Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur og fræðimaður heimsótti Valorku seinnipart oktobers ásamt kvkmyndagerðarmanninum Valdimar Leifssyni.  Erindið var að taka upp efni til sýningar í vísindaþáttum Sjónvarpsins, sem Ari Trausti hefur séð um síðastliðna vetur við miklar vinsældir.  Í upphafi var ætlunin að taka einnig upp prófanirnar í Hornafirði, en það náðist ekki á þeim stutta tíma sem þær stóðu sl haust.  Valdimar kynnti þróunarsögu hverfilsins í stuttu máli; stöðu verkefnisins og hvað líklega væri framundan.  Einnig voru hugleiddir þeir möguleikar sem nú eru að opnast á sviði sjávarorku, ekki síst með tiilkomu þessarar íslensku tækni.  Ari Trausti var áhugasamur um verkefnið og margs var spurt á báða bóga, enda hafa fáir betri yfirsýn í heimi íslenskra vísinda en Ari Trausti.

Þessir þættir Ara Trausta og Valdimars fyrir Sjónvarpið, og með aðkomu fjölmargra aðila á sviði nýsnköpunar, eru lofsvert framtak.  Gjarnan mætti vera meira um það að fjölmiðlar fjölluðu um hugvit og nýsköpun, þó ekki væri nema til að hvetja til framtaks í þeim efnum.

Bæjarráð Hornafjarðar heimsótti vinnustofu Valorku 28. ágúst sl og hélt fund með verkefnisstjóra.  Í þessum góða gestahópi voru Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri; Ásgerður K. Gylfadóttir, forseti bæjarstjórnar og bæjarstjórnarmennirnir Reynir Arnarson og Valdimar Einarsson.  Valdimar kynnti Hornfirðingum þróunarsögu hverfilsins og sýndi ýmislegt sem starfseminni viðkemur.  Sest var að fundi og málefni Valorku og sjávarorku rædd vítt og breitt.  Hornfirðingar eru mjög áhugasamir um prófanir Valorku og vilja greiða götu þeirra.  Áfram verður þar í boði aðstoð og aðstaða.  Atvinnuþróunarsjóður bæjarins veitti verkefninu styrk á þessu ári og möguleiki er á frekari stuðningi.  Velvilji Hornfirðinga er Valorku mikils virði, enda er þarna einstök aðstaða til prófana.  Vonast er til að verkefni Valorku muni reynast Hornfirðingum mikilvæg til framtíðar litið, og þá í ýmsum skilningi.  Nú þegar vekja þessar einstöku tilraunir athygli á staðnum.  Í öðru lagi er líklegt, ef rétt er á málum haldið, að á Hornafirði geti orðið alþjóðleg prófunarmiðstöð á sviði sjávarorku.  Nú þegar eru komnar af stað athuganir í því efni í samvinnu við erlenda aðila.  Í þriðja lagi liggja gríðarlegir framtíðarhagsmunir Hornfirðinga í því að eiga möguleika á nýtingu hinna miklu orkuauðlinda sjávarorku sem á svæðinu eru.

 

 

Um svipað leyti og þessi fundur var haldinn varð ljóst að Hjalti Þór myndi láta af starfi bæjarstjóra að eigin ósk og fara til starfa á öðrum vettvangi.  Valorka ehf vill því hér með þakka Hjalta Þór fyrir einstaklega gott samstarf og aðstoð við verkefnið.  Hann er einn þeirra fáu sem strax í upphafi sýndu því mikinn áhuga, skilning og velvilja og var ávallt boðinn og búinn að leita leiða til að verða að liði.  Vafasamt er að verkefni Valorku væri enn starfandi í dag ef ekki væri fyrir slíka hvatningu örfárra eldhuga.  Um leið og eftirsjá er að Hjalta Þór af stóli bæjarstjóra er það mikið fagnaðarefni að bæjarstjórn Hornafjarðar skuli sýna staðfastan vilja til að halda áfram þeirri einstöku samvinnu sem hafin er milli frumkvöðuls á sviði sjávarorku og framsýnasta sveitarfélags landsins í orkumálum.

