Vinna við verkefni Valorku; fyrsta og eina verkefni Íslendinga á sviði sjávarorkutækni, hefur gengið vel eftir að stuðningur fór að skila sér aftur frá Tækniþróunarsjóði.  Reyndar hefur sú hugmyndavinna aldrei stöðvast sem staðið hefur yfir síðustu hálfa öld eða svo.  Enn getur íslenska nýsköpunarumhverfið ekki bannað fólki að hugsa, þó stuðningur þess við verklega úrvinnslu sé brotakenndur og duttlungafullur.  

Af hverfli Valorku höfðu þróast 5 mismunandi tegundir þegar Tækniþróunarsjóður fékk hiksta og stöðvaði sinn stuðning í þrjú misseri.  Þá, haustið 2013, höfðu nýlega hafist prófanir á gerð V5 í sjó í Hornafirði, og höfðu niðurstöður þeirra prófana ekki fengist.  Styrkur sem TÞS veitti loksins, vorið 2015, kom of seint til að unnt væri að undirbúa framhaldsprófanir; enda þarf að yfirfara allan prófunarbúnað og undirbúa fleiri þætti.  Þess í stað var hafist handa við smíði líkana af nýrri gerðum hverfilsins sem byggja á fyrri gerðum.  Fyrst var smíðað líkan af V6, en sú gerð líkist í mörgu V5, en er með hallalausum blaðpinnum og annarri blaðlögun.  Fyrstu prófanir leiddu þó ekki í ljós nægar framfarir í afköstum, auk þess sem þessi gerð reyndist viðkvæmari fyrir breytingum í straumstefnu.  Áfram verða aðrir þættir þó skoðaðir.  Þá var smíðað líkan af fjölása hverfli; algerlega nýjum flokki sem nefna mætti VAL-X.  Þessir hverflar byggja á sömu grunnhugmyndum og fyrri hverflar Valorku, en opna þó leið til mikillar aukningar á afköstum, um leið og einfaldleiki og lítill tilkostnaður er áfram í fyrirrúmi.  Fyrstu prófanir fyrstu gerðar þessarar hverflalínu lofa góðu.  Virknin er staðfest, en mikil vinna er framundan í bestun ýmissa þátta og raunverulegum afkastamælingum.

Sumarið 2015 hefur Valorka notið gagnkvæmrar aðstoðar ungs háskólanema; Valgeirs Páls Björnssonar, sem er að ljúka námi í orkutækni.  Valgeir valdi hverfla Valorku sem sitt lokaverkefni, og hefur um leið veitt margháttaða aðstoð við þróunarstarfið.  Valorka hefur leitast við að leggja sitt af mörkum til menntunar og fræðslu, og er Valgeir annar háskólaneminn sem lýkur námi í samstarfi við verkefnið.  Auk þess hefur Valorka haldið árlega fyrirlestra við Háskóla Íslands og við önnur tækifæri.  Verkefni Valorku voru t.d. í sumar kynnt hópi bandarískra háskólanema.

Ósamfella í stuðningsumhverfi nýsköpunar hefur valdið Valorku nokkrum erfiðleikum.  Ekki var Tækniþróunarsjóður fyrr hrokkin í gang eftir þriggja missera hlé, en Orkusjóður skarst úr leik og synjaði um stuðning.  Er því nánar lýst í frétt hér á undan, en synjunin hefur þegar verið kærð vegna vanhæfis við úthlutun.  Verður að vænta þess að stjórnvöld standi við skriflegar yfirlýsingar sínar um vilja til að sjá verkefni Valorku komast í höfn.  

Verkefni Valorku eru langtímaverkefni, eins og hverflaþróun í eðli sínu er.  Því er ekki unnt að búast við stuðningi íslenskra samfélagssjóða lengur en svo að sönnuð sé virkni tækninnar og einkaleyfi fyrir helstu nýjungum séu í höfn.  En þangað til verða þeir að standa sinn dont.  Eftir það verður að vænta þess að öflugir fjárfestar komi að verkefninu og beri það uppi framyfir markaðssetningu og sölu.  Ekki skortir áhugasama fjárfesta á þessu sviði.  Tveir slíkir hafa þegar sett sig í samband við Valorku og vilja fylgjast með verkefninu og vera tilbúnir að kaupa þegar áðurnefndu þrepi er náð.  Hér er því um verðmæt tækifæri að ræða; ekki einungis fyrir Valorku, heldur fyrir íslensku þjóðina alla.

Í síðustu frétt hér á vefsíðu Valorku var drepið stuttlega á fáeina galla stuðningsumhverfis íslenskrar nýsköpunar, en þeir hafa iðulega torveldað framgang verkefna Valorku og stundum stofnað því í bráða hættu. Hér verða nefndir nokkrir fleiri af annmörkum þessa stuðningsumhverfis, sem sífellt tekur til sín auknar fjárveitingar af almannafé án þess að nægt eftirlit sé haft með árangri þess, stjórnun eða öðru. Stjórnvöld hafa iðulega látið ábendingar frá notendum kerfisins sem vind um eyru þjóta, og kerfið hefur síðan refsað þeim sem á þær benda, t.d. með synjun um stuðning eða annarri sniðgöngu. Þessu hefur verkefnastjóri Valorku fengið að kynnast, og þessi er reynslusaga margra annarra frumkvöðla sem fyrir eigin rammleik og af vanefnum reyna að koma gagnlegum hugmyndum að notum fyrir sína þjóð.
Hér verða nefnd örfá dæmi í viðbót um óeðlilega starfshætti nýsköpunarumhverfisins; öll úr reynslubanka Valorku. Verður því nú beint til viðeigandi eftirlitsstofnana, svo og til Alþingis, að taka þessi dæmi til skoðunar og hefja án tafar raunhæfa skoðun og úrbætur á þessu kerfi; að sjálfsögðu með aðkomu hugvitsmanna og frumkvöðla sjálfra, sem kerfið á að þjóna:

