Að undanförnu hafa orðið nokkrar umræður um orkumál hérlendis.  Landsvirkjun hefur farið mikinn og leitast við að koma stórvirkjanadraumum sínum áfram á þeim grundvelli að hérlendis ríki "raforkuskortur".  Vissulega er vatnsbúskapur landsins slæmur um þessar mundir.  Við þær aðstæður á auðvitað að draga úr sölu til stærstu notendanna, sem eru erlendar álbræðslur, en ekki láta ástandið bitna á eigendum virkjananna; Íslendingum sjálfum.  Landsvirkjun vill enga orkunýtingu sjá nema þá sem fyrirtækið stendur sjálft fyrir, og því hefur Landsvirkjun leynt og ljóst beitt sér gegn sjávarorkunýtingu og gegn verkefnum Valorku.

Nýjasta útspil Landsvirkjunar er skýrsla um orkumál, sem í orði kveðnu er sögð unnin af "óháðri" þriggja manna nefnd, en túlkar svo eindregið sjónarmið Landsvirkjunar að faðerninu verður ekki neitað.  Hér á eftir er birt tilkynning sem Valorka sendi fjölmiðlum og þingmönnum í þessu tilefni.  Í ljósi reynslunnar er þó líklegt að þessir aðilar muni stinga öllum athugasemdum undir stól; enginn má andmæla Landsvirkjun.  

