Tímaritið Frjáls verslun hefur valið Valorku ehf sem eitt af 100 áhugaverðustu sprotafyrirtækjum Íslands árið 2013. Valorka lendir þar í 49. sæti. Tímaritið er að þessu sinni (7.tbl. okt. 2013) lagt undir vangaveltur um það hvaða tækifæri Ísland hefur núna til að treysta undirstöður veðmætasköpunar varanlega og til framtíðar. Þar eru viðtöl við fjölmarga forkólfa atvinnulífsins; þá sem eru í ráðandi stöðu; þá sem náð hafa árangri og helstu fjárfesta hérlendis. Dr Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður nýsköpunar og frumkvöðlakennslu í MBA-námi í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn valdi lista Frjálsrar verslunar yfir þessi 100 áhugaverðustu sprotafyrirtæki, líkt og hann hefur gert undanfarin ár. Um Valorku segir stutt og laggott; „Virkjun sjávarfalla“. Lýsandi fyrir árangur Valorku og það að engin önnur þróun er á þessu sviði hérlendis. Í yfirskrift listans segir m.a.: „Listinn yfir áhugaverð sprotafyrirtæki hefur þann tilgang að sýna þá fjölbreytni og orku sem falin er í frumkvæði og nýsköpun Íslendinga. Frumkvöðlar vinna stóra sigra á hverjum einasta degi á Íslandi í mótbyr erfiðra aðstæðna. Það var hinsvegar hugmyndaflug og frumkvæði eins og það sem einkennir öll þau áhugaverðu sprotafyrirtæki sem hafa orðið til á Íslandi sem byggði upp íslenskt atvinnulíf og hefur að miklu leyti skapað þau lífsskilyrði sem hér eru... Á Íslandi er hægt að byggja upp öflugt og fjölskrúðugt atvinnulíf sem skapar verðmæti og lífsgæði... Hundrað áhugaverðir sprotar munu hjálpa til við að varða veginn til framtíðar“. Eyþór Ívar og Frjáls verslun eiga heiður skilinn fyrir skilning sinn og framsýni.