forsetiVerkefnisstjóri Valorku átti fund á Bessastöðum með forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, hinn 27. janúar sl og kynnti fyrir honum verkefni Valorku ehf.  Forseti hafði heyrt af verkefnum Valorku og vildi heyra meira um þau, en sem kunnugt er þá hefur hann beitt sér mjög á alþjóðavísu í málefnum umhverfismála og hreinnar orku.  Nýtur hann mikillar alþjóðlegrar virðingar fyrir þau störf.  Forseti var þá nýkominn heim af heimsþingi hreinnar orku sem haldið var í Abu Dhabi, en þar var hann m.a. í forsæti dómnefndar fyrir hin virtu Zayed orkuverðlaun.

Hr. Ólafur Ragnar var mjög áhugasamur um verkefni Valorku og spurði margs eftir kynningu verkefnisstjóra.  Honum finnst mikið hafa áunnist á stuttum tíma, með því að hverfillinn er nú í fremstu röð tækni til virkjunar hægra annesjastrauma, og eini hverfillinn hérlendis sem hlotið hefur einkaleyfi.  Verkefnisstjóri spurði forseta einnig um hans viðhorf, í ljósi hinnar víðtæku reynslu og starfa á hinu alþjóðlega sviði.  Forseti telur að verkefnið ætti að vera hægt að kynna erlendis og fá að því öfluga samstarfsaðila og fjármögnun, en mikilvægt sé að undirbúningur hér heima sé eins vandaður og best verður á kosið.  Hann óskaði eftir að fá að fylgjast með framgangi verkefnisins, og sagðist fylgjast með því af áhuga.

Valorku er það heiður að njóta velvildar forseta, og það er Íslandi mikið happ að hafa forseta sem nýtur svo víðtækrar virðingar á sviði umhverfisverndar og hreinnar orku.

 

Skrifað hefur verið undir samsarfssamning milli Valorku ehf og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.  Nýsköpunarmiðstöð hefur lýst vilja til að verða Valorku til ráðgjafar um þróunarvinnu hverflanna og aðstoða við verkefnisstjórnun, auk þess að koma að verkfræðilegu mati prófana.

Valorka hefur áður notið aðstoðar NMÍ á ýmsa vegu.  T.d. veitti Geir Guðmundsson verkfræðingur góð ráð þegar verkefnisstjóri Valorku hóf fyrstu kannanir sínar varðandi nýtingu sjávarorku, og aftur síðar þegar fyrstu gerðir hverflanna fóru að mótast.  Það ár kynnti forstjóri NMÍ hverflana stuttlega á opnum ársfundi stofnunarinnar.  Valorka hefur einnig notið aðstoðar NMÍ í ráðgjöf við skoðun styrkjamöguleika í erlendum samstarfssjóðum.

nmilogoAðkoma NMÍ mun án efa auka á ýmsan hátt möguleika verkefnisins til framgöngu.  Með henni opnast aðgangur að þekkingu og reynslu varðandi framgang nýsköpunarverkefna, en það skapar aukinn trúverðugleika í samskiptum við stjórnkerfi, stofnanir og sjóði.  Til dæmis  er þess vænst að þetta samstarf auki líkur á framhaldsstyrk til verkefnisins frá Tækniþróunarsjóði, en hann er helsta forsenda þess að unnt sé að halda verkefninu áfram.  Tækniþróunarsjóður hefur í tvígang synjað um framhaldsstyrk, haustið 2013 og vorið 2014, en þær synjanir hafa stoðvað framgang verkefnisins og valdið verulegum erfiðleikum.  Skilja mátti af matsblöðum og í viðtölum við starfsmenn TÞS að sjóðurinn teldi vanta aðkomu öflugra ráðgjafaraðila að þróunarverkefninu áður en lengra væri haldið.  Þetta skilyrði er nú uppfyllt ríkulega með því að ekki einasta er tryggð aðkoma helstu opinberu stofnunar landsins á sviði nýsköpunarmála, heldur einnig verkfræðileg aðstoð.  Að auki liggur fyrir eindregin stefna íslenskra stjórnvalda um að kanna til fulls möguleika á sjávarorkunýtingu.  Er því fastlega búist við að umsögn haustið 2014, sem nú hefur verið lögð inn, verði samþykkt og verkefni Valorku komist í gang á ný.