1. Nýsköpunarmiðstöð Íslands bar á góma í fyrra pistli. Mjög aðkallandi er að skipulag og lagagrunnur þeirrar stofnunar verði tekinn til gagngerrar uppstokkunar. Ekki nær nokkurri átt að halda lengur áfram á þeirri braut sem nú er; þar sem stofnuninni er öðrum þræði ætlað að vera hlutlaus og óháður stuðningsaðili fyrir frumkvöðla en leyfist um leið að beita sér gegn þeim skjólstæðingum sínum, m.a. með því að sölsa til sín ýmsa þá styrki samkeppnissjóða sem í boði eru. Annað atriði sem þarf að bæta í NMÍ er stjórnunin. Það er hvorki fallið til árangurs né trausts að einn maður stýri þessari mikilvægu stofnun áratugum saman með alræðisvald eins og nú er; og er þar með engin afstaða tekin til þess manns sem því starfi gegnir nú. Nýsköpunarmiðstöð þarf að styðjast við mun traustari lagagrunn og starfsreglur en nú er; og hún þarf að lúta ábyrgri stjórn sem í sitja bæði fagaðilar og fulltrúar þeirra sem stofnunin á að þjóna; jafnt sem stjórnvalda. Stofnunin þarf að mótast af þörfum notenda sinna og þjóðarhags, en ekki annarlegum sjónarmiðum, s.s. kunningjatengslum og eiginhagsmunum. Sem dæmi um þetta má nefna uppákomu frá síðasta vetri. Valorka hafði þá gert samning við NMÍ um að NMÍ yrði ráðgefandi samstarfsaðili Valorku. M.a. hafði NMÍ tekið að sér aðstoð við umsóknargerð varðandi Tækniþróunarsjóð. Þegar leið að skilum umsóknar þurfti NMÍ hinsvegar að sinna sínum eigin verkefnaumsóknum í sama sjóð. Þá var Valorku tilkynnt að verkefnið væri einskis virði og tilgangslaust væri að sækja um styrk fyrir það til TÞS. Engin rök voru samt færð því til stuðnings, enda eru þau ekki til. Umsóknin var samt lögð inn og styrkurinn fékkst, þrátt fyrir þessa tilraun NMÍ til niðurrifs. Hinsvegar getur Valorka alls ekki treyst NMÍ til að vera trúverðugur stuðningsaðili eftir þetta, og þarf líklega í staðinn að leita til erlends ráðgjafaraðila, með þeim kostnaði og áhættu sem því fylgir.

2. „Átak til atvinnusköpunar" er sjóður af opinberu fé, og hefur NMÍ umsjón með auglýsingum eftir styrkumsóknum í hann ár hvert. NMÍ mun einnig vera ráðgefandi um styrkveitingar og hélt undirritaður, eins og fleiri, að þar væru ákvarðanir teknar um veitingar. Eftir að Valorku hafði verið synjað um styrki úr þessum sjóði í fjórða sinn án nokkurra skýringa var leitað eftir þeim. Þá kom í ljós að stjórn sjóðsins er í höndum þriggja manna; þar af eru tveir starfsmenn atvinnuvegaráðuneytisins. Annar þeirra hefur í áratugi verið helsti fulltrúi ráðuneytisins í nýsköpunarmálum en hinn er pólitískt ráðinn aðstoðarmaður núverandi atvinnuvegaráðherra. Þeir gera tillögur til þess sama ráðuneytis um styrkþega og þær eru samþykktar af því sama ráðuneyti. Hér eru því sömu mennirnir allt í kringum borðið. Talandi dæmi um það ógangnsæi og þann óheiðarleika sem einkennir nýsköpunarumhverfið. Og „skýringarnar" sem Valorka fékk á synjununum voru svo fráleitar að ætla mætti að umsóknin hefði ekki verið lesin. „Átak til atvinnusköpunar"er sjóður sem þarf að afnema í sinni mynd og koma á raunhæfara og gegnsærra úrræði í hans stað. Yfir höfuð er ekki eðlilegt að NMÍ sjái um úthlutun styrkja; það samræmist illa meginhlutverki stofnunarinnar. Til að tryggja heiðarleg og gagnsæ vinnubrögð við úthlutun styrkfjár væri æskilegast að hún væri öll á hendi einnar stofnunar, t.d. Rannís. En einnig þar þarf að yfirfara alla verkferla og stokka upp í mosavaxinni yfirstjórn. Í núverandi mynd er hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands illa skilgreint og mótsagnakennt; dæmi um ríkisstofnun sem sogar til sín fjárveitingar án skilvirkni.

3. Landsvirkjun er einokunaraðili í orkuvinnslu og orkusölu á Íslandi, sem langstærsti aðilinn á þeim sviðum. Að nafninu til er Landsvirkjun í eigu þjóðarinnar. Hinsvegar er stjórnun og starfsemi fyrirtækisins með þeim hætti að hún ber öll einkenni einkarekstrar þeirra sem þar gegna forstjórastöðum hverju sinni. Pólitískt skipuð stjórn er þeim til ráðgjafar, en hún virðist í raun ekki annað en stimpilstofnun fyrir vilja forstjóranna. Hér verður ekki fjallað um ævintýralegar hugdettur forstjóra Landsvirkjunar, svo sem sæstrenginn, sem þó virðast vera teknar alvarlega af sumum ráðamönnum þjóðarinnar. Fráleitar vangaveltur um ævintýralega framkvæmd; um sölu á raforku sem ekki er til og verður ekki til í nánustu framtíð; fjárhættuspil með skattfé þjóðarinnar sem mun valda stórhækkun á raforkuverði til almennings. Ekki meira um það hér. Valorka leitaði til Landsvirkjunar um að verða fjárhagslegur bakhjarl verkefna Valorku um tækniþróun til sjávarorkunýtingar. Sú umleitan er mjög eðlileg í ljósi þess annarsvegar að Landsvirkjun tekur inn nær allan hagnað sem íslenska þjóðin hefur af sölu orkuauðlinda sinna og hinsvegar vegna þess að LV nýtir þennan arð þjóðarinnar í miklum mæli til eigin gæluverkefna í orkuþróun, og eru vindmylludraumarnir gleggsta dæmið um það. Landsvirkjun hefur ekkert til sparað í áróðri sínum fyrir vindmyllum, og væri fróðlegt að vita hve miklu af almannafé hefur verið varið í auglýsingar og áróður fyrir þessum hugðarefnum forstjóranna. Forstjórar Landsvirkjunar slógu hinsvegar beiðni Valorku um samstarf strax útaf borðinu; án samráðs við stjórn LV, og báru við þeim fráleitu „rökum" að fyrirtækinu væri óheimilt að stunda tækniþróun! Á sama tíma notar LV almannafé til þróunar vindorkutækni fyrir íslenskar aðstæður og til að kaupa sig inní fyrirtækið Sjávarorku sem vinnur að virkjun Hvammsfjarðarrastar. Hér er um grófa mismunun ríkisfyrirtækis að ræða, ásamt þvi að almannafé er nýtt til að skekkja samkeppnisaðstöðu. Landsvirkjun hefur þar á ofan leitast við að bregða fæti fyrir Valorku með ýmsu móti. Landsvirkjun, líkt og NMÍ, er ríki í ríkinu; án fullnægjandi aðhalds og eftirlits; þar sem valdamiklir stjórnendur fara sínu fram án ábyrgrar fjölmennisstjórnar og án gagnsærra og heiðarlegra verkferla; þar sem ríkisstyrkt stofnun skekkir samkeppnisaðstöðu og hindrar eðlilega þróun. Atvinnuvegaráðuneyti og Orkustofnun virðast fara í einu og öllu að óskum og vilja stofnunarinnar og móta sínar aðgerðir eftir hennar hagsmunum; þó það kosti að traðkað sé á hagsmunum sprotafyrirtækja s.s. Valorku. Þessar lykilstofnanir orkumála í landinu geta alls ekki talist óvilhallar eftir langvarandi þjónustu við þennan orkurisa. Alþingi virðist iðulega falla í sömu gryfju, og er skemmst að minnast hatrammrar umræðu í þinginu, þegar Landsvirkjun reyndi að koma fjölda virkjanakosta þar í gegn; framhjá ferli Rammaáætlunar, og með aðstoð hliðhollra þingmanna og orkumálastjóra. Landsvirkjun myndi ekki muna mikið um að veita hinum einstöku orkuþróunarverkefnum Valorku nokkurra milljóna stuðning, t.d. til að brúa hið mikilvæga mótframlag við styrk Tækniþróunarsjóðs, í samanburði við milljarðabruðl í sínar eigin vindmyllur, og gríðarmikinn áróðurskostnað fyrir eigin ímynd. Hér er á ferð slæmt dæmi um það að fyrirtæki í einokunaraðstöðu notar almannafé til að skekkja samkeppnisaðstöðu, því enda þótt LV skili lítilsháttar arði til ríkissjóðs þá rennur hann ekki til orkuþróunar svo nokkru nemi. Furðulegt má heita að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gert athugasemdir við starfshætti Landsvirkjunar og stofnana sem henni tengjast. Valorka mun nú senda beiðni þar að lútandi.