                  "Í tilefni af nýútkominni skýrslu um orkumál og umræðum ráðamanna um nýsköpunar- og orkumál, vill Valorka koma eftirfarandi leiðréttingum á framfæri:
Skýrslan er alls ekki óvilhöll, heldur túlkar hún einhliða þau sjónarmið Landsvirkjunar að nauðsynlegt sé að drekkja stórum landsvæðum í virkjanalónum og spilla víðernum landsins með vindmylluturnum. Því er ámælisvert að ráðamenn taki undir slíkt gagnrýnislaust og fjölmiðlar og þingmenn láti hjá líða að spyrja gagnrýnna spurninga. Áberandi vanþekkingar og þöggunar gætir á málefnum sjávarorku; þar þarf að bæta úr. Í skýrslunni og nýlegri umræðu er litið framhjá ýmsum staðreyndum:
Stærsta orkuauðlind Íslands, og sú sem næstu kynslóðir munu þurfa að nýta í sátt við náttúruna, er sjávarorka. Þetta vita þeir sem einhverja þekkingu hafa á orkumálum, en stórir hagsmunaaðilar hafa, með dyggri aðstoð stjórnvalda, haldið niðri umræðu og þróun á því sviði. Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi látið hjá líða að hefja rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum þessarar orkulindar er heildarumfangið ljóst í stórum dráttum, og þar með að virkjanleg sjávarfallaorka er margfalt umfangsmeiri en nýtanlegar orkulindir á landi. Tækni til nýtingar hennar mun verða aðgengileg á þeim tíma sem skýrslan nær til.
Tækniþróun til nýtingar sjávarorku hefur verið ör; bæði ölduorku og sjávarfallaorku. Sjávarfallaorka er komin nær markaðsstigi og þegar eru nokkrar virkjanir farnar að keyra inn á neyslunet. Flestar eru þær skrúfuhverflar sem þurfa meiri straumhraða en algengastur er, t.d. hér við land. Nú eru t.d. Færeyingar komnir langt framúr hinum stöðnuðu íslensku stjórnvöldum, með því að fyrirtækið Minesto er þar komið á fullt með prófun sinna hverfla.
Frá 2009 hefur Valorka unnið að þróun íslenskrar uppfinningar; hverfla til nýtingar sjávarfallaorku af þeim straumhraða sem algengur er við strendur, m.a. hérlendis. Hverfillinn er einfaldari, ódýrari og meðfærilegri en hinir erlendu skrúfuhverflar, en þó stærri, mun fjölhæfari og umhverfisvænni. Ljóst er að með fullnaðarþróun og framleiðslu á slíkri tækni gætu Íslendingar orðið leiðandi á þessu sviði orkuskipta og framtíðarorkuöflunar á heimsvísu. Valorka er eini aðilinn hérlendis í þróun sjávarorkutækni.
Áðurnefnd skýrsla um orkumál nefnir verkefni Valorku ekki einu orði. Þau tvö verkefni á sviði sjávarorku sem þar eru nefnd lúta bæði að frumkönnun nýtingar á afmörkuðum stöðum, en eru á engan hátt lýsandi fyrir stöðuna á þessu sviði.
Stjórnvöld hafa lagt sig fram um að stöðva þróunarverkefni Valorku. Verkefnið fékk í byrjun nokkra styrki til að komast af stað og í ljós kom að tæknin stóð að öllu leyti undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar. Þegar hverfillinn var kominn á stig sjóprófana árið 2018 tóku stjórnvöld skyndilega þá ákvörðun að stöðva allan stuðning við það. Tækniþróunarsjóður Rannís hefur synjað öllum umsóknum frá þeim tíma; og vill þar með ónýta það almannafé sem þegar hefur verið lagt í þessa þróun. Nýstofnaður Loftslagssjóður Rannís styrkir helst verkefni sem ekki koma loftslagsmálum við og hefur synjað öllum umsóknum Valorku. Orkusjóður styrkti verkefnið í byrjun en hætti því skyndilega, og veitir nú einkum almannafé til stuðnings fyrirtækja í arðsömum rekstri (sjá birtan lista). Ekkert eftirlit virðist vera með rekstri framangreindra sjóða. Þar er gríðarlegum upphæðum af almannafé ráðstafað eftir geðþótta fárra einstaklinga og hagsmunum stórra aðila. Ekki þarf að rökstyðja úthlutanir og umsækjendum er meinað að leita réttar síns, enda eru sjóðirnir undanþegnir stjórnsýslulögum. Slík er meðferð almannafjár í svonefndu „stuðningsumhverfi nýsköpunar“. Alþingi bregst eftirlitsskyldu sinni og fjölmiðlar sömuleiðis. Enginn spyr gagnrýnna spurninga og ábendingum sem þessari er stungið undir stól.
Fleiri ráðum er beitt til að stöðva verkefni Valorku. Eftir bankahrunið lýstu stjórnvöld því yfir að stutt yrði við nýsköpun. Þá hafði bandaríkjaher nýlega gefið þjóðinni húseignir á Keflavíkurvelli og var eitt húsanna tekið undir frumkvöðlamiðstöð, þar sem m.a. Valorka fékk aðstöðu. Að fáeinum árum liðnum gleymdu stjórnvöld fyrirheitum sínum; hentu öllum frumkvöðlum út á götu og „seldu“ húsið til velþóknanlegra aðila. Allt í kyrrþey. Þetta, ásamt skorti á eðlilegum fjárstuðningi, hefur haldið verkefni Valorku í stöðvun frá 2018.
Stjórnvöld hafa vanrækt að hefja skipulegar rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við Ísland. Valorka fékk því til leiðar komið að nokkrir framsýnir þingmenn lögðu fram þingsályktunartillögu um úrbætur í því. Tillagan velktist nokkuð í þinginu og m.a. reyndi Landsvirkjun af öllum mætti að hindra framgang hennar. Svo fór þó að vorið 2014 var hún samþykkt samhljóða á Alþingi. Ráðherra var falið að skipa starfshóp til að móta tillögu um framkvæmdina. Þannig var þó valið í þann hóp að málið var drepið niður; þeim var haldið úti sem mest höfðu barist fyrir málinu. Hópurinn lagði þó til byrjunarrannsóknir í Látraröst. Valorka gerði tilraun til þess, í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun og fleiri, að fá nauðsynlegan búnað í þær rannsóknir. Rannís hafnaði hinsvegar öllum umsóknum um stuðning og engan stuðning var að hafa annarsstaðar. Landsvirkjun hefur beitt sér mjög gegn öllum vekefnum Valorku; bæði leynt og ljóst. Landsvirkjun er hið ráðandi afl í orkumálum landsins, og ekkert kemst á dagskrá í orkumálum hérlendis nema það þjóni hagmunum Landsvirkjunar hverju sinni. Nauðsynlegt er að Alþingi losni undan þessu ofurvaldi og verði sjálfstæðara í sinni stefnumótun á sviði orkumála. Skýrsla af því tagi sem nú hefur birst þjónar hagsmunum Landsvirkjunar fremur en þjóðarhagsmunum.
Nýr ráðherra nýsköpunar sagði í viðtali eftir að skýrslan kom út að „við þurfum að horfa til nýrra tæknilausna“. Hér fara ekki saman orð og gerðir, eins og m.a. má sjá hér framar. Stjórnvöld hafa staðið illa að stuðningi við hugvitsmenn og frumkvöðla sem vilja hefja nýsköpun. Þannig hefur samtökum þessa fólks verið synjað um stuðning af Alþingi og ríkisstjórn. Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN reka umfangsmikla fræðslu og ráðgjöf í þágu nýsköpunar og undirbúa núna verkefni í samstarfi við ÖBÍ, Þroskahjálp og fleiri, sem miðar að því að auka möguleika fatlaðra til nýsköpunar. Fyrsta verk nýs ráðherra nýsköpunar var að svipta félögin þeim litla rekstrarstuðningi sem þau nutu á síðasta ári. Þegar ráðuneytið var spurt um úrræði vísaði það á samkeppnissjóði og önnur slík happdrætti. Þau viðbrögð eru í andstöðu við nýleg lög um nýsköpun sem eiga að tryggja gjaldfrjálsa ráðgjöf á fyrstu stigum nýsköpunar en ekki afnema hana. Undirritaður hefur um nokkurn tíma verið formaður SFH og þekkir því nokkuð vel til viðhorfa á því sviði. Tekið skal fram að samstarfsverkefnið um nýsköpun fatlaðra fékk lítilsháttar undirbúninsstyrk á fjárlögum þessa árs, en það verkefni kann að eyðileggjast ef félögin sjálf neyðast til að hætta starfsemi vegna fjárskorts. Enn bendir ekkert til þess að stjórnvöld hyggist styðja við starfsemi frumkvöðla á fyrstu stigum; hvorki einstök verkefni eins og hér var nefnt, né áframhaldandi starfsemi SFH og KVENN. Skorað er á Alþingi að taka málefni nýsköpunar á frumstigum nú þegar til umræðu og hlutast til um úrbætur.
Staða verkefna Valorku er núna sú að þróunarstarfinu er haldið í frosti með þeim stjórnvaldsaðgerðum sem lýst var; að synja því um styrki þrátt fyrir faglega velgengni. Hinsvegar fékk Valorka lítilsháttar styrk frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða; eina milljón kr, til að gera athuganir á hagkvæmni sjávarfallavirkjunar í Látraröst út frá tilteknum forsendum. Sú fjárhæð dugir skammt, enda þarfnast slíkt kostnaðarsamra rannsókna og sérfræðivinnu. Valorka mun þó kappkosta að vanda til verka, enda er hér um að ræða fyrstu skýrsluna sem gefur hugmynd um víðtæka möguleika sjávarfallavirkjana hérlendis.
Valorka hvetur fjölmiðla og alþingismenn til þess að skoða áðurnefnda skýrslu um orkumál með gagnrýnni augum en gert hefur verið. Spyrja má t.d. að eftirfarandi:
- Hvernig stendur á því að Landsvirkjun segir eitt árið að leggja þurfi dýran rafstreng til útlanda til að selja umframorku, en næsta ár segist LV þurfa að skerða raforku vegna orkuskorts?
- Í ljósi þess að langstærsti hluti orkuframleiðslu hérlendis fer til stóriðju; hver er ástæða þess að LV hótar að yfirvofandi „orkuskortur“ muni koma niður á almenningi og orkuskiptum? Stjórnvöldum er í lófa lagið að draga úr umfangi stóriðju hérlendis ef þess þarf. Orkusöluamningar eru ekki fyrirstaða í því efni; það er á ábyrgð Landsvirkjunar ef búið er að forgangsraða stóriðjunni umfram þarfir landsmanna sjálfra. Slíkir samningar eru riftanlegir.
- Í ljósi hins mikla umfangs sjávarorku hérlendis; hvers vegna er Ísland að dragast aftur út öðrum þjóðum í þróun sjávarorkutækni? Hvers vegna er íslensku framtaki haldið niðri?
- Hvers vegna er ekkert stutt við þróun sjávarorkutækni hérlendis þrátt fyrir að Íslendingar hafi núna tækifæri til þess að verða leiðandi í þróun á þessu sviði? Þurfum við ekki nýsköpun?
- Hver er ástæða þess að stjórnvöld hefta starfsemi frjálsra félagasamtaka sem vilja stuðla að nýsköpun; einu hagsmunasamtaka frumkvöðla og hugvitsmanna? Hver er stefna Alþingis í málefnum hugvitsfólks og stuðningi við frumkvöðlastarf á fyrstu stigum?
Skorað er á fjölmiðla og þingmenn að skoða þessi málefni með gagnrýnni hætti en gert hefur verið. Skorað er á þingmenn að taka þessi mál til umræðu; skapa þessari nýsköpun viðunandi skilyrði og taka þjóðarhag framyfir hagsmuni einstakra stórfyrirtækja".
12. mars 2022
Valdimar Össurarson
framkvæmdastjóri Valorku ehf
s. 862 2345

