Lögð hefur verið fram umsókn um einkaleyfi fyrir síðustu gerð Valorka-hverflanna; gerð V5, en það er sú gerð sem nú fer í sjóprófanir.  Hverflar Valorku hafa tekið jöfnum og stöðugum framförum og breytingum frá því verkleg þróun hófst árið 2008.  Eins og flestir vita er grunnhugmynd þeirra sú sama og gamla vatnshjólsins, sem ekki hefur tekið grundvallarbreytingum í meira en tvöþúsund ár.  Í hverflum Valorku er vatnshjólið í raun fundið upp að nýju með því að á því eru gerðar grundvallarbreytingar til að það verki á kafi í straumvatni.  Í gerð V1 var þetta leyst með því að ásinn var í tvennu lagi; hliðar vatnshjólsins voru gerðar keilulaga og þeim hallað ásamt áshlutunum; blöðin sett á liði til hliðanna og í miðju, þannig að þau yrðu opin öðrumegin við ásinn en lokuð hinumegin og þar með fengið mismikið átak straumsins á hjólhelmingana.  Í gerð V2 voru settir teinar í stað fastra hjólhliða, þannig að blöðin geta verið stærri og stýra sér betur.  Í V3 er aðeins ein hjólhlið; blöðunum er fest báðumegin á hana; þau eru bogin í jaðra, þannig að straumur opnar þau öðrumegin en lokar þeim hinumegin hjólmiðju.  Í þeirri gerð, og þeim sem á eftir komu, er beinn öxull og unnt að raða mörgum hverflum á sama ás.  Með V4 er farin önnur leið og hjólhliðum kastað alveg fyrir róða.  Þar er hvert blað tengt blaðinu hinumegin við ásinn með pinna sem gengur gegnum ásinn og er stefna blaðanna ólík í hverju blaðpari, þannig að þegar annað er opið er hitt lokað, en halli þeirra á pinnanum veldur opnuninni.  Gerð 5 má heita sambræðingur fyrri tegunda, þar sem hvert blað er frítt og sjálfstætt, en pinni þess er hallandi miðað við ásinn.  Blaðið er opið öðrumegin við ásinn; færist undan straumi og lokast þegar hann kemur í bakið á því; opnast síðan aftur straummegin vegna halla pinnans.  Það er einkum þessi virkni á halla pinnans sem sótt er um einkaleyfi fyrir, en einnig fleiri atriði.
Undirritaður skrifaði sjálfur einkaleyfisumsóknina og kröfugerð á ensku; byggt á texta sem lögfræðingar Árnason Faktor höfðu gert við fyrri einkaleyfisumsóknir.  Sigurður Ingvarsson hjá Árnason Faktor las yfir, en sá ekki ástæðu til breytinga að svo stöddu.  Ingvar magnússon teiknari og verkfræðingur hjá Viz hönnunarstofu gerði einkaleyfisteikningar, byggðar á líkani sem farið hafði í kerprófanir.  Einkaleyfisumsóknin var lögð inn hjá Einkaleyfastofu 22. júlí 2013.