Pistill framkvændastjóra Valorku, birtur í Morgunblaðinu:

Nýlega undirrituðu sex ráðherrar „samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum“. Þar er boðuð vinna að aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna skuldbindinga Íslands í Parísarsáttmálanum. Sú vinna er þörf, enda megum við ekki láta okkar hlut eftir liggja í að taka á því hnattræna sjálfskaparvíti sem eru loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Hinsvegar verður ekki séð af þessari yfirlýsingu, né ýmsu öðru sem stjórnvöld hafa látið frá sér fara að undanförnu, að þeim séu fyllilega ljósar allar skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Þær helstu eru þó nefndar í upphafi yfirlýsingarinnar: a) halda hlýnun lofthjúps jarðar innan tiltekinna marka; b) auka getu þjóða heimsins til að aðlagast neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga; c) beina fjármagni að grænum lausnum sem lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda til framtíðar.

Ekki fer á milli mála að hlutverk Íslands er í meginatriðum tvíþætt; annarsvegar aðgerðir til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda innanlands og huga að aðlögun; hinsvegar að stuðla á markvissan hátt að aðgerðum sem dregið geta úr losun og orkuskiptum á heimsvísu.
Stjórnvöld virðast einblína á fyrrnefnda þáttinn í yfirlýsingunni. Þar eru helstu tækifæri landsins talin liggja í orkuskiptum í samgöngum og fiskveiðum og aðgerðum í landgræðslu og endurheimt votlendis. Ekkert er nefnt af því sem Íslendingar geta lagt að mörkum til orkuskipta á heimsvísu. Hér fer því lítið fyrir þeim hnattræna hugsunarhætti sem þjóðir heims þurfa að temja sér og er megininntak Parísarsamkomulagsins. Sama viðhorf kemur fram í fréttaviðtölum við ráðamenn og í þingmálum. Má þar t.d. nefna þingsályktunartillögu um orkuskipti sem nú liggur fyrir Alþingi. Einungis er horft innávið en ekki á þætti sem við Íslendingar getum lagt að mörkum til að stuðla að orkuskiptum á alþjóðavísu. Hnattræna sýn skortir.

Ástæðan fyrir mínum áhuga á þessum þætti er sú að ég hef unnið að þróun tækni sem gæti orðið mikilvægt framlag Íslendinga til orkuskipta á heimsvísu; tækni sem er að fullu í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins, auk þess að geta orðið ný útflutningsafurð. Í nær áratug hefur mitt fyrirtæki; Valorka ehf, þróað hverfil sem nýtir sjávarfallaorku. Sú vinna hefur gengið mjög vel, þrátt fyrir stopulan stuðning hins opinbera. Hverflar Valorku ná að nýta minni straumhraða en aðrir sem nú eru í þróun, og er engin tækni komin lengra á því sviði en hin íslenska. Nýjasta gerð hverfilsins er nú að verða tilbúin í sjóprófanir, en enn sem oft áður ríkir alger óvissa um fjárhagslegan stuðning, á sama tíma og stjórnvöld leggja allnokkuð fé í aðrar lausnir í nafni loftslagsmála, s.s. rafbílavæðingu. Sjávarfallaorka er umfangsmikil endurnýjanleg orkuauðlind sem unnt er að nýta án nokkurra þekktra umhverfisáhrifa. Hún er því vænlegur valkostur þeirra ríkja sem þurfa að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis. Sjávarorka er umfangsmesta orkuauðlind Íslands og sá tími nálgast að við þurfum að nýta hana. Hinsvegar dugir okkur enn sú orka sem virkjuð hefur verið og rammaáætlun heimilar að nýta. Tæknilausnir í nýtingu sjávarorku er því í fyrstu aðkallandi vegna orkuskipta erlendis.

Samkvæmt Parísarsamkomulaginu ber íslenskum stjórnvöldum að miða sínar aðgerðir við hnattrænar þarfir um leið og landsmarkmið eru uppfyllt. Þeim ber að styðja markvisst við lausnir sem nýst geta til hnattrænna orkuskipta, og koma þeim á framfæri í alþjóðlegu samstarfi. Enn hafa engin merki sést um slíkan markvissan ásetning varðandi þróun sjávarorkutækni. Þvert á móti eru mörg dæmi þess að stjórnvöld, meðvitað og ómeðvitað, hafi rekið hornin í þetta verkefni. Má þar t.d. nefna „mistök“ Alþingis árið 2014, þegar felld var niður bein heimild Orkusjóðs til að styrkja þróun nýrra tæknilausna. Meira um það og aðrar hindranir á heimasíðu Valorku.
Sumum ráðamönnum er tamt, þegar gagnrýnd er uppbygging mengandi stóriðju hérlendis, að verja hana með þeim rökum að hnattrænt sé heppilegra að slík stóriðja starfi hér en annarsstaðar, þar sem hér býðst endurnýjanleg orka. Sannleikskorn er í því, útaf fyrir sig. En þá hljóta stjórnvöld einnig að hugsa hnattrænt og bjóða fram umhverfisvænar tæknilausnir í orkuframleiðslu; jafnvel þó ekki þurfi á þeim að halda hérlendis alveg strax.

Hér verður ekki að sinni staðnæmst við annað sem gagnrýnivert er í stefnu og ræðu margra ráðamanna um umhverfismál. Þar er af ýmsu að taka, og mætti t.d. ræða endurnýjanleika jarðhita, vistspor rafbíla, ætlaðan ávinning af fyllingu skurða, skógarvæðingu landsins og áherslur í landgræðslu. Þau efni bíða betri tíma.

Skorað er á stjórnvöld að móta stefnu um, og styðja við, þróun umhverfisvænna tæknilausna sem eru vænlegt framlag Íslands til hnattrænna lausna í takti við Parísarsamkomulagið. Samanber áðurnefndan lið c). Einnig vænti ég þess að stjórnvöld gæti þess betur hér eftir en hingað til að slíkir þættir verði hluti stefnumótunar og reglusetningar; ekki síður en samdráttur í innlendri losun gróðurhúsalofttegunda.

Valdimar Össurarson

Stjórnvöld ætla ekki að gera það endasleppt í sínu endalausa klúðri í lagasetningum. Óvandvirkni í vinnubrögðum virðist vera gegnumgangandi þáttur í sumum þingmálum; bæði að hálfu ráðuneyta sem undirbúa mál og að hálfu alþingismanna og þingnefnda sem afgreiða þau. 