Valorka hefur undanfarin misseri unnið að tvíása afbrigði hverflanna; svonefndri Val-X gerð eða Valex.  Fyrri gerðir voru einása; þ.e. með einum meginási.  Í Valex eru tveir meginásar, auk þess sem fleiri milliásar geta verið eftir þörfum.  Þó ýmis grunnatriði séu þau sömu hefur þessi gerð allmikla yfirburði varðandi afköst og notagildi.  Í raun má segja að hér sé um færiband að ræða, eins og greina má valex grunnuraf rissinu hér vinstra megin.  Blöðum er fest á tvö eða fleiri bönd sem ganga um endahjól; flöt fyrir straumi á annarri hliðinni en með röndina í straum á hinni.  Ýmislegt í búnaðinum er einkaleyfishæft og því ekki lýst frekar að svo stöddu.  Kostir Valex eru ýmsir.  Í fyrsta lagi er hverfillinn mjög einfaldur að allri gerð og í hann má nýta vel þekkt, ódýr og umhverfisvæn efni.  Í öðru lagi er átaksdreifing mjög jöfn, sem þýðir að blöð og aðra hluti má hafa efnislitla og úr léttum efnum.  T.d. er 25 metra langt sjóprófunarlíkan ekki nema rúm 50 kg að þyngd að frátöldum endabúnaði.  Í þriðja lagi er hverfillinn mjög grunnur í hlutfalli við lengd og heildarflöt virkra blaða.  Þetta er gríðarlegur kostur á fyrirhuguðum nýtingarstöðum hverfilsins, því oft er virkjanlegt dýpi ekki nema fáeinir metrar þó röstin sé all löng.  Í fjórða lagi getur lengd hverfilsins verið eins mikil og aðstæður á virkjunarstað leyfa; jafnvel kílómetri eða meira.  Sjávarfallastraumar eru orkurýrir á flatareiningu, sem þýðir að fullþróaðir sjávarfallahverflar í hægstreymandi röstum munu verða langstærstu hverflar heims.  Í fimmta lagi hefur Valorka unnið að lausn til lagningar, starfrækslu og endurheimtu hverflanna sem gerir kleyft að þjónusta þá alfarið án köfunar og á mjög einfaldan og ódýran hátt, en sá þáttur er mjög mikilvægur varðandi hagkvæmni.  Lagning og endurheimta yrði lítt fyrirhafnarmeiri en dráttur fiskilínu, þó búnaður bátsins sé vissulega frábrugðinn.  

