Spilling er það hugtak sem notað er um misnotkun valds í eigin þágu og í þágu vildarvina.  Spilling er alltaf á kostnað almennings og fylgifiskur hennar er yfirhylming með vildarvinum.  Spilling er til skaða fyrir samfélagið; sljóvgar réttarvitund og hindrar alla eðlilega framþróun.   Spilling dafnar jafnan best þegar fáir menn hafa haft of mikið vald í of langan tíma, án nægilegs aðhalds laga; almennings; eftirlitsstofnana, þjóðþings og fjölmiðla.

 Undirritaður hefur hér á vefnum lýst því hvernig ýmislegt í nýsköpunarumhverfinu hefur farið úrskeiðis; sumpart vegna klaufaskapar og þröngsýni, en annað ber óhugnanlegan keim af því sem almennt gæti flokkast undir spillingu.  Á það þarf að reyna eftir eðlilegum leiðum, og hafa þegar verið lögð drög að því.

Undirritaður ákvað að láta reyna á réttarfarið, þegar nýlega kom í ljós að reglur höfðu verið brotnar við úthutun styrkja úr Orkusjóði.  Þar hafði á engan hátt verið gætt jafnræðis eða sanngirni, auk þess sem vanhæfisreglur stjórnsýslulaga höfðu ekki verið virtar.  Iðnaðarráðherra var send tilkynning um þetta hinn 24. sptember sl, ásamt rökstuddri beiðni um endurúthlutun styrkja með lögmætum hætti.  Um leið var kvartað yfir því að ráðherra hefði enn ekki svarað þriggja mánaða gömlu erindi Valorku frá 23. júní sl, þar sem ráðherra var beðinn um endurskoðun á úthlutunum Orkusjóðs. Var ráðherra gefinn frestur til 1. oktober sl. til að bregðast við.  Því hefur ekki enn verið sinnt þegar þetta er ritað, 8. oktober.

Ráðuneytið brást við með allfurðulegum og ámælisverðum hætti.  Í stað þess sem eðlilegt hefði verið, að svara sendanda um hæl; þakka ábendinguna; biðjast afsökunar á að hafa ekki svarað þriggja mánaða gömlu erindi og heita rannsóknum og svörum innan tilskilins frests, lagði ráðherra í vinnu við að semja fréttatilkynningu sem hún sendi fjölmiðlum og misnotaði um leið vef ráðuneytisins til birtingar á þessum samsetningi. 

Innihald þessarar fréttatilkynningar er þó jafnvel enn ámælisverðara, og langt frá því sem kalla má eðlileg viðbrögð ráðuneytis þegar bent er á misfellu í stjórnsýslunni.  Verður hér vikið lítillega að þessum óskapnaði, sem bæði ber vott um vanþekkingu á lögum; vafasamt siðferði og algeran skort á stjórnsýsluþekkingu:

1.  Ráðherra vísar til fréttar í Fréttablaðinu, og á þar e.t.v.  við viðtal fréttamanns við undirritaðan í blaðinu hinn 1. okt sl vegna misfellu við úthutun Orkusjóðs og umfjöllun þess blaðs og annarra fjölmiðla í framhaldi af því.  Augljóst er því að ráðherra kýs að bregðast við fjölmiðlafréttum sem henni þykja óþægilegar, fremur en að svara þeim sem erindið sendi, en slíkt lýsir fádæma vanþekkingu hennar og allra hennar ráðgjafa á eðlilegri stjórnsýslu.

2.  Ráðherra segir í yfirlýsingunni að ríkisstjórnin stefni að eflingu samkeppnissjóða.  Sé það svo þá hefur þessi ráðherra brotið gegn stefnu sinnar ríkisstjórnar.  Hún hefur haldið Orkusjóði í fjársvelti alla sína ráðherratíð, og gera tillögur hennar til fjárlaganefndar ráð fyrir raunlækkun á árinu 2016.  Sjóðurinn fékk 31,1 milljón árið 2015, en honum er ætlað 32 milljónir 2016, sem enganvegin heldur í við verðlagshækkanir.  Fjársvelti Orkusjóðs hefur reyndar verið viðvarandi um langan aldur.  Það er  stjórnvöldum til háborinnar skammar og þjóðinni til skaða að á sama tíma og tugmilljáraða hagnaður er árlega af orkusölu í landinu skuli á þann hátt brugðið fæti fyrir eðlilega tækniþróun í orkugeiranum.  Undirritaður hefur fyrir sitt leyti ritað öllum nefndarmönnum fjárlaganefndar bréf og bent á óviðunandi fjársvelti Orkusjóðs, sem m.a. bitnar á verkefnum af því tagi sem Valorka vinnur.

