í fremstu röð ríkja á heimsvísu í þeim efnum. Tillögunni fylgdu 50 tölusett atriði sem stuðla skyldi að. Mörg þeirra varða aukin framlög til tiltekinna stofnana og verkefna, en tveimur þeirra var ætlað að tryggja jafnræði og opna möguleika á stuðningi við aðra aðila sem falla undir markmið tillögunnar. Þau lutu að stofnun græns samkeppnissjóðs og græns fjárfestingasjóðs. Ríkissjórnarskipti urðu árið eftir, og varð þar fyrsta verk nýrrar stjórnar að fella út þessi tvö mikilvægu ákvæði; en með því var lokað á allt jafnræði við útdeilingu fjármuna til málaflokksins. Í framhaldinu voru síðan árlega veitt veruleg framlög á fjárlögum undir yfirskini tillögunnar. Forsætisráðuneyti fór með málaflokkinn og stofnaði um leið sérstaka deild í ráðuneytinu; skrifstofu menningarmála. Í stuttu máli sagt hafa nær allar fjárveitingar sem fara áttu til græna hagkerfisins runnið til menningartengdra verkefna; einkum til stofnana á sviði þjóðminjavörslu. Óvíst er hvort það tengist því að þjóðminjavörður starfaði sem sviðsstjóri hinnar nýstofnuðu menningardeildar á sama tíma. Valorka leitaði eftir stuðningi af þessum framlögum, en var synjað eftir að beiðninni hafði verið velt fram og aftur í langan tíma milli þriggja ráðuneyta, í viðleitni þeirra til að svæfa málið. Féll það í hlut umhverfisráðuneytisins að senda synjunarbréfið, þrátt fyrir að umhverfisráðherra hefði lýst því yfir að hún væri sérstök áhugamanneskja um sjávarorkunýtingu og þrátt fyrir að ekkert verkefni falli betur að skilgreiningum hins græna hagkerfis og umhverfisvernd. Ríkisendurskoðun gerði alvarlegar athugasemdir við meðferð ráðherra á þessum fjárlagalið, en þeir létu það sem vind um eyru þjóta. Alþingi hefur algerlega brugðist eftirlitshlutverki sínu, því þó einstakir samviskusamir þingmenn hafi vakið athygli á málinu hefur Alþingi í heild ekki kallað eftir ábyrgð ráðherra á þessari forkastanlegu meðhöndlun almannafjár.
5. Ríkisstjórn Íslands. Meðan á umleitunum Valorku við forsætisráðuneytið stóð, vegna græna hagkerfisins, gaf forsætisráðherra út yfirlýsingu, dags 16. júlí 2014, þar sem þakkað er fyrir hið einstaka framtak og árangur Valorku til nýtingar sjávarorku, þ.m.t. fyrsta og eina einkaleyfishæfa íslenska hverfilinn. Látin er í ljósi von um að verkefnin nái þeim árangri sem að er stefnt. Af yfirlýsingunni mætti ætla að ekki myndi standa á stuðningi hins opinbera við að koma verkefnunum í höfn, en mikið hefur reynst skorta á þau heilindi. Með tilvísun til yfirlýsingarinnar, og í ljósi þess að verkefnin voru að ónýtast fyrir fjárskort, fór Valorka framá sérstakt framlag af hendi ríkisstjórnarinnar, en fyrir slíku eru mörg fordæmi. Atvinnuvegaráðherra fór með beiðnina á ríkisstjórnarfund, en þó ekki óbreytta, og virðist ekki hafa fylgt henni eftir af sannfæringu. Svör ríkisstjórnar voru loðin og óásættanleg, svo ráðherra var inntur skýrari svara. Niðurstaðan reyndis sú að ríkisstjórn synjaði beiðninni án rökstuðnings. Spyrja má hvers virði sú yfirlýsing var sem út var gefin. Þar virðist hugur ekki hafa fylgt máli. En hérlendis virðast ráðherrar geta gefið yfirlýsingar og loforð um hvaðeina án þess að þurfa nokkurntíma að standa við innihaldið. Hér skortir aðhald, bæði frá fjölmiðlum og eftirlitsstofnunum; og þar af leiðandi frá almenningi.