Val-X hefur verið prófaður í straumkeri með góðum árangri.  Prófanirnar hafa m.a. sýnt að unnt er að fara ýmsar leiðir í útfærslu, t.d. við festingu og hegðun blaðanna; opnun þeirra og "lokun".  Veturinn 2017-18 var smíðað stærra líkan til prófana í sjó.  Ekki tókst þó að koma því í prófanir sumarið 2018 eins og til stóð vegna skorts á stuðningi samkeppnissjóða, en stjórnvöld, stofnanir og sjóðir gera nú harða hríð valex smidiað verkefninu eins og lýst er hér á fréttasíðunni, og hefur það verið án alls stuðnings síðan vorið 2018.  Sjóprófunarlíkanið er 25 metra langt, með 16 blöðum, en hvert blað verður um 2,5 m² að flatarmáli.  Heildarflötur blaða er því 40 m²; tæpur helmingur hans virkur á hverjum tíma.  Efnið í blöðunum er ál og léttur dúkur, en sem áður segir er heldarþyngd þessa stærsta hverfils landsins einungis liðlega 50 kg. 

Til prófana hverfilsins verður notaður búnaður Valorku; sjóprófunarflekinn, sem aðlagaður verður þessari gerð; átaksmælir, straummælir, gúmbátur og öflugur bátur; Bjartur, sem keyptur var 2018. 

Gert er ráð fyrir að fyrstu sjóprófanir fari fram sumarið 2019; hvað sem líður hindrunum stjórnvalda og sjóðakerfisins, en vissulega væri ánægjulegt ef stjórnvöld stæðu í fæturna gagnvart verkefninu og stæðu um leið við sínar yfirlýsingar í nýsköpunarmálum og skudbindingar í loftslagsmálum. 

Mikil gróska er nú víða um heim varðandi þróun sjávarfallahverfla, enda er ný tækni til hreinnar orkuframleiðslu knúin áfram af Parísarsamkomulaginu og öðru ákalli um orkuskipti.  Flestir þróunaraðilar beina kröftum sínum að straumhörðum sundum, þar sem unnt er að beita skrúfuhverflum af ýmsum toga; enda er þar mesta orku að hafa á flatareiningu.  Slík sund eru þó mjög takmörkuð auðlind í samanburði við gríðarstór hafsvæði annesjarasta, þar sem straumurinn er mun hægari og orkan dreifðari.  Tækni sem nær tökum á nýtingu þeirrar orku á hagkvæman hátt mun líklega sjöfalda það umfang sjávarfallaorku sem hingað til hefur verið talið nýtanlegt, eins og sjá má í annarri frétt hér á síðunni sem byggir á áliti vísindamanna.

Enginn stendur núna framar en Valorka í þróun slíkrar tækni.  Það hlýtur því að teljast hrein glópska þegar íslensk stjórnvöld standa í vegi fyrir tækniþróun sem færir þjóðinni svo einstaka möguleika á forystu í umhverfisvænni tækniþróun og opnar ný framleiðslutækifæri.  

 

Stjórnvöld beita sér gegn sjávarorkunýtingu.  Þó hart sé tekist á um ýmislegt í íslenskri pólitík; og þó Alþingi þjóðarinnar minni stundum meira á hávaðasaman leikskóla en löggjafarsamkomu, þá virðast jafnt kjörnir fulltrúar sem stofnanir vera sammála um tvennt:  Annað er það er að drepa niður allt frumkvæði íslenskra hugvitsmanna og hitt er að gæta þess að íslensk þjóð fái ekki notið umfangsmestu og hreinustu orkuauðlinda sinna; sjávarorkunnar við strendur landsins. Verkefni Valorku hefur þannig sameinað alla stjórnmálaflokka og allar ríkisstofnanir á sviði orku og nýsköpunar um þá lágkúru að vinna gegn öllum yfirlýstum markmiðum sínum.  Mætti ekki beita samtakamættinum á uppbyggilegri hátt?

Þessu til sönnunar verður hér bent á eftirfarandi af afrekaskrá stjórnvalda á síðasta ári, til viðbótar þeirri sem fyrir var og lýst hefur verið hér á vefsíðunni: 

Brot á Parísarsáttmálanum.  Ríkisstjórnin vinnur gegn skuldbindingum Íslendinga í Parísarsáttmálanum með því að synja Valorku ítrekað um stuðning við þróun aðferðar til nýtingar sjávarfallaorku; sbr. tvær ástæðulausar synjanir Tækniþróunarsjóðs nýlega.  Í 10.gr. Parísarsamningsins segir að aðildarríkjum beri að styðja þróun tækni sem líkleg er til að stuðla að markmiðum sáttmálans á heimsvísu.  Fátt hafa Íslendingar fram að færa sem betur styður við Parísarmarkmiðin en verkefni Valorku.  Skortur á stuðningi við verkefnið er því brot á sáttmálanum; svo lengi sem það skilar árangri; eins og það hefur sannanlega gert.