Stutt er síðan Alþingi þurfti að setja ný lög vegna óvandaðrar fyrri lagasetningar varðandi bætur almannatrygginga. Að óbreyttu hefðu mistökin kostað ríkissjóð um 5 milljarða í útgjöldum. Þá má nefna ýmis lög sem í raun eru haldlítil, þar sem í þau skortir nauðsynlega hluta s.s. viðurlagaákvæði. Má í því efni benda t.d. á lög sem varða yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðs fólks.

Eitt alvarlegt klúður af þessu tagi kemur illa niður á verkefnum Valorku, sem og öllum öðrum nýsköpunarverkefnum í orkuþróun.  Klúðrið felst í því að Alþingi samþykkti orðalaust og samhljóða lagabreytingu sem í raun bannar Orkusjóði að styðja tækniþróun á sviði orkumála, þó slíkt væri alls ekki ætlunin með lagabreytingunni.  Skal þetta hér skýrt nokkuð:

 

Hinn 18.11.2014 samþykkti Alþingi einróma lög nr 110/2014 um breytingu á lögum um Orkustofnun nr 87/2003.  Breytingar sem með því voru gerðar á starfsemi Orkusjóðs voru annarsvegar þær að orkuráð var fellt niður og í staðinn komu ákvæði um þriggja manna ráðgjafarnefnd sem metur styrkumsóknir; og hinsvegar að felldur var út 2.töluliður 2.mgr 8.greinar laganna, sem segir að hlutverk Orkusjóðs sé (m.a.) „að veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda“. Mistök þeirra sem gengu frá lagatextanum, og alþingismanna sem samþykktu hann umræðu- og gagnrýnislaust, eru þau að einungis stóð til að fella út heimild Orkusjóðs til að veita áhættulán; aldrei stóð til að fella úr veitingar styrkja.  Þetta kemur glögglega fram í greinargerð með lagabreytingunni, þar sem segir:  „Í greininni er jafnframt lagt til að fellt verði brott ákvæði núgildandi laga um að eitt af hlutverkum Orkusjóðs sé að „veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda“. Aldrei hefur verið skilgreint hvað nákvæmlega er átt við með áhættulánum í þessu sambandi. Slík lán hafa því aldrei verið veitt enda aldrei verið sótt um slík lán. Því er lagt til að þetta ákvæði verði fellt niður“. Með orðunum „þetta ákvæði“ er því einungis átt við ákvæðið um áhættulán en ekki töluliðinn allan; enda hafa styrkir Orkusjóðs til tækniþróunar verið veigamikill hluti af starfsemi hans, og mjög mikilvægur hluti af stuðningsumhverfi nýsköpunar.  Nánar má sjá lagabreytinguna og greinargerðina á vef Alþingis; http://www.althingi.is/altext/144/s/0010.html. Í lagafrumvarpinu hefði því með réttu átt að leggja til orðalagsbreytingu á töluliðnum en ekki að fella hann allan út. Hvorki í iðnaðarráðuneyti né Alþingi virðast menn hafa áttað sig á þýðingu þessara mistaka í textagerðinni. A.m.k. verður fremur að ætla það, en að þingmenn hafi blákalt og umræðulaust viljað stefna allri nýsköpun í orkuþróun í voða til að spara ríkissjóði fáeinar krónur.

Nýsköpunarverkefni Valorku ehf hafa ávallt verið háð styrkveitingum Orkusjóðs, þó takmarkaðar væru, til að uppfylla 50% mótframlagskröfu Tækniþróunarsjóðs. Þannig er eflaust um fleiri af þeim fjölmörgu verkefnum sem Orkusjóður styrkti meðan honum var ekki meinað það. Í viðtali við framkvæmdastjóra Valorku sagði starfsmaður Orkusjóðs að þessi breyting hefði komið flatt uppá menn í Orkustofnun og Orkusjóði; enginn þar á bæ hefði átt von á þessu og þaðan af síður beðið um það. Undir það tók Ingvi Már Pálsson skrifstofustjóri orkumála í iðnaðarráðuneytinu; hann staðfesti að þarna væri um mistök að ræða; ekki hefði verið ætlunin að afnema styrkveitingar Orkusjóðs í þeirri mynd sem þær hefðu verið.

 

Framkvæmdastjóri Valorku hefur í tvígang sent póst á alla alþingismenn; vakið máls á þessu og farið fram á lagfæringar.   Aðeins einn brást við og sagði að þetta þyrfti að skoða, en enginn annar svaraði; ekkert var gert og allir hafa þagað um þetta þunnu hljóði í þingsal. Fyrir stuttu sendi Valorka öllum öðrum þingmönnum skýrslu Valorku, þar sem m.a. eru dregnar fram ýmsar misfellur á stuðningi og framkomu stjórnvalda í garð þessa verkefnis; hindranir sem stjórnvöld leggja í götu þeirra sem vilja nýta sitt hugvit og koma fram með gagnlega nýsköpun. Þar er m.a. sagt frá mikilvægi styrkja Orkusjóðs fyrir verkefnið og þeim erfiðleikum og töfum sem niðurfelling styrkja hans hefur valdið.  Lítil viðbrögð hafa enn borist frá Alþingismönnum, og enn sjást engin merki þess að það ætli að leiðrétta sín afdrifaríku mistök varðandi áðurnefnd lög um Orkusjóð.

 

Umboðsmaður Alþingis hefur nú kveðið upp álit sitt í máli því sem Valorka ehf beindi til hans vegna ólögmætra styrkveitinga Orkusjóðs árið 2015; vanhæfis Árna Sigfússonar og ólögmætrar framgöngu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra í tengslum við þá veitingu.

Umfjöllun umboðsmanns um málið má lesa í heild á heimasíðu embættisins, en niðurstaða hans er annarsvegar sú að Árni Sigfússon hafi, sem formaður ráðgjafarnefndar Orkusjóðs, brotið vanhæfisreglur stjórnsýslulaga þegar hann stýrði fundi þar sem stofnun undir stjórn og ábyrgð bróður hans; Þorsteins Inga Sigfússonar forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, var úthlutað nær fjórðungi af öllu ráðstöfunarfé Orkusjóðs til tveggja verkefna.  Ennfremur telur umboðsmaður Alþingis að gerðir Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, en með birtingu upplýsinga um málefni Valorku gekk hún á svig við jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  

