Ríkisstjórn Íslands hefur gefið út yfirlýsingu um mikilvægi verkefna Valorku á sviði sjávarorkunýtingar. Yfirlýsingin felur jafnframt í sér viðurkenningu á því frumkvöðlastarfi sem unnið hefur verið að hálfu Valorku og þeim einstöku áföngum sem náðst hafa. Hún er undirrituð af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra 16. júlí 2014.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
"Ríkisstjórnin er jákvæð gagnvart starfsemi Valorku ehf á sviði sjávarorkunýtingar. Sjávarorka við strendur Íslands er endurnýjanleg og hrein orkulind sem rannsökuð hefur verið að takmörkuðu leyti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands eru sett fram stefnumið um eflingu nýsköpunar og grænnar starfsemi og að Ísland verði í fararbroddi á sviði sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra auðlinda. Fellur nýting sjávarorku vel að þessum stefnumiðum.
Valorka ehf hefur sýnt einstakt framtak með sínum verkefnum á sviði sjávarorkunýtingar og sýnt hverju hugvit getur áorkað. Þannig hefur félagið tryggt fyrsta einkaleyfi íslensks hverfils, hafið prófanir á sjávarfallahverflum hérlendis, auk þess sem forsvarsmaður félagsins hlaut gullverðlaun Alþjóðasamtaka hugvitsmannafélaga árið 2011 og viðurkenningu í Bandaríkjunum nýlega. Þá hefur félagið komið á fót gagnasafni á sviði sjávarorku og bent á þörf þess að rannsóknir verði hafnar á nýtingu sjávarorku við strendur landsins.
Ríkisstjórnin fagnar árangri Valorku ehf og telur mikilvægt að greind séu sóknarfæri sem kunna að liggja í nýtingu sjávarorku og þar með tækifæri til verðmætasköpunar. Í samræmi við það ályktaði Alþingi þann 16. maí sl að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar. Jafnframt er ætlunin að lögð verði drög að uppbyggingu gagnagrunns um nýtingu sjávarorku.
Ríkisstjórnin fagnar frumkvæði Valorku ehf og væntir þess að frekari skref félagsins á þessu sviði skili þeim árangri sem að er stefnt og skapi ný tækifæri til verðmætasköpunar."
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Valorka ehf fagnar þessari yfirlýsingu, sem í raun er fyrsta ákveðna stefnuyfirlýsing stjórnvalda varðandi hinar gríðarlegu sjávarorkuauðlindir þjóðarinnar og fyrsta beina viðurkenning stjórnvalda á brautryðjandastarfi Valorku á því sviði.
Enn er þó langur vegur frá því að stjórnkerfið allt hafi áttað sig á þessu mikilvægi og starfi í samræmi við þessa stefnumótun ríkisstjórnarinnar. Því til vitnis er fjárhagsleg staða verkefna Valorku núna. Stuðningsumhverfi nýsköpunar er að mörgu leyti óburðugt og brotakennt. Tækniþróunarsjóður, sem um nokkurra ára skeið var burðarás verkefna Valorku, hefur í tvígang synjað verkefnunum um stuðning og í bæði skiptin vegna þess að fagráð virðist ekki hafa þekkingu til að meta verkefni af þessu tagi. Enn meira þekkingarleysi bjó að baki synjunar "Átaks til atvinnusköpunar". Þessar synjanir hafa orðið til þess að ekki var unnt að halda áætlun með sjóprófanir hverfilsins á yfirstandandi sumri. Í staðinn hefur verið unnið að kostnaðarminni þáttum, svo sem þróun ölduhróksins sem er tæki sem nýtir ölduhreyfingu til að auka afl og hagkvæmni hverfilsins.
Orkusjóður er núna hinn eini í stuðningsumhverfi íslenskrar nýsköpunar sem sýnt hefur verkefninu þá tryggð og langtímastuðning sem þróun af þessu tagi krefst. Sjóðurinn veitti nýlega verkefni Valorku þriggja milljóna króna styrk til áframhaldandi þróunar. Þó sú fjárhæð dugi ekki ein og sér til að halda óbreyttri áætlun þá nægir hún vonandi til að halda lífi í verkefninu þar til aðrir aðilar kerfisins ná að átta sig. Þetta er allhá fjárhæð miðað við heildarstyrki Orkusjóðs og er skilningur hans mjög þakkarverður.
Valorka þakkar ríkisstjórn Íslands fyrir þessa mikilvægu viðurkenningu, og þá framsýni sem í henni felst. Valorka mun fyrir sitt leiti kappkosta að standa undir því trausti og þeim velvilja sem þarna kemur fram og væntir þess að aðrir hlutar stuðningsumhverfisins, svo og aðrir ábyrgir aðilar, leggi sitt að mörkum til að tryggja þjóðinni réttmætan ávinning og verðmætasköpun af auðlindanýtingu og forystu íslenskrar tækniþróunar á þessu sviði.
The Icelandic government has issued a statement regarding Valorka´s projects. This is its first statement in the field of ocean energy, underlining its importancce and the importance of Valorka´s enterprize. Valorka appreciates this statement; it is great encouracement for Valorka and also to present and potential supporters of the projects.
The english version of the statement may be seen here.