Efnis-, líf- og orkutæknideild NMÍ verður hinn eiginlegi samstarfsaðili Valorku hjá NMÍ.  Framkvæmdastjóri hennar er Kristján Leósson, en helsti tengiliður við Valorku verður Geir Guðmundsson verkfræðingur.  Geir hefur mikla þekkingu á sjávarvirkjunum og hefur fylgst með þróun þeirra, ekki síður en verkefnisstjóri Valorku.  Hann veitti verulega aðstoð í umsóknargerð Valorku, ásamt öðrum hjá NMÍ.  Vænst er árangursríks samstarfs Valorku og NMÍ.

skjaldarmerkid         yfirlys rstj isl

Ríkisstjórn Íslands hefur gefið út yfirlýsingu um mikilvægi verkefna Valorku á sviði sjávarorkunýtingar.  Yfirlýsingin felur jafnframt í sér viðurkenningu á því frumkvöðlastarfi sem unnið hefur verið að hálfu Valorku og þeim einstöku áföngum sem náðst hafa.  Hún er undirrituð af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra 16. júlí 2014.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

"Ríkisstjórnin er jákvæð gagnvart starfsemi Valorku ehf á sviði sjávarorkunýtingar.  Sjávarorka við strendur Íslands er endurnýjanleg og hrein orkulind sem rannsökuð hefur verið að takmörkuðu leyti.  Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands eru sett fram stefnumið um eflingu nýsköpunar og grænnar starfsemi og að Ísland verði í fararbroddi á sviði sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra auðlinda.  Fellur nýting sjávarorku vel að þessum stefnumiðum.  

Valorka ehf hefur sýnt einstakt framtak með sínum verkefnum á sviði sjávarorkunýtingar og sýnt hverju hugvit getur áorkað.  Þannig hefur félagið tryggt fyrsta einkaleyfi íslensks hverfils, hafið prófanir á sjávarfallahverflum hérlendis, auk þess sem forsvarsmaður félagsins hlaut gullverðlaun Alþjóðasamtaka hugvitsmannafélaga árið 2011 og viðurkenningu í Bandaríkjunum nýlega.  Þá hefur félagið komið á fót gagnasafni á sviði sjávarorku og bent á þörf þess að rannsóknir verði hafnar á nýtingu sjávarorku við strendur landsins.

Ríkisstjórnin fagnar árangri Valorku ehf og telur mikilvægt að greind séu sóknarfæri sem kunna að liggja í nýtingu sjávarorku og þar með tækifæri til verðmætasköpunar.  Í samræmi við það ályktaði Alþingi þann 16. maí sl að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar.  Jafnframt er ætlunin að lögð verði drög að uppbyggingu gagnagrunns um nýtingu sjávarorku.

Ríkisstjórnin fagnar frumkvæði Valorku ehf og væntir þess að frekari skref félagsins á þessu sviði skili þeim árangri sem að er stefnt og skapi ný tækifæri til verðmætasköpunar."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Valorka ehf fagnar þessari yfirlýsingu, sem í raun er fyrsta ákveðna stefnuyfirlýsing stjórnvalda varðandi hinar gríðarlegu sjávarorkuauðlindir þjóðarinnar og fyrsta beina viðurkenning stjórnvalda á  brautryðjandastarfi Valorku á því sviði.  

Enn er þó langur vegur frá því að stjórnkerfið allt hafi áttað sig á þessu mikilvægi og starfi í samræmi við þessa stefnumótun ríkisstjórnarinnar.  Því til vitnis er fjárhagsleg staða verkefna Valorku núna.  Stuðningsumhverfi nýsköpunar er að mörgu leyti óburðugt og brotakennt.  Tækniþróunarsjóður, sem um nokkurra ára skeið var burðarás verkefna Valorku, hefur í tvígang synjað verkefnunum um stuðning og í bæði skiptin vegna þess að fagráð virðist ekki hafa þekkingu til að meta verkefni af þessu tagi.  Enn meira þekkingarleysi bjó að baki synjunar "Átaks til atvinnusköpunar".  Þessar synjanir hafa orðið til þess að ekki var unnt að halda áætlun með sjóprófanir hverfilsins á yfirstandandi sumri.  Í staðinn hefur verið unnið að kostnaðarminni þáttum, svo sem þróun ölduhróksins sem er tæki sem nýtir ölduhreyfingu til að auka afl og hagkvæmni hverfilsins.  

Orkusjóður er núna hinn eini í stuðningsumhverfi íslenskrar nýsköpunar sem sýnt hefur verkefninu þá tryggð og langtímastuðning sem þróun af þessu tagi krefst.  Sjóðurinn veitti nýlega verkefni Valorku þriggja milljóna króna styrk til áframhaldandi þróunar.  Þó sú fjárhæð dugi ekki ein og sér til að halda óbreyttri áætlun þá nægir hún vonandi til að halda lífi í verkefninu þar til aðrir aðilar kerfisins ná að átta sig.  Þetta er allhá fjárhæð miðað við heildarstyrki Orkusjóðs og er skilningur hans mjög þakkarverður.  