4. Græna hagkerfið. Vorið 2012 samþykkti Alþingi þingsályktun sem miðaði að eflingu græns hagkerfis á Íslandi. Megintilgangurinn var sá að efla sjálfbærni og umhverfisvernd, þannig að Ísland yrði í fremstu röð ríkja á heimsvísu í þeim efnum. Tillögunni fylgdu 50 tölusett atriði sem stuðla skyldi að. Mörg þeirra varða aukin framlög til tiltekinna stofnana og verkefna, en tveimur þeirra var ætlað að tryggja jafnræði og opna möguleika á stuðningi við aðra aðila sem falla undir markmið tillögunnar. Þau lutu að stofnun græns samkeppnissjóðs og græns fjárfestingasjóðs. Ríkissjórnarskipti urðu árið eftir, og varð þar fyrsta verk nýrrar stjórnar að fella út þessi tvö mikilvægu ákvæði; en með því var lokað á allt jafnræði við útdeilingu fjármuna til málaflokksins. Í framhaldinu voru síðan árlega veitt veruleg framlög á fjárlögum undir yfirskini tillögunnar. Forsætisráðuneyti fór með málaflokkinn og stofnaði um leið sérstaka deild í ráðuneytinu; skrifstofu menningarmála. Í stuttu máli sagt hafa nær allar fjárveitingar sem fara áttu til græna hagkerfisins runnið til menningartengdra verkefna; einkum til stofnana á sviði þjóðminjavörslu. Óvíst er hvort það tengist því að þjóðminjavörður starfaði sem sviðsstjóri hinnar nýstofnuðu menningardeildar á sama tíma. Valorka leitaði eftir stuðningi af þessum framlögum, en var synjað eftir að beiðninni hafði verið velt fram og aftur í langan tíma milli þriggja ráðuneyta, í viðleitni þeirra til að svæfa málið. Féll það í hlut umhverfisráðuneytisins að senda synjunarbréfið, þrátt fyrir að umhverfisráðherra hefði lýst því yfir að hún væri sérstök áhugamanneskja um sjávarorkunýtingu og þrátt fyrir að ekkert verkefni falli betur að skilgreiningum hins græna hagkerfis og umhverfisvernd. Ríkisendurskoðun gerði alvarlegar athugasemdir við meðferð ráðherra á þessum fjárlagalið, en þeir létu það sem vind um eyru þjóta. Alþingi hefur algerlega brugðist eftirlitshlutverki sínu, því þó einstakir samviskusamir þingmenn hafi vakið athygli á málinu hefur Alþingi í heild ekki kallað eftir ábyrgð ráðherra á þessari forkastanlegu meðhöndlun almannafjár.
5. Ríkisstjórn Íslands. Meðan á umleitunum Valorku við forsætisráðuneytið stóð, vegna græna hagkerfisins, gaf forsætisráðherra út yfirlýsingu, dags 16. júlí 2014, þar sem þakkað er fyrir hið einstaka framtak og árangur Valorku til nýtingar sjávarorku, þ.m.t. fyrsta og eina einkaleyfishæfa íslenska hverfilinn. Látin er í ljósi von um að verkefnin nái þeim árangri sem að er stefnt. Af yfirlýsingunni mætti ætla að ekki myndi standa á stuðningi hins opinbera við að koma verkefnunum í höfn, en mikið hefur reynst skorta á þau heilindi. Með tilvísun til yfirlýsingarinnar, og í ljósi þess að verkefnin voru að ónýtast fyrir fjárskort, fór Valorka framá sérstakt framlag af hendi ríkisstjórnarinnar, en fyrir slíku eru mörg fordæmi. Atvinnuvegaráðherra fór með beiðnina á ríkisstjórnarfund, en þó ekki óbreytta, og virðist ekki hafa fylgt henni eftir af sannfæringu. Svör ríkisstjórnar voru loðin og óásættanleg, svo ráðherra var inntur skýrari svara. Niðurstaðan reyndis sú að ríkisstjórn synjaði beiðninni án rökstuðnings. Spyrja má hvers virði sú yfirlýsing var sem út var gefin. Þar virðist hugur ekki hafa fylgt máli. En hérlendis virðast ráðherrar geta gefið yfirlýsingar og loforð um hvaðeina án þess að þurfa nokkurntíma að standa við innihaldið. Hér skortir aðhald, bæði frá fjölmiðlum og eftirlitsstofnunum; og þar af leiðandi frá almenningi.

