(mynd prófun í straumkeri)
Lokið er 1. áfanga þróunar Valorka hverflanna, og hefur áfangaskýrslu verið skilað til styrktaraðila. Þessi áfangi fólst einkum í prófun líkana í keri, auk annarra frumþátta, og allar niðurstöður lofa mjög góðu enn sem komið er. Þróun Valorka hverflanna hófst árið 2008, en að baki lá áratuga hugmynda vinna verkfnisstjóra. Af hverflunum hafa nú þróast fjórar skilgreindar megingerðir, auk fjölda afbrigða af þeim. Allar voru prófaðar í straumkeri, í formi 50 cm líkans. Niðurstöður leiddu í ljós einkenni hvers um sig, en sú sem hafði mesta seiglu við aukið álag og minnkaðan straumhraða er nýjasta gerðin; nefnd V-4. Frekari prófanir eru þó framundan, og e.t.v. verða gerðar þær breytingar á öðrum gerðum að þær eigi eftir að skara framúr þessari.
Prófanirnar fóru fram í straumkeri Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en það er staðsett í Grindvík. Fullyrða má að þetta er besta og hentugasta straumker á landinu til þessara nota, en það er hannað af Lárusi Pálmasyni, kennara við FSS og Fisktækniskóla Suðurnesja. Vinnuaðstaða við þróunarstarfið hefur verið í frumkvöðlastrinu Eldey að Ásbrú, en hönnunar- og skrifstofuaðstaða er að heimili Valorku; Skógarbraut 1104, Ásbrú. Vinna hefur að mestu hvílt á herðum Valdimars Össurarsonar; uppfinningamanns hverfilsins og verkefnisstjóra. Ýmsir hafa þó komið að samstarfi og lagt hönd á plóginn með einum og öðrum hætti. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafði milligöngu með útvegun húsnæðis og veitti ráð í byrjun. Keilir hafði milligöngu um aðkomu sérfræðings að verkefninu; Halldórs Pálssonar Ph.D. dósents í vélaverkfræði við H.Í, sem verið hefur ómetanleg kjölfesta í faglegri ráðgjöf og mati. Jóhann Björgvinsson vélaverkfræðingur sá um hönnunar -og teiknivinnu í byrjun, en síðar kom Aðalsteinn Erlendsson að því verki. Hafa þeir báðir lagt til mikla vinnu og verið áhugasamir um verkefnið. Árnason Faktor hefur veitt góða ráðgjöf varðandi einkaleyfarétt og –umsóknir. Fleiri hafa lagt hönd á plóg, s.s. Gísli Gíslason og Ólöf Rós Káradóttir hjá Verkís sem gerðu frummat á hverflinum áður en prófanir hófust.
Styrkir til þessa fyrsta áfanga komu einkum úr tveimur stöðum: Annarsvegar frá Orkusjóði og hinsvegar frumherjastyrkur Tækniþróunarsjóðs Rannís. Einnig komu tveir litlir styrkir frá Nýsköpunarmiðstöð í byrjun. Styrkir þessir hafa reynst mikilvæg forsenda fyrir verkefninu. Skilningur á þróunarstarfi á þessu sviði hefur verið að opnast frá því verkefnið hófst, en í byrjun var öllum umsóknum synjað með hinum undarlegustu rökum. Lítil þekking hérlendis í þessum málaflokki hefur reynst verkefninu þungur baggi. Hafa þarf í huga að hér er ekki einungis verið að þróa eitt tæki til ákveðinna nota, heldur er einnig verið að ryðja brautina í mjög víðtækum og mikilvægum málaflokki: Grunnur auðlindanýtingr sem skiptir síðari kynslóðir Íslendinga ekki minna máli en nýting vatnsfalla- og jarðhitaorku skiptir nútíma Íslendinga.
Valorka ehf þakkar öllum þeim sem komið hafa að þróun Valorka hverflanna i þessum fyrsta áfanga og átt þátt í þeim góða árangri sem nú liggur fyrir.