6. Atvinnuvegaráðuneytið fer með nýsköpunar- og orkumál, en til þeirra málaflokka heyra verkefni Valorku. Núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ráðuneyti hennar hefur ítrekað sýnt verkefnum Valorku sniðgöngu og lítilsvirðingu á ýmsan hátt. Sífellt kemur betur í ljós sú tilhneyging ráðuneytisins að gæta fyrst og fremst hagsmuna stóru einokunarfyrirtækjanna í orkumálum, þ.e. Landsvirkjunar og annarra opinberra orkufyrirtækja, en síður sprotafyrirtækja sem eiga á brattann að sækja. Margt má rekja úr framvindudagbók Valorku því til stuðnings. Til dæmis hefur ráðherra ekki í áraraðir sinnt beiðni Valorku um viðtal, og lét ekki svo lítið að vera viðstödd fyrstu prófanir íslenskrar sjávarfallavirkjunar, né senda sinn fulltrúa, en hún lætur sig aldrei vanta á viðburði hjá Landsvirkjun eða Landsneti; hversu ómerkilegir sem þeir eru. Ef frumherjaverkefni af því tagi sem Valorka vinnur, á að hafa nokkurn möguleika á að komast áfram, er það auðvitað frumskilyrði að viðkomandi ráðuneyti sé ávallt reiðubúið að hlusta eftir því hvar þörf er á að greiða fyrir því í stjórnkerfinu, og skapi því skilyrði til þróunar og vaxtar. Þá sjaldan fundir hafa fengist með starfsmönnum í ráðuneytinu er viðkvæði þeirra einatt það að þeir ráði því miður engu; þessu verði ráðherra að svara. En svörin hafa ekki fengist hjá ráðherra; ekki fremur en fundirnir. Til dæmis var synjun Landsvirkjunar um stuðning borin undir ráðherra, en ráðuneytið svaraði út í hött; á þá leið að Landsvirkjun væri opinbert hlutafélag og því væru gerðir þess ráðuneytinu óviðkomandi! Sé það rétt að Landsvirkjun heyri ekki undir neitt ráðuneyti þá hlýtur hún að vera fríríki sem þarf að fá eigin fána og stjórnarskrá. Fordómar ráðherra í garð Valorku lýstu sér glöggt þegar hún skipaði í starfshóp sem móta skyldi tillögur um fyrirkomulag rannsókna á sjávarorku. Hvatinn að því var þingsályktunartillaga sem lögð var fram fyrir hvatningu Valorku og samþykkt einróma á Alþingi vorið 2014. Í greinargerðinni er lögð áhersla á frumkvöðlastarf Valorku, og að rannsaka þurfi sjávarorku við Ísland m.a. vegna þess þróunarstarfs, en einnig til að meta heildarumfang þessarar hreinustu orkuauðlindar Íslendinga. Verkefnisstjóri Valorku sendi ráðuneytinu ítarlega greinargerð um starf Valorku og nánar um þörf þessara rannsókna. Ráðherra kaus að lítilsvirða allt starf Valorku á þessu sviði með því að skipa verkefnisstjóra Valorku ekki í starfshópinn, og ganga þannig framhjá eina hagsmunaaðilanum hérlendis á sviði þróunar sjávarorkutækni og hvatamanni að starfshópnum. Skýrsla starfshópsins er lítils virði, og hvorki í samræmi við þarfirnar, né þá þingsályktunartillögu sem hún byggir á. Þess var heldur ekki að vænta, þar sem í hópnum voru menn sem barist hafa gegn verkefnum Valorku með oddi og egg. Starfshópurinn leggur á sig langa króka til að nefna ekki starf Valorku á þessu sviði; það rannsóknarverkefni sem Valorka hefur þegar sett á fót og þá fjárfestingu sem Valorka hefur þegar ráðist í til undirbúngs rannsóknarverkefninu. Þessu plaggi er beinlínis stefnt gegn hagsmunum Valorku. Verði mark á því tekið af stjórnvöldum mun Ísland líklega heltast úr lestinni í þróun og nýtingu sjávarorku. Hér er enn eitt dæmið um fordóma og vanþakklæti stjórnvalda í garð Valorku; þvert á það sem segir í áðurnefndri yfirlýsingu forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Fleira mætti nefna sem varðar atvinnuvegaráðuneyti nýsköpunar og orkumála, en það bíður að sinni.

