Áhugaverða grein um sjávarorku má lesa á vegum vísindaveitunnar Elsevier, undir heitinu "Resource assessment for future generations of tidal-stram energy arrays".  Höfundar eru M. Lewis; S.P. Neill; P.E. Robins og M.R. Hashemi; allir starfandi hjá School of Ocean Sciences í Bangorháskóla í Bretlandi. 

Í greininni gerðu þeir nákvæma greiningu á allstóru hafsvæði í Írlandshafi, þar sem allmikið liggur fyrir af mælingum á straumahegðun, straumhraða og botnlagi.  Sett var upp reiknilíkan fyrir hegðun sjávarfallastrauma í 32 daga.  Síðan var metið hve mikið svæði væri virkjanlegt með skrúfuhverfli sem verið hefur um tíma í tilraunakeyrslu og því mögulegt að setja inn í líkanið.  Til þess var valinn hverfillinn Sea-Gen frá MCT. 

maelingar irlandshafNiðurstaðan var sú að einungis 90 km² af Írlandshafi, eða 0,12% yfirborðsflatarmáls, væri virkjanlegt með þessum hverfli; samtals um 24 GWst/a.  SeaGen byrjar ekki að snúast fyrr en straumhraði er yfir 1 m/sek og er ekki hagkvæmur til orkuvinnslu fyrr en komið er yfir 2,5 m/sek.  Þennan hverfil, og skrúfuhverfla sem hafa álíka vinnslugetu, skilgreindu vísindamennirnir sem "fyrstu kynslóð" (1st generation) sjávarfallahverfla. 

Þeir héldu síðan áfram útreikningum sínum og skilgreindu hve mikið væri virkjanlegt fyrir tækni sem þeir nefndu "aðra kynslóð" (2nd generation) sjávarfallahverfla; sem gætu stundað hagkvæma orkuvinnslu við 2 m/sek.  Af þeirri gerð er líklega hverfill Tidal Sails í Noregi, að sögn þróunaraðila.  Þannig tækni mætti nýta á 800 km² svæði í Írlandshafi, og hann gæti skilað um 111 GWst/a eða rösklega ferföldu orkumagni. 

Enn var reiknað, og nú athugað hve miklu mætti ná með hagkvæmum hætti ef notaðir væru hverflar sem ynnu við um 1,5 m/sek straumhraða.  Niðurstaðan varð sú að slíkur hægstraumhverfill væri nothæfur á um 6.046 km² hafsvæði í Írlandshafi og myndi skila orku sem næmi 182 GWst á ári, eða rösklega sjöföldu því orkumagni sem SeaGen væri fær um.

Nú vill svo til að hverfill Valorku er eini hverfill heims sem vitað er um að sé kominn nærri sjóprófunum af þeim sem líklegir eru til hagkvæmrar orkuvinnslu úr svo hægum straumi.  Að vísu er hugsanlegt að nýta mætti drekavirkjun Minesto, en þá aðeins á mjög miklu dýpi.  Hverfill Valorku þarf hinsvegar ekki meira en 20-30 m dýpi.  Hverfill Valorku hefur að auki hæfileika til hagkvæmrar orkuvinnslu úr enn minni straumhraða og mun því að öllum líkindum geta aukið enn við vinnanleg orkusvæði.  

Þessi niðurstaða fræðimannanna er ekki einungis uppörvandi fyrir Valorku og gerir það verkefni mun verðmætara en áður var ætlað; heldur er nú ljóst að sjávarfallaorka er mun mikilvægari orkugjafi en hingað til hefur verið álitið.  Lesendum er bent á að "gúggla" þessa grein og lesa hana í heild.