Stjórnvöld spilla tækifærum til forystu á framtíðarmarkaði. Ríkisstjórnin leggst gegn möguleikum þess að Íslendingar verði leiðandi í þróun tækni til nýtingar algengustu sjávarfallastrauma á hagkvæman og umhverfisvænan hátt.  Enginn er núna kominn nær slíkri nýtingu en Valorka, en Parísarsáttmálinn er greinilega ekki á dagskrá vísinda- og tækniráðs sem stýrt er af ríkisstjórninni.

Ráðuneyti falsar skýrslu til Alþingis.  Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fékk beiðni frá Alþingi um skýrslu varðandi stöðu nýrra orkukosta, sem skyldi taka til sjávarfallaorku, vindorku og varmadæla.  Eftir að frestur var liðinn skilaði ráðuneytið skýrslu sem er ekki á nokkurn hátt í takti við raunveruleikann, en líkist meira óskalista Landsvirkjunar.  Þar er fölsunum og ósannindum beitt til að gera vindorkuvirkjun að eftirsóknarverðum kosti, um leið og nýtingu sjávarfallaorku er fundið allt til foráttu; einnig með ósannindum.  Ráðuneytið sveik loforð sín um aðkomu Valorku að þessari skýrslugerð, en bauð í þess stað fulltrúum Landsvirkjunar til samstarfs ásamt öðrum sem hafa beitt sér gegn verkefni Valorku.  Valorka brást við þessu með því annarsvegar að senda ráðuneytinu beiðni um leiðréttingu (sem ekki var gerð) og hinsvegar að senda forseta Alþingis beiðni um að skýrsla ráðuneytisins verði ekki tekin til umræðu án þess að um leið sé rædd vönduð skýrsla Valorku um stöðu sjávarfallaorku.  Við þeirri beiðni hefur enn ekki verið brugðist.  Villandi skýrsla ráðuneytisins í þessum efnum kemur á mjög óheppilegum tíma, þar sem vinna er að hefjast við mótun orkustefnu.  Koma þarf í veg fyrir að svo villandi skýrsla verði lögð þar til grundvallar.

Fordómar við skipun í starfshóp um orkustefnu.  Skipun starfshóps til mótunar orkustefnu er enn ein aðför atvinnuvega-og nýsköpunarráðherra að hagsmunum sem tengjast nýtingu sjávarfallaorku.  Í fjölmennum starfshópi sem ráðherra skipaði er ekki að finna einn einasta aðila með þekkingu á því sviði eða möguleikum þess.  Hversu trúverðugur er starfshópur um mótun orkustefnu sem ekki er ætlað að taka tillit til umfangsmestu orkuauðlindar landsins; þeirrar orkuauðlindar sem nýta má í mestri sátt við umhverfissjónarmið?

Ráðuneyti leggst gegn rannsóknum á sjávarorku.  Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hafnaði því að leggja fé til byrjunar á rannsóknum sjávarfallastrauma við Ísland, en slíkar rannsóknir höfðu þó verið lagðar til af starfshópi sem ráðherra skipaði sjálfur fyrir fáum árum.  Valorka býr yfir báti og vönduðum mælibúnaði til slíkra rannsókna, en beiðni um lítilsháttar framlag af fjárlögum var hafnað af ráðuneytinu.  Engin svör fást frá ráðuneytinu um það hvenær eða hvernig verður hagað þessum mikilvægu rannsóknum á umfangsmestu orkuauðlindum Íslands.  Þar er einungis unnið í samræmi við hagsmuni Landsvirkjunar, sem hefur beitt sér gegn verkefnum Valorku.

Atvinnuveganefnd Alþingis bregst ekki við ábendingum um mistök.  Við lagabreytingar fyrir nokkrum árum voru gerð þau mistök að Orkusjóði var í raun meinað að styðja nýsköpun í orkutækni.  Þeim mistökum var lýst hér í fyrri fréttum á síðunni.  Verkefnisstjóri Valorku fékk fund með atvinnuveganefnd Alþingis í apríl 2018 þar sem þessi mistök voru rædd.  Lofaði nefndin að málið yrði skoðað og annaðhvort beita sér fyrir úrbótum eða veita fullnægjandi skýringar.  Hvorugt hefur verið gert.  Síðari erindum Valorku til nefndarinnar hefur ekki verið svarað.  Þjóðin hlýtur að gera þá kröfu til sinnar löggjafarstofnunar að hún leiðrétti sín mistök; einkanlega þegar þau bitna á þjóðhagslega mikilvægum greinum s.s. nýsköpun og loftslagsmálum eins og hér um ræðir.