6. Atvinnuvegaráðuneytið fer með nýsköpunar- og orkumál, en til þeirra málaflokka heyra verkefni Valorku. Núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ráðuneyti hennar hefur ítrekað sýnt verkefnum Valorku sniðgöngu og lítilsvirðingu á ýmsan hátt. Sífellt kemur betur í ljós sú tilhneyging ráðuneytisins að gæta fyrst og fremst hagsmuna stóru einokunarfyrirtækjanna í orkumálum, þ.e. Landsvirkjunar og annarra opinberra orkufyrirtækja, en síður sprotafyrirtækja sem eiga á brattann að sækja. Margt má rekja úr framvindudagbók Valorku því til stuðnings. Til dæmis hefur ráðherra ekki í áraraðir sinnt beiðni Valorku um viðtal, og lét ekki svo lítið að vera viðstödd fyrstu prófanir íslenskrar sjávarfallavirkjunar, né senda sinn fulltrúa, en hún lætur sig aldrei vanta á viðburði hjá Landsvirkjun eða Landsneti; hversu ómerkilegir sem þeir eru. Ef frumherjaverkefni af því tagi sem Valorka vinnur, á að hafa nokkurn möguleika á að komast áfram, er það auðvitað frumskilyrði að viðkomandi ráðuneyti sé ávallt reiðubúið að hlusta eftir því hvar þörf er á að greiða fyrir því í stjórnkerfinu, og skapi því skilyrði til þróunar og vaxtar. Þá sjaldan fundir hafa fengist með starfsmönnum í ráðuneytinu er viðkvæði þeirra einatt það að þeir ráði því miður engu; þessu verði ráðherra að svara. En svörin hafa ekki fengist hjá ráðherra; ekki fremur en fundirnir. Til dæmis var synjun Landsvirkjunar um stuðning borin undir ráðherra, en ráðuneytið svaraði út í hött; á þá leið að Landsvirkjun væri opinbert hlutafélag og því væru gerðir þess ráðuneytinu óviðkomandi! Sé það rétt að Landsvirkjun heyri ekki undir neitt ráðuneyti þá hlýtur hún að vera fríríki sem þarf að fá eigin fána og stjórnarskrá. Fordómar ráðherra í garð Valorku lýstu sér glöggt þegar hún skipaði í starfshóp sem móta skyldi tillögur um fyrirkomulag rannsókna á sjávarorku. Hvatinn að því var þingsályktunartillaga sem lögð var fram fyrir hvatningu Valorku og samþykkt einróma á Alþingi vorið 2014. Í greinargerðinni er lögð áhersla á frumkvöðlastarf Valorku, og að rannsaka þurfi sjávarorku við Ísland m.a. vegna þess þróunarstarfs, en einnig til að meta heildarumfang þessarar hreinustu orkuauðlindar Íslendinga. Verkefnisstjóri Valorku sendi ráðuneytinu ítarlega greinargerð um starf Valorku og nánar um þörf þessara rannsókna. Ráðherra kaus að lítilsvirða allt starf Valorku á þessu sviði með því að skipa verkefnisstjóra Valorku ekki í starfshópinn, og ganga þannig framhjá eina hagsmunaaðilanum hérlendis á sviði þróunar sjávarorkutækni og hvatamanni að starfshópnum. Skýrsla starfshópsins er lítils virði, og hvorki í samræmi við þarfirnar, né þá þingsályktunartillögu sem hún byggir á. Þess var heldur ekki að vænta, þar sem í hópnum voru menn sem barist hafa gegn verkefnum Valorku með oddi og egg. Starfshópurinn leggur á sig langa króka til að nefna ekki starf Valorku á þessu sviði; það rannsóknarverkefni sem Valorka hefur þegar sett á fót og þá fjárfestingu sem Valorka hefur þegar ráðist í til undirbúngs rannsóknarverkefninu. Þessu plaggi er beinlínis stefnt gegn hagsmunum Valorku. Verði mark á því tekið af stjórnvöldum mun Ísland líklega heltast úr lestinni í þróun og nýtingu sjávarorku. Hér er enn eitt dæmið um fordóma og vanþakklæti stjórnvalda í garð Valorku; þvert á það sem segir í áðurnefndri yfirlýsingu forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Fleira mætti nefna sem varðar atvinnuvegaráðuneyti nýsköpunar og orkumála, en það bíður að sinni.

7. Rannís. Einhverjir kynnu að ætla að það kæmi úr hörðustu átt að framkvæmdastjóri Valorku skuli finna að starfsemi Rannís, enda er helsti styrktaraðili Valorku frá upphafi Tækniþróunarsjóður sem er hluti af starfsemi Rannís. Vissulega hefur Tækniþróunarsjóður gert margt þakkarvert, og Valorka hefur allajafna átt góð samskipti við starfsmenn TÞS. Aðra sögu má hinsvegar segja af því framferði forstöðumanns Rannís, sem hér verður lýst: Framkvæmdastjóri Valorku hefur verið formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna frá stofnun SFH árið 2008. Fyrir nokkrum árum sendu SFH stjórnvöldum athugasemdir og úrbótatillögur í nokkrum liðum um það sem betur mætti fara í stuðningsumhverfi nýsköpunar. Viðbrögð ráðuneyta og þings urðu engin fremur en fyrri daginn. Hinsvegar barst stjórnarmönnum skammarbréf frá forstöðumanni Rannís, sem hann birti jafnframt á hinum opinbera vef sinnar stofnunar. Hið furðulega var að þessi maður hafði ekki fengið bréf SFH og ekki var að honum vikið í því. Ofsafengin viðbrögð hans eru því skýrt dæmi um þann klíkuskap og þau óeðlilegu hagsmunatengsl sem eru ríkjandi í fámennisstjórnun íslenska nýsköpunarumhverfisins. Forstjórinn stóð við sínar hótanir. Valorka sótti eftir þetta nokkrum sinnum um styrk til kaupa á botnlægum straumhraðamæli til mælinga í sjávarröstum, í samræmi við áðurnefnda ályktun Alþingis. Verkið skyldi unnið í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, sem lofað hefur samstarfi við Valorku um þær. Sótt var um til Tækjasjóðs Rannís sem síðar varð Innviðasjóður; en honum veitti forstöðu umræddur forstjóri Rannís. Hann hafnaði þessari sjálfsögðu beiðni með útúrsnúningum og fjarstæðukenndum tylliástæðum, og má rekja þá synjun beint til baráttu undirritaðs fyrir úrbotum í nýsköpunarumhverfinu. Margt fleira mætti finna að starfsháttum Rannís. Skortur á hæfum matsmönnum háir t.d. sanngjörnu og vönduðu mati styrkumsókna, og verður iðulega til þess að vænlegum umsóknum er hafnað, a.m.k. á þeim sviðum sem þekkingu skortir hérlendis. Þannig er t.d. ástatt um verkefni Valorku. Hinsvegar er það eðli akademíunnar, sem er einráð um mat umsókna, að viðurkenna aldrei þekkingarskort þegar ólærðara fólk á í hlut. Skýrt dæmi um þennan ágalla er það að umsókn Valorku um framhalds verkefnastyrk var synjað í þrígang áður en hún var samþykkt vorið 2015. Ávallt var þó um sömu umsókn að ræða, en tilviljun virtist ráða því hvaða matsmaður yfirfór hana. Synjanirnar höfðu nær því gengið að verkefninu dauðu, og hafa seinkað því mikið. Engu að síður er Valorka þakklát fyrir þann síðbúna stuðning og væntir þess að eiga árangursrík samskipti við Tækniþróunarsjóð vegna hans.

