Enn á ný vakna spurningar um stefnu og vilja íslenskra stjórnvalda: enn á ný er eina íslenska verkefnið í þróun sjávarorkutækni sett fram á hengiflug óvissunnar vegna stefnuleysis stjórnvalda í málefnum orku og nýsköpunar.

Þegar litið er um öxl við áramótin 2013-2014 verður ekki annað sagt en verkefni Valorku hafi fyllilega staðið undir þeim væntingum sem unnt er að gera til slíks verkefnis; og í flestu tilliti farið langt fram úr áætlunum. Lítum á þessa punkta:

- Verkefnið er hið eina á Íslandi í þróun Íslenskrar sjávarorkutækni.
- Verkefnið hefur skilað fyrstu íslensku einkaleyfum í sjávarorkutækni
- Verkefnið var valið besta uppfinning heims árið 2011; eina íslenska uppfinningin sem náð hefur þeim árangri
- Valorka hefur ekki þróað eina, heldur fimm mismunandi gerðir sjávarfallahverfla og vinnur að þeirri sjöttu
- Valorka vinnur nú að sjávarorkuvirkjun sem nýtir bæði ölduorku og lághraða sjávarfallaorku; hinni fyrstu þeirar tegundar
- Valorka hóf sjóprófanir sjávarfallahverfla í Hornafirði í ágúst 2013; fyrstu sjóprófanir íslenskra sjávarfallahverfla
- Enginn hverfill til nýtingar hægra sjávarfallastrauma er kominn lengra í þróun í veröldinni en hverflar Valorku
- Hægir fallastraumar (annesjastraumar) eru algengasta form nýtanlegrar sjávarfallaorku í heiminum og hérlendis
- Sjávarorka er að öllum líkindum umfangsmesta og hreinasta orkulind Íslands, sé miðað við erlendar rannsóknir
- Íslendingar hafa nú nýtt meira en helming nýtanlegrar vatnsfalla- og jarhitaorku sinnar og orkuskortur nálgast að óbreyttu
- Ekkert bólar á markmiðssetningu Íslenskra stjórnvalda í orkumálum, eða raunhæfri orkustefnu
- Háum fjárhæðum af almannafé er varið í vindorkutilraunir hérlendis, sem þegar hafa verið gerðar erlendis án hagkvæmni
- Háum fjárhæðum er varið í undirbúning sæstrengs frá Íslandi þó hér sé engin umframorka í boði og framkvæmdin glæfraleg
- Valorku var synjað um áframhaldandi styrk úr Tækniþróunarsjóði við síðustu úthlutun og verkefninu þar með stefnt í tvísýnu.

Hér er þó aðeins lítið upp talið af þeim staðreyndum sem við blasa. Nánari lýsingar má finna t.d. í skýrslum Valorku hér annarsstaðar á síðunni.

Pólitíkin er skondin tík og óútreiknanleg. Því til staðfestu má benda á að ekki er ár liðið frá því að allir flokkar á Alþingi voru sammála um að leggja fram vandaða stefnumótun á Alþingi um málefni stærstu og mikilvægustu orkulindar landsins; sjávarfallaorku. Tillögu sem fól í sér að hefja skyldi fyrstu rannsóknir á þessari miklu auðlind og meta kosti til nýtingar á henni. Að tillögunni stóðu allir flokkar og hún var borin fram af þriðjungi þingheims af miklum myndarskap, undir forystu Skúla Helgasonar. En athygli þingmanna líkist oft laufi í vindi, og einhver gustur lék um það lauf um síðustu kosningar.

Ekki var ein báran stök, heldur gripu stjórnvöld einnig til þess þjóðráðs í þrengingum ríkissjóðs að skera niður fé til þróunar og rannsókna. Pólitíkusar féllu því í þá gryfju sem hagsýnir bændur á Íslandi hafa reynt að forðast í hallærum sem yfir þjóðina hafa gengið: Þeir skáru niður mjólkurkúna og settu í pott fremur en að nýta afurðir hennar til uppbyggingar.