Stjórnvöld reyna að svelta nýsköpunarverkefni Valorku til dauðs.  Og rúsínan í pylsuendanum; það sem stjórnvöld hyggjast nota til að ryðja Valorku endanlega úr vegi:  Tækniþróunarsjóður hefur á einu ári tvívegis synjað verkefninu um stuðning, og þar með svipt þetta verkefni eina opinbera stuðningnum sem það hefur haft og staðið hefur undir nauðsynlegum kaupum á efni, sérfræðikostnaði, rekstri aðstöðu og launum.  Afleiðingarnar eru þær að verkefnisstjóri hefur ekki fengið laun greidd síðan í apríl árið 2018.    Nú kynni einhver að gera þá athugasemd að Tækniþróunarsjóður synji ekki um styrki án undanfarandi mats og rökstuðnings.  Sú er þó raunin.  Hérlendis er engin þekking á sjávarfallaorku; enginn bær aðili til að meta umsóknir á því sviði.  Engu að síður göslast Tækniþróunarsjóður áfram og fær til matsins einhvern sem ekki veldur því; í stað þess að senda það erlendis til mats eins og rétt hefði verið. 
Afleiðingin er sú að verkefninu er synjað; annaðhvort vegna misskilnings og þekkingarleysis matsmanns eða á grundvelli atriða sem engu máli skipta.  Þannig var vorumsókn Valorku synjað á þeim grunni að „markaður væri ekki tryggður“, þó jafnvel grunnskólakrakki viti að mikil eftirspur ern eftir tækni til umhverfisvænnar nýtingar nýrra orkuauðlinda.  Sama umsókn var lögð inn um haustið, en nú var synjað vegna allt annars fyrirsláttar; vegna þess að markaður sé svo lítill.  Sem eru ennþá fráleitari rök, af sömu ástæðu.  Auðséð er að með þessum synjunum ætlaði ríkisstjórnin og stofnanir hennar að ganga milli bols og höfuðs á Valorku.   En ennþá hefur þeim ekki orðið kápan úr því klæðinu:  Valorka er lífseigari en svo; þróunin hefur aldrei verið blómlegri en nú, en hinsvegar dregur þetta úr líkunum á því að verkefnið nýtist þjóðinni í sama mæli og lagt hefur verið upp með.  Þannig vinna stjórnvöld beinlínis gegn þjóðarhagsmunum.  Enn verður sótt um styrk til TÞS; enda er sjóðnum skylt að styrkja verkefnið samkvæmt Parísarsamkomulaginu.

Stjórnvöld reka verkefnið úr húsi.  Til að auka enn á vanda Valorku hafa stjórnvöld séð til þess að Valorku hefur einnig verið sagt upp aðstöðu sinni, um leið og öllum fjárstuðningi er kippt í burtu.  Frá verklegri byrjun verkefnisins árið 2008 hefur Valorka haft aðstöðu í „frumkvöðlasetrinu Eldey“ á Ásbrú.  Þegar Bandaríkjaher fór af landinu gaf hann íslensku þjóðinni allar húseignir sínar í varnarstöðinni, utan flugvallargirðingar.  Stuttu síðar dundi bankahrunið á þjóðinni.  Mikil gróska hljóp í nýsköpun og litið var á hana; réttilega, sem leið útúr vandanum.  Stjórnvöld ákváðu að í einu húsa hersins skyldi verða frumkvöðlasetur, þar sem nýsköpunarverkefni fengju inni gegn hóflegri leigu.  Valorka er eitt fjölmargra sem þar hefur síðan starfað.  Stjórnvöld hafa síðan unnið að því að selja allar húseignir hersins, og væri líklega margt rannsóknar vert í því baktjaldamakki.  Stjórnvöld hafa nú svikið öll sín fyrirheit um frumkvöðlasetrið Eldey, og á síðasta ári var það „selt“ einhverjum andlitslausum einkaaðila.    Hans fyrsta verk var að reka alla frumkvöðla á dyr, í þeim tilgangi að græða meira á leigubraski.  Vegna þessara svika stjórnvalds er Valorka á götunni frá og með næsta vori.  Enn er óráðið hvar verða höfuðstöðvar þessa eina þróunarverkefnis Íslendinga í sjávarorkunýtingu.  Til að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka það fram að aldrei hafa orðið vanskil með leigu Valorku, né önnur misklíð verið við leigusala.

Stjórnvöld svíkja fyrirheit um loftslagssjóð.  Árið 2018 lagði ríkisstjórnin fram svonefnda „aðgerðaáætlun í loftslagsmálum“, og gumar mjög af henni.  Í því plaggi er þó fátt að finna af raunhæfum aðgerðum til stuðnings Parísarmarkmiðunum.  Stór fyrirheit höfðu verið höfð uppi um loftslagssjóð til stuðnings nýsköpun á þessu sviði.  Hann er þó ekkert nema nafnið, því einungis eru settar í hann 50 milljónir á þessu ári; eða sem svarar hálfum húskofa, sem bersýnislega er gagnslaust til þeirra verka sem vinna þarf.  Fyrir þessar fimmtíu milljónir á að rafbílavæða landið og byggja alla innviði til þess; moka ofan í alla skurði á landinu; koma öllum mengandi útblæstri gufuaflsvirkjana niður í jörðu; skapa aðstöðu til landtengingar skipa og annarra verkefna; misgáfulegra, sem upp eru talin í aðgerðaáætluninni.  Ekki er minnst á nýtingu hinna gríðarmiklu sjávarorkuauðlinda við landið eða að ljúka þróun til þeirrar nýtingar, sem væri þó árangursríkasta og fljótvirkasta aðgerðin sem stjórnvöld gætu lagt í.  Þar ríkja fordómarnir einir af hendi stjórnvalda.