8.  Hátækni- og sprotavettvangur.  Skýrt dæmi um óeðlilega valdþjöppun og klíkuskap sem stýrir í raun flestum ákvörðunum og athöfnum í stuðningsumhverfi nýsköpunar er samráðsvettvangur sem Samtök iðnaðarins bjó sér til, og nefnist "hátækni- og sprotavettvangur".  SI, ásamt sínum aðildarfélögum, fékk með því beinan aðgang að a.m.k. þremur ráðuneytum, og mótar með þeim stefnu á málasviði þeirra.  Ekki er að sjá að neinar lagaheimildir séu fyrir starfsemi þessarar klíku.  Engu að síður hefur verulegt fé runnið úr ríkissjóði til starfa hennar.  Þar sem klíka þessi mótar í raun alla stefnu í nýsköpunarmálum, og að ráði þáverandi iðnaðarráðherra, sóttu Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN um fullan aðgang að henni fyrir fáum árum.  Þeirri beiðni synjaði klíkan, og útilokaði þar með almenna frumkvöðla frá umsögn og ákvarðanatöku í sínum eigin málum.  Mál er til komið að hafin sé opinber rannsókn á starfsemi þessarar klíku eins hagsmunaaðila með ráðherrum sem starfa í umboði þjóðarinnar.  Ekki verður séð að þessi starfsemi samræmist stjórnarskrá eða lögum, a.m.k. ekki varðandi jafnræði aðila.

Með þeim orðum skal látið lokið að sinni þessari umfjöllun um vankanta nýsköpunarumhverfisins í ljósi reynslunnar af verkefnum Valorku. Enn er þó af nógu að taka í þessum efnum, og eftir er að fjalla um fjölmargar uppákomur af þessu tagi. Þeim verður áfram haldið til haga í framvindudagbók Valorku, en hún verður lögð til grundvallar þegar gefið verður út rit um upphaf sjávarorkutækni á Íslandi; sem jafnframt er saga fyrsta íslenska hverfilsins.
Ábendingar og athugasemdir vegna þessara pistla má senda á netfang Valorku eða hafa samband við undirritaðan.

Valdimar Össurarson, frkvstj Valorku og formaður SFH

Nú hefur Tækniþróunarsjóður ákveðið að hefja aftur stuðning við verkefni Valorku; eina íslenska verkefnið á sviði sjávarorkutækni.  TÞS mun veita þriggja ára framhaldsstyrk, gangi verkefnið að vonum.  Valorka fagnar að sjálfsögðu þessari líflínu, sem kom á síðustu stundu; verkefnið hefði að öðrum kosti drepist á þessu sumri þrátt fyrir góðan árangur.  Ekki hefur fengist nein skýring á þeirri furðulegu ráðstöfun Tækniþróunarsjóðs að stöðva styrkveitingar í eitt og hálft ár.  Sá hiksti hefur valdið verkefninu skaða, og sett forskot Íslendinga á þessu sviði í hættu.  Batnandi manni er þó best að lifa, og Valorka væntir góðs samstarfs við TÞS næstu 3 árin.

Íslenska nýsköpunarumhverfið er þó samt við sig, hvað varðar skipulags- og stefnuleysi; hagsmunapot og fordóma. Eins og allir vita, gera samkeppnissjóðir kröfu um 50% mótframlag sinna styrkveitinga.  Oft er unnt að finna leiðir til að brúa það þegar um skammtímaverkefni er að ræða.  Þegar um langtímaverkefni er að ræða, líkt og verkefni Valorku, er ekki unnt að búast við slíkum reddingum af hendi frumkvöðulsins.  Þá þurfa tveir samkeppnissjóðir að vinna saman með samfjármögnun; og er beinlínis til þess ætlast t.d. í reglum TÞS.  Verkefni Valorku heyra undir starfssvið Orkusjóðs, auk TÞS.  Orkusjóður hefur verið fjársveltur af Alþingi, og fékk t.d. einungis um 19 millj.króna til styrkveitinga á þessu ári.  Hann hefur þó á liðnum árum riðið baggamuninn sem mótframlag Valorku við TÞS.  

Á þessu ári skipaði ráðherra nýja stjórn Orkusjóðs í stað orkuráðs.  Hennar fyrstu verk lofa ekki góðu um framhaldið.  Nú brá svo við að Valorku var synjað um styrk, þrátt fyrir að hann væri augljóslega forsenda fyrir mótframlagi við styrk TÞS.  Með því stefnir Orkusjóður verkefnum Valorku aftur í bráða hættu, enda er hann eina úrræðið sem Valorka hefur um mótframlag.  Valorka fór fram á að Ragnheiður Elín atvinnuvegaráðherra beitti heimild sinni til að breyta niðurstöðu stjórnarinnar, en hún hafði ekki fyrir því að svara erindinu.  

Nýlega fór verkefnisstjóri Valorku framá að fá lista yfir styrkveitingar Orkusjóðs, og varð Jakob Björnsson framkvæmdastjóri sjóðsins góðfúslega við því.  Ekki verður annað sagt en þarna komi margt furðulegt í ljós, svo ekki sé fastar að orði kveðið.  Til úthlutunar hafði stjórnin núna 19.250.000 krónur.  Tvær styrkveitingar stinga þarna sérstaklega í augu; báðar til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.  Annarsvegar fær NMÍ 3,6 millj.kr vegna "Ljósveiðar- orkusparnaður í togveiðum" og hinsvegar 1 millj.kr vegna "vistvæns eldsneytis úr afgasi jarðhitavirkjana".  Við þetta er ýmislegt að athuga:  

Í fyrsta lagi er það í meira lagi ámælisvert að Nýsköpunarmiðstöð Íslands skuli yfirhöfuð geta sótt um styrki úr Orkusjóði og öðrum samkeppnissjóðum.  Stofnuninni er að lögum ætlað að vera frumkvöðlum til ráðgjafar og stuðnings við framgang verkefna þeirra, og m.a. veita þeim aðstoð við styrkumsóknir í samkeppnissjóði.  NMÍ vinnur augljóslega gegn þessu höfuðverkefni sínu með því að sækja sjálf um styrki í sömu sjóði og keppa þar með við skjólstæðinga sína og samstarfsaðila.  Sú samkeppni er dæmd til að verða harla ójöfn; hinum almenna frumkvöðli í óhag, þar sem NMÍ er ríkisstofnun með ómæld ríkisframlög í sínum sjóðum; með herskara sérfræðinga á sínum vegum og með ríkisrekið skrifstofulið; sérhæft í áætlanagerð og styrkumsóknum.  Auk þess er forstjóri NMÍ sjálfur andlit þessara verkefna NMÍ; með alræðisvöld á sviði nýsköpunar, þar sem í Nýsköpunarmiðstöð Íslands er engin stjórn.  Hvaða sjóður getur neitað slíkri stofnun um styrk?  Þetta leiðir hugann að því bananalýðveldi sem íslenskt nýsköpunarumhverfi óneitanlega er; veldi æviráðinna forstjóra vegur þar þyngra en þjóðarhagur.