3.  Ráðherra segir að engin takmörk séu á því hverjir megi sækja í sjóðinn, önnur en þau að sjóðurinn megi það ekki sjálfur!  Þessi staðhæfing lýsir fádæma vanþekkingu á lögum og siðferði.   Samkvæmt hennar fullyrðingu væri t.d. eðlilegt að hún sjálf sækti um styrk úr þessum sjóði sem undir hennar valdsvið heyrir, og að hennar stjórnmálaflokkur geti sótt þangað um styrki í kosningasjóði.  Auðvitað er þetta ekki svo:  Styrkveitingar úr Orkusjóði eru háðar fjölmörgum takmörkunum, sem sumar eru markaðar í hans starfsreglum en auk þess af öðrum lögum og reglum.  Þessu til viðbótar heyrir öll stjórnsýsla Orkusjóðs að sjálfsögðu undir stjórsýslulög.  Þau lög virðast hinsvegar vera lítt þekkt af þeim sem málum Orkusjóðs ráða; ráðgjafarnefnd Orkusjóðs; Orkustofnun og atvinnuvegaráðuneyti.  Það sannast glögglega, bæði  af síðustu úthlutun sjóðsins og viðbrögðum ráðherra við erindum.

4.  Alvarlegt er að í þessari „athugasemd“ ráðherra við því ámæli sem hún sætir nú vegna styrkveitinga Orkusjóðs víkur hún ekki einu einasta orði að því sem máli skiptir; hún nefnir hvorki vanhæfi formanns ráðgjafaráðs við úthlutun styrkja til Nýsköpunarmiðstöðvar, né það að NMÍ brýtur bæði gegn skjólstæðingi sínum og samkeppnislögum með sinni styrkumsókn.  Þess í stað leggst ráðherra svo lágt að reyna að gera þann aðila tortryggilegan sem kemur á framfæri kvörtun til hennar um brot á stjórnsýslulögum!  Með því leggur hún trúverðugleika ráðuneytisins í sölurnar til að halda hlífiskildi yfir þeim flokkbróður sínum og sveitunga sem hún skipaði nýlega í ráðgjafaráð Orkusjóðs.  Framkoma ráherrans í þessu efni er vítaverð, og ekki er meiri reisn yfir hennar ráðgjöfum.  Er ekki skyldleiki með þessum aðferðum og því sem hér var nefnt í upphafi um spillingu?

5.  Lágkúruleg og óskiljanleg er sú aðferð ráðherrans að reyna að gera lítið frumkvöðlafyrirtæki tortryggilegt með því að upplýsa á ýkjukenndan hátt um þá styrki sem það hefur fengið til sinna verkefna.  Þar er þó ekki neitt að fela; allir opinberir styrkir eiga að vera upplýstir; jafnt til nýsköpunar sem í kosningasjóði stjórnmálamanna.  Hinsvegar verður að gera athugasemdir við það samhengi sem ráðherra setur styrkina hér í:  Ráðherra er gagnrýnd opinberlega fyrir óeðlilega stjórnsýslu sjóða í umsjá hennar og hennar manna, en í stað þess að taka á þeim brotum með eðlilegum hætti, bregst hún við með því að gera tortryggilegan þann sem lætur vita af hinum óeðlilegu stjórnsýsluháttum.  Dæmigerð viðbrögð spillingar og yfirhilmingar.  En fyrst ráðherra kýs að fara þessa hundagötuleið er nauðsynlegt að leiðrétta þau ósannindi sem fram koma í yfirlýsingunni,og leiða raunveruleikann  í ljós.  Allt hið rétta varðandi styrkveitingar Valorku má reyndar rekja í fyrri fréttum hér á vefsíðunni; enda hefur verið kappkostað að leyfa þjóðinni að fylgjast sem best með þessu frumkvöðlastarfi í hennar þágu.  Hinsvegar er velkomið að gera hér enn einusinni grein fyrir opinberum styrkjum til verkefnisins:

Sprotafyrirtækið Valorka var stofnað í ársbyrjun 2009 til að þróa hverfil til nýtingar lághraðastraums.  Verkleg vinna hófst reyndar í ársbyrjun 2008, og það ár fékkst smástyrkur úr frumkvöðlasjóði NMÍ; 300.000.  Annar slíkur kom eftir stofnun Valorku, og eru það einu styrkirnir frá NMÍ; einatt og án ástæðna hefur Valorku verið synjað um styrki iðnaðarráðherra sjálfs; „Átak til atvinnusköpunar“.  Tækniþróunarsjóður veitti Valorku frumkvöðlastyrk 2010, og síðan þriggja ára verkefnisstyrk 2011-2013; samtals kr 25.500.000. 

Eins og allir vita sem þekkja styrki samkeppnissjóða, og ráðherra ætti að þekkja manna best, er styrkhlutfall hvers sjóðs sjaldnast meira en 50%; þannig að gert er ráð fyrir mótframlagi úr öðrum áttum.  Þegar um skammtímverkefni er að ræða er þetta stundum leyst með vinnuframlagi frumkvöðulsins sjálfs; enda vinnur hann þá gjarnan verkefnið með annarri vinnu.  Þegar um langtímaverkefni er að ræða, líkt og t.d. hverflaþróun, er slíkt ekki unnt:  Frumkvöðullinn verður þá að þiggja laun sín frá verkefninu og styrkir þurfa að duga fyrir þeim auk allra annarra útgjalda.  Í þeim tilvikum verða tveir öflugir samkeppnissjóðir að styrkja verkefnið samtímis.  Þetta vita allir sem kunnugir eru styrkjaumhverfinu, nema þeir sem nú úthluta úr Orkusjóði; og úthlutunarreglur t.d. Tækniþróunarsjóðs gera beinlínis ráð fyrir þannig samfjármögnun.  Verkefni Valorku fellur undir verksvið tveggja opinberra samkeppnissjóða; Tækniþróunarsjóðs og Orkusjóðs.  Þessir sjóðir þurfa því báðir að styrkja verkefnið samtímis ef von á að vera um framgang þess.  Þrátt fyrir að Orkusjóður hafi um langt árabil verið fjársveltur af stjórnvöldum hefur hann sýnt verkefnum Valorku skilning og velvilja, og þaðan hafa þau fengið fjóra styrki á árunum 2009-2014; samtals kr 11.700.000.  Þótt þetta séu lágir styrkir hafa þeir stundum verið hæstu styrkirnir í úthlutun sjóðsins og, ásamt öðru, hafa þeir riðið baggamuninn í því að brúa mótframlagskröfu Tækniþróunarsjóðs. 

Þegar verkefnisstyrkur TÞS kláraðist, haustið 2013, varð rof á styrkveitingum hans í eitt og hálft ár, eins og lýst hefur verið hér á síðunni.  Ekki var unnt að halda verkefninu áfram  í verklegum þáttum, en þá reið baggamuninn að síðasti styrkur Orkusjóðs fékkst á því tímabili; annars hefði verkefnið eyðilagst.  Þann skilning má þakka fráfarandi orkuráði.  Enga aðstoð var að hafa hjá iðnaðarráðherra þrátt fyrir stuðningsyfirlýsíngu ríkisstjórnarinnar við verkefnið. 

Vorið 2014 hrökk Tækniþróunarsjóður aftur í gang, og gaf vilyrði um þriggja ára framhalds-verkefnisstyrk.  Hinsvegar fór þá svo að Orkusjóður brást.  Virðist í þeim efnum hafa skipt meginmáli að skipt hafði verið um úthlutunarnefnd og að í formannssæti þar var kominn maður sem hafði engan skilning á málefnum sjóðsins eða þess sviðs sem hann átti að styrkja, auk þess sem hann skorti þekkingu á stjórnsýslulögum.  Fór svo að stjórnin úthlutaði stofnun sem bróðir hans stýrir fjórðungi af hinu nauma ráðstöfunarfé sjóðsins, eins og rakið hefur verið. 

Eins og hér hefur verið rakið hefur Valorka þegið samtals 37.800.000 kr styrki til hverflaþróunarverkefnis síns.  Því til viðbótar kemur 10.000.000 kr nýlega úthlutaður styrkur Tækniþróunarsjóðs, en vafamál er hvort hann verður með talinn fyrr en búið er að vinna fyrir hann og greiða hann út. 

