Mikilvægur þáttur í þróunarstarfi Valorku er kynningarstarf og fræðsla. Það fylgir reyndar allri þróunarstarfsemi, en hvergi er það eins mikilvægt og í frumkvöðlastarfsemi sem þessari: Þegar bryddað er á notkun nýrrar og mikilvægrar auðlindar sem ekki hefur verið nýtt áður; þegar lítið örfyrirtæki þarf að hasla sér völl meðal risa á orkumarkaði sem hafa lítt takmörkuð ítök og fjárráð; þegar opna þarf fyrir skilning stjórnvalda á málefni sem lítil sem engin umræða hefur áður verið um og nánast er óþekkt í skólakerfi og akademsku starfi; og þegar flestir fjölmiðlar eru fremur uppteknir af æsifregnum og fánýtum tískufyrirbærum en því sem hagnýtt kann að reynast.
Valorka hefur því lagt mikla áherslu á að nýta þau raunhæfu tækifæri sem gefast til að kynna verkefnið, bæði meðal almennings og í skólum. Svo virðist sem fjölmiðlar séu í þann veginn að vakna til meðvitundar um þá möguleika sem verkefnið mun að öllum líkindum skapa, þó enn sé langt í land með að skilningur vakni almennt á raunverulegri stöðu og horfum í orkumálum Íslendinga. Allri umræðu um slíkt hefur markvisst verið haldið niðri af stórum orkufyrirtækjum og stofnunum á þessu sviði, og má líkja þeirri þöggun við umfjöllun um "íslenska fjármálaundrið" stuttu fyrir fjármalahrunið. E.t.v. þarf þjóðin að lenda í orkukreppu til að vitræn umræða hefjist almennt um orkumál.
Undirritaður hélt gestafyrirlestur um verkefnið á umhverfis- og auðlindasviði Háskóla Íslands hinn 22. febrúar 2013. Þetta er í annað sinn sem hinn framsýni kennari Þröstur Þorsteinsson biður um kynningu á verkefnum Valorku, sem er ánægjulegt. Nemendur á þessu sviði koma úr flestum heimshornum og því var fyrirlesturinn á ensku. Teknar voru saman glærur og farið yfir verkefni Valorku og sjávarfallaorku almennt. Nemendur voru áhugasamir og margar spurningar komu í lok fyrirlestrarins, sem tók nær tvær klukkustundir.
Hornafjarðarbær sýndi enn eitt framtakið á sviði orkumála með því að boða til orkuráðstefnu 28.febrúar 2013. Þar var undirrituðum boðið að halda erindi um sjávarorku, ásamt fríðum hópi fyrirlesara úr mörgum orkutengdum greinum. Nánar um ráðstefnuna má lesa á vef Hjalta Þór Vignissonar bæjarstjóra. Margt fróðlegt kom fram í erindunum og greinilegt að gróska er mikil í orkumálum, ekki síst kringum framsækin sveitarfélög eins og Hornafjörð.
Pétur Halldórsson, umsjónarmaður hins fróðlega þáttar "Tilraunaglasið" á Rás-1 í Rúv, hafði samband við undirritaðan í kjölfar orkuráðstefnunnar á Hornafirði, og var viðtalið sent út 8. mars 2013. Þar má líklega heyra ítarlegustu lýsinguna á hverflum Valorku sem birst hefur til þessa, og er frágangur Péturs á viðtalinu til fyrirmyndar. Hægt er að heyra viðtalið hér; á vefsvæði Tilraunaglassins.
Þá var umfjöllun í kvöldfréttatíma RÚV 11.mars 2013, þar sem lýst var erfiðleikum við fjármögnun þessa fyrsta hverfils Íslendinga og litlum skilningi stjórnvalda, ásamt því sem sagt var frá fyrirhuguðum sjóprófunum.
Glærur sem kynntar voru á ráðstefnunni á Höfn má sjá hér; "kynning á sjávarorku og verkefnum Valorku".
Valorka þakkar þeir sístækkandi hópi sem sýnt hefur áhuga á nýjum aðferðum í orkuvinnslu og nýtingu nýrra orkulinda.
Valdimar Össurarson