Í öðru lagi er þessi styrkveiting Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ámælisverð í ljósi þess að Nýsköpunarmiðstöð hefur meiri möguleika á því en t.d. Valorka að leita annarra leiða eftir stuðningi við sín verkefni.  Ljósvörpuverkefni NMÍ, sem hefur yfir sér mikinn ævintýrablæ, er t.d. styrkhæft úr þróunarsjóði sjávarútvegsins: AVS, en fyrir liggur að verkefni Valorku eiga þar ekki möguleika á stuðningi.  Vítavert verður að teljast að hinu nauma styrkfé Orkusjóðs sé ráðstafað til aðila sem hafa sík úrræði og önnur verkefni, sem þó heyra meira til sviðs orkuframleiðslu, eru sett á guð og gaddinn.  Hér er um forkastanleg vinnubrögð að ræða.

Í þriðja lagi er styrkveiting Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ólögmæt, eins og að henni var staðið.  Árni Sigfússon, stjórnarformaður Orkusjóðs sem styrkinn veitti, og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem styrkinn fékk, eru bræður.  Framkvæmdastjóri Orkusjóðs staðfesti við mig í dag að Árni hefði ekki vikið sæti þegar styrkveitingin var samþykkt í istjórn Orkusjóðs.  Því stangast þessi styrkveiting á við 2. kafla stjórnsýslulaga nr 37/1993 og hlýtur að dæmast ómerk.  

Þessi hroðvirknislegu vinnubrögð stjórnar Orkusjóðs og viðkomandi ráðherra eru því miður ekki einsdæmi; miklu heldur má líta á þau sem lýsandi dæmi fyrir það óskipulag og þá óeðlilega hagsmunagæslu sem einkennir íslenskt nýsköpunarumhverfi.  Í þetta kerfi er dælt síauknu skattfé; ár frá ári, án þess að nokkur tilraun sé höfð uppi í þá átt að gera það skilvirkara, gagnsærra og heiðarlegra.  Einu samtök almennra frumkvöðla hafa ítrekað bent stjórnvöldum á það sem betur mætti fara.  M.a. sendu Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna erindi í mörgum liðum til alþingismanna og stofnana fyrir fáum árum.  Alþingi svaf áfram á verðinum, en stjórnarmenn SFH fengu hótanir og svívirðingar hinna mosavöxnu stofnanaformanna í sín ritlaun.  Áfram var skattfé mokað hugsunar- og eftirlitslaust í þennan óskapnað í nafni nýsköpunar og framfara; Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna var vandlega haldið utan við alla ákvarðanatöku í kerfinu og að auki refsað með niðurskurði á fátæklegum ríkisstyrk.

Valorka mun senda viðeigandi eftirlitsstofnunum sínar athugasemdir varðandi gerðir stjórnar Orkusjóðs.  Auk þess mun Valorka senda alþingismönnum bréf til að vekja athygli á málefnum Orkusjóðs; annarsvegar hinum skammarlega lágu framlögum (19 milljónir til allrar orkuþróunar í landinu!) og hinsvegar hinum óeðlilegu starfsháttumog hagsmunatengslum sem hér hafa verið rakin.

Valdimar Össurarson, frkvstj Valorku
og formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna.

Verkefni Valorku; einu þróunarverkefni Íslendinga á sviði sjávarorkutækni, hafa verið í biðstöðu frá haustinu 2013.  Ástæða þess er ekki sú að verkefnin hafi ekki staðið undir væntingum; þvert á móti hafa þau skilað árangri langt umfram björtustu vonir.  Þessa stöðu má alfarið rekja til þess áhugaleysis, tómlætis, og jafnvel fordóma, sem stjórnvöld hafa gagngert og meðvitað sýnt verkefninu.

Þegar verkefnisstjóri hóf vinnu að verkefninu hafði hann verið atvinnulaus eins og fleiri; enda í miðju mesta efnahagshruni sem yfir þjóðina hefur dunið.  Þá var ákveðið að láta reyna á hugmyndir sem þróast höfðu um langan tíma, varðandi virkjun hinna orkuríku hafstrauma við annes.  Eftirspurn á heimsvísu eftir grænni orku var ört vaxandi, en um leið var þróun á þessu sviði komin stutt á veg.  Gagnleg tæknilausn gæti því reynst mjög verðmæt; ekki aðeins fyrir hugvitsmanninn, heldur ekki síður íslenska þjóð.  Eftir algjört skilningsleysi í byrjun, hrökk stuðningsumhverfið í gang.  Tækniþróunarsjóður veitti frumherjastyrk og síðan þriggja ára verkefnastyrk; Orkusjóður hóf að styrkja verkefnið og smærri aðilar sýndu skilning og stuðning.  Fyrstu tegundir hverfilsins reyndust hafa algert nýnæmi og einkaleyfi vegna þeirra varð um leið fyrsta einkaleyfi á íslenskum hverfli.  Þróun var haldið áfram, með öflugu teymi sérfræðinga; fleiri tegundir þróuðust og voru prófaðar í straumkeri með góðum árangri.  Hverfillinn hlaut ýmsar viðurkenningar erlendis; t.d. gullverðlaun International Inventors Awards árið 2011 og gullverðlaun á stærstu uppfinningasýningu vestanhafs 2014.  

Sumarið 2013 hófst næsta stig þróunar; sjóprófanir stærri hverfla.  Til þeirra var valið sund í Hornafirði, þar sem aðstæður eru ákjósanlegar.  Hönnuð var og smíðuð, fyrsta og eina prófunarstöð hverfla á landinu; stór fleki með vönduðum mælibúnaði.  Neðan í hann var hverfillinn festur, þannig að unnt væri að hífa hann úr sjó til skoðunar, og flekanum lagt við stjóra á sundinu með góðri aðstoð hafnarstarfsmanna.  Einungis náðist að prófa tilraunastöðina sjálfa og undirbúa prófanir hverfilsins fyrir haustið 2013.  Reyndar var það merkur áfangi:  Ekki einungis fyrir það að þá hófust í fyrsta skipti tilraunir hérlendis til orkufarmleiðslu úr sjó, heldur ekki síður fyrir það að þá var í fyrsta skipti í heiminum prófaður hverfill sem ætlað er að vinna orku úr sjávarföllum utan straumhörðustu sunda.  