Um leið og Valorka ehf fagnar réttlátum, og að mörgu leyti fyrirsjáanlegum, úrskurði umboðsmanns í þeim atriðum sem hann tók til athugunar, er lýst nokkrum vonbrigðum um takmörkun rannsóknar hans, enda beindist kvörtun Valorku að nokkuð fleiri atriðum.  Ýmislegt fleira var ámælisvert við úthlutun Orkusjóðs og framgöngu ráðherra, eins og rakið hefur verið hér í fyrri fréttum á vefsíðunni.  Það verður t.d. að teljast slæmt dæmi um bananalýðveldið Ísland að Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem samkvæmt lögum á að styðja lítil frumkvöðlafyrirtæki við að koma sínum nýsköpunarverkefnum í framkvæmd og fær til þess 1,5 milljarð króna af fjárlögum á þessu ári, skuli leyfa sér að fara gegn þessum sömu frumkvöðlaverkefnum; skjólstæðingum sínum, með því að sækja um fé í hinn fjársvelta Orkusjóð.   Sjóðurinn hefur til styrkja 19,5 milljónir á ári.  Stofnunin hefur yfir að ráða her sérfræðinga á launum hjá skattgreiðendum; sérhæfðum í styrkjaumsóknum; hún veður í milljörðum af ríkisfé og nýtir sér blygðunarlaust kunningja- og fjölskyldutengsl.  Þar á ofan býr Nýsköpunarmiðstöð yfir trúnaðarupplýsingum um skjólstæðinga sína sem hún getur nýtt sér til að standa betur að vígi gagnvart þeim í styrkumsóknum.  

Valorku var gert skylt, frá hendi Tækniþróunarsjóðs, að gera samstarfssamning við Nýsköpunarmiðstöð um faglega "handleiðslu".  Blekið á samningi Valorku og NMÍ var hinsvegar vart þornað þegar NMÍ gekk gegn hagsmunum Valorku með því að hirða fjórðung af styrkfé Orkusjóðs.  

Valorka ehf hefur unnið að verkefnum sínum í rúm sjö ár; einu tækniþróun íslendinga á sviði sjávarorkunýtingar, og náð árangri í ýmsum efnum eins og rakið er hér á síðunni.  Eftir að loksins fengust styrkir frá samkeppnissjóðum árið 2009 hefur verkefnið einkum verið styrkt af Tækniþróunarsjóði.  Þar er gerð krafa um 50% mótframlag styrkþega, en ekki er von um að meðaljón rífi slíkt upp úr eigin vasa.  Því gerir stuðningsumhverfið ráð fyrir samfjármögnun tveggja eða fleiri samkeppnissjóða.  Eini opinberi samkeppnissjóðurinn sem styður við orkuþróunarverkefni er Orkusjóður, og hefur sjóðurinn stundum á árum áður þannig stutt verkefni Valorku, þó fjársveltur sé af stjórnvöldum.  Nú var þessi mótfjármögnunarmöguleiki frá Valorku tekinn með ólögmætum hætti og frændhygli, og verkefnið þannig skilið eftir á vonarvöl.  Verkefni NMÍ sem styrk hlutu, s.s. hin svonefnda ljósvarpa, höfðu hinsvegar alla möguleika á stuðningi úr mikið öflugri sjóðum s.s. AVS; þróunarsjóði sjávarútvegsins.  Hér var því farið eins öfugt að hlutunum og hugsast gat; spilling og frændhygli réði ferðinni í stað réttsýni og vandaðra stjórnunarhátta.

Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur orðið uppvís að því annarsvegar að hylma yfir með sínum flokksgæðingi sem hún skipaði án auglýsingar og án hæfis í starf formanns ráðgjafarráðs Orkusjóðs.  Í öðru lagi hefur hún orðið ber að því að ráðast af offorsi og ójöfnuðu gegn litlu sprotafyrirtæki; nýsköpunarfyrirtæki sem hún hefur frumskyldu við að vernda gegn ofstopa stjórnkerfisins.  Það offors Ragnheiðar Elínar felst í því að hún birti á opinberum vef atvinnuvegaráðuneytisins upplýsingar um styrki sem Valorka ehf hefur hlotið frá upphafi.  Nú er það svo að styrkir af opinberu fé eiga ekki að vera leyndarmál; ekki fremur en upplýsingar um laun og aðrar greiðslur af opinberu fé.  Brot ráðherra fólst í því að upplýsingarnar voru birtar sem hefndaraðgerð vegna umkvartana Valorku undan góðvinum hennar og hennar gerðum; þær voru rifnar úr öllu samhengi og settar fram í þeim tilgangi að sverta orðspor Valorku, enda voru ekki um leið birtar upplýsingar um neina aðra styrkþega; ekki var sagt hvaða árangur náðist fyrir styrkina né annað sem skýrt gæti upphæðina.  Ráðherra fór því fram eins og hrotti gagnvart sínum skjólstæðingi; hegðun sem ekki er unnt að líða af ábyrgum ráðherra.

Styrkir þeir sem Valorka ehf hefur þegið af opinberu fé nema u.þ.b. 50 milljónum; um upphæð þeirra fór ráðherra nokkuð nærri lagi þó ekki væri hún nákvæm.  Af þeim hafa líklega um 28 milljónir gengið til launagreiðslna yfir 7 ár; tæpar 10 milljónir eru vegna húsnæðis fyrir verkefnið, og afgangurinn um 12 milljónir hefur farið í efni, verkfæri, mælitæki og annað sem verkefninu hefur verið nauðsynlegt á þessu 7 ára tímabili.  T.d. hefur verkefnið þurft að fjárfesta í nokkrum dýrum mælitækjum.  Til að setja þessa upphæð í eitthvert skiljanlegt samhengi má benda á þá staðreynd að einn starfsmaður opinbers orkufyrirtækis er með 1,7 milljónir á mánuði í laun, eða rúmar 20 milljónir á ári af opinberu skattfé.  Allt það styrkfé Valorku yfir 7 ár sem Ragnheiður Elín ráðherra býsnast svo mjög yfir, myndi því ekki hafa dugað þessum eina starfsmanni hennar til lífs í 3 ár!  Sannast á þessu að ekki er sama Jón og Sérajón í augum þessa brotlega ráðherra.

Valorka mun, í famhaldi af þessum niðurstöðum umboðsmanns Alþingis, rita stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og fara framá að ráðherra verði látin sæta viðeigandi ábyrgð fyrir brot sín og þeirra sem undir hennar ábyrgðarsvið heyra.  Hlýtur í því efni að koma til álita afsögn ráðherra.

Einnig mun Valorka leita eftir því við stjórnvöld að bættur verði skaði sá sem Valorka hefur orðið fyrir með hinum ólögmætu gerningum.  Eftir er að skoða nánari útfærslu á þessu.

Þá kemur vart til greina að hinn brotlegi formaður ráðgjafarnefndar Orkusjóðs geti setið áfram í starfi.  Hann getur vart talist trúverðugur eftir það sem undan er gengið, enda má lesa það út úr niðurstöðu umboðsmanns.

