Pistill framkvændastjóra Valorku, birtur í Morgunblaðinu:
Nýlega undirrituðu sex ráðherrar „samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum“. Þar er boðuð vinna að aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna skuldbindinga Íslands í Parísarsáttmálanum. Sú vinna er þörf, enda megum við ekki láta okkar hlut eftir liggja í að taka á því hnattræna sjálfskaparvíti sem eru loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Hinsvegar verður ekki séð af þessari yfirlýsingu, né ýmsu öðru sem stjórnvöld hafa látið frá sér fara að undanförnu, að þeim séu fyllilega ljósar allar skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Þær helstu eru þó nefndar í upphafi yfirlýsingarinnar: a) halda hlýnun lofthjúps jarðar innan tiltekinna marka; b) auka getu þjóða heimsins til að aðlagast neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga; c) beina fjármagni að grænum lausnum sem lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda til framtíðar.
Ekki fer á milli mála að hlutverk Íslands er í meginatriðum tvíþætt; annarsvegar aðgerðir til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda innanlands og huga að aðlögun; hinsvegar að stuðla á markvissan hátt að aðgerðum sem dregið geta úr losun og orkuskiptum á heimsvísu.
Stjórnvöld virðast einblína á fyrrnefnda þáttinn í yfirlýsingunni. Þar eru helstu tækifæri landsins talin liggja í orkuskiptum í samgöngum og fiskveiðum og aðgerðum í landgræðslu og endurheimt votlendis. Ekkert er nefnt af því sem Íslendingar geta lagt að mörkum til orkuskipta á heimsvísu. Hér fer því lítið fyrir þeim hnattræna hugsunarhætti sem þjóðir heims þurfa að temja sér og er megininntak Parísarsamkomulagsins. Sama viðhorf kemur fram í fréttaviðtölum við ráðamenn og í þingmálum. Má þar t.d. nefna þingsályktunartillögu um orkuskipti sem nú liggur fyrir Alþingi. Einungis er horft innávið en ekki á þætti sem við Íslendingar getum lagt að mörkum til að stuðla að orkuskiptum á alþjóðavísu. Hnattræna sýn skortir.
Ástæðan fyrir mínum áhuga á þessum þætti er sú að ég hef unnið að þróun tækni sem gæti orðið mikilvægt framlag Íslendinga til orkuskipta á heimsvísu; tækni sem er að fullu í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins, auk þess að geta orðið ný útflutningsafurð. Í nær áratug hefur mitt fyrirtæki; Valorka ehf, þróað hverfil sem nýtir sjávarfallaorku. Sú vinna hefur gengið mjög vel, þrátt fyrir stopulan stuðning hins opinbera. Hverflar Valorku ná að nýta minni straumhraða en aðrir sem nú eru í þróun, og er engin tækni komin lengra á því sviði en hin íslenska. Nýjasta gerð hverfilsins er nú að verða tilbúin í sjóprófanir, en enn sem oft áður ríkir alger óvissa um fjárhagslegan stuðning, á sama tíma og stjórnvöld leggja allnokkuð fé í aðrar lausnir í nafni loftslagsmála, s.s. rafbílavæðingu. Sjávarfallaorka er umfangsmikil endurnýjanleg orkuauðlind sem unnt er að nýta án nokkurra þekktra umhverfisáhrifa. Hún er því vænlegur valkostur þeirra ríkja sem þurfa að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis. Sjávarorka er umfangsmesta orkuauðlind Íslands og sá tími nálgast að við þurfum að nýta hana. Hinsvegar dugir okkur enn sú orka sem virkjuð hefur verið og rammaáætlun heimilar að nýta. Tæknilausnir í nýtingu sjávarorku er því í fyrstu aðkallandi vegna orkuskipta erlendis.
Samkvæmt Parísarsamkomulaginu ber íslenskum stjórnvöldum að miða sínar aðgerðir við hnattrænar þarfir um leið og landsmarkmið eru uppfyllt. Þeim ber að styðja markvisst við lausnir sem nýst geta til hnattrænna orkuskipta, og koma þeim á framfæri í alþjóðlegu samstarfi. Enn hafa engin merki sést um slíkan markvissan ásetning varðandi þróun sjávarorkutækni. Þvert á móti eru mörg dæmi þess að stjórnvöld, meðvitað og ómeðvitað, hafi rekið hornin í þetta verkefni. Má þar t.d. nefna „mistök“ Alþingis árið 2014, þegar felld var niður bein heimild Orkusjóðs til að styrkja þróun nýrra tæknilausna. Meira um það og aðrar hindranir á heimasíðu Valorku.
Sumum ráðamönnum er tamt, þegar gagnrýnd er uppbygging mengandi stóriðju hérlendis, að verja hana með þeim rökum að hnattrænt sé heppilegra að slík stóriðja starfi hér en annarsstaðar, þar sem hér býðst endurnýjanleg orka. Sannleikskorn er í því, útaf fyrir sig. En þá hljóta stjórnvöld einnig að hugsa hnattrænt og bjóða fram umhverfisvænar tæknilausnir í orkuframleiðslu; jafnvel þó ekki þurfi á þeim að halda hérlendis alveg strax.
Hér verður ekki að sinni staðnæmst við annað sem gagnrýnivert er í stefnu og ræðu margra ráðamanna um umhverfismál. Þar er af ýmsu að taka, og mætti t.d. ræða endurnýjanleika jarðhita, vistspor rafbíla, ætlaðan ávinning af fyllingu skurða, skógarvæðingu landsins og áherslur í landgræðslu. Þau efni bíða betri tíma.
Skorað er á stjórnvöld að móta stefnu um, og styðja við, þróun umhverfisvænna tæknilausna sem eru vænlegt framlag Íslands til hnattrænna lausna í takti við Parísarsamkomulagið. Samanber áðurnefndan lið c). Einnig vænti ég þess að stjórnvöld gæti þess betur hér eftir en hingað til að slíkir þættir verði hluti stefnumótunar og reglusetningar; ekki síður en samdráttur í innlendri losun gróðurhúsalofttegunda.
Valdimar Össurarson