Rétt er að gera hér nokkra grein fyrir stöðu verkefnis Valorku haustið 2018, og framgangi þess undanfarið ár.  Eins og áður hefur verkefnið gengið vel hvað varðar tækniþróunina sjálfa, sé tekið tillit til þeirra aðstæðna sem því eru skapaðar af "stuðningsumhverfinu".  Það hefur hinsvegar alls ekki gengið nægilega hratt í átt að þeim lausnum sem heimurinn þarfnast og tækni Valorku gæti átt veigamikinn þátt í að uppfylla.  En þar er ekki við Valorku að sakast, heldur þau stjórnvöld sem sniðganga verkefnið; sýna því fordóma og skilningsleysi og standa ekki við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Vissulega má þakka stuðningsumhverfinu fyrir það að verkefnið er enn tórandi.  Þaðan hefur þrátt fyrir allt tekist að særa út styrki sem samtals nema  nær 60 milljónum á tíu árum.  En sú upphæð, sem nemur tæplega tveimur árslaunum starfsmanna Landsvirkjunar, hefur þurft að standa undir öllum þróunarkostnaði fyrsta og eina íslenska hverfilsins til nota í langstærstu orkuauðlind landsins; öllum efniskostnaði, prófunarkostnaði, sérfræðingalaunum, kaupum á dýrum mælitækju, bíl og bátum, húsnæðiskostnaði og launakostnaði; þróa 10 tegundir hverfla og fá fyrsta einkaleyfi íslensks hverfils; hanna og smíða fyrstu prófunarstöð sjávarorkutækni hérlendis; stunda fyrstu prófanirnar; vinna að stefnumörkun, kynningu og margháttaðri fræðslu.  Allt þetta fyrir minna en tvö árslaun starfsmanns ríkisorkufyrirtækis; dæmi svo hver fyrir sig.  Styrkir hafa þó alls ekki komið markvisst eða samfellt.  Ítrekað hefur komið bakslag í verkefnið og það verið hætt komið vegna fráleitra tylliástæðna sjóðakerfisins fyrir synjunum.  Ekki er því unnt að segja að stjórnvöld standi vel við sinn fagurgala um stuðning við nýsköpun og umhverfismál.

Fyrir einu ári átti verkefnið eftir eitt misseri af þriggja ára verkefnisstyrk Tækniþróunarsjóðs (TÞS).  Þá var þegar hafinn undirbúningur að prófun líkans tvíása hverfils í sjó.  Þessar prófanir eru mikilvægur liður í því að verkefniði nái þróunarstiginu TRL-6 á alþjóðlegum mælikvarða þróunar.  Það merkir að tæknin hefur staðist próf við raunverulegar aðstæður með góðum árangri.  Eftir að því þróunarstigi er náð er leiðin mun greiðfærari að aðkomu öflugra samstarfsaðila og umtalsverðri fjármögnun frekari þróunar.  Smíðað var líkan hverfilsins sem hentað gæti til prófana í tilraunafleka Valorku, með lítilsháttar breytingum á honum.  Hverfillinn er 25 metra langur, með 16 blöðum sem hvert verður um 2,2 m², þannig að þrýstiflotur í heild verður um 35 m².  Hverfillinn er þó ekki nema um 50 kg að þyngd.  Hver hluti hans er flotjafnaður, þannig að hverfillinn hvorki flýtur né sekkur, heldur helst á því dýpi sem honum er ætlað.  Nokkrar leiðir eru mögulegar til prófana.  Ein er að draga flekann í lygnum sjó og mæla um leið straumhraða, núningshraða og snúðvægi.  Aðrar aðferðir eru að leggja fleka og hverfli í straumi.  Önnur endaeiningin er í festingum í flekanum, sem unnt er að hífa úr sjó, en hin er ýmist dregin á eftir eða fest við botn; eftir prófunaraðferð.

Hverfillinn var tilbúinn vorið 2018 og vinna komin vel á veg við breytingar á flekanum.  Fyrr um veturinn hafði verið sótt um framhaldsstyrk TÞS sem tæki við þegar fyrri styrkur rynni út á miðju sumri.  Styrkbeiðninni var hafnað án nokkurs rökstuðnings.  Sá fyrirsláttur var gefinn að "markaðssamkeppni hefði ekki verið nægilega könnuð".  Þetta er fráleitur fyrirsláttur, í ljósi þess að enginn markaður er til á þessu sviði; hvorki varðandi hverfla né orkuframleiðslu úr sjávarföllum.  Sýnir þetta e.t.v. betur en annað hve rökþrota stjórnvöld eru, en þó staðföst, í þeirri viðleitni að bregða fæti fyrir verkefnið.  Óskað var skýringa hjá TÞS, en því bréfi hefur ekki verið svarað og tengiliður Valorku hjá TÞS gat ekki á nokkurn hátt skýrt þessa framkomu sjóðsins.

