Efnt hefur verið til samstarfs um rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarorku undir heitinu Nordic Tidal Energy (NTE).  Að verkefninu standa í byrjun: Hafrannsóknastofnun; Sveitarfélagið Hornafjörður; Valorka ehf; Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Færeyjum (Fróðskaparsetur Føroyja). 

Verkefnið er til komið í kjölfar samstarfs sem Valorka hefur átt við Hafró og Hornafjarðarbæ, en um nokkurn tíma hafa þessir aðilar leitað leiða til að hefja heildstæðar rannsóknir á sjávarföllum við Ísland á vísindalegan og skipulegan hátt.  Fyrir langvarandi baráttu Valorku hillir nú undir stjórnvaldsstefnu á þessu sviði, þó enn sé hún ekki í höfn.  Hinsvegar virðist enn ekki skilningur eða geta hjá stjórnvöldum fyrir því að veita fé í þessar rannsóknir.  Hafa samstarfsaðilar því leitað eftir stuðningi erlendra samstarfssjóða, eftir því sem boðist hefur.  Sótt var um IPA-styrk til Evrópusambandsins, en í ársbyrjun 2013 varð ljóst að hann fengist ekki þó verkefnið hlyti þar góða einkunn.  Samstarfinu óx fiskur um hrygg með aðild Háskóla Akureyrar.  Faglegur stjórnandi straumarannsókna verða Héðinn Valdimarsson haffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, en hann vinnur í samstarfi við Steingrím Jónsson haffræðing og prófessor hjá Háskóla Akureyrar.  Enn var samstarfsgrunnurinn efldur með aðild Færeyjaháskóla, en þar fæst dýrmæt reynsla og ráðgjöf þar sem Færeyingar eru komnir lengra í straumrannsóknum og kortlagningu orkuríkra svæða.  Helsti tengiliður í Færeyjum er haffræðingurinn og háskólakennarinn Bardur Niclasen.  Hornafjarðarbær er aðili að samstarfinu vegna áhuga á sjávarorku svæðisins og mögulegri nýtingu hennar.  Valorka ehf hefur hvatt til samstarfsins, enda eru rannsóknir á einstökum svæðum algjör forsenda þess að unnt verði að þróa áfram fyrsta íslenska hverfilinn og skipuleggja notkun hans hérlendis.  Verkefnisumsjón er í höndum framkvæmdastjóra Valorku, ásamt faglegri stjórn tækniþróunarhluta verkefnisins.

Á grunni samstarfsins við Færeyjaháskóla hefur nú verið sótt um styrk til NORA samstarfssjóðsins, en hann hefur það hlutverk að stuðla að rannsóknum og nýtingu auðlinda samstarfslandanna; Íslands, Færeyja, Grænlands og N-Noregs.  Góðar vonir þykja á að stuðningur fáist, enda fellur verkefnið einkar vel að markmiðum sjóðsins.

Eins og lýst hefur verið í skýrslum og vefsíðu Valorku þá má leiða líkum að því að sjávarfallaorka sé ein stærsta orkulind Íslendinga, af þeim sem næstu kynslóðum eru tiltækar.  Víst er að hún er sú stöðugasta og sú sem nýta má með minnstum áhrifum á umhverfið.  Niðurstöður rammaáætlunar um vatnsföll og jarðhita sýna svart á hvítu að í þeim orkuformum höfum við þegar nýtt meira en helminginn og líklegt er að þær orkulindir verði fullnýttar fyrir árið 2050 ef orkueftirspurn verður í líkngu við það sem verið hefur, eins og sjá má í kynningu Valorku.  Þess verður að vænta að stjórnvöld taki sig á í þessum efnum og að fé verði lagt til byrjunarrannsókna á grunni þessa samstarfs, sem er hið víðtækasta og faglegasta sem stofnað hefur verið til í þessum efnum.

Atvinnuvega- og fjármálaráðherrar Íslands og Færeyja undirrituðu 5.mars 2013 viljayfirlýsingu um aukið samstarf á sviði orku- og nýsköpunarmála.  Þessi yfirlýsing gegnur í sömu átt og verkefnið og verður því væntanlega mikill styrkur.  Því hefur verkefnisstjóri í dag sent öllum fjórum ráðherrum skeyti þar sem yfirlýsingunni er fagnað.