Enn á ný vakna spurningar um stefnu og vilja íslenskra stjórnvalda: enn á ný er eina íslenska verkefnið í þróun sjávarorkutækni sett fram á hengiflug óvissunnar vegna stefnuleysis stjórnvalda í málefnum orku og nýsköpunar.

Þegar litið er um öxl við áramótin 2013-2014 verður ekki annað sagt en verkefni Valorku hafi fyllilega staðið undir þeim væntingum sem unnt er að gera til slíks verkefnis; og í flestu tilliti farið langt fram úr áætlunum. Lítum á þessa punkta:

- Verkefnið er hið eina á Íslandi í þróun Íslenskrar sjávarorkutækni.
- Verkefnið hefur skilað fyrstu íslensku einkaleyfum í sjávarorkutækni
- Verkefnið var valið besta uppfinning heims árið 2011; eina íslenska uppfinningin sem náð hefur þeim árangri
- Valorka hefur ekki þróað eina, heldur fimm mismunandi gerðir sjávarfallahverfla og vinnur að þeirri sjöttu
- Valorka vinnur nú að sjávarorkuvirkjun sem nýtir bæði ölduorku og lághraða sjávarfallaorku; hinni fyrstu þeirar tegundar
- Valorka hóf sjóprófanir sjávarfallahverfla í Hornafirði í ágúst 2013; fyrstu sjóprófanir íslenskra sjávarfallahverfla
- Enginn hverfill til nýtingar hægra sjávarfallastrauma er kominn lengra í þróun í veröldinni en hverflar Valorku
- Hægir fallastraumar (annesjastraumar) eru algengasta form nýtanlegrar sjávarfallaorku í heiminum og hérlendis
- Sjávarorka er að öllum líkindum umfangsmesta og hreinasta orkulind Íslands, sé miðað við erlendar rannsóknir
- Íslendingar hafa nú nýtt meira en helming nýtanlegrar vatnsfalla- og jarhitaorku sinnar og orkuskortur nálgast að óbreyttu
- Ekkert bólar á markmiðssetningu Íslenskra stjórnvalda í orkumálum, eða raunhæfri orkustefnu
- Háum fjárhæðum af almannafé er varið í vindorkutilraunir hérlendis, sem þegar hafa verið gerðar erlendis án hagkvæmni
- Háum fjárhæðum er varið í undirbúning sæstrengs frá Íslandi þó hér sé engin umframorka í boði og framkvæmdin glæfraleg
- Valorku var synjað um áframhaldandi styrk úr Tækniþróunarsjóði við síðustu úthlutun og verkefninu þar með stefnt í tvísýnu.

Hér er þó aðeins lítið upp talið af þeim staðreyndum sem við blasa. Nánari lýsingar má finna t.d. í skýrslum Valorku hér annarsstaðar á síðunni.

Pólitíkin er skondin tík og óútreiknanleg. Því til staðfestu má benda á að ekki er ár liðið frá því að allir flokkar á Alþingi voru sammála um að leggja fram vandaða stefnumótun á Alþingi um málefni stærstu og mikilvægustu orkulindar landsins; sjávarfallaorku. Tillögu sem fól í sér að hefja skyldi fyrstu rannsóknir á þessari miklu auðlind og meta kosti til nýtingar á henni. Að tillögunni stóðu allir flokkar og hún var borin fram af þriðjungi þingheims af miklum myndarskap, undir forystu Skúla Helgasonar. En athygli þingmanna líkist oft laufi í vindi, og einhver gustur lék um það lauf um síðustu kosningar.

Ekki var ein báran stök, heldur gripu stjórnvöld einnig til þess þjóðráðs í þrengingum ríkissjóðs að skera niður fé til þróunar og rannsókna. Pólitíkusar féllu því í þá gryfju sem hagsýnir bændur á Íslandi hafa reynt að forðast í hallærum sem yfir þjóðina hafa gengið: Þeir skáru niður mjólkurkúna og settu í pott fremur en að nýta afurðir hennar til uppbyggingar.

Þetta tvennt: stefnuleysi í málefnum sjávarorku og óvissa um fjárveitingar til þróunar, hefur nú leitt til þess að Valorku var synjað um áframhaldandi stuðning úr Tækniþróunarsjóði. Öðrum ástæðum er ekki til að dreifa, sé litið til þeirra góðu einkunna sem umsóknin fékk í mati; til þess árangurs sem verkefnið hefur þegar skilað; til þess að Valorka var nýlega valið eitt af vænlegustu sprotafyrirtækjum landsins og til þess að Íslendingar hafa ekkert vænlegra tækifæri en þetta til að komast í forystu á heimsvísu í tækniþróun eftirsóttrar afurðar.

Leitað verður eftir skýringum og afstöðu stjórnvalda á nýju ári. Valorka mun leita leiða til að halda þróunarstarfi sínu áfram og væntir þess að skilyrði verði tryggð til að það verði áfram á íslensku forræði.

 

Valorka óskar samstarfsfólki sínu gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, og þakkar fyrir ómetanlega aðstoð á árinu sem er að líða.

Bestu kveðjur
Valdimar Össurarson