Valorka efndi til samstarfs við verkfræðifyrirtækið Verkís ehf um aðkomu að verkefninu, svo fremi að tækist að afla því fjár til frekari þróunar.  Ekki er að efa að þetta samstarf mun reynast mikilvægt, enda býr Verkís yfir þekkingu og reynslu á mörgum þeim sviðum sem mjög reynir á þegar til sjóprófana kemur.  Fyrir er samstarf Valorku við Halldór Pálsson, prófessor í vélaverkfræði við HÍ, sem verið hefur verkefninu innan handar um sérfræðiþekkingu frá upphafi og meðumsækjandi að styrkjum.

Fest voru kaup á báti, sem nýtast mun verkefninu á ýmsan hátt.  Hann er af gerðinni Quicksilver Pilothouse; 6,3m langur með 120 hö dísilvél og góðum vagni; og hlaut nafnið "Bjartur".  Báturinn mun koma að góðum notum við prófanirnar, en fyrir á Valorka góðan slöngubát.  Með honum opnast einnig möguleiki til mælinga á straumhraða svæða.  Þá yrði notaður hinn vandaði ADCP-straumhraðamælir sem Valorka hefur átt í nokkur ár en ekki getað nýtt vegna bátleysis.  Með þessum öfluga dopplermæli er unnt að mæla straumhraða á þrennskonar dýpi í einu, um leið og siglt er yfir svæðið.  Tölva leiðréttir fyrir hraða bátsins og reki.  Valorka sótti um það til ráðuneytis orkumála að tryggð yrði lítilsháttar fjárveiting til þessa verkefnis á fjárlögum 2019, en því erindi stakk ráðuneytið undir stól án þess að svara.  Fyrirliggjandi er þó álit ráðherraskipaðrar nefndar með vísan í ályktun Alþingis um að slíkar mælingar skuli hafnar.  

Þegar þessi andstaða stjórnvalda var ljós, og ljóst að ekkert styrkfé fengist sumarið 2018 var ákveðið að fresta sjóprófunum.  Til þeirra hefði þurft nokkurn mannskap; líklega 2-3 ásamt verkefnisstjóra og sérfræðingum.  Þess í stað var ákveðið að sækja aftur um styrk TÞS haustið 2018; bæta umsóknina eftir því sem framast væri unnt og stefna að sjóprófunum sumarið 2019.

En ríkisvaldið ríður ekki við einteyming þegar kemur að því að klekkja á nýsköpun og sprotum.  Þannig var málum háttað að þegar bandaríski herinn hætti að vernda okkur og fór af landi brott, gaf hann íslensku þjóðinni allar fasteignir sínar á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll.  Ríkið stofnaði fyrirtækið Kadeco til að sjá um eignirnar og svæðið, sem hlaut nafnið Ásbrú.  Í bankahruninu stuttu síðar beindu stjórnvöll ákalli sínu til hugvitsmanna og frumkvöðla um aðstoð við að koma efnahagslífinu aftur í gang.  Stofnsettu þau m.a. í því skyni frumkvöðlasetrið Eldey í einu af húsum hersins og buðu þeim þar aðstöðu fyrir lágmarksleigu.  Valorka var einn þeirra sprota sem þetta þáðu og hefur verkefnið verið þar til húsa síðan.  Áratug eftir hrunið voru stjórnvöld búin að steingleyma öllum lofsöng sínum um frumkvöðla.  Ævintýramenn og braskarar bönkuðu uppá og vildu fá þessar ríkiseignir fyrir lítið, til að leigja þær út á uppsprengdu verði.  Var það að látið eftir, með þeim afleiðingum að nú er búið að segja öllum frumkvöðlum Eldeyjar upp leigunni og reka þá út á götu.  Því er fyrirséð að Valorka verður á hrakhólum með aðstöðu, takist ekki að leysa úr þeim málum áður en uppsögn leigu rennur út vorið 2019; þökk sé stjórnvöldum!

Veturinn 2018-19 verður unnið að lítilsháttar breytingum á líkaninu sem fyrirhugað er að prófa, ásamt öðrum þáttum verkefnisins.  Þó hérlendis séu stjórnvöld áhugalaus og láti alfarið stjórnast af hagsmunum stóru orkurisanna er aðra sögu að segja af erlendum vettvangi.  Hvarvetna leggja heimsríki stóraukna áherslu á að ná tökum á hinum gríðarmiklu og hreinu orkulindum sjávarfalla.  Fyrir nokkrum árum voru þau knúin áfram af skuldbindingum í Parísarsamningnum.  Nú er það nakinn raunveruleikinn sem rekur á eftir.  Öfgar í veðurfari hafa sannfært öll stjórnvöld, önnur en Íslendinga og Trump, um nauðsyn þess að hraða orkuskiptum og nýta hreinar orkulindir.  Vera kann að Valorka verði hrakin úr landi með sín verkefni.  Það kemur í ljós innan fárra mánaða.