Þetta tvennt: stefnuleysi í málefnum sjávarorku og óvissa um fjárveitingar til þróunar, hefur nú leitt til þess að Valorku var synjað um áframhaldandi stuðning úr Tækniþróunarsjóði. Öðrum ástæðum er ekki til að dreifa, sé litið til þeirra góðu einkunna sem umsóknin fékk í mati; til þess árangurs sem verkefnið hefur þegar skilað; til þess að Valorka var nýlega valið eitt af vænlegustu sprotafyrirtækjum landsins og til þess að Íslendingar hafa ekkert vænlegra tækifæri en þetta til að komast í forystu á heimsvísu í tækniþróun eftirsóttrar afurðar.

Leitað verður eftir skýringum og afstöðu stjórnvalda á nýju ári. Valorka mun leita leiða til að halda þróunarstarfi sínu áfram og væntir þess að skilyrði verði tryggð til að það verði áfram á íslensku forræði.

 

Valorka óskar samstarfsfólki sínu gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, og þakkar fyrir ómetanlega aðstoð á árinu sem er að líða.

Bestu kveðjur
Valdimar Össurarson

Tímaritið Frjáls verslun hefur valið Valorku ehf sem eitt af 100 áhugaverðustu sprotafyrirtækjum Íslands árið 2013.  Valorka lendir þar í 49. sæti.  Tímaritið er að þessu sinni (7.tbl. okt. 2013) lagt undir vangaveltur um það hvaða tækifæri Ísland hefur núna til að treysta undirstöður veðmætasköpunar varanlega og til framtíðar.  Þar eru viðtöl við fjölmarga forkólfa atvinnulífsins; þá sem eru í ráðandi stöðu; þá sem náð hafa árangri og helstu fjárfesta hérlendis.  Dr Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður nýsköpunar og frumkvöðlakennslu í MBA-námi í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn valdi lista Frjálsrar verslunar yfir þessi 100 áhugaverðustu sprotafyrirtæki, líkt og hann hefur gert undanfarin ár.  Um Valorku segir stutt og laggott; „Virkjun sjávarfalla“.  Lýsandi fyrir árangur Valorku og það að engin önnur þróun er á þessu sviði hérlendis.  Í yfirskrift listans segir m.a.:  „Listinn yfir áhugaverð sprotafyrirtæki hefur þann tilgang að sýna þá fjölbreytni og orku sem falin er í frumkvæði og nýsköpun Íslendinga.  Frumkvöðlar vinna stóra sigra á hverjum einasta degi á Íslandi í mótbyr erfiðra aðstæðna.  Það var hinsvegar hugmyndaflug og frumkvæði eins og það sem einkennir öll þau áhugaverðu sprotafyrirtæki sem hafa orðið til á Íslandi sem byggði upp íslenskt atvinnulíf og hefur að miklu leyti skapað þau lífsskilyrði sem hér eru...  Á Íslandi er hægt að byggja upp öflugt og fjölskrúðugt atvinnulíf sem skapar verðmæti og lífsgæði...  Hundrað áhugaverðir sprotar munu hjálpa til við að varða veginn til framtíðar“.  Eyþór Ívar og Frjáls verslun eiga heiður skilinn fyrir skilning sinn og framsýni.

Framkvæmdastjóri Valorku tók nýlega við viðurkenningu frá Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka.  Fjórir aðilar hlutu styrki að þessu sinni, og fyrir utan Valorku voru það Marsýn ehf; Klappir ehf og hugbúnaður til greiningar síldarstofna.  Styrkur Íslandsbanka til Valorku er 2 milljónir króna og mun koma að góðum notum í þróun íslenskrar sjávarorkutækni.  Íslandsbanki sýnir með þessu mikla framsýni og vilja til endurreisnar atvinnulífs og verðmætasköpunar þjóðarinnar.  Þannig hugsun mætti vera uppi á borðum hjá fleiri stofnunum í fjármálaþjónustu, en um svipað leyti barst synjun á stuðningi frá Landsbankanum, og hann hafði áður hafnað boði um að verða sérstakur bakhjarl þessa einstaka framfaraverkefnis.  Sá banki hefur verið viðskiptabanki Valorku frá upphafi en að sjálfsögðu ber ávallt að beina viðskiptum þangað sem skilningur og framtíðarsýn er mest.