Aðrir verða svo að dæma hvort þetta er hæfilegur styrkur; of lítill eða of mikill.  Rétt er í því efni að hafa það í huga að hin alþjóðlega viðmiðun er að þróun nýs hverfils kosti sem svarar 20 milljörðum króna og taki um 20 ár.  Tölur eru nokkuð mismunandi, en þetta er í sæmilegu samræmi við þá sem lengst eru komnir.  Valorka ætlast að sjálfsögðu ekki til þess að íslenskir samkeppnissjóðir standi undir verkefninu að öllu því marki, heldur þurfa þeir að koma því á þann stað að raunhæfi sé sannað af sérfræðingum og einkaleyfi séu í höfn á lokanýjungum.  Sá áfangi ætti að nást innan þriggja ára, ef skilningsvana stjórnvöld eyðileggja ekki verkefnið áður.  Eftir það verður verkefnið borið uppi af fjárfestum, sem þegar hafa sýnt áhuga á aðkomu.  Rétt er að hafa í huga að nú þegar hefur Valorka þróað fyrsta einkaleyfishæfa hverfilinn; hafið fyrstu sjóprófanir íslenskrar sjávarvirkjunar og er núna í fremstu röð á heimsvísu í þróun hverfla sem nýtt geta straumhraða undir 2 m/sek.  Valorka hefur því nú þegar skapað Íslendingum einstök tækifæri til forystu og sóknar á algerlega nýju sviði hreinustu orkuframleiðslu sem hugsast getur.  Er það slæmur árangur fyrir tæpar 40 millj.kr?  

Vinnulaun eru líklega um helmingur þessara útgjalda, eða um 20 milljónir yfir þá 93 mánuði sem verkefnið hefur staðið.  Til jafnaðar gera það um 215 þúsund á mánuði með launatengdum gjöldum.  Til samanburðar hefur ráðherra sjálf líklega á aðra milljón á mánuði.  Forstjóri Landsvirkjunar hefur yfir 1,6 milljón á mánuði, auk allra fríðinda.  Laun hans einsömul fyrir þennan tíma hefðu því numið um 150 milljónum króna, eða miklu meira en þreföldum öllum þeim styrkjum til Valorku sem ráðherra sér núna ofsjónum yfir.  Valorka gerir þá kröfur til ráðuneytisins að tölurnar séu sýndar í réttu ljósi.

Eitt þarf einnig að hafa í huga.  Þegar Tæknþróunarsjóður stöðvaði tímabundið sínar styrkveitingar í 18 mánuði þurfti undirritaður að draga fram lífið á atvinnuleysisbótum örorkubótum konu sinnar; þann tíma var ekki um launagreiðslur að ræða frá verkefninu.  Um þetta er ráðherra mjög vel kunnugt af þeim erindum sem hún hefur fengið.  Það eru ekki allir svo heppnir að vera leiðitamir flokksmenn ráðherra og hljóta sjóðsstjórn að bitlingi.

Valorka hefur einnig verið frumkvöðull í rannsóknum á sjávarorku við Ísland, og unnið verulega undirbúningsvinnu í því efni.  Sjávarorka við Íslandsstrendur er líklega langstærsta orkuauðlind landsins, og án nokkurs vafa sú eina sem unnt er að nýta án umhverfisáhrifa.  Þetta er sú auðlind sem framtíðarkynslóðir munu þurfa að treysta á.  Eftir að undirritaður vakti máls á málefninu við þinmenn kom fram þingsályktunartillaga um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við Ísland, og er verkefna Valorku að góðu getið í greinargerð með henni.  Þingsályktunin var samþykkt af öllum flokkum og algerlega samhljóða vorið 2014.  Núverandi iðnaðarráðherra hefur hinsvegar ekki unnið í anda tillögunnar, og í ráðuneytinu viriðst enginn vilji til að fara að þeim þingvilja sem þar kemur fram; meira um það í síðari fréttum hér á vefnum.  Alþingi veitti Valorku  2.900.000 kr framlag á fjárlögum 2010 til undirbúnings sjávarorkurannsóknum.  Auk þess fékkst styrkur til hins sama af safnliðum atvinnuvegaráðuneytisins árið 2012, kr. 1.000.000.  Þessir styrkir hafa farið í ýmsa vinnu við undirbúning sjávarorkurannsókna og kaup á tækjum.  Kostnaðarsamast er þar tæki til straummælinga; svokölluð ADCP straumsjá.  Þetta er mjög vandaður mælir sem hafður er um borð í báti og mælir straumhraða á nokkrum dýptum samtímis; að teknu tilliti til reks og siglingarhraða báts.  Enn hefur ekki fengist fé til kaupa eða leigu á bát, svo unnt sé að hefja þessar rannsóknir.  Fleiri tæki eru til reiðu, s.s. slöngubátur og nýr skrúfustraummælir.  Þeim 3,9 milljónum kr sem varið hefur verið til undirbúnings fyrstu sjávarorkurannsókna við Ísland hefur því síður en svo verið kastað á glæ.

