neistaslodirVið áramót er við hæfi að líta stuttlega yfir liðið ár og velta fyrir sér stöðu og horfum. Margt hefur áunnist á síðastliðnu ári og í heild er staða verkefna Valorku betri núna en nokkrusinni áður; öll verkefnin eru lífvænlegri; fjárhagur er tryggður til næsta árs og verkefnið hefur notið mestu viðurkenningar sem uppfinningu getur hlotnast á alþjóðavísu. Þó er það auðvitað svo um þessi verkefni sem önnur að alltaf má finna þætti sem hefðu mátt ganga betur. Þar er þó miklu fremur um að ræða galla sem komið hafa í ljós í stuðningsumhverfinu heldur en verkefnið sjálft.

Hugmyndin að baki Valorka hverflunum hefur sannað sig æ betur með hverju ári. Sífellt koma fleiri þættir í ljós sem sýna að sú meginstefna var rétt sem tekin var í upphafi þróunarferilsins. Henni má lýsa með eftirfarandi atriðum: a) Áhersla skyldi lögð á virkjun lághraðastraums utan fjarða þar sem henni fylgja minni umhverfisáhrif og þar væru fleiri markaðstækifæri en í öðrum geirum orkutækni. b) Til virkjunar lághraðastraums henta þverstæðuhverflar betur en skrúfuhverflar og aðrir, þar sem virkjunin byggir á miklum massa á hægri ferð. c) Allar grunnrannsóknir skortir hérlendis á sjávarfallaorku og því þurfa þær að vera hluti af starfi Valorku ehf. d) Stuðningskerfi nýsköpunar er illa virkt hérlendis vegna m.a. úreltra vinnubragða; óeðlilegrar hagsmunagæslu og ólýðræðislegra stofnana og því eru úrbætur í því efni óhjákvæmilegur hluti af verkefninu. e) Nauðsynlegt er að þróunarferlið njóti samstarfs við breiðan hóp áhugasamra sérfræðinga, en ekki síður að það nýtist til að efla þekkingu og fræðslu á sviði sjávarorkutækni. f) Afla þarf verkefninu viðurkenningar, bæði innlendis og erlendis, ef það á að eflast og nýtast. Hér á eftir verður litið til þessara þátta og skoðað hvernig til hefur tekist.

Þróun Valorka hverflanna

Þegar lagt var upp í þróunarstarfið lágu fyrir ýmsar hugmyndir um tæknilausnir, misjafnlega skýrar, enda hafði hugmyndavinnan staðið yfir í fjölmarga áratugi. Fljótlega eftir að verkleg þróunarvinna hófst, í byrjun árs 2009, var komin fullmótuð hugmynd að V-1 og stuttu síðar að V-2. Þær standa enn uppúr hvað varðar frumleika og verða prófaðar áfram. V-3 er mjög einföld lausn sem er aðgengilegri til samstæðusmíði en hinar. Enn var svo farið inn á nýjar brautir árið 2010 með V-4, en hún skilaði bestri orkunýtingu af þessum fjórum. Hver þessara gerða hafði sína kosti og viðfangsefni ársins 2011 var að sameina kostina og bæta enn orkunýtingu, en um leið að varðveita einfaldleika og trausta byggingargerð. Eftir allnokkrar vangaveltur leit V-5 dagsins ljós, síðla árs 2011, en með henni virðast þessi viðfangsefni vera leyst á viðunandi hátt. Nú í árslok 2011 hafa verið gerðar fáeinar prófanir með þá gerð í straumkeri og fyrstu niðurstöður sýna allmikla yfirburði varðandi orkunýtingu. Því verður spennandi að sjá árangur frekari prófana; bestun þátta og staðfestingu fræðimanna. Framundan í þróunarstarfinu er þetta: „Fimman" verður prófuð; bestuð; teiknuð og sótt verður um einkaleyfi á nýjungum sem henni tengjast. 50 cm líkön hennar verða bæði prófuð í straumkerinu og einnig með báti við víðara hraðasvið. Þá verður smíðaður fleki og neðan í hann verður fest líkan í stærri skala. Þannig prófanir fara líklega fram við valdar veðuraðstæður á rúmsjó og e.t.v. einnig í sundum innan fjarða. Skilyrði þess eru þó að takast megi að mæla straumhraða á prófunarstöðum. Þá er stefnt að því að nýr þáttur líti dagsins ljós í þróunarstarfinu þegar smíðað verður líkan af ölduvirkjun. Það mun byggja á hugmynd VÖ sem verið hefur á hugmyndastigi um áratuga skeið.

