Bæjarráð Hornafjarðar heimsótti vinnustofu Valorku 28. ágúst sl og hélt fund með verkefnisstjóra.  Í þessum góða gestahópi voru Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri; Ásgerður K. Gylfadóttir, forseti bæjarstjórnar og bæjarstjórnarmennirnir Reynir Arnarson og Valdimar Einarsson.  Valdimar kynnti Hornfirðingum þróunarsögu hverfilsins og sýndi ýmislegt sem starfseminni viðkemur.  Sest var að fundi og málefni Valorku og sjávarorku rædd vítt og breitt.  Hornfirðingar eru mjög áhugasamir um prófanir Valorku og vilja greiða götu þeirra.  Áfram verður þar í boði aðstoð og aðstaða.  Atvinnuþróunarsjóður bæjarins veitti verkefninu styrk á þessu ári og möguleiki er á frekari stuðningi.  Velvilji Hornfirðinga er Valorku mikils virði, enda er þarna einstök aðstaða til prófana.  Vonast er til að verkefni Valorku muni reynast Hornfirðingum mikilvæg til framtíðar litið, og þá í ýmsum skilningi.  Nú þegar vekja þessar einstöku tilraunir athygli á staðnum.  Í öðru lagi er líklegt, ef rétt er á málum haldið, að á Hornafirði geti orðið alþjóðleg prófunarmiðstöð á sviði sjávarorku.  Nú þegar eru komnar af stað athuganir í því efni í samvinnu við erlenda aðila.  Í þriðja lagi liggja gríðarlegir framtíðarhagsmunir Hornfirðinga í því að eiga möguleika á nýtingu hinna miklu orkuauðlinda sjávarorku sem á svæðinu eru.

 

 

Um svipað leyti og þessi fundur var haldinn varð ljóst að Hjalti Þór myndi láta af starfi bæjarstjóra að eigin ósk og fara til starfa á öðrum vettvangi.  Valorka ehf vill því hér með þakka Hjalta Þór fyrir einstaklega gott samstarf og aðstoð við verkefnið.  Hann er einn þeirra fáu sem strax í upphafi sýndu því mikinn áhuga, skilning og velvilja og var ávallt boðinn og búinn að leita leiða til að verða að liði.  Vafasamt er að verkefni Valorku væri enn starfandi í dag ef ekki væri fyrir slíka hvatningu örfárra eldhuga.  Um leið og eftirsjá er að Hjalta Þór af stóli bæjarstjóra er það mikið fagnaðarefni að bæjarstjórn Hornafjarðar skuli sýna staðfastan vilja til að halda áfram þeirri einstöku samvinnu sem hafin er milli frumkvöðuls á sviði sjávarorku og framsýnasta sveitarfélags landsins í orkumálum.