Meingölluð drög að orkustefnu fyrir Ísland
13.01.2011
Komin eru fram að nýju „drög að orkustefnu fyrir Ísland“, en að þeim hefur unnið stýrihópur á vegum iðnaðarráðherra. Drög í þessu efni voru fyrst lögð fram vorið 2010. Þá gerði Valorka ehf ítarlegar athugasemdir við fjölmarga galla og lagði til verulegar breytingar á orðalagi til að stefnan gæti staðið undir nafni. Nú eru sömu drög aftur lögð fram án þess að nokkru hafi verði breytt í upphaflegum texta. Einungis hefur verið bætt við skýringartexta og formála. Virðist augljóst að aldrei hefur verið ætlun stýrihópsins að hlusta á athugasemdir og því hafi fyrri framlagning einungis verið blekkingarleikur.
Megingalli orkustefnunnar í heild er sá að hún stendur ekki undir nafni. Hér er ekki um stefnu að ræða, heldur einungis lýsingu á fortíð og nútíð í orkumálum landsins; hvergi er gerð tilraun til að skyggnast inn í framtíðina, og því síður að líta til tækniþróunar og möguleika nýrra leiða í orkuöflun sem nú hillir undir. Lítið er gert úr augljósum ókostum núverandi aðferða við orkuöflun; ekkert er gert úr vaxandi andstöðu hefðbundinna virkjanaaðferða vegna vaxandi umhverfisvitundar almennings og svo virðist sem festa eigi í sessi skiptingu orkuvinnslu og -markaðar milli núverandi orkurisa.
Alvarlegasti ágalli stefnudraganna er þó sá, eins og Valorka dregur ítarlega fram í sínum athugasemdum, að ekkert skuli vera fjallað um stærstu orkulindir landsins; hinar ýmsu tegundir sjávarorku, heldur einblínt á hefðbundnar orkulindir, en allar líkur benda til að nýting þeirra sé meiri annmörkum háð en orkurisarnir vilja vera láta.
Valorka ehf lagði að nýju fram umsögn sína og athugasemdir, dags. 31.01.2011, endurskoðaðar út frá þessum síðari drögum. Af athugasemdum Valorku ehf má nefna þessar: Vakin er athygli á því að seta orkumálastjóra í hópnum sé óheppileg með tilliti til hlutverks Orkustofnunar, og kunni að valda vanhæfi við afgreiðslu mála í framtíðinni. Ekki getur talist eðlilegt að hlutlaus umsagnaraðili og leyfaveitandi taki virkan þátt í mótun pólitískrar stefnu. Hinsvegar vantar í hópinn aðila með þekkingu á óhefðbundnum orkugjöfum. Stýrihópnum var settur sá megintilgangur að „ná heildarsýn yfir mögulegar orkulindir lansins; aðferðir og tækni til nýtingar þeirra; hugsanlegra umhverfisáhrifa og sjálfbærni nýtingarinnar...“. Þessum tilgangi er alls ekki náð í drögunum, þar sem hvorki er gerð tilraun til skoðunar á óhefðbundnum orkulindum né aðferðum til nýtingar þeirra, auk þess sem ekki er horft gagnrýnum augum á hefðbundna orkuvinnslu. Hópurinn skyldi einnig „fjalla um möguleika á að nýta orkulindirnar og sérþekkingu okkar til atvinnuuppbyggingar á næstu árum“. Þessu hefur hópurinn í engu sinnt, þar sem ekki er t.d. tekið tillit til þeirrar tækniþróunar sem Valorka ehf stendur fyrir á þessu sviði. Valaorka leggur til að í drögin verði bætt sérstökum kafla um sjávarfallaorku og leggur fram tillögur um orðalag. Það er sama hvar drepið er niður fæti í drögunum; allsstaðar má finna sömu fordómana gegn óhefðbundnum orkugjöfum og allsstaðar er sama fortíðarhyggjan vaðandi hefðbundna orkugjafa. Þetta á t.d. við þar sem fjallað er um afhendingaröryggi orku; sjáfbærni; fjölbreytni orkugjafa; verndargildi náttúru; forgangsröðun virkjanakosta; hámörkun þjóðhagslegrar hagkvæmni; uppbygging fjölbreytts atvinnulífs; fræðslu, rannsóknir og alþjóðlegt samstarf og annað sem snertir orkumál.
Verður að vænta þess að fordómar og staðnaður hugsunarháttur af því tagi sem birtist í þessum drögum verði ekki leiðarljós Íslendinga í því mikla uppbyggingarstarfi og þeirri stefnumótunarvinnu sem framundan er. Valorka ehf býður fram aðstoð sína og sérþekkingu á sviði sjávarfallaorku til mótunar raunhæfrar og víðsýnnar orkustefnu.