Rannsóknir á sjávarorku við Ísland

Orkumál á Íslandi eru í allsérkennilegum farvegi. Verði óbreyttri opinberri stefnu haldið er ekki annað fyrirsjáanlegt en að litið verði á okkur á alþjóðavettvangi sem „lokað ríki" þar sem stofnanir og stórir hagsmunaaðilar ráða ferðinni fremur en pólitískt kjörnir leiðtogar. Margt því til sönnunar liggur skráð í þeirri nákvæmu framvindudagbók sem haldin er um verkefni Valorku ehf og mun e.t.v. verða birt síðar.
Engar rannsóknir hafa verið gerðar á umfangi sjávarfallaorku við Ísland og áhugi stjórnvalda hefur hingað til enginn verið í þeim efnum. Séu niðurstöður vandaðra rannsókna grannríkja okkar, t.d. Íra, yfirfærðar á okkar aðstæður má ætla að umfang sjávarfallaorku við Íslandsstrendur sé mun meira en samanlagt umfang vatnsfalla- og jarðhitaorku Íslands. Með öðrum orðum er hér um að ræða eina stærstu auðlind Íslendinga. Það er því undarlegt fyrirhyggjuleysi að hálfu stjórnvalda að hafa ekki enn látið hefja rannsóknir til undirbúnings heildarmats hennar og nýtingar. Einkum í ljósi þess að við eigum einungis vatns- og jarðhitaorku til fáeinna áratuga aukningar, ef marka má nýja rammaáætlun stjórnvalda á því sviði. Í ársbyrjun 2011 tók undirritaður saman rit um þessi efni; „Sjávarfallaorka og hagsmunir Íslendinga", þar sem vakin er athygli á þessari umfangsmiklu auðlind og bent á þann hag sem þjóðin getur haft af nýtingu og tækniþróun á því sviði. Ritið er birt hér á vefsíðu Valorku og það var sent víða um stjórnkerfið. Ekki varð vart neinna viðbragða að hálfu hinna stöðnuðu yfirvalda. Ráðandi orkufyrirtæki sáu sér engan hag í þessu, og þeirra ítök í stjórnkerfinu eru meiri en flesta grunar. Meðal alþingismanna reyndist þó einn vera áhugasamari en aðrir, en það var Skúli Helgason, þáverandi formaður iðnaðarnefndar Alþingis. Hann reyndist tilbúinn til fundar um málefnið og svo var einnig um nokkra aðra framsýna þingmenn þegar eftir var gengið. Undirritaður hafði gert uppkast að stefnumótandi þingsályktunartillögu og Skúli ákvað að bera hana undir fleiri þingmenn. Eftir nokkurn tíma varð ljóst að tillagan yrði lögð fram á vorþingi 2011 af 22 þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi, en Skúli Helgason yrði fyrsti flutningsmaður. Tillagan var borin undir einhverjar stofnanir, en þeirra breytingartillögur voru ekki til bóta. Tillagan var lögð fram 31.03.2011 en ekki tekin til umræðu fyrir þinglok. Aftur var hún lögð fram á haustþingi 2011 en hafði enn ekki verið tekin til umræðu í árslok. Valorka ehf hefur undirbúið sjávarorkurannsóknir sem hefjast munu þegar fé fæst til kaupa á búnaði. Það mun vart fást fyrr en tillagan hefur verið samþykkt, og hefur t.d. Tækjasjóður Rannís ítrekað synjað um styrki til verkefnisins án nokkurra haldbærra skýringa. Sama gildir um Nýsköpunarmiðstöð Íslands og sjóði sem undir hana heyra. Reyndar gekk NMÍ lengra og reyndi að bregða fæti fyrir verkefnið en þeirri atlögu verður lýst síðar. Þingmenn verða minntir á fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um rannsóknir á sjávarorku strax í ársbyrjun 2012. Í ljósi hins mikla fjölda flutningsmanna og aðildar allra flokka má vænta þess að hún verði samþykkt og að í framhaldinu verði séð fyrir byrjunarfjármagni til að hefja rannsóknir. Valorka hefur gert samkomulag um að hefja þær rannsóknir á hagkvæmasta máta sem hugsast getur, en þó þannig að gætt sé fullrar vandvirkni og vísindalegra aðferða. Fyrir liggur samstarfssamningur um rannsóknarverkefnið „Rannsóknamiðstöð sjávarorku", en að því standa Valorka ehf sem mun nýta niðurstöður til nauðsynlegra þátta í þróun hverfilsins; Hafrannsóknastofnun sem hafa mun verklega og faglega umsjón með mælingum og nýta niðurstöður í sinni starfsemi og þriðji aðilinn er Verkís sem mun nýta niðurstöður m.a. til uppfærslu á fyrirliggjandi sjávarfallalíkani. Fá þarf lítilsháttar fé til kaupa á mælibúnaði, en í byrjun mun Hafró leggja til skip og fræðimenn til mælinga. Því má fullyrða að sjaldan eða aldrei hafa jafn mikilvægar rannsóknir getað hafist á jafn hagkvæman hátt. Vonandi sýna stjórnvöld slíkum aðferðum verðugan skilning.

