Rétt er að gera hér nokkra grein fyrir stöðu verkefnis Valorku haustið 2018, og framgangi þess undanfarið ár.  Eins og áður hefur verkefnið gengið vel hvað varðar tækniþróunina sjálfa, sé tekið tillit til þeirra aðstæðna sem því eru skapaðar af "stuðningsumhverfinu".  Það hefur hinsvegar alls ekki gengið nægilega hratt í átt að þeim lausnum sem heimurinn þarfnast og tækni Valorku gæti átt veigamikinn þátt í að uppfylla.  En þar er ekki við Valorku að sakast, heldur þau stjórnvöld sem sniðganga verkefnið; sýna því fordóma og skilningsleysi og standa ekki við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Vissulega má þakka stuðningsumhverfinu fyrir það að verkefnið er enn tórandi.  Þaðan hefur þrátt fyrir allt tekist að særa út styrki sem samtals nema  nær 60 milljónum á tíu árum.  En sú upphæð, sem nemur tæplega tveimur árslaunum starfsmanna Landsvirkjunar, hefur þurft að standa undir öllum þróunarkostnaði fyrsta og eina íslenska hverfilsins til nota í langstærstu orkuauðlind landsins; öllum efniskostnaði, prófunarkostnaði, sérfræðingalaunum, kaupum á dýrum mælitækju, bíl og bátum, húsnæðiskostnaði og launakostnaði; þróa 10 tegundir hverfla og fá fyrsta einkaleyfi íslensks hverfils; hanna og smíða fyrstu prófunarstöð sjávarorkutækni hérlendis; stunda fyrstu prófanirnar; vinna að stefnumörkun, kynningu og margháttaðri fræðslu.  Allt þetta fyrir minna en tvö árslaun starfsmanns ríkisorkufyrirtækis; dæmi svo hver fyrir sig.  Styrkir hafa þó alls ekki komið markvisst eða samfellt.  Ítrekað hefur komið bakslag í verkefnið og það verið hætt komið vegna fráleitra tylliástæðna sjóðakerfisins fyrir synjunum.  Ekki er því unnt að segja að stjórnvöld standi vel við sinn fagurgala um stuðning við nýsköpun og umhverfismál.

Fyrir einu ári átti verkefnið eftir eitt misseri af þriggja ára verkefnisstyrk Tækniþróunarsjóðs (TÞS).  Þá var þegar hafinn undirbúningur að prófun líkans tvíása hverfils í sjó.  Þessar prófanir eru mikilvægur liður í því að verkefniði nái þróunarstiginu TRL-6 á alþjóðlegum mælikvarða þróunar.  Það merkir að tæknin hefur staðist próf við raunverulegar aðstæður með góðum árangri.  Eftir að því þróunarstigi er náð er leiðin mun greiðfærari að aðkomu öflugra samstarfsaðila og umtalsverðri fjármögnun frekari þróunar.  Smíðað var líkan hverfilsins sem hentað gæti til prófana í tilraunafleka Valorku, með lítilsháttar breytingum á honum.  Hverfillinn er 25 metra langur, með 16 blöðum sem hvert verður um 2,2 m², þannig að þrýstiflotur í heild verður um 35 m².  Hverfillinn er þó ekki nema um 50 kg að þyngd.  Hver hluti hans er flotjafnaður, þannig að hverfillinn hvorki flýtur né sekkur, heldur helst á því dýpi sem honum er ætlað.  Nokkrar leiðir eru mögulegar til prófana.  Ein er að draga flekann í lygnum sjó og mæla um leið straumhraða, núningshraða og snúðvægi.  Aðrar aðferðir eru að leggja fleka og hverfli í straumi.  Önnur endaeiningin er í festingum í flekanum, sem unnt er að hífa úr sjó, en hin er ýmist dregin á eftir eða fest við botn; eftir prófunaraðferð.

Hverfillinn var tilbúinn vorið 2018 og vinna komin vel á veg við breytingar á flekanum.  Fyrr um veturinn hafði verið sótt um framhaldsstyrk TÞS sem tæki við þegar fyrri styrkur rynni út á miðju sumri.  Styrkbeiðninni var hafnað án nokkurs rökstuðnings.  Sá fyrirsláttur var gefinn að "markaðssamkeppni hefði ekki verið nægilega könnuð".  Þetta er fráleitur fyrirsláttur, í ljósi þess að enginn markaður er til á þessu sviði; hvorki varðandi hverfla né orkuframleiðslu úr sjávarföllum.  Sýnir þetta e.t.v. betur en annað hve rökþrota stjórnvöld eru, en þó staðföst, í þeirri viðleitni að bregða fæti fyrir verkefnið.  Óskað var skýringa hjá TÞS, en því bréfi hefur ekki verið svarað og tengiliður Valorku hjá TÞS gat ekki á nokkurn hátt skýrt þessa framkomu sjóðsins.