Fyrir liggur vilji Tækniþróunarsjóðs Rannís að veita verkefnisstyrk til 2. þróunaráfanga Valorka hverflanna. Þessi styrkveiting er verkefninu mjög mikilvæg, og raunar forsenda þess að verkefnið geti haldið áfram. TÞS styrkti fyrsta áfanga verkefnisins með í flokki frumherjastyrkja, en nú var sótt um verkefnisstyrk til þriggja ára. Umsögn og mat fagráðs er á jákvæðum nótum, en þó er greinilegt að hérlendis skortir þekkingu til að meta hlutlægt nýjungar í þessum flokki. Tækniþróunarsjóði og öðrum sem að úthlutuninni komu er þökkuð sessi framsýni og er vonast eftir góðu samstarfi.
Nú er ljóst að fjárveitinganefnd Alþingis hefur ekki orðið við umsókn Valorku ehf fyrir hönd Rannóknamiðstöðvar sjávarorku um framlag til sjávarorkurannsókna árið 2011. Afgreiðsla nefndarinnar verður að teljast mistök og ber hvorki vott um mikla framsýni né athugun að hálfu þeirra sem um hafa fjallað. Eins og skýrt var tekið fram í umsókn var þessi fjárveiting einkum ætluð sem uppbót á þá fjárveitingu sem RMS fékk á fjárlögum ársins 2010, en hún dugði ekki til kaupa á einum mæli til straumarannsókna. Er því lítið samhengi í veitingum að hálfu fjárlaganefndar og þarf augljóslega að bæta hér vinnubrögð. Kom fyrir ekki þó verkefnisstjóri fengi fund með fjárveitinganefnd og skýrði tilganginn; jákvæðar undirtektir nefndarmanna skiluðu sér ekki við afgreiðslu fjárlaga.
Stofnandi og framkvæmdastjóri Valorku ehf, Valdimar Össurarson, hefur verið kjörinn formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna. Valdimar var einn hvatamanna og stofnenda SFH þegar það var stofnað á grunni Landssambands hugvitsmanna, og hefur um tíma setið í stjórn beggja félaganna. SFH hafa verið byggð hratt upp frá stofnun og m.a. hefur félagatalan rúmlega tvöfaldast frá breytingunni. Samtökin eru eini almenni og opni félagsskapur allra frumkvöðla á landinu. Eitt meginverkefni þeirra, auk innra starfs í þágu félagsmanna, er að vera leiðandi í umbótum á þeim frumskógi sem stuðningsumhverfi frumkvöðla er nú, og veita leiðsögn og hvatningu til eflingar frumkvöðlastarfi. Vefsíða SFH er
Nú er komið á daginn að Vinnumálastofnun mun svipta alla atvinnuleysingja bótum sem vinna að nýsköpun. Þetta fékkst staðfest í dag með bréfi Vmst til verkefnsisstjóra Valorku ehf. Forsaga málsins er þessi í stuttu máli: Eftir að VÖ missti vinnu sína haustið 2008 hóf hann vinnu við þróunarverkefni það sem leitt hefur til Valorka hverflanna. Við efnahagshrunið mikla haustið 2008 hvöttu stjórnvöld atvinnuleysingja mjög til þess að leggja sitt að mörkum til nýsköpunar, enda væri það vænlegasta leiðin til enduruppbyggingar efnahags og atvinnu. Þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, setti reglugerð nr. 12/2009, en í henni var m.a. ætlunin að ná þessu fram á tvennan hátt. Annarsvegar er í grein 7 heimild til atvinnulausra að gera samning við Vmst um að geta unnið að nýsköpunarverkefni án þess að vera í atvinnuleit en vera samt á bótum. Samningur þessi er til 6 mánaða en framlengjanlegur í aðra 6. Hinsvegar er í 8. grein heimild til fyrirtækja sem vinna að nýsköpun að ráða atvinnuleysingja og fá bætur þeirra í meðgjöf. VÖ sótti strax um samning skv 7. gr og fékk hann ásamt framlengingu; samtals 12 mánuði. Þar sem þróunartími nýsköpunar af þessu tagi er mörg ár, var sótt um heimild til handa Valorku ehf að ráða VÖ í vinnu skv 8.gr eins og hún heimilar, enda lá fyrir vottun Nýsköpunarmiðstöðvar varðandi nýsköpunargildi verkefnisins. Vinnumálastofnun synjaði um samning á þeirri forsendu að þar sem verkefnið hefði áður fengið samning skv 7.gr þá væri það ekki lengur „nýtt“! Þessari furðulegu túlkun Vmst var harðlega mótmælt, enda styðst hún hvorki við almenna skynsemi né nokkurn laga- eða reglugerðarbókstaf.