Nánar í síðari fréttum

Um áramótin 2015-2016 er við hæfi að tylla sér á sjónarhólinn; líta í sjónhendingu yfir síðasta ár og íhuga það sem framundan er.  Hjá Valorku ehf er unnið að spennandi verkefnum; aðferð til að beisla orku sem hingað til hefur ekki verið nýtt en verður án nokkurs vafa mikilvægur hluti orkunotkunar heimsins innan fárra ára.  Ekkert starf getur talist mikiilvægara en það að undirbyggja velferð komandi kynslóða; ekki bara manna heldur alls lífs á jörðinni.  

Glögglega kom í ljós á nýyfirstaðinni loftslagsráðstefnu í París hve mannkynið hefur á tiltölulega stuttum tíma komist nærri því að tortíma mestöllu lífi á jörðinni.  Niðurstaða ráðstefnunnar var langt frá því sem fullnægjandi getur talist í átt til þess að bæta skaðann, en verður þó að teljast nokkuð mikil viðurkenning á alvarleika þessarar öfugþróunar og skammsýni.  Í ljósi reynslunnar verður þó að ætla að gróðahagsmunir muni tefja fyrir framgangi góðra fyrirheita.  Enn býr heimurinn við hagkerfi sem byggir á ofnotkun jarðefnaeldsneytis; ofneyslu ríkra þjóða; kúgun fátækra þjóða og skefjalausrar fólksfjölgunar í fátækustu ríkjum heims; svo ekki sé minnst á hina geigvænlegu vopnaframleiðslu sem byggir á því að kynda undir ófriði og viðhalda honum.  Parísarsáttmálinn á eftir að ganga í gegnum hreinsunareld eigiinhagsmuna hverrrar þjóðar.  Ekki er ástæða til að fagna fyrr en efndir koma í ljós.

Orð á blaði hafa nefnilega ekki alltaf leitt til efnda; eru jafnvel stundum minna virði en pappírinn sem blekinu heldur.  Má í því efni benda á hina miklu og jákvæðu yfirlýsingu sem forsætisráðherra Íslands gaf fyrir hönd sinnar ríkisstjórnar varðandi þróunarstarf Valorku, og sjá má hér á forsíðunni.  Ekki vantar þar þakklæti, lof og fyrirheit um velvilja stjórnvalda.  Hinsvegar var blekið vart orðið þurrt í undirskrift forsætisráðherra þegar hann og öll hans ríkisstjórn hafði synjað verkefninu um lítilsháttar aðstoð til að verkefnið stöðvaðist ekki, eins og lýst hefur verið hér á síðunni.  Og niðurrif ríkisstjórnarinnar hefur ekki eingöngu beinst gegn þessu eina þróunarverkefni Íslendinga á sviði nýtingar umhverfisvænustu orkuframleiðslu heims, heldur einnig gegn allri þróun í grænni umhverfistækni.  Ríkisstjórnin hóf feril sinn með því að leggja niður grænan samkeppnissjóð og grænan fjárfestingarsjóð sem lögð höfðu verið drög að með þingsályktun allrra flokka á Alþingi.  Niðurrif sjóðanna var sagt vera í sparnaðarskyni, þar sem þeir hefðu ekki verið fjármagnaðir.  Sá fyrirsláttur stenst ekki, þar sem vel er þekkt að sjóðir starfi án mikils fjár meðan hart er í ári, en verði megnugri þegar góðæri ríkir, líkt og þessi ríkisstjórn segir nú vera.  Framlög ríkissjóðs til græna hagkerfisins tók forsætisráðherra traustataki og flutti í önnur óskyld verkefni; og lét sem vind um eyru þjóta alvarlegar athugasemdir Ríkisendurskoðunar.  Afrekaskrá iðnaðarráðherraveður einnig að teljast all dapurleg frá sjónarhóli þeirra sem fást við þróun grænnar orkutækni.  Ráðherra hefur haldið Orkusjóði í slíku fjársvelti að honum er gert ómögulegt að sinna hlutverki sínu.  Sjóðurinn hefur ekki getað veitt mótframlög við styrki Tækniþróunarsjóðs, sem er í raun yfirlýsing stjórnvalda um að þau vilji ekki að hérlendis sé stunduð önnur þróun í orkutækni en sú sem orkurisarnir sjálfir standa fyrir.  Ekki voru það næg spöll á sjóðnum að mati ráðherra, heldur skipaði hún afsettan pólitíkus sem stjórnarformann.  Til að koma þeirri bitlingaveitingu fyrir stóðu stjórnarflokkarnir fyrir lagabreytingu þar sem orkuráð var lagt niður og við hlutverkum þess tók þriggja manna "ráðgjafarnefnd".  Fyrsta verk þessa nýja formanns var að samþykkja styrkveitingar til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem lýtur alræðisstjórn bróður hans; er styrkt af almannafé og býr yfir trúnaðarupplýsingum um sína samkeppnisaðila.  Lítilsvirðingin á lagabókstafnum lýsir sér þó best í því að þessumpólitíska skjólstæðingi iðnaðarráðherra kom ekki til hugar að víkja af fundi við gerninginn.  Enn var botninum þó ekki náð í hinni pólitísku spillingu:  Þegar kvartað var til iðnaðarráðherra undan lögbrotum þessarastofnana sem undir hana heyra þá brást hún ekki við á þann hátt sem eðlilegt hefði verið í lýðræðisríki; að víkja hinum brotlegu frá störfum og láta vinna málin að nýju með trúverðugum hætti.  Nei; iðnaðarráðherra var í hefndarhug gagnvart framkvæmdastjóra Valorku og misnotaði opinberan vef ráðuneytisins til birtingar á röngum upplýsingum, þar sem fjárveitingar til Valorku voru ýktar og rifnar úr öllu samhengi.  Ráðherra kaus að verja sinn pólitíska skjólstæðing fremur en eðlilega stjórnarhætti og lagaframkvæmd.  Þannig vinnubrögð eru jú helstu einkenni spilltra stjórnvalda.

Valorka hefur því þurft, auk þróunarstarfs síns, að standa í tímafrekum kærum á hendur stjórnvöldum til að tryggja eðlilegan starfsfrið í fjandsamlegu stjórnkerfi, þar sem klíkuskapur og spilling virðist ráða um of.  Þar á ofan bætist mikil vinna vegna hins meingallaða stuðningsumhverfis, sem kallar á gegndarlaust pappírsflóð og tilgangslausa skýrslugerð að hálfu þeirra fáu sem auðnast að hljóta styrki til sinna verkefna.  Í heild má ætla að meira en helmingur af vinnutíma frumkvöðulsins fari því í ýmiskonar skýrslugerð, bréfaskriftir og kærur til að halda sínum réttmæta sess í stuðningsumhverfinu og tryggja nauðsynlegan stuðning.  Þannig frumkvöðlaumhverfi er ekki líklegt til að skila þeirri verðmætasköpun til þjóðfélagsins sem efni standa til.