Valorka þakkar ríkisstjórn Íslands fyrir þessa mikilvægu viðurkenningu, og þá framsýni sem í henni felst.  Valorka mun fyrir sitt leiti kappkosta að standa undir því trausti og þeim velvilja sem þarna kemur fram og væntir þess að aðrir hlutar stuðningsumhverfisins, svo og aðrir ábyrgir aðilar, leggi sitt að mörkum til að tryggja þjóðinni réttmætan ávinning og verðmætasköpun af auðlindanýtingu og forystu íslenskrar tækniþróunar á þessu sviði.

The Icelandic government has issued a statement regarding Valorka´s projects.  This is its first statement in the field of ocean energy, underlining its importancce and the importance of Valorka´s enterprize.  Valorka appreciates this statement; it is great encouracement for Valorka and also to present and potential supporters of the projects.
yfirlys rstj enThe english version of the statement may be seen here.

gold inpex 2014Hverfill Valorku hlaut nýlega gullverðlaun á stærstu uppfinningasýningu Bandaríkjanna, INPEX, sem haldin er árlega í Pittsburg.  Sýningin fór fram dagana 18.-20. júní og að venju sýndu þar uppfinningamenn frá öllum heimshornum verkefni sín.  Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN voru sameiginlega með bás og kynntu þar félögin og nokkur íslensk verkefni.

Elinóra Inga Sigurðardóttir var fulltrúi félaganna á sýningunni og kynnti m.a. hverfil Valorku.  Það kom ánægjulega á óvart þegar tilkynnt var að hverfillinn hefði hlotið "Gold Medal Award og Merit".  Ekki var lagt mikið í kynningarefni, utan eins bæklings, en kynning Elinóru hefur greinilega virkað þeim mun betur. Auk Valorku hlutu Elinóra og María Ragnarsdóttir verðlaun á sýningunn.  Til hamingju með það.

Viðurkenning í Bandaríkjunum hefur töluverða þýðingu fyrir verkefni Valorku.  Fyrir liggur að verkefnið þarf að afla sér samstarfsaðila erlendis þegar verkefninu vindur fram, og viðurkenning af þessu tagi hjálpar í þeim efnum.

The Valorka turbine has been granted the "Gold Medal Award of Merit" at INPEX; America´s largest invention show; which took place in Pittsburg on 18-20th of last June.  This was a pleasant surprise, since Valorka´s project was not presented by the inventor himself.  The Association of Icelandic Inventors and Innovators had a stand at the show; presenting a few inventors and led by Elinora Sigurdardottir.  Valorka´s brochures; Elinora´s convincing and the skilled jury are mostly to thank for this award.  Many thanks INPEX and Elinora.  Two more Icelandic projects were awarded at INPEX this year.

A recognition of this kind is valuable for Valorka, for many reasons.  Valorka intends to have collaborators in America to further develop the turbine and this may play a role in presenting the project.

 

althingi
Til hamingju framtíðarkynslóðir Íslendinga!   Þau merku kaflaskil hafa orðið í íslenskri orkusögu að í fyrsta sinn er hafin vinna að stefnumótun sem varðar stærstu og hreinustu orkulindir landsins; sjávarorku.  Alþingi samþykkti, á lokadegi þingsins 16. maí 2014, þingsályktunartillögu „um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku“. Þverpólitísk samstaða var á Alþingi um þessa fyrstu alvöru stefnumótun í orkumálum, en hún er fram komin fyrir atbeina undirritaðs.
 