7. Rannís. Einhverjir kynnu að ætla að það kæmi úr hörðustu átt að framkvæmdastjóri Valorku skuli finna að starfsemi Rannís, enda er helsti styrktaraðili Valorku frá upphafi Tækniþróunarsjóður sem er hluti af starfsemi Rannís. Vissulega hefur Tækniþróunarsjóður gert margt þakkarvert, og Valorka hefur allajafna átt góð samskipti við starfsmenn TÞS. Aðra sögu má hinsvegar segja af því framferði forstöðumanns Rannís, sem hér verður lýst: Framkvæmdastjóri Valorku hefur verið formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna frá stofnun SFH árið 2008. Fyrir nokkrum árum sendu SFH stjórnvöldum athugasemdir og úrbótatillögur í nokkrum liðum um það sem betur mætti fara í stuðningsumhverfi nýsköpunar. Viðbrögð ráðuneyta og þings urðu engin fremur en fyrri daginn. Hinsvegar barst stjórnarmönnum skammarbréf frá forstöðumanni Rannís, sem hann birti jafnframt á hinum opinbera vef sinnar stofnunar. Hið furðulega var að þessi maður hafði ekki fengið bréf SFH og ekki var að honum vikið í því. Ofsafengin viðbrögð hans eru því skýrt dæmi um þann klíkuskap og þau óeðlilegu hagsmunatengsl sem eru ríkjandi í fámennisstjórnun íslenska nýsköpunarumhverfisins. Forstjórinn stóð við sínar hótanir. Valorka sótti eftir þetta nokkrum sinnum um styrk til kaupa á botnlægum straumhraðamæli til mælinga í sjávarröstum, í samræmi við áðurnefnda ályktun Alþingis. Verkið skyldi unnið í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, sem lofað hefur samstarfi við Valorku um þær. Sótt var um til Tækjasjóðs Rannís sem síðar varð Innviðasjóður; en honum veitti forstöðu umræddur forstjóri Rannís. Hann hafnaði þessari sjálfsögðu beiðni með útúrsnúningum og fjarstæðukenndum tylliástæðum, og má rekja þá synjun beint til baráttu undirritaðs fyrir úrbotum í nýsköpunarumhverfinu. Margt fleira mætti finna að starfsháttum Rannís. Skortur á hæfum matsmönnum háir t.d. sanngjörnu og vönduðu mati styrkumsókna, og verður iðulega til þess að vænlegum umsóknum er hafnað, a.m.k. á þeim sviðum sem þekkingu skortir hérlendis. Þannig er t.d. ástatt um verkefni Valorku. Hinsvegar er það eðli akademíunnar, sem er einráð um mat umsókna, að viðurkenna aldrei þekkingarskort þegar ólærðara fólk á í hlut. Skýrt dæmi um þennan ágalla er það að umsókn Valorku um framhalds verkefnastyrk var synjað í þrígang áður en hún var samþykkt vorið 2015. Ávallt var þó um sömu umsókn að ræða, en tilviljun virtist ráða því hvaða matsmaður yfirfór hana. Synjanirnar höfðu nær því gengið að verkefninu dauðu, og hafa seinkað því mikið. Engu að síður er Valorka þakklát fyrir þann síðbúna stuðning og væntir þess að eiga árangursrík samskipti við Tækniþróunarsjóð vegna hans.

8.  Hátækni- og sprotavettvangur.  Skýrt dæmi um óeðlilega valdþjöppun og klíkuskap sem stýrir í raun flestum ákvörðunum og athöfnum í stuðningsumhverfi nýsköpunar er samráðsvettvangur sem Samtök iðnaðarins bjó sér til, og nefnist "hátækni- og sprotavettvangur".  SI, ásamt sínum aðildarfélögum, fékk með því beinan aðgang að a.m.k. þremur ráðuneytum, og mótar með þeim stefnu á málasviði þeirra.  Ekki er að sjá að neinar lagaheimildir séu fyrir starfsemi þessarar klíku.  Engu að síður hefur verulegt fé runnið úr ríkissjóði til starfa hennar.  Þar sem klíka þessi mótar í raun alla stefnu í nýsköpunarmálum, og að ráði þáverandi iðnaðarráðherra, sóttu Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN um fullan aðgang að henni fyrir fáum árum.  Þeirri beiðni synjaði klíkan, og útilokaði þar með almenna frumkvöðla frá umsögn og ákvarðanatöku í sínum eigin málum.  Mál er til komið að hafin sé opinber rannsókn á starfsemi þessarar klíku eins hagsmunaaðila með ráðherrum sem starfa í umboði þjóðarinnar.  Ekki verður séð að þessi starfsemi samræmist stjórnarskrá eða lögum, a.m.k. ekki varðandi jafnræði aðila.

Með þeim orðum skal látið lokið að sinni þessari umfjöllun um vankanta nýsköpunarumhverfisins í ljósi reynslunnar af verkefnum Valorku. Enn er þó af nógu að taka í þessum efnum, og eftir er að fjalla um fjölmargar uppákomur af þessu tagi. Þeim verður áfram haldið til haga í framvindudagbók Valorku, en hún verður lögð til grundvallar þegar gefið verður út rit um upphaf sjávarorkutækni á Íslandi; sem jafnframt er saga fyrsta íslenska hverfilsins.
Ábendingar og athugasemdir vegna þessara pistla má senda á netfang Valorku eða hafa samband við undirritaðan.

Valdimar Össurarson, frkvstj Valorku og formaður SFH