Svikin fyrirheit stjórnarsáttmálans varðandi þjóðarsjóð.  Í samstarfssáttmála sitjandi ríkisstjórnar stendur skýrum stöfum: „ Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja“.  Í fyrirliggjandi frumvarpi ríkisstjórnarinnar um þjóðarsjóð er nýsköpun ekki nefnd á nafn; hann má einungis nýta til að mæta „efnahagslegum áföllum“ en auk þess er þar opnað fyrir fjármálabrask.  Hér er því um grímulaus svik stjórnarsáttmálans að ræða.

Hugvitsmenn eru sniðgengnir við mótun nýsköpunarstefnu.  Ríkisstjórnin brýtur fleiri fyrirheit sem þjóðinni voru gefin í stjórnarsáttmálanum.  Þar stendur:  „Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs mun renna til verkefna á þessu sviði.  Mótuð verður heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland í samstarfi við fulltrúa stjórnmálaflokka og í nánu samráði við atvinnulífið og vísindasamfélagið“.  Nú skyldu menn ætla að ráðuneyti nýsköpunar leitaði til einu hagsmunasamtaka hugvitsfólks; SFH og KVENN, þegar skipað væri í starfshóp um þessa stefnumótun.  Þau voru hinsvegar algerlega sniðgengin, þrátt fyrir fyrirliggjandi skrifleg loforð ráðuneytisins um hið gagnstæða.  Þetta sýnir, betur en margt annað, hve stjórnvöldum er mikið í mun að tryggja vel völdum hagsmunahópum áframhaldandi aðgang að ketkötlum fjárveitinga til nýsköpunar, þó það kosti svik á öllum fagurgala og fyrirheitum um stuðning við hugvit.

Forsætisráðherra hundsar beiðni um viðtal.  Valorka hefur af alefli reynt að nálgast stjórnvöld til að inna skýringa á framangreindum frávikum og annarri afstöðu þeirra til frumkvöðlavinnu Valorku í þjóðarþágu.  Fundir með ráðherra nýsköpunar- og orkumála hafa engu skilað.  Þar fást engin svör í beinum viðtölum.  Þó þangað séu send skrifleg erindi er þeim ekki svarað nema eftir þvingunarúrræði umboðsmanns Alþingis.  Þegar erindunum er loks svarað eru þau full af rangfærslum og undanfærslum, og þau litlu fyrirheit sem í þeim er að finna eru jafnharðan svikin.  Valorka hefur oftsinnis leitað til forsætisráðherra, en frá byrjun verkefnisins árið 2008 hefur ekkert slíkt viðtal fengist.  Hinn 12.oktober fór verkefnisstjóri fram á viðtal við núverandi forsætisráðherra; Katrínu Jakobsdóttur, í ljósi alvarlegrar stöðu verkefnisins og til að afla skýringa á þeim frávikum sem hér hefur verið lýst.  Enn hefur enginn kostur verið gefinn á viðtali og engar skýringar fengist á því.  Hinsvegar kom forsætisráðherra fram um áramótin og sagði þá í ávarpi sínu:  „Við eigum að leggja rækt við umhverfi þekkingarleitarinnar, halda áfram að byggja upp menntun og rannsóknir, við eigum að taka völdin í tæknibyltingunni og styrkja innviði þannig að fólk geti skapað sín eigin tækifæri á ólíkum sviðum. Stjórnvöld munu áfram leggja sérstaka áherslu á menntun, rannsóknir og nýsköpun, meðal annars með nýjum Þjóðarsjóði. …tæknibreytingar í öllum geirum samfélagsins þarf að nýta til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. …við eigum að taka völdin í tæknibyltingunni og styrkja innviði þannig að fólk geti skapað sín eigin tækifæri á ólíkum sviðum“. 
Hér vantar hvorki stór fyrirheit né glæsta framtíðarsýn.  Hinsvegar bendir framanskrifuð afrekaskrá ekki til þess að nokkuð innihald sé í þessum orðum.  Hér virðist því um sama innihaldslausa fagurgalann að ræða og hjá öðrum framámönnum þjóðarinnar:  Eitt er sagt en annað framkvæmt. 

Valorka mun ganga hart eftir efndum og skýringum, bæði hjá forsætisráðherra og öðrum ráðamönnum, og hvetur alla til að gera það. 

Áhugaverða grein um sjávarorku má lesa á vegum vísindaveitunnar Elsevier, undir heitinu "Resource assessment for future generations of tidal-stram energy arrays".  Höfundar eru M. Lewis; S.P. Neill; P.E. Robins og M.R. Hashemi; allir starfandi hjá School of Ocean Sciences í Bangorháskóla í Bretlandi. 

Í greininni gerðu þeir nákvæma greiningu á allstóru hafsvæði í Írlandshafi, þar sem allmikið liggur fyrir af mælingum á straumahegðun, straumhraða og botnlagi.  Sett var upp reiknilíkan fyrir hegðun sjávarfallastrauma í 32 daga.  Síðan var metið hve mikið svæði væri virkjanlegt með skrúfuhverfli sem verið hefur um tíma í tilraunakeyrslu og því mögulegt að setja inn í líkanið.  Til þess var valinn hverfillinn Sea-Gen frá MCT. 

maelingar irlandshafNiðurstaðan var sú að einungis 90 km² af Írlandshafi, eða 0,12% yfirborðsflatarmáls, væri virkjanlegt með þessum hverfli; samtals um 24 GWst/a.  SeaGen byrjar ekki að snúast fyrr en straumhraði er yfir 1 m/sek og er ekki hagkvæmur til orkuvinnslu fyrr en komið er yfir 2,5 m/sek.  Þennan hverfil, og skrúfuhverfla sem hafa álíka vinnslugetu, skilgreindu vísindamennirnir sem "fyrstu kynslóð" (1st generation) sjávarfallahverfla. 