Hugmynd að þingsályktunartillögu um sjávarorku var fyrst sett fram af stofnanda Valorku í erindi til iðnaðarnefndar Alþingis 23.08.2010.  Í ársbyrjun 2011 sendi hann stjórnvöldum samantektina „Sjávarfallaorka og hagsmunir Íslendinga“, þar sem vakin var athygli á hinum gríðarmiklu hagmunum þjóðarinnar á þessu sviði, þar sem sjávarfallaorka væri að öllum líkindum stærsta orkuauðlind Íslands; áreiðanlegasta orkuauðlind sem völ er á; sú orkuauðlind sem unnt er að nýta með umhverfisvænstum hætti og að hérlendis skorti allar rannsóknir á því sviði.  Auk þess var vakin athygli á verkefnum Valorku ehf, sem eru fyrstu verkefni í tækniþróun sjávarorku hérlendis og fyrsti hverfillinn sem fundinn hefur verið upp á Íslandi.  Síðar á því ári var sá hverfill valinn besta uppfinning heims af Alþjóðasamtökum uppfinningafélaga.  
Undirritaður stakk upp á því við alþingismenn í mars árið 2010 um að sett yrði fram þingsályktunartillaga um sjávarorku; átti fund með nokkrum þingmönnum síðar það ár, og lagði í framhaldi af því fram uppkast að þingsályktunartillögu ásamt greinargerð.  Skúli Helgason, þá þingmaður Samfylkingar, útfærði síðan þessa tillögu í samráði við Valdimar; bar hana undir nokkra sérfræðinga og leitaði síðan eftir stuðningi þingmanna.  
Kynning Valorku og Skúla á nauðsyn stefnumótunar bar öflugan árangur, því þegar tillagan var lögð fram í fyrsta skipti, hinn 31.mars 2011, stóðu að henni 22 alþingismenn úr öllum flokkum á Alþingi, eða yfir þriðjungur þingheims. Hinsvegar dagaði tillagan þá uppi í þinglok eftir fyrri umræðu.  Þau áttu eftir að verða örlög hennar tvisvar sinnum enn, og sýnir það e.t.v. best áhrif hagsmunahópa á framgang þingmála.  Að baki þessari tillögu stóð hvorki fjársterkur aðili né fjöldi atkvæða sem þrýsti á; heldur „einungis“ hagsmunir framtíðarkynslóða þjóðarinnar.  
Í fjórða skiptið var tillagan lögð fram í ársbyrjun árið 2014, og þá fyrir forgöngu Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns og fyrrum fjármála- og atvinnuvegaráðherra.  Enn sem fyrr var tillagan lögð fram af þriðjungi þingheims; 21 þingmanni úr öllum flokkum á Alþingi.  Um tíma leit út fyrir að örlög hennar yrðu enn þau sömu, en á síðustu stundu áttaði þingheimur sig á mikilvægi málsins og að frekari tafir yrðu ekki til að auka margumtalaða og brothætta virðingu Alþingis.  Tillagan var því afgreidd út úr atvinnuveganefnd og síðan samþykkt einróma í lok síðasta þingdags; 16. maí 2014.
 
Efni þingsályktunarinnar er það að atvinnuvegaráðherra skuli skipa þriggja manna nefnd til að móta stefnu í rannsóknum og nýtingarmöguleikum sjávarorku við Ísland; hefja uppbyggingu gagnagrunns og efla alþjóðlegt samstarf á því sviði.  Allt eru þetta atriði sem Valorka hefur unnið að, eins og kemur fram í greinargerð ályktunarinnar. Til dæmis er Valorka enn eini aðilinn í tækniþróun sjávarorku á landinu; Valorka býr yfir umfangsmesta og ítarlegasta gagnasafni landsins á þessu sviði og Valorka hefur nú þegar myndað nokkur alþjóðleg tengsl.  Valorka hefur einnig undirbúið eina verkefni landsins sem lýtur að heildstæðum sjávarorkurannsóknum.  Efnt var til samvinnu við Hafrannsóknastofnun um þann þátt í ársbyrjun 2010, með verkefninu „Rannsóknamiðstöð sjávarorku“.  Það verkefni er nú allvel undirbúið, og út frá því gengið að rannsóknir geti hafist án verulegra fjárútláta.  Hafrannsóknastofnun er lögformlegur aðili rannsókna í hafi og þessi verkefni falla vel að öðrum á hennar vegum.  Hinsvegar þarf að bæta við mælitækjum, og hefur verið lögð fram beiðni um lítilshárrar fjárveitingu til þess á fjárlögum ársins 2015.  Einnig verður samstarf í þessu efni við Háskóla Akureyrar, Verkís, Færeyjaháskóla og fleiri aðila.  
 
Mikil þörf er á sjávarorkurannsóknum við Ísland, og stöndum við grannþjóðum töluvert að baki í þeim efnum. Heildarlíkan sjávarfalla var gert fyrir nokkru á vegum VST og er það nú vistað hjá Siglingastofnun.  Það sýnir hinsvegar ekki straumhraða í einstökum röstum, og reyndar liggur ekki fyrir ein einasta vísindaleg mæling straumhraða í þeim. Staðbundnar straumhraðamælingar eru brýnasta verkefnið í sjávarorkurannsóknum, og er stefnt að því að þær hefjist innan tíðar á vegum Rannsóknamiðstöðvar sjávarorku.  Þær verða gerðar með dopplerstraumsjám sem lagt verður á hafsbotn yfir nokkurra vikna skeið.  Þar safna þessir mælar nákvæmum mælingum sem síðar er unnið úr eftir að þeir hafa verið endurheimtir.  Einnig verður notuð vönduð dopplerstraumsjá Valorku, en hún er ætluð til nota í báti.  Eftir þessum gögnum geta sérfræðingar metið orku og hegðun sjávarfallastrauma fyrir hvern stað.  Slíkar rannsóknir eru einnig nauðsynlegar til að unnt sé að skipuleggja prófanir frumgerðar hverfla, eins og þess sem Valorka þróar nú.  
 