Nokkuð er liðið síðan gerð var grein fyrir stöðu verkefna Valorku hér á vefnum, og verður hér litið yfir hana í stórum dráttum.  Rétt og skylt er að greina frá framgangi þessa eina íslenska þróunarverkefnis í sjávarorkutækni; annarsvegar vegna þess að það hefur þegið styrki af almannafé, en ekki síður vegna hins mikla áhuga sem fjöldi manns hefur sýnt.
 
Tækniþróunin sjálf hefur haldið áfram með þeim hraða sem við er að búast, en hann ræðst alfarið af fjárstuðningi samkeppnissjóða sem síðar verður vikið að.  Þróunin á síðustu mánuðum hefur alfarið beinst að tveggja ása hverflum.  Einása hverflar Valorku höfðu verið prófaðir í sjö mismunandi tegundum.  Þeir standa allir fyrir sínu sem vænleg leið til nýtingar hægstrauma og einn þeirra varð fyrstur íslenskra hverfla til að hljóta einkaleyfi ásamt því að hljóta alþjóðleg gullverðlaun.  Eitt atriði veldur því þó að einása hverflar eru líklega ekki hin endanlega lausn til virkjunar hinna hægu strauma sem Valorka vill ná tökum á.  Þessi orka er mjög dreifð, sem þýðir að hverflar þurfa bæði að vera stórir og hagkvæmir í framleiðslu.  Hinsvegar er sjávardýpi yfirleitt fremur lítið þar sem annesjarastir verða hraðastar, og er t.d. tíðum kringum 20 metra hér við land.  Hverfill þarf að vera neðan mestu ölduhreyfingar en ofan kyrrðarinnar við botninn, og því er einása hverfill ekki hentugur. 
Lausn á þessu felst í því að hafa stærð hverfilsins sem mest í láréttum fleti.  Það þýðir að ásarnir þurfa að vera a.m.k. tveir og blöðin ganga milli þeirra.  Með öðrum orðum minnir hverfillinn allmikið á færiband.  Þessi lausn hefur lengi verið til athugunar hjá Valorku en nýlegar uppfinningar gera hana mjög vænlega.  Með sérstökum búnaði er mögulegt að losna við öll burðarvirki milli meginásanna, auk þess sem komin er lausn sem gefur færi á mjög einföldum umbúnaði blaða og banda með opnunaraðferð sem sumpart byggir á þróun einása hverflanna.  Þessar lausnir gera það annarsvegar mögulegt að dreifa álagi hverfilsins eins og best verður á kosið og hafa hann úr léttum og ódýrum efnum, en hinsvegar gera þær kleyft að hafa hverfilinn nær óendanlega langan.
 
Líklegt er að í fullri stærð verði hverfill Valorku langsamlega stærsti hverfill heims.  Sá stærsti núna er líklega vindhverfill Vestas-Mitsubishi sem hafin er framleiðsla á, en hann er 164 m í þvermál.  Hverfill Valorku mun nær örugglega verða yfir 200 metrar á lengd; en líklega verður um 500 lengdarmetrar hagstæð eining á hverjum hverfli.  Líkanið sem nú er verið að smíða er 25 metra langt og verður eingöngu notað til átaksprófana en ekki orkuframleiðslu.  Hverfillinn verður sérstæður um fleira; í honum verða líklega flest blöð allra hverfla; hann verður eðlisléttari en nokkur annar hverfill og framleiðslukostnaður hans verður langtum minni miðað við stærð en nokkurrar annarrar virkjunar.  
Allt hnígur þetta að sömu meginmarkmiðum sem Valorka vinnur að, og eru nauðsynleg ef takast á að virkja annesjastrauma með hagkvæmum hætti.  Orkan er mjög dreifð og því þurfa hverflarnir að vera gríðarstórir, en um leið léttir og hagkvæmir.  Vegna einkaleyfahagsmuna er ekki unnt að segja mikið meira um hverfilinn á þessum tíma; honum verður lýst síðar.
 