Á sama tíma rann út verkefnisstyrkur Tækniþróunarsjóðs, sem var meginundirstaða fjármögnunar verkefnisins.  Sótt var um framhaldsstyrk en honum var synjað án skynsamlegra skýringa.  TÞS gerði kröfu um söluáætlun til 20 ára, en hvert mannsbarn veit að ekki er unnt að áætla sölu á tæki sem ekki er búið að þróa; þaðan af síður ef markaður og markaðsverð hefur ekki enn náð að þróast.  Hér var því kominn upp sá galli í stuðningsumhverfinu að það getur ekki styrkt þróunarverkefni nema þau snúi að þekktri tækni og markaður sé þegar myndaður.  Þessi galli mun um aldur og ævi útiloka Íslendinga frá allri langtíma tækniþróun, eins og hér um ræðir; verði hann ekki lagfærður.  Verkefnið var því komið í frost.  Aftur var sótt um, vorið 2014; nú með 20 ára áætlun, byggðri á áætluðum forsendum.  TÞS hafnaði núna á þeim forsendum að rökstuðning vantaði, auk þess sem nú var gerð krafa um aðkomu "öflugs aðila".  Spurt var um skýringar og benti TÞS á t.d. Nýsköpunarmiðstöð Íslands.  Þó sú krafa væri fyllilega órökstudd var þetta látið eftir; og gerður samstarfssamningur við Nýsköpunarmiðstöð.  Enn var sótt um haustið 2014, og án langtímaáætlunar; enn hafnaði TÞS og heimtaði þá áætlun.  Sótt hefur verið um í fjórða skiptið og nú fékk NMÍ nær frjálsar hendur um að gera 20 ára áætlun með sínum aðferðum.  Er nú beðið niðurstöðu TÞS, sem vænta má í mai eða júní nk.  

Vegna þessarar tregðu helsta stuðningsaðila verkefnisins, hefur það verið í stöðvun í þrjú misseri.  Orkusjóður hefur að vísu hingað til reynst viljugur til stuðnings, en honum er haldið í fjársvelti af stjórnvöldum.  Þrátt fyrir tuga milljarða tekjur þjóðarinnar af orkusölu ár hvert, fær Orkusjóður einungis 30 milljónir til allrar orkuþróunar í landinu!  Jafnvel þó Valorka fái allt að tíunda hluta þess fjár þá dugir það ekki eitt sér til að þoka verkefninu áfram.   Sá styrkur hefur dugað til að halda aðstöðu og tækjum, en verkefnisstjóri hefur þurft að lifa á örorkubótum konu sinnar.  Þannig er háttað stuðningi við íslenska hugvitsmenn sem hlýða kalli stjórnvalda um framlag til atvinnu- og verðmætasköpunar!

Ríkisstjórn Íslands var spurð álits á því hvort leggja ætti niður þessi einstöku verkefni, á sama tíma og þau hefðu skilað einstökum árangri og skapað Íslandi einstaka stöðu til forystu á nýju sviði orkutækni.  Spurt var hvort Valorka ætti t.d. rétt á stuðningi af þeim hundruðum milljóna sem ráðstafað hefur verið sl 3 ár til "græna hagkerfisins". Ríkisstjórnin synjaði alfarið um stuðning af þeim lið, enda hefur hann að mestu leyti farið í menningarmál og fornleifavernd.  Hinsvegar fékk Valorka yfirlýsingu ríkisstjórnar, undirritaða af forsætisráðherra, þar sem þakkað er fyrir hið einstaka frumherjaverkefni Valorku og lýst von ríkisstjórnar um að verkefnin "muni skila þeim árangri sem að er stefnt"!  Valorka hefur gert ítrekaðar tilraunir til að spyrja hin ýmsu viðkomandi ráðuneyti eftir skýringum á þessum orðum; hvernig ríkisstjórnin hyggist tryggja það að verkefnin geti þróast áfram; en engin svör fást frá ráðuneytum.  Þau virðast ekki þurfa að svara erindum sem til þeirra er beint.  Valorka fór fram á beint framlag ríkisstjórnar til að verkefnin gætu lifað framá þann tíma að styrkur TÞS væri í höfn, en var ekki virt svars.

Valorka leitaði eftir því við Landsvirkjun að hún gerðist fjárhagslegur bakhjarl verkefnanna.  Slíkur stuðningur væri fullkomlega rökréttur og eðlilegur, þar sem Landsvirkjun tekur inn nánast allar tekjur af sölu orkuauðlinda þjóðarinnar; ekkert væri sjálfsagðara en að stutt væri við samfélagsverkefni í orkuþróun af þessu tagi af því fé.  Þessu hafnaði Landsvirkjun með þeim "rökum" að stuðningur við tækniþróun samrýmdist ekki megintilgangi fyrirtækisins.  Þetta eru falsrök, sem sést best á því að Landsvirkjun ver miklum fjárhæðum í sína eigin tækniþróun, t.d. varðandi innleiðingu vindmyllutækni.  Auk þess er hikaði Landsvirkjun ekki við að leggja fé í Sjávarorku í Stykkishólmi, í samstarfi við Rarik og fleiri.  Þetta svar Landssvirkjunar byggir því á alfarið á fordómum og meinbægni í garð Valorku.  Ámælisvert er að forstjórar Landsvirkjunar fái þannig sjálfdæmi um ráðstöfun arðs af sameiginlegum orkuauðlindum þjóðarinnar.

Verkefni Valorku hafa þá sérstöðu að hverflaþróun er í eðli sínu langtímaverkefni; ekkert sambærilegt verkefni hefur verið unnið hérlendis.  Fjárþörf slíkrar þróunar vex verulega þegar framí sækir; og ekki er unnt að ætla íslenskum samkeppnissjóðum að halda því uppi til enda.  Til að tryggja íslenska hagsmuni ætlast Valorka til þess að íslenskir samkeppnissjóðir styðji verkefnið framá það stig sem nú er hafið; að sjóprófanir verði kláraðar; einkaleyfi verði tekin á þeirri gerð sem best reynist og að staðfesting sérfræðinga liggi fyrir ("proof of concept").  Það þrep ætti á nást á næstu 2-3 árum ef verkefnið kemst aftur af stað.  Eftir það er verkefnið boðlegt alþjóðlegum stórum fjárfestum sem bera það uppi til markaðar.  Slíka fjárfesta skortir ekki; einn slíkur hefur þegar rætt við Valorku með aðkomu í huga, og er tilbúinn að halda þeim viðræðum áfram þegar fyrrnefnd atriði eru í höfn.  Hvarvetna í heiminum (nema e.t.v. á Íslandi) er litið til sjávarorku sem vænlegs fjárfestingarkosts til framtíðar.