Umbætur á stuðningsumhverfi nýsköpunar

Verkefni Valorku er nýstárlegt og í framkvæmd þess reynir á nýjar hliðar stuðningsumhverfisins. Það er einnig svo fjölþætt að mikið veltur á samhæfingu ýmissa sjóða og stofnana. Sumt í stuðningsumhverfinu hefur staðist þetta próf með prýði, en í of mörgum atriðum hafa gallar þess komið berlega í ljós. Hér verða því ekki gerð ítarleg skil; hverju smáatriði er haldið til haga í framvindudagbók Valorku ehf og kann síðar að verða birt. Margir þessara vankanta eru vel kunnugir öllum þeim íslensku frumkvöðlum sem reynt hafa að koma hugmyndum í framkvæmd. Það hefur glögglega komið í ljós í umræðum á vettvangi Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna, en þar er undirritaður nú formaður. Á nýliðni ári tók SFH saman greinargerð um helstu ágalla stuðningsumhverfisins ásamt ábendingum um úrbætur og sendi til stjórnvalda í hinum ýmsu viðkomandi greinum. Tillögurnar snúa að fjölmörgum ólíkum þáttum sem laga þarf. Þar má nefna lagagrunn stofnana og starfsemi þeirra; samræmingu stuðningsaðgerða; skort á stuðningi við þá sem minnst mega sín; skort á áhugaeflingu og fræðslu til ungmenna og margsháttar mismunun og óeðlilega hagsmunagæslu sem viðgengst innan kerfisins. Enn hafa engin viðbrögð komið frá stjórnvöldum. Verði ekki gerðar breytingar mun sköpunarkraftur íslenskra frumkvöðla og hugvitsmanna ekki nýtast til eflingar þjóðarhags, en þess þarfnast þjóðin nú öðru fremur.

Samstarfshópur Valorku

Þó undirritaður sé enn eini fasti starfsmaður Valorku þá nýtur verkefnið starfskrafta nokkurs fjölda mjög færra sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum. Án þeirra væru framfaraskrefin mun smærri og ómarkvissari. Þar er fyrstan að nefna Halldór Pálsson Ph.D. dósent í vélaverkfræði við HÍ en hann er aðalráðgjafi varðandi véltæknilega hönnun; uppsetningu prófana og úrlestur niðurstaðna. Vigfús Arnar Jósepsson, nemandi Halldórs, vann meistaraprófsritgerð sína í samstarfi við Valorku og hefur síðan tekið að sér verkfræðilegar úrlausnir sem sérverkefni. Aðalsteinn Erlendsson hefur unnið tækniteiknunarverkefni en einnig gefið ýmis góð ráð. Sigurður Invarsson hjá Árnason Faktor hefur veitt lögfræðiaðstoð varðandi einkaleyfi. Jón S. Helgason hefur aðstoðað sem löggiltur endurskoðandi og Guðbjartur Össurarson og Agnes Ingvarsdóttir hafa veitt bókhaldsaðstoð. Þá er ótalin aðstoð fjölmargra annarra, svo sem Lárusar Pálmasonar veiðarfærasérfræðings varðandi prófanir o.fl.; Björgvins Jónssonar rafvirkja varðandi ýmis tækniatriði; Jens Tómassonar rennismiðs; Þóris Garðarssonar flugvélvirkja; Stefáns Guðsteinssonar skipaverkfræðings; Héðins Valdimarssonar haffræðings; Kristjáns Þórs Árnasonar auglýsingateiknara; Jóns Axels Egilssonar kvikmyndagerðarmanns og margra fleiri.  Hér skal ekki gleymt að nefna Guðbjörgu Sigurðardóttur sambýliskonu undirritaðs, en án hennar stuðnings og hvatningar væri verkefnið ekki fætt.

Verkefni Valorku hafa notið vaxandi athygli námsfólks og hafa nokkrir nemendur lýst áhuga á að taka þætti þess sem val- eða lokaverkefni, bæði innlendir og erlendir. Valorka hefur tekið slíkum erindum vel og vill gjarnan taka þátt í að auka þekkingu og áhuga ungmenna á nýjum aðferðum í orkutækni. Hinsvegar vekur athygli hin almenna deyfð kennara og skólastjórnenda, en enginn skóli hefur sýnt því áhuga að taka þennan þátt inn í kennslu þrátt fyrir að þar séum við Íslendingar í fremstu röð á heimsvísu. Þetta sýnir e.t.v. betur en margt annað hve íslenskt skólaumhverfi er staðnað og ófært um að fylgja nýjustu straumum tækni og vísinda. Í þessu ljósi getur varla verið annað en hlægilegt þegar rætt er um að íslenskir háskólar komist í röð þeirra 100 fremstu í heimi. Á þessu áhugaleysi eru þó undantekningar, t.d. hið ágæta samstarf við Halldór Pálsson hjá HÍ sem nefnt var.

