Nú hefur Tækniþróunarsjóður ákveðið að hefja aftur stuðning við verkefni Valorku; eina íslenska verkefnið á sviði sjávarorkutækni.  TÞS mun veita þriggja ára framhaldsstyrk, gangi verkefnið að vonum.  Valorka fagnar að sjálfsögðu þessari líflínu, sem kom á síðustu stundu; verkefnið hefði að öðrum kosti drepist á þessu sumri þrátt fyrir góðan árangur.  Ekki hefur fengist nein skýring á þeirri furðulegu ráðstöfun Tækniþróunarsjóðs að stöðva styrkveitingar í eitt og hálft ár.  Sá hiksti hefur valdið verkefninu skaða, og sett forskot Íslendinga á þessu sviði í hættu.  Batnandi manni er þó best að lifa, og Valorka væntir góðs samstarfs við TÞS næstu 3 árin.

Íslenska nýsköpunarumhverfið er þó samt við sig, hvað varðar skipulags- og stefnuleysi; hagsmunapot og fordóma. Eins og allir vita, gera samkeppnissjóðir kröfu um 50% mótframlag sinna styrkveitinga.  Oft er unnt að finna leiðir til að brúa það þegar um skammtímaverkefni er að ræða.  Þegar um langtímaverkefni er að ræða, líkt og verkefni Valorku, er ekki unnt að búast við slíkum reddingum af hendi frumkvöðulsins.  Þá þurfa tveir samkeppnissjóðir að vinna saman með samfjármögnun; og er beinlínis til þess ætlast t.d. í reglum TÞS.  Verkefni Valorku heyra undir starfssvið Orkusjóðs, auk TÞS.  Orkusjóður hefur verið fjársveltur af Alþingi, og fékk t.d. einungis um 19 millj.króna til styrkveitinga á þessu ári.  Hann hefur þó á liðnum árum riðið baggamuninn sem mótframlag Valorku við TÞS.  

Á þessu ári skipaði ráðherra nýja stjórn Orkusjóðs í stað orkuráðs.  Hennar fyrstu verk lofa ekki góðu um framhaldið.  Nú brá svo við að Valorku var synjað um styrk, þrátt fyrir að hann væri augljóslega forsenda fyrir mótframlagi við styrk TÞS.  Með því stefnir Orkusjóður verkefnum Valorku aftur í bráða hættu, enda er hann eina úrræðið sem Valorka hefur um mótframlag.  Valorka fór fram á að Ragnheiður Elín atvinnuvegaráðherra beitti heimild sinni til að breyta niðurstöðu stjórnarinnar, en hún hafði ekki fyrir því að svara erindinu.  

Nýlega fór verkefnisstjóri Valorku framá að fá lista yfir styrkveitingar Orkusjóðs, og varð Jakob Björnsson framkvæmdastjóri sjóðsins góðfúslega við því.  Ekki verður annað sagt en þarna komi margt furðulegt í ljós, svo ekki sé fastar að orði kveðið.  Til úthlutunar hafði stjórnin núna 19.250.000 krónur.  Tvær styrkveitingar stinga þarna sérstaklega í augu; báðar til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.  Annarsvegar fær NMÍ 3,6 millj.kr vegna "Ljósveiðar- orkusparnaður í togveiðum" og hinsvegar 1 millj.kr vegna "vistvæns eldsneytis úr afgasi jarðhitavirkjana".  Við þetta er ýmislegt að athuga:  