Iðnaðarráðherra lætur á sér skiljast í yfirlýsingu sinni að styrkir til Valorku séu allir frá hennar ráðuneyti komnir.  Því fer fjarri lagi.  Valorka sækir ekki um sína styrki til ráðherra, heldur til viðkomandi sjóða.  Þeir meta umsóknirnar sjálfstætt, án nokkurrar aðkomu ráðherra.  Það hefur verið samdóma álit þeirra sem yfir umsóknir hafa farið; jafnt hjá Tækniþróunarsjóði sem hinu sáluga orkuráði; að vandaðri umsóknir hafi ekki komið á þeirra borð en umsóknir Valorku.  Þetta hefur undirrituðum þótt vænt um að heyra, enda lagt sig mjög fram við að gefa sem gleggsta og heiðarlegasta mynd af sínu verkefni hverju sinni.  Rödd ráðherra er því harla hjáróma þegar hún reynir að kasta skít í sama verkefni.  Sjóðirnir sem Valorka hefur þegið styrki úr heyra vissulega undir ráðherra hvað stjórnskipun varðar, en alls ekki styrkveitingar þeirra. 

Iðnaðarráðherra gerir sig seka um árásargirni, kæruleysi og ónákvæmni með framsetningu sinni á tölum um styrki til Valorku.  Ekki verður séð að ráðherra sé betur að sér í stjórnsýslulögum en skjólstæðingur hennar í Orkusjóði; hún virðist hvorki þekkja meðalhófsreglu né jafnræðisreglu stjórnsýslulaga fremur en reglu um málshraða.  Engin nauðsyn rak hana til að nefna styrki Valorku fremur en annarra í tengslum við styrkveitingar Orkusjóðs, og verður hún krafin svara um það.  En fyrst hún var að nefna þær tölur verður að gera ríkar kröfur til hennar að halla ekki réttu máli, eins og hún þó gerir.  Valorka hefur ekki þegið 51,7 milljónir króna í styrki frá árinu 2008, heldur má með góðum vilja segja að hverflaþróunarverkefnið hafi fengið í heildina 37,8 millj.króna þó ekki hafi það allt komið til Valorku, og að undirbúningur sjávarorkurannsókna hafi fengið 3,9 millj.kr.  Í heildina hafa þau verkefni sem Valorka stendur fyrir því fengið 41,7 millj.króna úr opinberum sjóðum.  Ekki er unnt að telja hér með styrk Tækniþróunarsjóðs, 10 millj.kr, þar sem svo gæti farið að Valorka þyrfti að skila honum og hætta við verkefnið; nú þegar lénsetar iðnaðarráðherra í Orkusjóði hafa synjað um styrk til greiðslu mótframlags. 

Svovirðist af þessari yfirlýsingu að ráðherra hyggist verja hinar vafasömu gerðir síns flokksbróður og skjólstæðings á pólitíska sviðinu, og velji fremur að ata óhróðri saklausa skjólstæðinga sína sem reyna að koma áfram frumkvöðlaverkefnum til gagns fyrir sína þjóð.  Er þetta það nýja þjóðfélag sem kallað var eftir á þjóðfundum og þingnefnd eftir Hrunið?  Undirritaðan minnir að þá hafi fremur verið kallað eftir heiðarleika og gegnsæjum vinnubrögðum í stjórnkerfinu.

Gera verður kröfu um vandaðri vinnubrögð af hendi stjórnvalda en þau sem lýsa sér í þessari „athugasemd“ iðnaðarráðherra.

Valdimar Össurarson