En þá að verkefnunum sjálfum.  Eins og lýst hefur verið hér í fyrri fréttum þá stöðvaðist þróunarstarfið alveg í þrjú misseri, þar sem heildarhugsun skortir algerlega í stuðningsumhverfið.  Framhaldsstyrkur Tækniþróunarsjóðs fékkst svo aftur á miðju ári 2015; eftir að verkefnistjóri hafði þurft að draga fram lífið á atvinnuleysisbótum og verkefnið að safna skuldum, m.a. til að halda leiguhúsnæði sínu.  Stuðningsumhverfið rétti þó ekki höndina nema hálfa leið:  Styrkur TÞS er háður því að 50% mótframlag fáist úr öðrum sjóðum.  Orkusjóður brást í því efni, eins og hér var lýst, og því má vel vera að styrkur TÞS falli niður af þeim sökum; með þeim afleiðingum að verkefnið eyðileggist.  Verkefnin fóru af stað á haustmánuðum 2015.  Strax var ljóst að þau myndu einskorðast við gerð lítilla líkana og prófana þeirra í keri í byrjun, bæði vegna fjárskorts og tímaskorts.  Styrkur TÞS stendur undir lágmarkslaunum eins manns, leigu aðstöðu og lítilsháttar efniskaupum, en ekki miklu umfram það.  

Megináherslan hefur verið á þróun fjölása hverfils, sem byggir á fyrri einása hverflum.  Með því að byggja hverflana á tvo eða fleiri ása má ná stærra þversniði í sjónum án þess að efniskostnaður aukist hlutfallslega, og þar með meira afli.  Þetta er mjög mikilvægur þáttur í því að ná hagkvæmni í rekstri hverfilsins; hann er ætlaður til virkjunar hægstraums með mjög litla orkuþéttni á flatareiningu en gríðarlegt hafflæmi.  Kostnaður við efni og rekstur skiptir því sköpum um hagkvæmnina.  Ekki er enn unnt að lýsa þeim hverfilgerðum sem prófaðar hafa verið árið 2015, en þar er um nokkurn breytileika í aðferðum að ræða.  Sumar aðferðir hafa ekki skilað viðunandi árangri, en aðrar eru þróaðar áfram.  Einkum er síðasta gerð hverfilsins áhugaverð, enda hefur hún staðið undir væntingum enn sem komið er.  Vonast er til að hægt verði að sækja um einkaleyfi á vordögum, og þá verður unnt að lýsa tækninni opinberlega.  

Framtíð verkefnisins á næsta ári veltur að sjálfsögðu annarsvegar á árangri prófana og hinsvegar á því hvort nægt fé fæst til þess sem gera þarf.  Vonast er til að í kjölfar frekari frekari kerprófana verði unnt að hefja teiknihönnunarvinnu í febrúar eða mars, og í framhaldi af henni að sækja um einkaleyfi á nýrri tegund.  Gert er ráð fyrir að þá verði smíðað stórt líkan og það prófað í sjó.  Enn er horft til hinnar góðu aðstöðu í Hornafirði varðandi prófanir; þar er enn meginhluti prófunarflekans sem Valorka hannaði og smíðaði.  Þó geta mál hugsanlega tekið aðra stefnu; hugsanlegt er að strax verði prófað í annnesjastraumum; sett niður stórt sýnilíkan við raunverulegar aðstæður.  Gera verður ráð fyrir að stuðningsumhverfið fari að starfa á eðlilegri hátt en nú er, í kjölfar úrskurða frá umboðsmanni Alþingis og Samkeppniseftirliti, sem nú skoða kærur Valorku.  

Ekki er unnt að skilja við þennan áramótapistil án þess að þakka þeim sem helst hafa reynst verkefninu ómetanlegur bakhjarl og hjálparhellur.  Er þar fyrst að nefna konu mína Guðbjörgu Sigurðardóttur, sem óhrædd hefur lagt með mér í þessa óvissuferð og hjálpað til við að "ausa bátinn í ólgusjó og ágjöfum".  Önnur er sú kona sem aldrei hefur misst trú á verkefnið og stutt það með margvíslegu móti, en það er Elinóra Inga Sigurðardóttir.  Má segja að hún eigi stóran þátt í að verkefnið er enn við líði.  Þá verður seint fullþakkað framlag Veiðarfæraþjónustunnar í Grindavík, sem hefur veitt gjaldfrjáls afnot af prófunarkerinu og staðið undir raforkukostnaði við það, sem er beinn fjárstyrkur til verkefnisins. Valgeir Páll Björnsson verkfræðingur aðstoðaði á ýmsan hátt á nýliðnu ári, en hann vann að útskriftarverkefni sem tengdist hverflinum.  Mörgum fleirum ber að þakka, sem ekki verða upp taldir hér; það bíður síðari pistla.

Valorka ehf og undirritaður óska öllum velunnurum sínum og áhugafólki um hreinni og betri heim, árs og friðar með þökk fyrir liðið ár.

Valdimar Össurarson
frkvstj Valorku

Spilling er það hugtak sem notað er um misnotkun valds í eigin þágu og í þágu vildarvina.  Spilling er alltaf á kostnað almennings og fylgifiskur hennar er yfirhylming með vildarvinum.  Spilling er til skaða fyrir samfélagið; sljóvgar réttarvitund og hindrar alla eðlilega framþróun.   Spilling dafnar jafnan best þegar fáir menn hafa haft of mikið vald í of langan tíma, án nægilegs aðhalds laga; almennings; eftirlitsstofnana, þjóðþings og fjölmiðla.

 Undirritaður hefur hér á vefnum lýst því hvernig ýmislegt í nýsköpunarumhverfinu hefur farið úrskeiðis; sumpart vegna klaufaskapar og þröngsýni, en annað ber óhugnanlegan keim af því sem almennt gæti flokkast undir spillingu.  Á það þarf að reyna eftir eðlilegum leiðum, og hafa þegar verið lögð drög að því.

Undirritaður ákvað að láta reyna á réttarfarið, þegar nýlega kom í ljós að reglur höfðu verið brotnar við úthutun styrkja úr Orkusjóði.  Þar hafði á engan hátt verið gætt jafnræðis eða sanngirni, auk þess sem vanhæfisreglur stjórnsýslulaga höfðu ekki verið virtar.  Iðnaðarráðherra var send tilkynning um þetta hinn 24. sptember sl, ásamt rökstuddri beiðni um endurúthlutun styrkja með lögmætum hætti.  Um leið var kvartað yfir því að ráðherra hefði enn ekki svarað þriggja mánaða gömlu erindi Valorku frá 23. júní sl, þar sem ráðherra var beðinn um endurskoðun á úthlutunum Orkusjóðs. Var ráðherra gefinn frestur til 1. oktober sl. til að bregðast við.  Því hefur ekki enn verið sinnt þegar þetta er ritað, 8. oktober.