Í fyrsta lagi er það í meira lagi ámælisvert að Nýsköpunarmiðstöð Íslands skuli yfirhöfuð geta sótt um styrki úr Orkusjóði og öðrum samkeppnissjóðum.  Stofnuninni er að lögum ætlað að vera frumkvöðlum til ráðgjafar og stuðnings við framgang verkefna þeirra, og m.a. veita þeim aðstoð við styrkumsóknir í samkeppnissjóði.  NMÍ vinnur augljóslega gegn þessu höfuðverkefni sínu með því að sækja sjálf um styrki í sömu sjóði og keppa þar með við skjólstæðinga sína og samstarfsaðila.  Sú samkeppni er dæmd til að verða harla ójöfn; hinum almenna frumkvöðli í óhag, þar sem NMÍ er ríkisstofnun með ómæld ríkisframlög í sínum sjóðum; með herskara sérfræðinga á sínum vegum og með ríkisrekið skrifstofulið; sérhæft í áætlanagerð og styrkumsóknum.  Auk þess er forstjóri NMÍ sjálfur andlit þessara verkefna NMÍ; með alræðisvöld á sviði nýsköpunar, þar sem í Nýsköpunarmiðstöð Íslands er engin stjórn.  Hvaða sjóður getur neitað slíkri stofnun um styrk?  Þetta leiðir hugann að því bananalýðveldi sem íslenskt nýsköpunarumhverfi óneitanlega er; veldi æviráðinna forstjóra vegur þar þyngra en þjóðarhagur.

Í öðru lagi er þessi styrkveiting Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ámælisverð í ljósi þess að Nýsköpunarmiðstöð hefur meiri möguleika á því en t.d. Valorka að leita annarra leiða eftir stuðningi við sín verkefni.  Ljósvörpuverkefni NMÍ, sem hefur yfir sér mikinn ævintýrablæ, er t.d. styrkhæft úr þróunarsjóði sjávarútvegsins: AVS, en fyrir liggur að verkefni Valorku eiga þar ekki möguleika á stuðningi.  Vítavert verður að teljast að hinu nauma styrkfé Orkusjóðs sé ráðstafað til aðila sem hafa sík úrræði og önnur verkefni, sem þó heyra meira til sviðs orkuframleiðslu, eru sett á guð og gaddinn.  Hér er um forkastanleg vinnubrögð að ræða.

Í þriðja lagi er styrkveiting Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ólögmæt, eins og að henni var staðið.  Árni Sigfússon, stjórnarformaður Orkusjóðs sem styrkinn veitti, og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem styrkinn fékk, eru bræður.  Framkvæmdastjóri Orkusjóðs staðfesti við mig í dag að Árni hefði ekki vikið sæti þegar styrkveitingin var samþykkt í istjórn Orkusjóðs.  Því stangast þessi styrkveiting á við 2. kafla stjórnsýslulaga nr 37/1993 og hlýtur að dæmast ómerk.  

Þessi hroðvirknislegu vinnubrögð stjórnar Orkusjóðs og viðkomandi ráðherra eru því miður ekki einsdæmi; miklu heldur má líta á þau sem lýsandi dæmi fyrir það óskipulag og þá óeðlilega hagsmunagæslu sem einkennir íslenskt nýsköpunarumhverfi.  Í þetta kerfi er dælt síauknu skattfé; ár frá ári, án þess að nokkur tilraun sé höfð uppi í þá átt að gera það skilvirkara, gagnsærra og heiðarlegra.  Einu samtök almennra frumkvöðla hafa ítrekað bent stjórnvöldum á það sem betur mætti fara.  M.a. sendu Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna erindi í mörgum liðum til alþingismanna og stofnana fyrir fáum árum.  Alþingi svaf áfram á verðinum, en stjórnarmenn SFH fengu hótanir og svívirðingar hinna mosavöxnu stofnanaformanna í sín ritlaun.  Áfram var skattfé mokað hugsunar- og eftirlitslaust í þennan óskapnað í nafni nýsköpunar og framfara; Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna var vandlega haldið utan við alla ákvarðanatöku í kerfinu og að auki refsað með niðurskurði á fátæklegum ríkisstyrk.

Valorka mun senda viðeigandi eftirlitsstofnunum sínar athugasemdir varðandi gerðir stjórnar Orkusjóðs.  Auk þess mun Valorka senda alþingismönnum bréf til að vekja athygli á málefnum Orkusjóðs; annarsvegar hinum skammarlega lágu framlögum (19 milljónir til allrar orkuþróunar í landinu!) og hinsvegar hinum óeðlilegu starfsháttumog hagsmunatengslum sem hér hafa verið rakin.

Valdimar Össurarson, frkvstj Valorku
og formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna.