Þá er komið að því: Gert er ráð fyrir að sjóprófanir fyrsta íslenska hverfilsins og fyrstu íslensku sjávarfallavirkjunarinnar hefjist á Hornafirði innan örfárra daga. Allt er að verða klárt. Smíðaður hefur verið 25 m² fleki sem fljóta mun á yfirborðinu. Neðan í hann verður hverflinum fest, en hann er rúmir 2m í þvermál. Unnt er að lyfta honum úr sjó með sérstökum búnaði til eftirlits. Hverfillinn vinnur við straum úr báðum áttum. Átakið er fært uppúr sjó, þar sem það er mælt, ásamt snúningshraða, og skráð rafrænt til síðari úrvinnslu. Um leið er mældur straumhraði og straumstefna með vönduðum mæli sem fenginn var til verkefnisins.
Prófanirnar fara fram á Hornafirði, en þar eru aðstæður allar hinar bestu hérlendis til prófana á þessu stigi eins og lýst hefur verið í fyrri fréttum hér á síðunni. Fenginn var gamall flutningabíll til að koma búnaðinum austur, en hann mun jafnframt verða aðstaða á staðnum.
Þessi áfangi er ekki aðeins mikilvægur fyrir þróunarverkefni Valorku ehf heldur markar hann nokkur tímamót í orkusögu Íslands. Þetta verður í fyrsta sinn, eftir því sem næst verður komist, sem íslenskur hverfill er prófaður við sínar vinnsluaðstæður, svo furðulega sem það nú hljómar í ljósi langrar sögu raforkunýtingar hérlendis. Þetta verður líka í fyrsta sinn sem prófuð er sjávarfallavirkjun hérlendis sem ætluð verður til raforkuframleiðslu. Með því er opnaður nýr kafli í orkusögu landsins, en gera má ráð fyrir að þessi umfangsmesta, áreiðanlegasta og umhverfisvænsta orkulind landsins verði uppistaða raforkuframleiðslu hérlendis innan fárra áratuga. En hér gæti einnig verið um kaflaskil á heimsvísu að ræða. Ekki er vitað um neinn annan hverfil í heiminum sem náð hefur að komast í sjóprófanir og ætlaður er til orkuvinnslu úr annesjaröstum, þar sem straumhraði er oftast undir 2 m/sek. Standist þessi íslenski hverfill þær væntingar sem til hans eru gerðar, og vísbendingar hafa fengist um í undangengnum kerprófunum, þá má ætla að hann verði leiðandi á markaði sem fyrirsjáanlega verður ört vaxandi í nánustu framtíð. Hér gæti því verið um verulega hagsmuni að ræða fyrir okkur Íslendinga; ekki einungis til nýtingar okkar umfangsmiklu orkulinda sjávarfallaorku heldur á sviði framleiðslu og sölu tæknivöru, en þar erum við núna eftirbátar flestra okkar samanburðarlanda.
Enn virðast íslensk stjórnvöld þó vera illa á verði í þessum efnum. Í orkumálum gætir lítillar fyrirhyggju; þar skortir bæði framtíðarsýn og markmiðssetningu. Undirritaður hefur lengi reynt að benda íslenskum stjórnvöldum á staðreyndir í þessum efnum, m.a. með því að vísa í erlendar rannsóknir. Þær skýrslur sem sjá má hér á síðunni, undir flipanum „fróðleikur og skýrslur“ hafa verið sendar stjórnvöldum og eru reyndar ítarlegasta yfirlit um sjávarorku sem tekið hefur verið saman hérlendis. Framkvæmdavaldið sýnir lítil sem engin lífsmörk í þessum efnum. Stefnumótunarvaldið; Alþingi, gerði örlitla tilraun til að sinna sínu hlutverki með því að fram var lögð þingsályktunartillaga um rannsóknir og þróun sjávarorku, fyrir áeggjan undirritaðs. Hinsvegar var sú tilaga svæfð í þrígang, nú síðast í vor. Verkefnið hefur notið skilnings hjá Tækniþróunarsjóði, en honum er einungis heimilt að veita til helmings áætlaðs kostnaðar. Verkefnið fellur undir svið Orkusjóðs en honum hefur lengi verið haldið í fjársvelti og hefur t.d. ekki nema úr 25 milljónum að spila í styrkjum allt þetta ár. Ekki fékkst þaðan styrkur á síðasta ári, og styrkur hans til verkefnisins á þessu ári er ekki nægur þó þakkarverður sé. Því gæti farið svo, að óbreyttu, að þetta eina þróunarverkefni Íslendinga á sviði sjávarfallaorku; þróun fyrsta íslenska hverfilsins, muni deyja drottni sínum eftir þær prófanir sem framundan eru. Það slys gerist á sama tíma og hálfur milljarður af almannafé er notaður til að reisa hérlendis tvær erlendar vindmyllur sem einkum nýtast til markaðssetningar á stærsta orkufyrirtæki landsins. Nauðsynlegt er að rannsaka hagkvæmni vindorkunýtingar eins og annarra orkuforma, en hér var bruðlað um of á kostnað annarrar orkuþróunar í landinu. Fyrirspurningum Valorku um framtíð síns brautryðjandaverkefnis er ýmist ekki svarað af stjórnvöldum, eða þeim er varpað endalaust milli ráðuneyta og stofnana.
Öllum stjórnmálaflokkum er það sameiginlegt að lofa því að stuðla að nýtingu íslensks hugvits til verðmæta- og atvinnusköpunar. Oftast virðist annað vera uppi á teningnum þegar sömu flokkar eru komnir í ráðandi aðstöðu; þá man enginn lengur eftir þeim sem vilja leggja sig fram um nýsköpun í þágu framfara og þjóðarhags.
Verkefnið hefur hingað til sannað gildi sitt og gefið ástæðu til mikillar bjartsýni. Helstu skuggahliðar þess eru þær sem varða viðskipti við stjórnvöld. Sú saga verður nánar rakin þegar saga þessa fyrsta sjávarorkuhverfils Íslendinga kemur fyrir almenningssjónir.
Valorka þakkar samstarfsfólki sínu fyrir vel unnin störf hingað til og óskar því til hamingju með áfangann.
Valdimar Össurarson