Að síðustu skal hér minnst látins samstarfsfélaga sem á stærri þátt í þessari hugmynd en hún sjálf gerði sér nokkurntíma grein fyrir. Þetta er tíkin Týra sem dó í hárri elli haustið 2011. Gönguferðirnar með Týru voru það umhverfi sem hugmyndir að Valorka hverflunum þurftu til að þroskast og fullkomnast. Sú trygglynda tík á því sinn þátt í tækniframförum á sviði orkumála. Þáttur hunda í þróunarsögunni er stórlega vanmetinn.

Viðurkenningar og fjármögnun

Verkefninu hlaust mikill heiður haustið 2011 þegar IFIA –Alþjóðasamtök uppfinningafélaga- veittu undirrituðum fyrstu verðlaun í uppfinningasamkeppninni „International Invention Awards". Efnt er til þessarar alþjóðlegu keppni á nokkurra ára fresti og áhersla lögð á afmörkuð svið hverju sinni. Í þetta sinn var athyglinni beint að uppfinningum á sviði umhverfisvænnar orkutækni og umhverfisverndar. Verkefni Valorku var valið úr fjölda umsókna um víða veröld og voru verðlaunin afhent á afmælissýningu Sænska uppfinningafélagsins, SUF, í Stokkhólmi 5. oktober 2011. Verðlaunin nema 300.000 SKR og verða látin renna til þróunarstarfsins þar sem þau gagnast vel sem mótframlag samkeppnissjóða. Féð er mikilvægt en þó er margfalt mikilvægari sú viðurkenning sem uppfinningin nýtur með þessu á alþjóðavísu. Hún þýðir að Valorka telst nú standa framar en aðrir þróunaraðilar á sínu tæknisviði; tækni til nýtingar sjávarfallaorku utan sunda. Það forskot má ekki tapast; það er ekki einungis mikilvægt fyrir framgang verkefna Valorku heldur fyrir möguleika Íslendinga til að komast í fremstu röð í tækniþróun og –framleiðslu sem nýtur vaxandi eftirspurnar á heimsvísu.

Fleiri viðurkenningar hlotnuðust verkefninu á líðandi ári. Landsbankinn sýndi þá framsýni að setja á fót nýsköpunarsjóð og var Valorka einn þeirra 7 styrkþega sem hlutu milljón króna styrk við fyrstu úthlutun. Orkusjóður veitti verkefninu hæsta styrk sinn við úthlutun þessa árs, 4,2 millj kr og áður var nefndur styrkur Tækniþróunarsjóðs á þessu ári, kr. 7 milljónir. Því er fjárhagsgrunnur tryggður fyrir næsta ár. Hinsvegar blasir það nú við að Ríkissjóður Íslands mun taka verulegan hluta þessa styrkfjár sem skatta. Þetta mun gerast þrátt fyrir loforð stjórnvalda um skattaívilnanir til nýsköpunar, enda ná þær ívilnanir aðeins til stórfyrirtækja sem ekki eru háð opinberum styrkjum. Þeim aðilum sem mest þurfa á ívilnun að halda; frumkvöðlum sem eru að byrja með tvær hendur tómar og hafa ekkert nema opinbera styrki; þeim er refsað með því að ríkið tekur stóran hluta þess styrkfjár sem ekki þarf að nýta á úthlutunarárinu. Stjórn SFH reyndi að koma alþingismönnum í skilning um þennan fáránleika þegar lögin voru sett, en ekki var á það hlustað fremur en annað sem kemur frá grasrótinni. Svo mega menn velta fyrir sér ástæðum þess að íslensk nýsköpun á erfitt uppdráttar.

Að lokum

Verkefni Valorku njóta nú meiri velgengni en nokkru sinni áður, og horfurnar eru bjartar. Þó er ljóst að mikið og erfitt starf er framundan. Ef líkja mætti þessum verkefnum við fjallgöngu þá má segja að einungis hafi neðstu hjallarnir verið gengnir; brött og grýtt fjallshlíð þróunarstarfsins er framundan og efst blasir við klettabelti framleiðslu og markaðssetningar. Enn veit enginn hvort sá fjallgöngumaður klárar gönguna sem hóf hana. Hann getur hvenær sem er fallið úr leik, en einnig getur hann e.t.v. afhent merki sitt öðrum sem vilja koma því á toppinn. Ennþá er þó ekkert sem bendir til annars en að verkefnið takist, og áfangi líðandi árs færði fjallgöngumanninum nesti og nýja skó.

Valorka ehf óskar samstarfsfólki og velunnurum gleðilegs nýárs og þakkar samfylgdina á liðnu ári.

Valdimar Össurarson