Ráðuneytið brást við með allfurðulegum og ámælisverðum hætti.  Í stað þess sem eðlilegt hefði verið, að svara sendanda um hæl; þakka ábendinguna; biðjast afsökunar á að hafa ekki svarað þriggja mánaða gömlu erindi og heita rannsóknum og svörum innan tilskilins frests, lagði ráðherra í vinnu við að semja fréttatilkynningu sem hún sendi fjölmiðlum og misnotaði um leið vef ráðuneytisins til birtingar á þessum samsetningi. 

Innihald þessarar fréttatilkynningar er þó jafnvel enn ámælisverðara, og langt frá því sem kalla má eðlileg viðbrögð ráðuneytis þegar bent er á misfellu í stjórnsýslunni.  Verður hér vikið lítillega að þessum óskapnaði, sem bæði ber vott um vanþekkingu á lögum; vafasamt siðferði og algeran skort á stjórnsýsluþekkingu:

1.  Ráðherra vísar til fréttar í Fréttablaðinu, og á þar e.t.v.  við viðtal fréttamanns við undirritaðan í blaðinu hinn 1. okt sl vegna misfellu við úthutun Orkusjóðs og umfjöllun þess blaðs og annarra fjölmiðla í framhaldi af því.  Augljóst er því að ráðherra kýs að bregðast við fjölmiðlafréttum sem henni þykja óþægilegar, fremur en að svara þeim sem erindið sendi, en slíkt lýsir fádæma vanþekkingu hennar og allra hennar ráðgjafa á eðlilegri stjórnsýslu.

2.  Ráðherra segir í yfirlýsingunni að ríkisstjórnin stefni að eflingu samkeppnissjóða.  Sé það svo þá hefur þessi ráðherra brotið gegn stefnu sinnar ríkisstjórnar.  Hún hefur haldið Orkusjóði í fjársvelti alla sína ráðherratíð, og gera tillögur hennar til fjárlaganefndar ráð fyrir raunlækkun á árinu 2016.  Sjóðurinn fékk 31,1 milljón árið 2015, en honum er ætlað 32 milljónir 2016, sem enganvegin heldur í við verðlagshækkanir.  Fjársvelti Orkusjóðs hefur reyndar verið viðvarandi um langan aldur.  Það er  stjórnvöldum til háborinnar skammar og þjóðinni til skaða að á sama tíma og tugmilljáraða hagnaður er árlega af orkusölu í landinu skuli á þann hátt brugðið fæti fyrir eðlilega tækniþróun í orkugeiranum.  Undirritaður hefur fyrir sitt leyti ritað öllum nefndarmönnum fjárlaganefndar bréf og bent á óviðunandi fjársvelti Orkusjóðs, sem m.a. bitnar á verkefnum af því tagi sem Valorka vinnur.

3.  Ráðherra segir að engin takmörk séu á því hverjir megi sækja í sjóðinn, önnur en þau að sjóðurinn megi það ekki sjálfur!  Þessi staðhæfing lýsir fádæma vanþekkingu á lögum og siðferði.   Samkvæmt hennar fullyrðingu væri t.d. eðlilegt að hún sjálf sækti um styrk úr þessum sjóði sem undir hennar valdsvið heyrir, og að hennar stjórnmálaflokkur geti sótt þangað um styrki í kosningasjóði.  Auðvitað er þetta ekki svo:  Styrkveitingar úr Orkusjóði eru háðar fjölmörgum takmörkunum, sem sumar eru markaðar í hans starfsreglum en auk þess af öðrum lögum og reglum.  Þessu til viðbótar heyrir öll stjórnsýsla Orkusjóðs að sjálfsögðu undir stjórsýslulög.  Þau lög virðast hinsvegar vera lítt þekkt af þeim sem málum Orkusjóðs ráða; ráðgjafarnefnd Orkusjóðs; Orkustofnun og atvinnuvegaráðuneyti.  Það sannast glögglega, bæði  af síðustu úthlutun sjóðsins og viðbrögðum ráðherra við erindum.

4.  Alvarlegt er að í þessari „athugasemd“ ráðherra við því ámæli sem hún sætir nú vegna styrkveitinga Orkusjóðs víkur hún ekki einu einasta orði að því sem máli skiptir; hún nefnir hvorki vanhæfi formanns ráðgjafaráðs við úthlutun styrkja til Nýsköpunarmiðstöðvar, né það að NMÍ brýtur bæði gegn skjólstæðingi sínum og samkeppnislögum með sinni styrkumsókn.  Þess í stað leggst ráðherra svo lágt að reyna að gera þann aðila tortryggilegan sem kemur á framfæri kvörtun til hennar um brot á stjórnsýslulögum!  Með því leggur hún trúverðugleika ráðuneytisins í sölurnar til að halda hlífiskildi yfir þeim flokkbróður sínum og sveitunga sem hún skipaði nýlega í ráðgjafaráð Orkusjóðs.  Framkoma ráherrans í þessu efni er vítaverð, og ekki er meiri reisn yfir hennar ráðgjöfum.  Er ekki skyldleiki með þessum aðferðum og því sem hér var nefnt í upphafi um spillingu?

5.  Lágkúruleg og óskiljanleg er sú aðferð ráðherrans að reyna að gera lítið frumkvöðlafyrirtæki tortryggilegt með því að upplýsa á ýkjukenndan hátt um þá styrki sem það hefur fengið til sinna verkefna.  Þar er þó ekki neitt að fela; allir opinberir styrkir eiga að vera upplýstir; jafnt til nýsköpunar sem í kosningasjóði stjórnmálamanna.  Hinsvegar verður að gera athugasemdir við það samhengi sem ráðherra setur styrkina hér í:  Ráðherra er gagnrýnd opinberlega fyrir óeðlilega stjórnsýslu sjóða í umsjá hennar og hennar manna, en í stað þess að taka á þeim brotum með eðlilegum hætti, bregst hún við með því að gera tortryggilegan þann sem lætur vita af hinum óeðlilegu stjórnsýsluháttum.  Dæmigerð viðbrögð spillingar og yfirhilmingar.  En fyrst ráðherra kýs að fara þessa hundagötuleið er nauðsynlegt að leiðrétta þau ósannindi sem fram koma í yfirlýsingunni,og leiða raunveruleikann  í ljós.  Allt hið rétta varðandi styrkveitingar Valorku má reyndar rekja í fyrri fréttum hér á vefsíðunni; enda hefur verið kappkostað að leyfa þjóðinni að fylgjast sem best með þessu frumkvöðlastarfi í hennar þágu.  Hinsvegar er velkomið að gera hér enn einusinni grein fyrir opinberum styrkjum til verkefnisins:

Sprotafyrirtækið Valorka var stofnað í ársbyrjun 2009 til að þróa hverfil til nýtingar lághraðastraums.  Verkleg vinna hófst reyndar í ársbyrjun 2008, og það ár fékkst smástyrkur úr frumkvöðlasjóði NMÍ; 300.000.  Annar slíkur kom eftir stofnun Valorku, og eru það einu styrkirnir frá NMÍ; einatt og án ástæðna hefur Valorku verið synjað um styrki iðnaðarráðherra sjálfs; „Átak til atvinnusköpunar“.  Tækniþróunarsjóður veitti Valorku frumkvöðlastyrk 2010, og síðan þriggja ára verkefnisstyrk 2011-2013; samtals kr 25.500.000. 

Eins og allir vita sem þekkja styrki samkeppnissjóða, og ráðherra ætti að þekkja manna best, er styrkhlutfall hvers sjóðs sjaldnast meira en 50%; þannig að gert er ráð fyrir mótframlagi úr öðrum áttum.  Þegar um skammtímverkefni er að ræða er þetta stundum leyst með vinnuframlagi frumkvöðulsins sjálfs; enda vinnur hann þá gjarnan verkefnið með annarri vinnu.  Þegar um langtímaverkefni er að ræða, líkt og t.d. hverflaþróun, er slíkt ekki unnt:  Frumkvöðullinn verður þá að þiggja laun sín frá verkefninu og styrkir þurfa að duga fyrir þeim auk allra annarra útgjalda.  Í þeim tilvikum verða tveir öflugir samkeppnissjóðir að styrkja verkefnið samtímis.  Þetta vita allir sem kunnugir eru styrkjaumhverfinu, nema þeir sem nú úthluta úr Orkusjóði; og úthlutunarreglur t.d. Tækniþróunarsjóðs gera beinlínis ráð fyrir þannig samfjármögnun.  Verkefni Valorku fellur undir verksvið tveggja opinberra samkeppnissjóða; Tækniþróunarsjóðs og Orkusjóðs.  Þessir sjóðir þurfa því báðir að styrkja verkefnið samtímis ef von á að vera um framgang þess.  Þrátt fyrir að Orkusjóður hafi um langt árabil verið fjársveltur af stjórnvöldum hefur hann sýnt verkefnum Valorku skilning og velvilja, og þaðan hafa þau fengið fjóra styrki á árunum 2009-2014; samtals kr 11.700.000.  Þótt þetta séu lágir styrkir hafa þeir stundum verið hæstu styrkirnir í úthlutun sjóðsins og, ásamt öðru, hafa þeir riðið baggamuninn í því að brúa mótframlagskröfu Tækniþróunarsjóðs. 

Þegar verkefnisstyrkur TÞS kláraðist, haustið 2013, varð rof á styrkveitingum hans í eitt og hálft ár, eins og lýst hefur verið hér á síðunni.  Ekki var unnt að halda verkefninu áfram  í verklegum þáttum, en þá reið baggamuninn að síðasti styrkur Orkusjóðs fékkst á því tímabili; annars hefði verkefnið eyðilagst.  Þann skilning má þakka fráfarandi orkuráði.  Enga aðstoð var að hafa hjá iðnaðarráðherra þrátt fyrir stuðningsyfirlýsíngu ríkisstjórnarinnar við verkefnið. 

Vorið 2014 hrökk Tækniþróunarsjóður aftur í gang, og gaf vilyrði um þriggja ára framhalds-verkefnisstyrk.  Hinsvegar fór þá svo að Orkusjóður brást.  Virðist í þeim efnum hafa skipt meginmáli að skipt hafði verið um úthlutunarnefnd og að í formannssæti þar var kominn maður sem hafði engan skilning á málefnum sjóðsins eða þess sviðs sem hann átti að styrkja, auk þess sem hann skorti þekkingu á stjórnsýslulögum.  Fór svo að stjórnin úthlutaði stofnun sem bróðir hans stýrir fjórðungi af hinu nauma ráðstöfunarfé sjóðsins, eins og rakið hefur verið. 

Eins og hér hefur verið rakið hefur Valorka þegið samtals 37.800.000 kr styrki til hverflaþróunarverkefnis síns.  Því til viðbótar kemur 10.000.000 kr nýlega úthlutaður styrkur Tækniþróunarsjóðs, en vafamál er hvort hann verður með talinn fyrr en búið er að vinna fyrir hann og greiða hann út. 

Aðrir verða svo að dæma hvort þetta er hæfilegur styrkur; of lítill eða of mikill.  Rétt er í því efni að hafa það í huga að hin alþjóðlega viðmiðun er að þróun nýs hverfils kosti sem svarar 20 milljörðum króna og taki um 20 ár.  Tölur eru nokkuð mismunandi, en þetta er í sæmilegu samræmi við þá sem lengst eru komnir.  Valorka ætlast að sjálfsögðu ekki til þess að íslenskir samkeppnissjóðir standi undir verkefninu að öllu því marki, heldur þurfa þeir að koma því á þann stað að raunhæfi sé sannað af sérfræðingum og einkaleyfi séu í höfn á lokanýjungum.  Sá áfangi ætti að nást innan þriggja ára, ef skilningsvana stjórnvöld eyðileggja ekki verkefnið áður.  Eftir það verður verkefnið borið uppi af fjárfestum, sem þegar hafa sýnt áhuga á aðkomu.  Rétt er að hafa í huga að nú þegar hefur Valorka þróað fyrsta einkaleyfishæfa hverfilinn; hafið fyrstu sjóprófanir íslenskrar sjávarvirkjunar og er núna í fremstu röð á heimsvísu í þróun hverfla sem nýtt geta straumhraða undir 2 m/sek.  Valorka hefur því nú þegar skapað Íslendingum einstök tækifæri til forystu og sóknar á algerlega nýju sviði hreinustu orkuframleiðslu sem hugsast getur.  Er það slæmur árangur fyrir tæpar 40 millj.kr?  

