voStofnandi og framkvæmdastjóri Valorku ehf, Valdimar Össurarson, hefur verið kjörinn formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna.  Valdimar var einn hvatamanna og stofnenda SFH þegar það var stofnað á grunni Landssambands hugvitsmanna, og hefur um tíma setið í stjórn beggja félaganna.  SFH hafa verið byggð hratt upp frá stofnun og m.a. hefur félagatalan rúmlega tvöfaldast frá breytingunni.  Samtökin eru eini almenni og opni félagsskapur allra frumkvöðla á landinu.  Eitt meginverkefni þeirra, auk innra starfs í þágu félagsmanna, er að vera leiðandi í umbótum á þeim frumskógi sem stuðningsumhverfi frumkvöðla er nú, og veita leiðsögn og hvatningu til eflingar frumkvöðlastarfi.  Vefsíða SFH er www.nyhugmynd.com, og hefur Valdimar samið megnið af texta hennar.

Valdimar er einnig stofnandi og verkefnisstjóri ÁTAKs ( Áhugasamtaka um tæknimiðstöð fyrir almenning og kennslu), sem starfað hafa um nær 8 ára skeið.  Tilgangur þeirra er að berjast fyrir og undirbúa stofnun íslenskrar tæknimiðstöðvar (e: science center).  Tæknimiðstöðvar eru engar á Íslandi, en í öllum öðrum siðmenntuðum ríkjum heims þykja þær ómissandi tæki til eflingar áhuga á nýsköpun ; til skilnings á umhverfinu og sem stuðningur við raungreinakennslu í skólum, auk annarra hlutverka.  Verkefnið hófst sem liður í ferðaþjónustu þegar Valdimar stofnaði Ferðamálafélag Flóamanna og vann sem rekstrarstjóri félagsheimilis, en hefur síðan verið unnið á landsgrunni; óstaðsett, og öðlast mikinn stuðning skóla, kennara, verkalýðsfélaga, menntastofnana, nýsköpunarsamtaka og almennings.  Verkefnið hefur notið lítilsháttar framlaga á fjárlögum Alþingis og verið unnið í samráði við stjórnvöld.  Mikið verk er að baki við upplýsingasöfnun og kynningu og öflun samstarfs við erlendar tæknimiðstöðvar.  ÁTAK fékk Kennaraháskóla Íslands til að vinna skýrslu um þörf og notagildi tæknimiðstöðvar og niðurstöður voru afdráttarlausar; „íslensk tæknimiðstöð er tímbabær nauðsyn“.  Á sama veg eru ályktanir fjölda skóla, landssambanda, nýsköpunarfélaga og fleiri aðila.  Ekki er því lengur unnt að efast um þörfina.

Undirbúningshópur Sóknaráætlunar 20/20 var einhuga um að setja tæknimiðstöð sem eitt mikilvægra markmiða.  Verður að vænta þess að stjórnvöld fari að vakna af sínum svefni í þessum efnum, enda er tæknimiðstöð mikilvægur liður í eflingu nýsköpunar og frumkvöðlahugsunar.  Fátt er Íslandi nauðsynlegra í endurreisn efnahagslífsins.  Vefsíða ÁTAKs er www.tsi.is og hefur Valdimar séð um hana frá upphafi.

Þá situr Valdimar í stjórn Félags íslenskra kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt (FÍKNF).  Nafnið er lýsandi fyrir samtökin, en þau vinna að eflingu þessara greina í skólastarfinu.  Seta Valdimars í stjórn tengist einkum starfi hans við undirúning tæknimiðstöðvar, sem er grundvöllur umbóta á þessu sviði, en einnig hefur hann lengi starfað sem kennari í þessum greinum.


