Stjórnvöld ætla ekki að gera það endasleppt í sínu endalausa klúðri í lagasetningum. Óvandvirkni í vinnubrögðum virðist vera gegnumgangandi þáttur í sumum þingmálum; bæði að hálfu ráðuneyta sem undirbúa mál og að hálfu alþingismanna og þingnefnda sem afgreiða þau. 

Stutt er síðan Alþingi þurfti að setja ný lög vegna óvandaðrar fyrri lagasetningar varðandi bætur almannatrygginga. Að óbreyttu hefðu mistökin kostað ríkissjóð um 5 milljarða í útgjöldum. Þá má nefna ýmis lög sem í raun eru haldlítil, þar sem í þau skortir nauðsynlega hluta s.s. viðurlagaákvæði. Má í því efni benda t.d. á lög sem varða yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðs fólks.

Eitt alvarlegt klúður af þessu tagi kemur illa niður á verkefnum Valorku, sem og öllum öðrum nýsköpunarverkefnum í orkuþróun.  Klúðrið felst í því að Alþingi samþykkti orðalaust og samhljóða lagabreytingu sem í raun bannar Orkusjóði að styðja tækniþróun á sviði orkumála, þó slíkt væri alls ekki ætlunin með lagabreytingunni.  Skal þetta hér skýrt nokkuð:

 

Hinn 18.11.2014 samþykkti Alþingi einróma lög nr 110/2014 um breytingu á lögum um Orkustofnun nr 87/2003.  Breytingar sem með því voru gerðar á starfsemi Orkusjóðs voru annarsvegar þær að orkuráð var fellt niður og í staðinn komu ákvæði um þriggja manna ráðgjafarnefnd sem metur styrkumsóknir; og hinsvegar að felldur var út 2.töluliður 2.mgr 8.greinar laganna, sem segir að hlutverk Orkusjóðs sé (m.a.) „að veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda“. Mistök þeirra sem gengu frá lagatextanum, og alþingismanna sem samþykktu hann umræðu- og gagnrýnislaust, eru þau að einungis stóð til að fella út heimild Orkusjóðs til að veita áhættulán; aldrei stóð til að fella úr veitingar styrkja.  Þetta kemur glögglega fram í greinargerð með lagabreytingunni, þar sem segir:  „Í greininni er jafnframt lagt til að fellt verði brott ákvæði núgildandi laga um að eitt af hlutverkum Orkusjóðs sé að „veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda“. Aldrei hefur verið skilgreint hvað nákvæmlega er átt við með áhættulánum í þessu sambandi. Slík lán hafa því aldrei verið veitt enda aldrei verið sótt um slík lán. Því er lagt til að þetta ákvæði verði fellt niður“. Með orðunum „þetta ákvæði“ er því einungis átt við ákvæðið um áhættulán en ekki töluliðinn allan; enda hafa styrkir Orkusjóðs til tækniþróunar verið veigamikill hluti af starfsemi hans, og mjög mikilvægur hluti af stuðningsumhverfi nýsköpunar.  Nánar má sjá lagabreytinguna og greinargerðina á vef Alþingis; http://www.althingi.is/altext/144/s/0010.html. Í lagafrumvarpinu hefði því með réttu átt að leggja til orðalagsbreytingu á töluliðnum en ekki að fella hann allan út. Hvorki í iðnaðarráðuneyti né Alþingi virðast menn hafa áttað sig á þýðingu þessara mistaka í textagerðinni. A.m.k. verður fremur að ætla það, en að þingmenn hafi blákalt og umræðulaust viljað stefna allri nýsköpun í orkuþróun í voða til að spara ríkissjóði fáeinar krónur.

Nýsköpunarverkefni Valorku ehf hafa ávallt verið háð styrkveitingum Orkusjóðs, þó takmarkaðar væru, til að uppfylla 50% mótframlagskröfu Tækniþróunarsjóðs. Þannig er eflaust um fleiri af þeim fjölmörgu verkefnum sem Orkusjóður styrkti meðan honum var ekki meinað það. Í viðtali við framkvæmdastjóra Valorku sagði starfsmaður Orkusjóðs að þessi breyting hefði komið flatt uppá menn í Orkustofnun og Orkusjóði; enginn þar á bæ hefði átt von á þessu og þaðan af síður beðið um það. Undir það tók Ingvi Már Pálsson skrifstofustjóri orkumála í iðnaðarráðuneytinu; hann staðfesti að þarna væri um mistök að ræða; ekki hefði verið ætlunin að afnema styrkveitingar Orkusjóðs í þeirri mynd sem þær hefðu verið.

 

Framkvæmdastjóri Valorku hefur í tvígang sent póst á alla alþingismenn; vakið máls á þessu og farið fram á lagfæringar.   Aðeins einn brást við og sagði að þetta þyrfti að skoða, en enginn annar svaraði; ekkert var gert og allir hafa þagað um þetta þunnu hljóði í þingsal. Fyrir stuttu sendi Valorka öllum öðrum þingmönnum skýrslu Valorku, þar sem m.a. eru dregnar fram ýmsar misfellur á stuðningi og framkomu stjórnvalda í garð þessa verkefnis; hindranir sem stjórnvöld leggja í götu þeirra sem vilja nýta sitt hugvit og koma fram með gagnlega nýsköpun. Þar er m.a. sagt frá mikilvægi styrkja Orkusjóðs fyrir verkefnið og þeim erfiðleikum og töfum sem niðurfelling styrkja hans hefur valdið.  Lítil viðbrögð hafa enn borist frá Alþingismönnum, og enn sjást engin merki þess að það ætli að leiðrétta sín afdrifaríku mistök varðandi áðurnefnd lög um Orkusjóð.