Vinnulaun eru líklega um helmingur þessara útgjalda, eða um 20 milljónir yfir þá 93 mánuði sem verkefnið hefur staðið.  Til jafnaðar gera það um 215 þúsund á mánuði með launatengdum gjöldum.  Til samanburðar hefur ráðherra sjálf líklega á aðra milljón á mánuði.  Forstjóri Landsvirkjunar hefur yfir 1,6 milljón á mánuði, auk allra fríðinda.  Laun hans einsömul fyrir þennan tíma hefðu því numið um 150 milljónum króna, eða miklu meira en þreföldum öllum þeim styrkjum til Valorku sem ráðherra sér núna ofsjónum yfir.  Valorka gerir þá kröfur til ráðuneytisins að tölurnar séu sýndar í réttu ljósi.

Eitt þarf einnig að hafa í huga.  Þegar Tæknþróunarsjóður stöðvaði tímabundið sínar styrkveitingar í 18 mánuði þurfti undirritaður að draga fram lífið á atvinnuleysisbótum örorkubótum konu sinnar; þann tíma var ekki um launagreiðslur að ræða frá verkefninu.  Um þetta er ráðherra mjög vel kunnugt af þeim erindum sem hún hefur fengið.  Það eru ekki allir svo heppnir að vera leiðitamir flokksmenn ráðherra og hljóta sjóðsstjórn að bitlingi.

Valorka hefur einnig verið frumkvöðull í rannsóknum á sjávarorku við Ísland, og unnið verulega undirbúningsvinnu í því efni.  Sjávarorka við Íslandsstrendur er líklega langstærsta orkuauðlind landsins, og án nokkurs vafa sú eina sem unnt er að nýta án umhverfisáhrifa.  Þetta er sú auðlind sem framtíðarkynslóðir munu þurfa að treysta á.  Eftir að undirritaður vakti máls á málefninu við þinmenn kom fram þingsályktunartillaga um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við Ísland, og er verkefna Valorku að góðu getið í greinargerð með henni.  Þingsályktunin var samþykkt af öllum flokkum og algerlega samhljóða vorið 2014.  Núverandi iðnaðarráðherra hefur hinsvegar ekki unnið í anda tillögunnar, og í ráðuneytinu viriðst enginn vilji til að fara að þeim þingvilja sem þar kemur fram; meira um það í síðari fréttum hér á vefnum.  Alþingi veitti Valorku  2.900.000 kr framlag á fjárlögum 2010 til undirbúnings sjávarorkurannsóknum.  Auk þess fékkst styrkur til hins sama af safnliðum atvinnuvegaráðuneytisins árið 2012, kr. 1.000.000.  Þessir styrkir hafa farið í ýmsa vinnu við undirbúning sjávarorkurannsókna og kaup á tækjum.  Kostnaðarsamast er þar tæki til straummælinga; svokölluð ADCP straumsjá.  Þetta er mjög vandaður mælir sem hafður er um borð í báti og mælir straumhraða á nokkrum dýptum samtímis; að teknu tilliti til reks og siglingarhraða báts.  Enn hefur ekki fengist fé til kaupa eða leigu á bát, svo unnt sé að hefja þessar rannsóknir.  Fleiri tæki eru til reiðu, s.s. slöngubátur og nýr skrúfustraummælir.  Þeim 3,9 milljónum kr sem varið hefur verið til undirbúnings fyrstu sjávarorkurannsókna við Ísland hefur því síður en svo verið kastað á glæ.

Iðnaðarráðherra lætur á sér skiljast í yfirlýsingu sinni að styrkir til Valorku séu allir frá hennar ráðuneyti komnir.  Því fer fjarri lagi.  Valorka sækir ekki um sína styrki til ráðherra, heldur til viðkomandi sjóða.  Þeir meta umsóknirnar sjálfstætt, án nokkurrar aðkomu ráðherra.  Það hefur verið samdóma álit þeirra sem yfir umsóknir hafa farið; jafnt hjá Tækniþróunarsjóði sem hinu sáluga orkuráði; að vandaðri umsóknir hafi ekki komið á þeirra borð en umsóknir Valorku.  Þetta hefur undirrituðum þótt vænt um að heyra, enda lagt sig mjög fram við að gefa sem gleggsta og heiðarlegasta mynd af sínu verkefni hverju sinni.  Rödd ráðherra er því harla hjáróma þegar hún reynir að kasta skít í sama verkefni.  Sjóðirnir sem Valorka hefur þegið styrki úr heyra vissulega undir ráðherra hvað stjórnskipun varðar, en alls ekki styrkveitingar þeirra. 

Iðnaðarráðherra gerir sig seka um árásargirni, kæruleysi og ónákvæmni með framsetningu sinni á tölum um styrki til Valorku.  Ekki verður séð að ráðherra sé betur að sér í stjórnsýslulögum en skjólstæðingur hennar í Orkusjóði; hún virðist hvorki þekkja meðalhófsreglu né jafnræðisreglu stjórnsýslulaga fremur en reglu um málshraða.  Engin nauðsyn rak hana til að nefna styrki Valorku fremur en annarra í tengslum við styrkveitingar Orkusjóðs, og verður hún krafin svara um það.  En fyrst hún var að nefna þær tölur verður að gera ríkar kröfur til hennar að halla ekki réttu máli, eins og hún þó gerir.  Valorka hefur ekki þegið 51,7 milljónir króna í styrki frá árinu 2008, heldur má með góðum vilja segja að hverflaþróunarverkefnið hafi fengið í heildina 37,8 millj.króna þó ekki hafi það allt komið til Valorku, og að undirbúningur sjávarorkurannsókna hafi fengið 3,9 millj.kr.  Í heildina hafa þau verkefni sem Valorka stendur fyrir því fengið 41,7 millj.króna úr opinberum sjóðum.  Ekki er unnt að telja hér með styrk Tækniþróunarsjóðs, 10 millj.kr, þar sem svo gæti farið að Valorka þyrfti að skila honum og hætta við verkefnið; nú þegar lénsetar iðnaðarráðherra í Orkusjóði hafa synjað um styrk til greiðslu mótframlags. 

Svovirðist af þessari yfirlýsingu að ráðherra hyggist verja hinar vafasömu gerðir síns flokksbróður og skjólstæðings á pólitíska sviðinu, og velji fremur að ata óhróðri saklausa skjólstæðinga sína sem reyna að koma áfram frumkvöðlaverkefnum til gagns fyrir sína þjóð.  Er þetta það nýja þjóðfélag sem kallað var eftir á þjóðfundum og þingnefnd eftir Hrunið?  Undirritaðan minnir að þá hafi fremur verið kallað eftir heiðarleika og gegnsæjum vinnubrögðum í stjórnkerfinu.

Gera verður kröfu um vandaðri vinnubrögð af hendi stjórnvalda en þau sem lýsa sér í þessari „athugasemd“ iðnaðarráðherra.

Valdimar Össurarson

Subcategories