vidskiptiNú er komið á daginn að Vinnumálastofnun mun svipta alla atvinnuleysingja bótum sem vinna að nýsköpun.  Þetta fékkst staðfest í dag með bréfi Vmst til verkefnsisstjóra Valorku ehf.  Forsaga málsins er þessi í stuttu máli:  Eftir að VÖ missti vinnu sína haustið 2008 hóf hann vinnu við þróunarverkefni það sem leitt hefur til Valorka hverflanna.  Við efnahagshrunið mikla haustið 2008 hvöttu stjórnvöld atvinnuleysingja mjög til þess að leggja sitt að mörkum til nýsköpunar, enda væri það vænlegasta leiðin til enduruppbyggingar efnahags og atvinnu.  Þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, setti reglugerð nr. 12/2009, en í henni var m.a. ætlunin að ná þessu fram á tvennan hátt.  Annarsvegar er í grein 7 heimild til atvinnulausra að gera samning við Vmst um að geta unnið að nýsköpunarverkefni án þess að vera í atvinnuleit en vera samt á bótum.  Samningur þessi er til 6 mánaða en framlengjanlegur í aðra 6.  Hinsvegar er í 8. grein heimild til fyrirtækja sem vinna að nýsköpun að ráða atvinnuleysingja og fá bætur þeirra í meðgjöf.  VÖ sótti strax um samning skv 7. gr og fékk hann ásamt framlengingu; samtals 12 mánuði. Þar sem þróunartími nýsköpunar af þessu tagi er mörg ár, var sótt um heimild til handa Valorku ehf að ráða VÖ í vinnu skv 8.gr eins og hún heimilar, enda lá fyrir vottun Nýsköpunarmiðstöðvar varðandi nýsköpunargildi verkefnisins.  Vinnumálastofnun synjaði um samning á þeirri forsendu að þar sem verkefnið hefði áður fengið samning skv 7.gr þá væri það ekki lengur „nýtt“!  Þessari furðulegu túlkun Vmst var harðlega mótmælt, enda styðst hún hvorki við almenna skynsemi né nokkurn laga- eða reglugerðarbókstaf. 

En Vinnumálastofnun gerði það ekki endasleppt í löglausum yfirgangi sínum og ofstopa gegn nýsköpun og framförum.  Með tilvísun til þess að verkefnisstjóri Valorku hafði samviskusamlega tilkynnt í mánaðarlegri skráningu að hann væri að vinna að nýsköpunarverkefni og því ekki í atvinnuleit,  þá var hann nú sviptur atvinnuleysisbótum.  Þar með var komin upp sú staða að VÖ var núna án atvinnuleysisbóta beinlínis vegna þess að hann hafði hafið vinnu að nýsköpun.  Hefði hann þess í stað legið aðgerðalaus með tær uppí loft, hefði hann áfram átt rétt á bótum í fjölmarga mánuði, enda enga vinnu að hafa.  Staðan var því sú að ætlun stjórnvalda hafði þarna snúist upp í andhverfu sína;  nýsköpun var nú orðinn banabiti atvinnulausra í stað þess að byggja upp atvinnu og efnahag til framtíðar.  Og það sem e.t.v. er furðulegast; stjórnvöld virðast ekki vilja eða geta tekið á þessu apparati sem Vinnumálastaofnun er; þar virðast menn móta sín eigin lög og vera undanþegnir stjórnvöldum.  Áfram verður þó unnið í þessu máli á öllum sviðum; lögleysu og niðurrif verður að stöðva, sama hver á í hlut.
Afleiðingin af þessum löglausu ákvörðunum Vinnumálastofnun eru þó jafnvel alvarlegri fyrir verkefni Valorku en í fljótu bragði sýnist.  Þær valda því að verkefnisstjóri getur ekki lengur sýnt fram á eigið vinnuframlag sem mótframlag styrkja samkeppnissjóða.  Sem aftur hefur þær afleiðingar að styrkirnir fást ekki og verkefnið er dauðadæmt ef ekki kemur til styrkjapakki margra sjóða.  Stjórnvöldum verður einnig gerð grein fyrir þessum vanda.

Átvinnulausir eru eini hópur bótaþega í þjóðfélaginu sem ekki hefur nein formleg samtök og engan talsmann.  Þetta hlýtur að teljast furðulegt í því velferðarþjóðfélagi sem við teljum okkur lifa í, en furðulegra er þó sú staðreynd að núverandi velferðarstjórn sinnir í engu ákalli atvinnuleysingja um úrbætur í þessu efni.  VÖ hefur lengi reynt að vekja athygli stjórnvalda á hlutskipti þessa fjölmenna hóps bótaþega, t.d. með fjölmiðlaviðtölum; með bréfum til velferðarráðherra; með kærum til umboðsmanns Alþingis og með bréfum til félags- og tryggingamálanefndar Alþingis.  Sem stjórnarformaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna hvatti hann til þess að stjórnin sendi Velferðarráðherra erindi og fyrirspurn um málin.  Allt kemur fyrir ekki; engin svör fást, og enginn vilji virðist vera til úrbóta.  Mannréttindi þessa hóps eru áfram fótum troðin; framlag atvinnulausra til nýsköpunar er einskis metið.