Valorka efndi til samstarfs við verkfræðifyrirtækið Verkís ehf um aðkomu að verkefninu, svo fremi að tækist að afla því fjár til frekari þróunar.  Ekki er að efa að þetta samstarf mun reynast mikilvægt, enda býr Verkís yfir þekkingu og reynslu á mörgum þeim sviðum sem mjög reynir á þegar til sjóprófana kemur.  Fyrir er samstarf Valorku við Halldór Pálsson, prófessor í vélaverkfræði við HÍ, sem verið hefur verkefninu innan handar um sérfræðiþekkingu frá upphafi og meðumsækjandi að styrkjum.

Fest voru kaup á báti, sem nýtast mun verkefninu á ýmsan hátt.  Hann er af gerðinni Quicksilver Pilothouse; 6,3m langur með 120 hö dísilvél og góðum vagni; og hlaut nafnið "Bjartur".  Báturinn mun koma að góðum notum við prófanirnar, en fyrir á Valorka góðan slöngubát.  Með honum opnast einnig möguleiki til mælinga á straumhraða svæða.  Þá yrði notaður hinn vandaði ADCP-straumhraðamælir sem Valorka hefur átt í nokkur ár en ekki getað nýtt vegna bátleysis.  Með þessum öfluga dopplermæli er unnt að mæla straumhraða á þrennskonar dýpi í einu, um leið og siglt er yfir svæðið.  Tölva leiðréttir fyrir hraða bátsins og reki.  Valorka sótti um það til ráðuneytis orkumála að tryggð yrði lítilsháttar fjárveiting til þessa verkefnis á fjárlögum 2019, en því erindi stakk ráðuneytið undir stól án þess að svara.  Fyrirliggjandi er þó álit ráðherraskipaðrar nefndar með vísan í ályktun Alþingis um að slíkar mælingar skuli hafnar.  

Þegar þessi andstaða stjórnvalda var ljós, og ljóst að ekkert styrkfé fengist sumarið 2018 var ákveðið að fresta sjóprófunum.  Til þeirra hefði þurft nokkurn mannskap; líklega 2-3 ásamt verkefnisstjóra og sérfræðingum.  Þess í stað var ákveðið að sækja aftur um styrk TÞS haustið 2018; bæta umsóknina eftir því sem framast væri unnt og stefna að sjóprófunum sumarið 2019.

En ríkisvaldið ríður ekki við einteyming þegar kemur að því að klekkja á nýsköpun og sprotum.  Þannig var málum háttað að þegar bandaríski herinn hætti að vernda okkur og fór af landi brott, gaf hann íslensku þjóðinni allar fasteignir sínar á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll.  Ríkið stofnaði fyrirtækið Kadeco til að sjá um eignirnar og svæðið, sem hlaut nafnið Ásbrú.  Í bankahruninu stuttu síðar beindu stjórnvöll ákalli sínu til hugvitsmanna og frumkvöðla um aðstoð við að koma efnahagslífinu aftur í gang.  Stofnsettu þau m.a. í því skyni frumkvöðlasetrið Eldey í einu af húsum hersins og buðu þeim þar aðstöðu fyrir lágmarksleigu.  Valorka var einn þeirra sprota sem þetta þáðu og hefur verkefnið verið þar til húsa síðan.  Áratug eftir hrunið voru stjórnvöld búin að steingleyma öllum lofsöng sínum um frumkvöðla.  Ævintýramenn og braskarar bönkuðu uppá og vildu fá þessar ríkiseignir fyrir lítið, til að leigja þær út á uppsprengdu verði.  Var það að látið eftir, með þeim afleiðingum að nú er búið að segja öllum frumkvöðlum Eldeyjar upp leigunni og reka þá út á götu.  Því er fyrirséð að Valorka verður á hrakhólum með aðstöðu, takist ekki að leysa úr þeim málum áður en uppsögn leigu rennur út vorið 2019; þökk sé stjórnvöldum!

Veturinn 2018-19 verður unnið að lítilsháttar breytingum á líkaninu sem fyrirhugað er að prófa, ásamt öðrum þáttum verkefnisins.  Þó hérlendis séu stjórnvöld áhugalaus og láti alfarið stjórnast af hagsmunum stóru orkurisanna er aðra sögu að segja af erlendum vettvangi.  Hvarvetna leggja heimsríki stóraukna áherslu á að ná tökum á hinum gríðarmiklu og hreinu orkulindum sjávarfalla.  Fyrir nokkrum árum voru þau knúin áfram af skuldbindingum í Parísarsamningnum.  Nú er það nakinn raunveruleikinn sem rekur á eftir.  Öfgar í veðurfari hafa sannfært öll stjórnvöld, önnur en Íslendinga og Trump, um nauðsyn þess að hraða orkuskiptum og nýta hreinar orkulindir.  Vera kann að Valorka verði hrakin úr landi með sín verkefni.  Það kemur í ljós innan fárra mánaða.