Prófun hverfilsins í Mikleyjarál í Hornafirði var haldið áfram 13. ágúst 2013.  Nú var búið að styrkja blöðin sem létu undan álaginu áður.  Einnig var bættur frágangur á blaðstoppurum og sérstök tölva var nú tengd straumhraðamælinum, sem tryggði betur  gagnavistun og samtímaálestur, en önnur talva var tengd átaks- og snúningshraðamæli.  Prófanir voru gerðar af undirrituðum með aðstoð Jóhanns Eyvindssonar eins og fyrri en heimamenn komu að þeim á ýmsan hátt.  Guðni vörubílstjóri kom flekanum í höfnina þar sem blöðum og öðrum búnaði var komið fyrir.  Drekar voru þyngdir og lóðsbáturinn undir stjórn Torfa og Brynjólfs dró lítillega í þá til festingar áður en flekinn var bundinn í.  Flekanum var snúið þannig að blöð opnuðust á efri helmingi hverfilsins, en útstraumur var að byrja í Mikleyjarál.  Blöðin hegðuðu sér í alla staði eins og við var búist í þetta skiptið og góðar mælingar fengust þegar straumurinn jókst. 

Þegar skammt var til mesta straumþunga gerðist það sama og í fyrstu prófun, að flekinn tók að draga drekann straummegin.  Hinum var samstundis sleppt með bauju til að forða því að festin flæktist fyrir.  Augljóst er að enn þarf að bæta botnfestu, enda tekur hverfillinn mikið á sig þegar hann er niðri.  Þegar verið var að hífa hverfilinn upp bilaði vindubúnaðurinn.  Það kom þó ekki að sök þar sem skýrar mæliniðurstöður voru komnar í tölvuvistun, og var því ákveðið að kalla eftir lóðsinum og haldið að bryggju.  Hafnarverðir tóku síðan að sér að sækja drekana og koma þeim til eigenda.  Ýmis atvik gerðust sem ekki voru fyrirséð.  Meðal þess má nefna má að maður lenti í sjónum en bjargaðist fyrir eigið snarræði og annarra.  Selur kom þétt upp að flekanum og virti fyrir sér það sem líklega verður nýtt og algengt leiktæki á hans slóðum innan tíðar.  Flekanum var aftur komið fyrir í geymslu hjá Hornafjarðarbæ, en annar búnaður var settur í flutningabílinn og tekinn með að Ásbrú. 

Fyrir liggur að yfirfara niðurstöður mælinga og er ekki tímabært að greina frá þeim á þessari stundu.  Flest virðist það vera í samræmi við það sem við var að búast en eftir er að reikna inn áhrif ýmissa þátta, s.s. innra viðnáms í drifbúnaði o.fl.
Bestu þakkir til þeirra sem komu að þessum prófunum á einn eða annan hátt, svo og til þeirra fjölmörgu sem sýnt hafa þeim áhuga og hvatningu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar.

Valdimar Össurarson

Fyrstu sjóprófanir hverfilsins tókust framar öllum vonum í langflestum atriðum.  Reyndar urðu tvö óvænt atvik til þess að mælingar kláruðust ekki í þessari fyrstu lotu, en þau voru smávægileg í heildarmyndinni. 
Farið var frá Keflavík að Hornafirði miðvikudaginn 24. júlí á tveimur bílum.  Fleka og hverfli var staflað í einingum í flutningabíl Valorku ásamt verkfærum og fleiru, og var eins og stærð bílsins væri sniðin að plássþörfinni.  Gúmbátur var dreginn á vagni aftan í jeppa.  Jóhann Eyvindsson, hönnuður og járnsmiður með meiru, var aðstoðarmaður í þessari ferð og ók vörubílnum en undirritaður jeppanum.  Lítilsháttar tafir urðu á leiðinni þar sem kælikerfi flutningabílsins vann ekki sem skyldi, en á Hornafjörð var komið um kvöldið. 

Fimmtudagur fór í samsetningar flekans og undirbúning.  Stoðgrind flekans var sett saman við skábraut í smábátahöfn Hornafjarðar; henni lyft upp á landhjól; flotrörin tvö ströppuð undir; belgir blásnir upp í endum þeirra; dekkeiningar lagðar niður; flekanum rennt í sjóinn og mælahúsi lyft á dekkið.  Við bakkann var samsetningin kláruð; landhjólin tekin upp; lyftirammi settur upp; lyftigálgi settur upp; hverfilöxull settur í legur; blöð fest á hann; vélarkassa komið fyrir og flekinn gerður klár að öðru leyti.  Síðan var hann dreginn að dýpri bryggjukanti og lyftibúnaður prófaður, sem gekk vel.  Flotjafnvægi í flekanum reyndist mjög gott, en það hafði reyndar verið prófað í Njarðvíkurslipp fyrir austurferðina.  Að síðustu var straumhraðamæli komið fyrir í sínum gálga.

Föstudagur 26. júlí var hinn stóri dagur fyrstu prófana.  Byrjað var á því að fá lánaða tvo netadreka frá útgerð Sigurðar Ólafssonar og útbúa botnfestingar með hanafótum í báðar áttir og strekkimöguleika í hverju horni flekans.  Síðan voru mælar tengdir við tölvu og prófaðir.  Lítilsháttar hnökrar voru á gagnavistun en ekki óyfirstíganlegir.  Liggjandi var í Mikleyjarál um kl 15.00 og þá var flekinn dreginn þangað með lóðsbátnum.  Að beiðni undirritaðs var innri drekanum fyrst lagt og dró lóðsbáturinn hann þar til festu var náð, en þá var hinum kastað.  Þetta reyndust mistök, eins og síðar kom í ljós, þar sem straumhraði jókst nú inn álinn og drekinn straummegin hafði lakari festu.  Hverflinum var slakað niður og innan skamms tók hann að snúast um leið og straumur jókst.  Ekki var annað að sjá en hann ynni eins og til var ætlast og skilaði greinilega töluverðu afli.  Mælingar voru vart byrjaðar fyrir alvöru þegar drekinn straummegin missti festu og flekinn slóst undan straum þar til hinn tók í.  Hverfillinn náði að flækja slakri festinni utan um sig, en eftir nokkuð vafstur tókst að losa hann.  Tekið var til við mælingar að nýju, en nokkur tími fór í að skoða bestu leiðir til vistunar gagna úr báðum mælum í einu.  Straumhraðinn jókst nú mjög hratt í sundinu og iðuhverflar mynduðust við allar mótstöður, auk þess sem hraði hverfilsins og átak jókst að mun.  Upp úr kl 16.30 stöðvaðist hann skyndilega, og þegar híft var úr gruggugu vatninu kom í ljós að þrjú blöð höfðu brotnað algerlega undan álaginu og fleiri voru löskuð.  Ljóst var að þar með væri þessari prófunarferð lokið og að styrkja yrði blöðin fyrir næstu keyrslu.  Þetta voru þó á engan hátt nein vonbrigði:  Hverfilblöðin voru höfð þunn og veikbyggð af ásetningi, þar sem þörf var á að prófa til hins ítrasta hvaða þykkt nægði til að standast átökin en lágmarka mótstöðu.  Hér var því komið upp „ánægjulegt vandamál“, þar sem ljóst var með þessu að hverfillinn fangaði aflið mjög vel.  Beðið var þar til hámarksstraumhraða var náð í sundinu og tekin mæling.  Reyndist hann þá um 1,2 m/sek.  Lóðsbáturinn kom svo um kvöldið; hífði upp drekana og dró flekann að bryggju.

Ákveðið var að breyta áætlunum og í stað þess að fara með búnaðinn aftur til Keflavíkur að reyna að koma honum í geymslu á staðnum.  Guðni Karlsson vörubílsstjóri reyndist fús að reyna að lyfta hverflinum í heilu lagi, eftir að hús og drekar höfðu verið hífðir í land, og gekk það að óskum.  Honum var síðan komið fyrir í porti Hornafjarðarbæjar, en fyrir lá boð bæjarins um það.  Flutningabíllinn var einnig skilinn eftir ásamt fleiru af búnaði, og farið suður á jeppanum með gúmbátinn í eftirdragi. 

Þessi prófun var í heild mjög árangursrík.  Prófunarflekinn stóðst væntingar í alla staði og þar með er komin fyrsta tilraunastöð landsins til prófunar á sjávarfallahverflum í sjó.  Þar er unnt að mæla alla þætti sem máli skipta á vísindalegan hátt og með rafrænni samtímaskráningu; átak, snúningshraða og straumhraða, auk annarra gilda.  Auk þess er hægt að nota aflið til að framleiða rafmagn í litlum mæli, þó það hafi ekki verið gert í þessari stuttu tilraun.  Hverfillinn sjálfur stóð einnig undir væntingum, svo langt sem það náði að þessu sinni.  Verður spennandi að halda áfram prófuninni með stekbyggðari blöðum, en reiknað er með að það geti orðið um miðjan ágúst nk.