(mynd prófun í straumkeri)
Lokið er 1. áfanga þróunar Valorka hverflanna, og hefur áfangaskýrslu verið skilað til styrktaraðila.  Þessi áfangi fólst einkum í prófun líkana í keri, auk annarra frumþátta, og allar niðurstöður lofa mjög góðu enn sem komið er.  Þróun Valorka hverflanna hófst árið 2008, en að baki lá áratuga hugmynda vinna verkfnisstjóra.  Af hverflunum hafa nú þróast fjórar skilgreindar megingerðir, auk fjölda afbrigða af þeim.  Allar voru prófaðar í straumkeri, í formi 50 cm líkans.  Niðurstöður leiddu í ljós einkenni hvers um sig, en sú sem hafði mesta seiglu við aukið álag og minnkaðan straumhraða er nýjasta gerðin; nefnd V-4.  Frekari prófanir eru þó framundan, og e.t.v. verða gerðar þær breytingar á öðrum gerðum að þær eigi eftir að skara framúr þessari. 

Prófanirnar fóru fram í straumkeri Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en það er staðsett í Grindvík.  Fullyrða má að þetta er besta og hentugasta straumker á landinu til þessara nota, en það er hannað af Lárusi Pálmasyni, kennara við FSS og Fisktækniskóla Suðurnesja.  Vinnuaðstaða  við þróunarstarfið hefur verið í frumkvöðlastrinu Eldey að Ásbrú, en hönnunar- og skrifstofuaðstaða er að heimili Valorku; Skógarbraut 1104, Ásbrú.  Vinna hefur að mestu hvílt á herðum Valdimars Össurarsonar; uppfinningamanns hverfilsins og verkefnisstjóra.  Ýmsir hafa þó komið að samstarfi og lagt hönd á plóginn með einum og öðrum hætti.  Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafði milligöngu með útvegun húsnæðis og veitti ráð í byrjun.  Keilir hafði milligöngu um aðkomu sérfræðings að verkefninu; Halldórs Pálssonar Ph.D. dósents í vélaverkfræði við H.Í, sem verið hefur ómetanleg kjölfesta í faglegri ráðgjöf og mati.  Jóhann Björgvinsson vélaverkfræðingur sá um hönnunar -og teiknivinnu í byrjun, en síðar kom Aðalsteinn Erlendsson að því verki.  Hafa þeir báðir lagt til mikla vinnu og verið áhugasamir um verkefnið.  Árnason Faktor hefur veitt góða ráðgjöf varðandi einkaleyfarétt og –umsóknir.  Fleiri hafa lagt hönd á plóg, s.s. Gísli Gíslason og Ólöf Rós Káradóttir hjá Verkís sem gerðu frummat á hverflinum áður en prófanir hófust.

Styrkir til þessa fyrsta áfanga komu einkum úr tveimur stöðum:  Annarsvegar frá Orkusjóði og hinsvegar frumherjastyrkur Tækniþróunarsjóðs Rannís.  Einnig komu tveir litlir styrkir frá Nýsköpunarmiðstöð í byrjun.  Styrkir þessir hafa reynst mikilvæg forsenda fyrir verkefninu.  Skilningur á þróunarstarfi á þessu sviði hefur verið að opnast frá því verkefnið hófst, en í byrjun var öllum umsóknum synjað með hinum undarlegustu rökum.  Lítil þekking hérlendis í þessum málaflokki hefur reynst verkefninu þungur baggi.  Hafa þarf í huga að hér er ekki einungis verið að þróa eitt tæki til ákveðinna nota, heldur er einnig verið að ryðja brautina í mjög víðtækum og mikilvægum málaflokki:  Grunnur auðlindanýtingr sem skiptir síðari kynslóðir Íslendinga ekki minna máli en nýting vatnsfalla- og jarðhitaorku skiptir nútíma Íslendinga.
Valorka ehf þakkar öllum þeim sem komið hafa að þróun Valorka hverflanna i þessum fyrsta áfanga og átt þátt í þeim góða árangri sem nú liggur fyrir.

Subcategories