voStofnandi og framkvæmdastjóri Valorku ehf, Valdimar Össurarson, hefur verið kjörinn formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna.  Valdimar var einn hvatamanna og stofnenda SFH þegar það var stofnað á grunni Landssambands hugvitsmanna, og hefur um tíma setið í stjórn beggja félaganna.  SFH hafa verið byggð hratt upp frá stofnun og m.a. hefur félagatalan rúmlega tvöfaldast frá breytingunni.  Samtökin eru eini almenni og opni félagsskapur allra frumkvöðla á landinu.  Eitt meginverkefni þeirra, auk innra starfs í þágu félagsmanna, er að vera leiðandi í umbótum á þeim frumskógi sem stuðningsumhverfi frumkvöðla er nú, og veita leiðsögn og hvatningu til eflingar frumkvöðlastarfi.  Vefsíða SFH er www.nyhugmynd.com, og hefur Valdimar samið megnið af texta hennar.

Valdimar er einnig stofnandi og verkefnisstjóri ÁTAKs ( Áhugasamtaka um tæknimiðstöð fyrir almenning og kennslu), sem starfað hafa um nær 8 ára skeið.  Tilgangur þeirra er að berjast fyrir og undirbúa stofnun íslenskrar tæknimiðstöðvar (e: science center).  Tæknimiðstöðvar eru engar á Íslandi, en í öllum öðrum siðmenntuðum ríkjum heims þykja þær ómissandi tæki til eflingar áhuga á nýsköpun ; til skilnings á umhverfinu og sem stuðningur við raungreinakennslu í skólum, auk annarra hlutverka.  Verkefnið hófst sem liður í ferðaþjónustu þegar Valdimar stofnaði Ferðamálafélag Flóamanna og vann sem rekstrarstjóri félagsheimilis, en hefur síðan verið unnið á landsgrunni; óstaðsett, og öðlast mikinn stuðning skóla, kennara, verkalýðsfélaga, menntastofnana, nýsköpunarsamtaka og almennings.  Verkefnið hefur notið lítilsháttar framlaga á fjárlögum Alþingis og verið unnið í samráði við stjórnvöld.  Mikið verk er að baki við upplýsingasöfnun og kynningu og öflun samstarfs við erlendar tæknimiðstöðvar.  ÁTAK fékk Kennaraháskóla Íslands til að vinna skýrslu um þörf og notagildi tæknimiðstöðvar og niðurstöður voru afdráttarlausar; „íslensk tæknimiðstöð er tímbabær nauðsyn“.  Á sama veg eru ályktanir fjölda skóla, landssambanda, nýsköpunarfélaga og fleiri aðila.  Ekki er því lengur unnt að efast um þörfina.

Undirbúningshópur Sóknaráætlunar 20/20 var einhuga um að setja tæknimiðstöð sem eitt mikilvægra markmiða.  Verður að vænta þess að stjórnvöld fari að vakna af sínum svefni í þessum efnum, enda er tæknimiðstöð mikilvægur liður í eflingu nýsköpunar og frumkvöðlahugsunar.  Fátt er Íslandi nauðsynlegra í endurreisn efnahagslífsins.  Vefsíða ÁTAKs er www.tsi.is og hefur Valdimar séð um hana frá upphafi.

Þá situr Valdimar í stjórn Félags íslenskra kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt (FÍKNF).  Nafnið er lýsandi fyrir samtökin, en þau vinna að eflingu þessara greina í skólastarfinu.  Seta Valdimars í stjórn tengist einkum starfi hans við undirúning tæknimiðstöðvar, sem er grundvöllur umbóta á þessu sviði, en einnig hefur hann lengi starfað sem kennari í þessum greinum.