Með framtaki sínu leitast Valorka við að finna tækni sem auðveldar ríkjum heims að vinna að markmiðum Parísarsáttmálans um minni losun gróðurhúsalofttegunda á hnattræna vísu, en um leið að opna möguleika á nýtingu nýrra hreinna og endurnýjanlegra orkulinda.  Því skyldu menn ætla að stjórnvöld styddu verkefnið með öllum tiltækum ráðum og greiddu götu þess, a.m.k. Að því marki sem unnt er í samkeppnisumhverfi.  En það er öðru nær, eins og lesa má í fyrri fréttum hér á vefnum.  Verkefninu hefur að mestu verið mætt með einstökum fordómum og skilningsleysi að hálfu stjórnvalda, og eru þar fremstar í flokki stofnunir og ráðuneyti sem vinna á viðkomandi sviðum. 
Nokkru af því er lýst í grein sem birtist í Morgunblaðinu um þessar mundir og sjá má undir þessum hlekk: Sjávarorkutækni; tækifæri og fordómar.

Pistill framkvændastjóra Valorku, birtur í Morgunblaðinu:

Nýlega undirrituðu sex ráðherrar „samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum“. Þar er boðuð vinna að aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna skuldbindinga Íslands í Parísarsáttmálanum. Sú vinna er þörf, enda megum við ekki láta okkar hlut eftir liggja í að taka á því hnattræna sjálfskaparvíti sem eru loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Hinsvegar verður ekki séð af þessari yfirlýsingu, né ýmsu öðru sem stjórnvöld hafa látið frá sér fara að undanförnu, að þeim séu fyllilega ljósar allar skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Þær helstu eru þó nefndar í upphafi yfirlýsingarinnar: a) halda hlýnun lofthjúps jarðar innan tiltekinna marka; b) auka getu þjóða heimsins til að aðlagast neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga; c) beina fjármagni að grænum lausnum sem lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda til framtíðar.

Ekki fer á milli mála að hlutverk Íslands er í meginatriðum tvíþætt; annarsvegar aðgerðir til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda innanlands og huga að aðlögun; hinsvegar að stuðla á markvissan hátt að aðgerðum sem dregið geta úr losun og orkuskiptum á heimsvísu.
Stjórnvöld virðast einblína á fyrrnefnda þáttinn í yfirlýsingunni. Þar eru helstu tækifæri landsins talin liggja í orkuskiptum í samgöngum og fiskveiðum og aðgerðum í landgræðslu og endurheimt votlendis. Ekkert er nefnt af því sem Íslendingar geta lagt að mörkum til orkuskipta á heimsvísu. Hér fer því lítið fyrir þeim hnattræna hugsunarhætti sem þjóðir heims þurfa að temja sér og er megininntak Parísarsamkomulagsins. Sama viðhorf kemur fram í fréttaviðtölum við ráðamenn og í þingmálum. Má þar t.d. nefna þingsályktunartillögu um orkuskipti sem nú liggur fyrir Alþingi. Einungis er horft innávið en ekki á þætti sem við Íslendingar getum lagt að mörkum til að stuðla að orkuskiptum á alþjóðavísu. Hnattræna sýn skortir.

Ástæðan fyrir mínum áhuga á þessum þætti er sú að ég hef unnið að þróun tækni sem gæti orðið mikilvægt framlag Íslendinga til orkuskipta á heimsvísu; tækni sem er að fullu í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins, auk þess að geta orðið ný útflutningsafurð. Í nær áratug hefur mitt fyrirtæki; Valorka ehf, þróað hverfil sem nýtir sjávarfallaorku. Sú vinna hefur gengið mjög vel, þrátt fyrir stopulan stuðning hins opinbera. Hverflar Valorku ná að nýta minni straumhraða en aðrir sem nú eru í þróun, og er engin tækni komin lengra á því sviði en hin íslenska. Nýjasta gerð hverfilsins er nú að verða tilbúin í sjóprófanir, en enn sem oft áður ríkir alger óvissa um fjárhagslegan stuðning, á sama tíma og stjórnvöld leggja allnokkuð fé í aðrar lausnir í nafni loftslagsmála, s.s. rafbílavæðingu. Sjávarfallaorka er umfangsmikil endurnýjanleg orkuauðlind sem unnt er að nýta án nokkurra þekktra umhverfisáhrifa. Hún er því vænlegur valkostur þeirra ríkja sem þurfa að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis. Sjávarorka er umfangsmesta orkuauðlind Íslands og sá tími nálgast að við þurfum að nýta hana. Hinsvegar dugir okkur enn sú orka sem virkjuð hefur verið og rammaáætlun heimilar að nýta. Tæknilausnir í nýtingu sjávarorku er því í fyrstu aðkallandi vegna orkuskipta erlendis.

