Alþingi hefur nú tekið tekið til meðferðar þingsályktunartillögu 22ja þingmanna úr öllum flokkum um "rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við Ísland". Tillagan var lögð fram á vorþingi í fyrra en ekki tekin til umræðu. Aftur var tillagan lögð fram í oktober sl, en það var fyrst nú í gær sem hún var tekin til fyrri umræðu.
Tillagan er komin fram í kjölfar funda sem Valdimar Össurarson átti við nokkra þingmenn og kynninga Valorku á málefninu. Fljótlega eftir að Valorka ehf hóf störf varð ljóst að þróun hverflanna myndi fljótlega stöðvast hérlendis ef ekki tækist að hefja lágmarksrannsóknir. Valorka ehf er fyrsti og eini aðilinn sem þróar tækni til nýtingar sjávarfallastrauma utan stranda. Á því sviði hafa engar rannsóknir farið fram. Ekki liggur fyrir ein einasta vísindaleg mæling á straumstyrk í annesjaröstum, og því síður er vitað um nánari aðstæður til virkjana. Á nokkrum stöðum hefur verið mælt inni á fjörðum, einkum í tengslum við fiskeldi eða samgönguframkvæmdir og á örfáum stöðum hafa verið skoðaðar aðstæður til sunda- eða stífluvirkjana.
Valdimar átti viðtöl við nokkra þingmenn, m.a. Skúla Helgason, þáverandi formann iðnaðarnefndar, árið 2010 og greindi frá þörf þess að hefja rannsóknir á sjávarorku við landið. Gerði hann grein fyrir stöðu síns verkefnis; stöðu tækniþróunar á þessu sviði á heimsvísu ásamt stöðu rannsókna af þessu tagi í grannlöndum okkar. Lagði hann áherslu á að rannsóknir af þessu tagi væru nauðsynlegur liður í þeirri stefnumótunarvinnu sem nú fer fram á sviði orkumála, auk þess sem Ísland yrði að líta til fjölbreyttra orkukosta og framleiðslutækifæra til að standast alþjóðlegan samanburð. Í kjölfar þessara funda tók Valdimar saman skýrsluna "Sjávarfallaorka og hagsmunir Íslendinga" og sendi m.a. öllum þingmönnum til kynningar. Skúli hefur reynst mjög áhugasamur um þetta mál og innan skamms var komin fram þessi þingsályktunartillaga, borin fram af 22 þingmönnum úr öllum flokkum á Alþingi. Þetta mikla fylgi við málefnið sýnir eindreginn vilja alþingismanna og flokka við þetta mál, og má öruggt heita að tillagan nái fram að ganga. Hún er í umfjöllun atvinnuveganefndar Alþingis.
Þingsályktunartillagan er í megindráttum í samræmi við þær þarfir og hagsmuni sem Valdimar hefur verið að kynna fyrir stjórnvöldum. Hún er fyrsta stefnumótun stjórnvalda á sviði sjávarorku. Með henni lýsa stjórnvöld því annarsvegar yfir að þau ætli að kanna umfang og nýtingarmöguleika sjávarfallaorku, en hitt er ekki síður mikilvægt að stjórnvöld munu hér eftir stuðla að framgangi þróunar á sviði sjávarorkutækni. Með samþykkt tillögunnar eru Íslendingar því formlega komnir í hóp þeirra ríkja sem nú leita lausna til hagkvæmrar notkunar sjávarorku. Þar erum við nú þegar í fremstu röð að því er varðar virkjun annesjastrauma utan fjarða; enginn hverfill er þar kominn lengra í þróun en Valorka hverflarnir. Einn galla má þó finna á þessari tillögu sem nauðsynlegt er að slípa af í meðförum nefndar. Talað er um það í megintexta að leggja áherslu á rannsóknir á þau svæði "sem ætla má að uppfylli hagkvæmnikröfur". Í ljósi þess að öll tækni er nú á þróunarstigi þarf ekki að orðlengja hve þessi setning stenst illa. Ef einungis ætti að taka mið af "hagkvæmnikröfum" þá yrðu engin svæði rannsökuð þar sem ekki er unnt að sýna fram á hagkvæmni neins þeirra við óbreytta tækni. Þannig hugsunarháttur er hinsvegar út í hött þegar haft er í huga annarsvegar að hér er um að ræða rannsóknir á auðlind sem næstu kynslóðir munu nota og hinsvegar þá framþróun í hagkvæmum lausnum sem nú er að verða, t.v. með Valorka hverflunum. Sé fyrirhugað notagildi þeirra haft í huga má leiða verulegum líkum að því að virkja megi allar helstu rastir landsins á hagkvæman hátt. Þennan vankant þarf því að sníða af hinni annars ágætu tillögu.
Valorka ehf hefur haft forgöngu um að koma á fót verkefninu Rannsóknamiðstöð sjávarorku og efnt til samvinnu við Hafrannsóknastofnun og Verkís um framkvæmd þess. Verkefnið miðar að þeim rannsóknum af þvi tagi sem þingályktunartillagan snýst um, og að því standa þeir aðilar sem bæði hafa mesta þekkingu á þessum rannsóknum og þeir sem stendur þetta verkefni næst í stjórnskipulegu og raunhæfu tilliti. Valorka ehf hefur komið á fót miklum gagnabanka um hvaðeina sem varðar nýtingu á sjávarorku; rannsóknir erlendis; stefnumörkun ríkja og stöðu tækniþróunar. Hluta þeirrar rannsóknarvinnu má sjá í ársyfirliti hér. Auk þess er Valorka eina fyrirtæki landsins sem vinnur að tækniþróun á sviði sjávarorku og hefur mestan hag af rannsóknum á því sviði. Hafrannsóknastofnun hefur stjórnskipulegt hlutverk á sviði sjávarrannsókna og býr yfir bestri þekkingu og búnaði til þess. Rannsóknirnar munu falla vel að öðrum verkefnum Hafró og niðurstöðurnar nýtast í ýmsum tilgangi. Verkís sér um viðhald og uppfærslu eina sjávarfallalíkans landsins og mun nýta rannsóknarniðurstöður til uppfærslu á því. Verkís hefur auk þess tekið þátt í ýmsum rannsóknum á sjávarorku innanfjarða og býr yfir þekkingu og reynslu á því sviði. Með stofnun Rannsóknamiðstöðvar sjávarorku hefur því verið undirbúið það verkefni sem hér fær vonandi stuðning af stefnumörkun stjórnvalda með samþykkt þingsályktunartillögunnar. Sjóðakerfið hefur verið verkefninu andsnúið hingaðtil, en vonandi verður nú breyting á því, þannig að unnt verði að kaupa nauðsynleg og vönduð mælitæki.
Hinum framsýnu flutningsmönnum tillögunnar eru hér með færðar þakkir og vonandi fær tillagan góðan framgang í Alþingi. Þjóðinni er hér með óskað til hamingju með þá stefnumörkun sem hér er hafin varðandi rannsóknir á hinum gífurlegu orkuauðlindum sjávar.