Í lokin skal hér gerð grein fyrir því fé sem Valorka hefur þegið frá samkeppnissjóðum til þessa, til þróunar síns verkefnis.  Á rúmlega sex árum hefur Valorka fengið alls 37,8 milljónir úr íslenskum samkeppnissjóðum til sinna verkefna, og vega þar þyngst styrkir Tækniþróunarsjóðs.  Þessir styrkir hafa að mestu leyti gengið til ríkissjóðs aftur í formi skatta og húsaleigu, en eftir standa nokkur mælitæki, frumgerðir og prófunarstöð hverfla, auk mesta ávinningsins sem er möguleiki til mikillar verðmætasköpunar.  Þessa upphæð má svo bera saman við það að hverfill í þróun erlendis hefur fengið yfir 20 milljarða í þróunarfé, en er enn ekki kominn í sjóprófanir.  

Í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr; þeirrar sem gefið hefur yfirlýsingar um mikilvægi og nauðsyn verkefnisins; hefur stuðningi við verkefnið nánast verið hætt.  Einungis 3ja milljóna styrkur Orkusjóðs 2014 hefur fengist á þeim tíma. Ríkisstjórnin hefur synjað verkefninu um alla styrki af safnliðum; um stuðning frá græna hagkerfinu og um beint framlag frá ríkisstjórninni, sem þó styrkir ýmis þörf málefni önnur.  Ef stjórnvöld ákveða núna, með aðgerðaleysi sínu og áhugaleysi, að eyðileggja þetta verkefni; munu þau jafnframt bera ábyrgð á því að þetta fé glatast með öllu.  

Örlög þessa íslenska hverfils munu ráðast á næstu dögum og vikum.  Hann hefur þegar markað sín spor í íslenska orkusögu, en það er undir stjórnvöldum komið hvort tækifærin verða nýtt í þágu komandi kynslóða.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þá miklu þróun sem nú á sér stað erlendis á sviði sjávarorkutækni, má benda á grein í tímaritinu Renewable Energy World:http://www.renewableenergyworld.com/rea/news/article/2015/04/marine-energy-sector-continues-growing-worldwide-despite-economic-setbacks?cmpid=WNL-Friday-April17-2015 , sem vísar í nýútkomna ársskýrslu sjávarorkudeildar Alþjóða-orkumálastofnunarinnar (IEA-OES) fyrir árið 2014.  Nýr framtíðarmarkaður orkuvinnslu og orkutækni er í mótun.  Verkefni Valorku hafa komið Íslendingum í fremstu röð þróunar.  Ætla stjórnvöld að eyðileggja það tækifæri; svipta framtíðarkynslóðir möguleikum og lítilsvirða íslenskt hugvit?

 

sigrun umhvradherraÍ útvarpsættinum "Sprengisandur" á Bylgjunni 22.mars 2015, ræddi þáttastjórnandinn, Sigurjón M. Egilsson, við Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra og Svandísi Svavarsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra. 

Fram komu merkar yfirlýsingar að hálfu umhverfisráðherra sem ber að fagna og halda til haga:  Ráðherra sagði m.a.

"Ég skil ekki hversvegna við leggjum ekki meira fé í rannsóknir varðandi orkumál og nýja tækni.  Finnst sérkennilegt að við skulum ekki hafa þróað í heiminum almennt nýja tækni til vinnslu á orku, þannig að við getum lagt af gerð virkjunarlóna og annars sem er að skemma landið.  

Ég er spennt fyrir sjávarföllum; að við getum virkjað þá orku sem þar er að hafa, en við höfum kannski ekki ýtt nógu mikið eftir því.  Tiltölulega nýverið erum við farin að nýta vindorkuna og hún skilar meiri árangri en við bjuggumst við.  En vindorkan er ekkert alveg heilög; þar er margt sem við þurfum að skoða frá umhverfislegu sjónarmiði.  Það eru ýmsir möguleikar; ég vil gjarnan skoða fleiri möguleika".  

Sigurjón spurði hvort ráðherra teldi þurfa að verja meira fé til að kanna aðra möguleika, s.s. vindorku og sjávarföll, og ráðherra játaði því skýrt og skilmerkilega.  

Svandís nefndi sjóði sem ætlað hefði verið að styðja rannsóknir og þróun slíkra grænna orkugjafa; Loftslagssjóð og fjárveitingar græna hagkerfisins; spurði hvort ætlunin væri að endurreisa græna hagkerfið?  Sigrún umhverfisráðherra sagðist ekkert endilega vilja endurreisa það undir því nafni.  

Svo mörg voru þau orð.  Yfirlýsingar ráðherra eru vissulega ánægjulegar og þakkarverðar.  Hinsvegar eru þær e.t.v. merkilegastar fyrir þeirra hluta sakir að núverandi ríkisstjórn hefur hingað til ekki staðið við bakið á eina þróunarverkefni Íslendinga í sjávarorku, þrátt fyrir að það hafi skilað einstökum árangri; þrátt fyrir að það hafi komið Íslendingum í fremstu röð tækniþróunar á sínu sviði og þrátt fyrir jákvæðar skriflegar yfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar.  Þvert á móti hefur þessu verkefni gengið flest í móti á þessu kjörtímabili, að því er stjórnvöldum við kemur:  Styrkfé hefur verið synjað frá Tækniþróunarsjóði án skýringa; Orkusjóði hefur áfram verið haldið í fjársvelti; Landsvirkjun hefur sýnt verkefninu hroka og synjað um aðstoð á sama tíma og varið er háum upphæðum af almannafé til vindorkuþróunar; iðnaðarráðherra sýnir verkefninu sinnuleysi; umhverfisráðherra synjaði um aðstoð af fjárveitingum til græna hagkerfisins; verkefninu hefur verið varpað fram og aftur milli ráðuneyta án þess að nokkur vilji koma því til aðstoðar og nú síðast keyrði um þverbak.  Þá sótti Valorka um beinan stuðning ríkisstjórnarinnar með tilvísun annarsvegar til fyrri fordæma og hinsvegar til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sjálfrar um góðan hug og væntingar til verkefnisins. Ríkisstjórnin svaraði þessu erindi ekki skýrt en lét í það skína að engin aðstoð fengist.  Ítrekuð hefur verið beiðni um svör.  Yfirlýsingar ríkisstjórnar má lesa hér á vefsíðunni, en þær hafa hingað til reynst orðin tóm.  Fyrsti íslenski hverfillinn og fyrsta tilraun Íslendinga til nýtingar sjávarfalla er nú að deyja drottni sínum vegna sinnuleysis stjórnvalda.

Það kemur því ánægjulega á óvart að verkefnið skuli nú hafa eignast bandamann í umhverfisráðherra.  Með þessi ummæli ráðherra að veganesti mun Valorka nú þegar óska eftir fundi með ráðherra og inna hana eftir því hvernig megi bjarga verkefninum úr þeirri stöðvun sem þau hafa verið í að undanförnu vegna skorts á stuðningi stjórnvalda.  Einnig munu alþingismenn allir verða spurðir um sín viðhorf í þessu efni og send verða erindi í viðeigandi nefndir þingsins.

Subcategories