Vinna við verkefni Valorku; fyrsta og eina verkefni Íslendinga á sviði sjávarorkutækni, hefur gengið vel eftir að stuðningur fór að skila sér aftur frá Tækniþróunarsjóði.  Reyndar hefur sú hugmyndavinna aldrei stöðvast sem staðið hefur yfir síðustu hálfa öld eða svo.  Enn getur íslenska nýsköpunarumhverfið ekki bannað fólki að hugsa, þó stuðningur þess við verklega úrvinnslu sé brotakenndur og duttlungafullur.  

Af hverfli Valorku höfðu þróast 5 mismunandi tegundir þegar Tækniþróunarsjóður fékk hiksta og stöðvaði sinn stuðning í þrjú misseri.  Þá, haustið 2013, höfðu nýlega hafist prófanir á gerð V5 í sjó í Hornafirði, og höfðu niðurstöður þeirra prófana ekki fengist.  Styrkur sem TÞS veitti loksins, vorið 2015, kom of seint til að unnt væri að undirbúa framhaldsprófanir; enda þarf að yfirfara allan prófunarbúnað og undirbúa fleiri þætti.  Þess í stað var hafist handa við smíði líkana af nýrri gerðum hverfilsins sem byggja á fyrri gerðum.  Fyrst var smíðað líkan af V6, en sú gerð líkist í mörgu V5, en er með hallalausum blaðpinnum og annarri blaðlögun.  Fyrstu prófanir leiddu þó ekki í ljós nægar framfarir í afköstum, auk þess sem þessi gerð reyndist viðkvæmari fyrir breytingum í straumstefnu.  Áfram verða aðrir þættir þó skoðaðir.  Þá var smíðað líkan af fjölása hverfli; algerlega nýjum flokki sem nefna mætti VAL-X.  Þessir hverflar byggja á sömu grunnhugmyndum og fyrri hverflar Valorku, en opna þó leið til mikillar aukningar á afköstum, um leið og einfaldleiki og lítill tilkostnaður er áfram í fyrirrúmi.  Fyrstu prófanir fyrstu gerðar þessarar hverflalínu lofa góðu.  Virknin er staðfest, en mikil vinna er framundan í bestun ýmissa þátta og raunverulegum afkastamælingum.

Sumarið 2015 hefur Valorka notið gagnkvæmrar aðstoðar ungs háskólanema; Valgeirs Páls Björnssonar, sem er að ljúka námi í orkutækni.  Valgeir valdi hverfla Valorku sem sitt lokaverkefni, og hefur um leið veitt margháttaða aðstoð við þróunarstarfið.  Valorka hefur leitast við að leggja sitt af mörkum til menntunar og fræðslu, og er Valgeir annar háskólaneminn sem lýkur námi í samstarfi við verkefnið.  Auk þess hefur Valorka haldið árlega fyrirlestra við Háskóla Íslands og við önnur tækifæri.  Verkefni Valorku voru t.d. í sumar kynnt hópi bandarískra háskólanema.

Ósamfella í stuðningsumhverfi nýsköpunar hefur valdið Valorku nokkrum erfiðleikum.  Ekki var Tækniþróunarsjóður fyrr hrokkin í gang eftir þriggja missera hlé, en Orkusjóður skarst úr leik og synjaði um stuðning.  Er því nánar lýst í frétt hér á undan, en synjunin hefur þegar verið kærð vegna vanhæfis við úthlutun.  Verður að vænta þess að stjórnvöld standi við skriflegar yfirlýsingar sínar um vilja til að sjá verkefni Valorku komast í höfn.  

Verkefni Valorku eru langtímaverkefni, eins og hverflaþróun í eðli sínu er.  Því er ekki unnt að búast við stuðningi íslenskra samfélagssjóða lengur en svo að sönnuð sé virkni tækninnar og einkaleyfi fyrir helstu nýjungum séu í höfn.  En þangað til verða þeir að standa sinn dont.  Eftir það verður að vænta þess að öflugir fjárfestar komi að verkefninu og beri það uppi framyfir markaðssetningu og sölu.  Ekki skortir áhugasama fjárfesta á þessu sviði.  Tveir slíkir hafa þegar sett sig í samband við Valorku og vilja fylgjast með verkefninu og vera tilbúnir að kaupa þegar áðurnefndu þrepi er náð.  Hér er því um verðmæt tækifæri að ræða; ekki einungis fyrir Valorku, heldur fyrir íslensku þjóðina alla.