Samkvæmt Parísarsamkomulaginu ber íslenskum stjórnvöldum að miða sínar aðgerðir við hnattrænar þarfir um leið og landsmarkmið eru uppfyllt. Þeim ber að styðja markvisst við lausnir sem nýst geta til hnattrænna orkuskipta, og koma þeim á framfæri í alþjóðlegu samstarfi. Enn hafa engin merki sést um slíkan markvissan ásetning varðandi þróun sjávarorkutækni. Þvert á móti eru mörg dæmi þess að stjórnvöld, meðvitað og ómeðvitað, hafi rekið hornin í þetta verkefni. Má þar t.d. nefna „mistök“ Alþingis árið 2014, þegar felld var niður bein heimild Orkusjóðs til að styrkja þróun nýrra tæknilausna. Meira um það og aðrar hindranir á heimasíðu Valorku.
Sumum ráðamönnum er tamt, þegar gagnrýnd er uppbygging mengandi stóriðju hérlendis, að verja hana með þeim rökum að hnattrænt sé heppilegra að slík stóriðja starfi hér en annarsstaðar, þar sem hér býðst endurnýjanleg orka. Sannleikskorn er í því, útaf fyrir sig. En þá hljóta stjórnvöld einnig að hugsa hnattrænt og bjóða fram umhverfisvænar tæknilausnir í orkuframleiðslu; jafnvel þó ekki þurfi á þeim að halda hérlendis alveg strax.

Hér verður ekki að sinni staðnæmst við annað sem gagnrýnivert er í stefnu og ræðu margra ráðamanna um umhverfismál. Þar er af ýmsu að taka, og mætti t.d. ræða endurnýjanleika jarðhita, vistspor rafbíla, ætlaðan ávinning af fyllingu skurða, skógarvæðingu landsins og áherslur í landgræðslu. Þau efni bíða betri tíma.

Skorað er á stjórnvöld að móta stefnu um, og styðja við, þróun umhverfisvænna tæknilausna sem eru vænlegt framlag Íslands til hnattrænna lausna í takti við Parísarsamkomulagið. Samanber áðurnefndan lið c). Einnig vænti ég þess að stjórnvöld gæti þess betur hér eftir en hingað til að slíkir þættir verði hluti stefnumótunar og reglusetningar; ekki síður en samdráttur í innlendri losun gróðurhúsalofttegunda.

Valdimar Össurarson

Stjórnvöld ætla ekki að gera það endasleppt í sínu endalausa klúðri í lagasetningum. Óvandvirkni í vinnubrögðum virðist vera gegnumgangandi þáttur í sumum þingmálum; bæði að hálfu ráðuneyta sem undirbúa mál og að hálfu alþingismanna og þingnefnda sem afgreiða þau. 

Stutt er síðan Alþingi þurfti að setja ný lög vegna óvandaðrar fyrri lagasetningar varðandi bætur almannatrygginga. Að óbreyttu hefðu mistökin kostað ríkissjóð um 5 milljarða í útgjöldum. Þá má nefna ýmis lög sem í raun eru haldlítil, þar sem í þau skortir nauðsynlega hluta s.s. viðurlagaákvæði. Má í því efni benda t.d. á lög sem varða yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðs fólks.