Ástæða er til að þakka öllum þeim á Hornafirði sem greiddu götu þessarar prófunar og hafa lýst góðvilja í garð verkefnisins.  Jafnan voru menn reiðubúnir til aðstoðar ef eftir var leitað og lögðu mikið á sig í þeim efnum.  Gestrisni Agnesar og Guðbjartar á Kirkjubraut 10 keyrði úr öllu hófi meðan prófunartvíeykið stóð þar við, eins og þeirra er vani; þar svignuðu borð undan veitingum.  Hafnarstarfsmenn; Vignir og Torfi,  lögðu sig fram um aðstoð af öllu tagi, t.d. varðandi aðkomu lóðsbátsins Björns lóðs.  Hilmar Erlingsson og félagi hans Gísli Karl redduðu botnfestingum; Guðni Karlsson brást vel við og flutti prammann þó um helgi væri, og þannig mætti áfram telja.  Fjöldi bæjarbúa lagði leið sína niður að höfn þessa daga og margir lögðu til hvatningarorð og góðar ráðleggingar.  Hafið þökk íbúar Hornafjarðar. 

Valdimar Össuraron

Lögð hefur verið fram umsókn um einkaleyfi fyrir síðustu gerð Valorka-hverflanna; gerð V5, en það er sú gerð sem nú fer í sjóprófanir.  Hverflar Valorku hafa tekið jöfnum og stöðugum framförum og breytingum frá því verkleg þróun hófst árið 2008.  Eins og flestir vita er grunnhugmynd þeirra sú sama og gamla vatnshjólsins, sem ekki hefur tekið grundvallarbreytingum í meira en tvöþúsund ár.  Í hverflum Valorku er vatnshjólið í raun fundið upp að nýju með því að á því eru gerðar grundvallarbreytingar til að það verki á kafi í straumvatni.  Í gerð V1 var þetta leyst með því að ásinn var í tvennu lagi; hliðar vatnshjólsins voru gerðar keilulaga og þeim hallað ásamt áshlutunum; blöðin sett á liði til hliðanna og í miðju, þannig að þau yrðu opin öðrumegin við ásinn en lokuð hinumegin og þar með fengið mismikið átak straumsins á hjólhelmingana.  Í gerð V2 voru settir teinar í stað fastra hjólhliða, þannig að blöðin geta verið stærri og stýra sér betur.  Í V3 er aðeins ein hjólhlið; blöðunum er fest báðumegin á hana; þau eru bogin í jaðra, þannig að straumur opnar þau öðrumegin en lokar þeim hinumegin hjólmiðju.  Í þeirri gerð, og þeim sem á eftir komu, er beinn öxull og unnt að raða mörgum hverflum á sama ás.  Með V4 er farin önnur leið og hjólhliðum kastað alveg fyrir róða.  Þar er hvert blað tengt blaðinu hinumegin við ásinn með pinna sem gengur gegnum ásinn og er stefna blaðanna ólík í hverju blaðpari, þannig að þegar annað er opið er hitt lokað, en halli þeirra á pinnanum veldur opnuninni.  Gerð 5 má heita sambræðingur fyrri tegunda, þar sem hvert blað er frítt og sjálfstætt, en pinni þess er hallandi miðað við ásinn.  Blaðið er opið öðrumegin við ásinn; færist undan straumi og lokast þegar hann kemur í bakið á því; opnast síðan aftur straummegin vegna halla pinnans.  Það er einkum þessi virkni á halla pinnans sem sótt er um einkaleyfi fyrir, en einnig fleiri atriði.
Undirritaður skrifaði sjálfur einkaleyfisumsóknina og kröfugerð á ensku; byggt á texta sem lögfræðingar Árnason Faktor höfðu gert við fyrri einkaleyfisumsóknir.  Sigurður Ingvarsson hjá Árnason Faktor las yfir, en sá ekki ástæðu til breytinga að svo stöddu.  Ingvar magnússon teiknari og verkfræðingur hjá Viz hönnunarstofu gerði einkaleyfisteikningar, byggðar á líkani sem farið hafði í kerprófanir.  Einkaleyfisumsóknin var lögð inn hjá Einkaleyfastofu 22. júlí 2013.

Subcategories