forsetiVerkefnisstjóri Valorku átti fund á Bessastöðum með forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, hinn 27. janúar sl og kynnti fyrir honum verkefni Valorku ehf.  Forseti hafði heyrt af verkefnum Valorku og vildi heyra meira um þau, en sem kunnugt er þá hefur hann beitt sér mjög á alþjóðavísu í málefnum umhverfismála og hreinnar orku.  Nýtur hann mikillar alþjóðlegrar virðingar fyrir þau störf.  Forseti var þá nýkominn heim af heimsþingi hreinnar orku sem haldið var í Abu Dhabi, en þar var hann m.a. í forsæti dómnefndar fyrir hin virtu Zayed orkuverðlaun.

Hr. Ólafur Ragnar var mjög áhugasamur um verkefni Valorku og spurði margs eftir kynningu verkefnisstjóra.  Honum finnst mikið hafa áunnist á stuttum tíma, með því að hverfillinn er nú í fremstu röð tækni til virkjunar hægra annesjastrauma, og eini hverfillinn hérlendis sem hlotið hefur einkaleyfi.  Verkefnisstjóri spurði forseta einnig um hans viðhorf, í ljósi hinnar víðtæku reynslu og starfa á hinu alþjóðlega sviði.  Forseti telur að verkefnið ætti að vera hægt að kynna erlendis og fá að því öfluga samstarfsaðila og fjármögnun, en mikilvægt sé að undirbúningur hér heima sé eins vandaður og best verður á kosið.  Hann óskaði eftir að fá að fylgjast með framgangi verkefnisins, og sagðist fylgjast með því af áhuga.

Valorku er það heiður að njóta velvildar forseta, og það er Íslandi mikið happ að hafa forseta sem nýtur svo víðtækrar virðingar á sviði umhverfisverndar og hreinnar orku.