Valorka ehf þakkar öllum sem eiga þátt í því að þessi mikilvæga stefnumótun er nú hafin.  Eftirtaldir þingmenn hafa borið tillöguna fram á Alþingi, þó allir þingmenn tveggja kjörtímabila eigi þar einnig hlut að máli:  Skúli Helgason (1.flm upphafl.); Oddný Harðardóttir (1.flm síðar); Björgvin G. Sigurðsson; Jónína Rós Guðmundsdóttir; Sigmundur Ernir Rúnarsson; Gunnar Bragi Sveinsson; Þráinn Bertelsson; Þorgerður K. Gunnarsdóttir; Birgitta Jónsdóttir; Siv Friðleifsdóttir; Lilja Rafney Magnúsdóttir; Birkir Jón Jónsson; Ragnheiður Ríkharðsdóttir; Vigdís Hauksdóttir; Sigurður Ingi Jóhannsson; Guðmundur Steingrímsson; Kristján L. Möller; Magnús Orri Schram; Margrét Tryggvadóttir; Tryggvi Þór Herbertsson; Þór Saari; Árni Þór Sigurðsson; Ásmundur Friðriksson; Björt Ólafsdóttir; Bjarkey Gunnarsdóttir; Elín Hirst; Guðbjartur Hannesson; Helgi Hjörvar; Helgi Hrafn Gunnarsson; Páll Jóhann Pálsson; Páll Valur Björnsson; Silja Dögg Gunnarsdóttir; Svandís Svavarsdóttir; Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson.  Einnig nefndarmenn atvinnuveganefnda; þingforsetar og þingflokksformenn sem átt hafa þátt í framgangi tillögunnar.  Þó hér sé fyrst og fremst um framfaramál þjóðarinnar að ræða er um leið ljóst að þetta er ein af forsendunum fyrir áframhaldi brautryðjandaverkefna Valorku á sviði sjávarorku, og fyrir það er þakkað.  Valorka væntir um leið áframhaldandi skilnings Alþingis og góðs samstarfs við ríkisstjórn á hverjum tíma.
 
Nú tekur við hið vandasama verkefni atvinnuvegaráðherra að finna öfluga og hæfa menn í þessa stefnumótun. Vonandi tekst þar vel til og vonandi tekst ráðherra að forðast áhrif voldugra hagsmunaaðila á svið orkumála við þá skipan.  Ítök stóru ríkisreknu orkufyrirtækjanna, s.s. Landsvirkjunar og Rarik, eru mjög mikil í öllu stjórnkerfinu, eins og Valorka hefur kynnst í sínum verkefnum.  Þau voru ekki hvetjandi til þeirrar stefnumótunar sem hér um ræðir, enda ekki um þeirra hagsmunamál að ræða.  Það er skylda stjórnvalda að vernda nýja sprota eins og Valorku gegn yfirgangi markaðsráðandi orkurisa, og verður að ætla að ráðherra takist vel til í því efni.  
 
Enn bíður Valorka þess nauðsynlega stuðnings opinberra sjóða sem um var rætt í síðustu frétt.  Spurningunni um vilja stjórnvalda í málefnum eina íslenska sjávarorkufyrirtækisins var ekki svarað nema að hluta með þessari ályktun Alþingis.  Enn fást engin svör sem óskað hefur verið eftir frá þremur ráðherrum:  atvinnuvega-; umhverfis- og forsætisráðherra, um það hvort Valorku verður tryggður sanngjarn hluti í fjárveitingum til græna hagkerfisins.  Þeir sjóðir liggja ónotaðir ár frá ári á sama tíma og verkefni Valorku hafa verið nánast í stöðvun frá síðustu áramótum.  Ekki hefur verið unnt að greiða út laun og undirbúningur sjóprófana í sumar hefur ekki getað hafist.  Þær tafir eru alfarið á ábyrgð viðkomandi ráðuneyta og stofnana.  Vonir standa til að úr þessu ástandi geti ræst á næstu dögum, en von er á svörum frá forsætisráðuneyti og viðtali við umhverfis- og auðlindaráðherra.  Meira um framvindu þess fljótlega hér á síðunni.
 
Valdimar Össurarson

Subcategories