 

Íslandsbanka er þökkuð þessi einstaka framsýni og stuðningur við uppbyggingu íslenskrar verðmætasköpunar.

Nýlega var farið í stuttan mælingaleiðangur í Ósa, en svo nefnist vogurinn norðan Hafna; vestantil á Reykjanesskaga.  Þarna hagar svo til að um 2ja ferkílómetra vogur gengur til austurs inn af ströndinni, og greinist í fjölmarga litla krika með nesjum á milli.  Ósavogurinn er allur grunnur, en þó einkum yst; norður af Höfnum.  Þar er garður skerja og hleina sem sumar eru alltaf uppúr; aðrar uppúr á fjöru en einnig mikið flágrynni sem aldrei kemur úr sjó.  Um þennan skerjagarð þarf að komast töluverður sjór á hverri flæði, eða líklega 2 til 3 milljónir rúmmetra, fjórum sinnum á sólarhring.  Fyrirfram var því búist við að töluverður straumþungi væri í rennum eða lænum sem eru þarna milli skerjanna.

Farið var af skábrautinni sem herinn skildi eftir sig í Þórshöfn; hinum fornfræga verslunarstað Suðurnesja norðan Ósa.  Slöngubát var þar rennt niður í víkina og siglt stutta vegalengd inn að grynningunum.  Þar var lagst við stjóra; straumhraðamæli Valorku slakað undir yfirborðið og hann tengdur fartölvu.  Mælt var á þremur stöðum í þessari fyrstu atrennu og mælistaðir merktir á kort.  Straumhraði reyndist vera frá um 0,5 m/sek og upp í um 1 m/sek.  Meiri straumur er greinilega sumsstaðar, enda eru víða boðafoll á grunnum flúðum.  Tærleiki sjávar er nokkuð mikill

Ætlunin með þessum mælingum er einkum að skoða hvort þarna gætu verið hentugar aðstæður til prófana á hverflum Valorku.  Staðurinn hefur ýmsa kosti til slíks; t.d. nálægð við vinnustofu Valorku; tærleika sjávar; góða aðstöðu til sjósetningar og fremur litla hættu á árekstrum við aðra starfsemi.  Auk þess virðist skerjagarðurinn vernda vænlega prófunarstaði frá sjógangi.  Hinsvegar eru nokkrir augljósir ókostir, svo sem miklar grynningar; iðuköst vegna botnlags; slæmt aðgengi að innsvæðum landleiðis; skortur á þjónustu og aðstöðu við landið o.fl.  Ekki hefur verið kannað hvort prófanir kynnu að rekast á við aðra hagsmuni, t.d. varðandi æðarvörp, og hver er vilji landeigenda.

Í Ósum er töluverð orka sem eflaust kemur einhverntíma til álita að nýta.  Núna er fyrst og fremst verið að kanna hvernig svæðið hentar til prófana.  Verður þeim könnunum haldið áfram á komandi vori.

Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur og fræðimaður heimsótti Valorku seinnipart oktobers ásamt kvkmyndagerðarmanninum Valdimar Leifssyni.  Erindið var að taka upp efni til sýningar í vísindaþáttum Sjónvarpsins, sem Ari Trausti hefur séð um síðastliðna vetur við miklar vinsældir.  Í upphafi var ætlunin að taka einnig upp prófanirnar í Hornafirði, en það náðist ekki á þeim stutta tíma sem þær stóðu sl haust.  Valdimar kynnti þróunarsögu hverfilsins í stuttu máli; stöðu verkefnisins og hvað líklega væri framundan.  Einnig voru hugleiddir þeir möguleikar sem nú eru að opnast á sviði sjávarorku, ekki síst með tiilkomu þessarar íslensku tækni.  Ari Trausti var áhugasamur um verkefnið og margs var spurt á báða bóga, enda hafa fáir betri yfirsýn í heimi íslenskra vísinda en Ari Trausti.

Þessir þættir Ara Trausta og Valdimars fyrir Sjónvarpið, og með aðkomu fjölmargra aðila á sviði nýsnköpunar, eru lofsvert framtak.  Gjarnan mætti vera meira um það að fjölmiðlar fjölluðu um hugvit og nýsköpun, þó ekki væri nema til að hvetja til framtaks í þeim efnum.

Subcategories