Eitt alvarlegt klúður af þessu tagi kemur illa niður á verkefnum Valorku, sem og öllum öðrum nýsköpunarverkefnum í orkuþróun.  Klúðrið felst í því að Alþingi samþykkti orðalaust og samhljóða lagabreytingu sem í raun bannar Orkusjóði að styðja tækniþróun á sviði orkumála, þó slíkt væri alls ekki ætlunin með lagabreytingunni.  Skal þetta hér skýrt nokkuð:

 

Hinn 18.11.2014 samþykkti Alþingi einróma lög nr 110/2014 um breytingu á lögum um Orkustofnun nr 87/2003.  Breytingar sem með því voru gerðar á starfsemi Orkusjóðs voru annarsvegar þær að orkuráð var fellt niður og í staðinn komu ákvæði um þriggja manna ráðgjafarnefnd sem metur styrkumsóknir; og hinsvegar að felldur var út 2.töluliður 2.mgr 8.greinar laganna, sem segir að hlutverk Orkusjóðs sé (m.a.) „að veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda“. Mistök þeirra sem gengu frá lagatextanum, og alþingismanna sem samþykktu hann umræðu- og gagnrýnislaust, eru þau að einungis stóð til að fella út heimild Orkusjóðs til að veita áhættulán; aldrei stóð til að fella úr veitingar styrkja.  Þetta kemur glögglega fram í greinargerð með lagabreytingunni, þar sem segir:  „Í greininni er jafnframt lagt til að fellt verði brott ákvæði núgildandi laga um að eitt af hlutverkum Orkusjóðs sé að „veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda“. Aldrei hefur verið skilgreint hvað nákvæmlega er átt við með áhættulánum í þessu sambandi. Slík lán hafa því aldrei verið veitt enda aldrei verið sótt um slík lán. Því er lagt til að þetta ákvæði verði fellt niður“. Með orðunum „þetta ákvæði“ er því einungis átt við ákvæðið um áhættulán en ekki töluliðinn allan; enda hafa styrkir Orkusjóðs til tækniþróunar verið veigamikill hluti af starfsemi hans, og mjög mikilvægur hluti af stuðningsumhverfi nýsköpunar.  Nánar má sjá lagabreytinguna og greinargerðina á vef Alþingis; http://www.althingi.is/altext/144/s/0010.html. Í lagafrumvarpinu hefði því með réttu átt að leggja til orðalagsbreytingu á töluliðnum en ekki að fella hann allan út. Hvorki í iðnaðarráðuneyti né Alþingi virðast menn hafa áttað sig á þýðingu þessara mistaka í textagerðinni. A.m.k. verður fremur að ætla það, en að þingmenn hafi blákalt og umræðulaust viljað stefna allri nýsköpun í orkuþróun í voða til að spara ríkissjóði fáeinar krónur.

Nýsköpunarverkefni Valorku ehf hafa ávallt verið háð styrkveitingum Orkusjóðs, þó takmarkaðar væru, til að uppfylla 50% mótframlagskröfu Tækniþróunarsjóðs. Þannig er eflaust um fleiri af þeim fjölmörgu verkefnum sem Orkusjóður styrkti meðan honum var ekki meinað það. Í viðtali við framkvæmdastjóra Valorku sagði starfsmaður Orkusjóðs að þessi breyting hefði komið flatt uppá menn í Orkustofnun og Orkusjóði; enginn þar á bæ hefði átt von á þessu og þaðan af síður beðið um það. Undir það tók Ingvi Már Pálsson skrifstofustjóri orkumála í iðnaðarráðuneytinu; hann staðfesti að þarna væri um mistök að ræða; ekki hefði verið ætlunin að afnema styrkveitingar Orkusjóðs í þeirri mynd sem þær hefðu verið.

 

Framkvæmdastjóri Valorku hefur í tvígang sent póst á alla alþingismenn; vakið máls á þessu og farið fram á lagfæringar.   Aðeins einn brást við og sagði að þetta þyrfti að skoða, en enginn annar svaraði; ekkert var gert og allir hafa þagað um þetta þunnu hljóði í þingsal. Fyrir stuttu sendi Valorka öllum öðrum þingmönnum skýrslu Valorku, þar sem m.a. eru dregnar fram ýmsar misfellur á stuðningi og framkomu stjórnvalda í garð þessa verkefnis; hindranir sem stjórnvöld leggja í götu þeirra sem vilja nýta sitt hugvit og koma fram með gagnlega nýsköpun. Þar er m.a. sagt frá mikilvægi styrkja Orkusjóðs fyrir verkefnið og þeim erfiðleikum og töfum sem niðurfelling styrkja hans hefur valdið.  Lítil viðbrögð hafa enn borist frá Alþingismönnum, og enn sjást engin merki þess að það ætli að leiðrétta sín afdrifaríku mistök varðandi áðurnefnd lög um Orkusjóð.

 

Subcategories