Þeir héldu síðan áfram útreikningum sínum og skilgreindu hve mikið væri virkjanlegt fyrir tækni sem þeir nefndu "aðra kynslóð" (2nd generation) sjávarfallahverfla; sem gætu stundað hagkvæma orkuvinnslu við 2 m/sek.  Af þeirri gerð er líklega hverfill Tidal Sails í Noregi, að sögn þróunaraðila.  Þannig tækni mætti nýta á 800 km² svæði í Írlandshafi, og hann gæti skilað um 111 GWst/a eða rösklega ferföldu orkumagni. 

Enn var reiknað, og nú athugað hve miklu mætti ná með hagkvæmum hætti ef notaðir væru hverflar sem ynnu við um 1,5 m/sek straumhraða.  Niðurstaðan varð sú að slíkur hægstraumhverfill væri nothæfur á um 6.046 km² hafsvæði í Írlandshafi og myndi skila orku sem næmi 182 GWst á ári, eða rösklega sjöföldu því orkumagni sem SeaGen væri fær um.

Nú vill svo til að hverfill Valorku er eini hverfill heims sem vitað er um að sé kominn nærri sjóprófunum af þeim sem líklegir eru til hagkvæmrar orkuvinnslu úr svo hægum straumi.  Að vísu er hugsanlegt að nýta mætti drekavirkjun Minesto, en þá aðeins á mjög miklu dýpi.  Hverfill Valorku þarf hinsvegar ekki meira en 20-30 m dýpi.  Hverfill Valorku hefur að auki hæfileika til hagkvæmrar orkuvinnslu úr enn minni straumhraða og mun því að öllum líkindum geta aukið enn við vinnanleg orkusvæði.  

Þessi niðurstaða fræðimannanna er ekki einungis uppörvandi fyrir Valorku og gerir það verkefni mun verðmætara en áður var ætlað; heldur er nú ljóst að sjávarfallaorka er mun mikilvægari orkugjafi en hingað til hefur verið álitið.  Lesendum er bent á að "gúggla" þessa grein og lesa hana í heild.

Rétt er að gera hér nokkra grein fyrir stöðu verkefnis Valorku haustið 2018, og framgangi þess undanfarið ár.  Eins og áður hefur verkefnið gengið vel hvað varðar tækniþróunina sjálfa, sé tekið tillit til þeirra aðstæðna sem því eru skapaðar af "stuðningsumhverfinu".  Það hefur hinsvegar alls ekki gengið nægilega hratt í átt að þeim lausnum sem heimurinn þarfnast og tækni Valorku gæti átt veigamikinn þátt í að uppfylla.  En þar er ekki við Valorku að sakast, heldur þau stjórnvöld sem sniðganga verkefnið; sýna því fordóma og skilningsleysi og standa ekki við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Vissulega má þakka stuðningsumhverfinu fyrir það að verkefnið er enn tórandi.  Þaðan hefur þrátt fyrir allt tekist að særa út styrki sem samtals nema  nær 60 milljónum á tíu árum.  En sú upphæð, sem nemur tæplega tveimur árslaunum starfsmanna Landsvirkjunar, hefur þurft að standa undir öllum þróunarkostnaði fyrsta og eina íslenska hverfilsins til nota í langstærstu orkuauðlind landsins; öllum efniskostnaði, prófunarkostnaði, sérfræðingalaunum, kaupum á dýrum mælitækju, bíl og bátum, húsnæðiskostnaði og launakostnaði; þróa 10 tegundir hverfla og fá fyrsta einkaleyfi íslensks hverfils; hanna og smíða fyrstu prófunarstöð sjávarorkutækni hérlendis; stunda fyrstu prófanirnar; vinna að stefnumörkun, kynningu og margháttaðri fræðslu.  Allt þetta fyrir minna en tvö árslaun starfsmanns ríkisorkufyrirtækis; dæmi svo hver fyrir sig.  Styrkir hafa þó alls ekki komið markvisst eða samfellt.  Ítrekað hefur komið bakslag í verkefnið og það verið hætt komið vegna fráleitra tylliástæðna sjóðakerfisins fyrir synjunum.  Ekki er því unnt að segja að stjórnvöld standi vel við sinn fagurgala um stuðning við nýsköpun og umhverfismál.

Fyrir einu ári átti verkefnið eftir eitt misseri af þriggja ára verkefnisstyrk Tækniþróunarsjóðs (TÞS).  Þá var þegar hafinn undirbúningur að prófun líkans tvíása hverfils í sjó.  Þessar prófanir eru mikilvægur liður í því að verkefniði nái þróunarstiginu TRL-6 á alþjóðlegum mælikvarða þróunar.  Það merkir að tæknin hefur staðist próf við raunverulegar aðstæður með góðum árangri.  Eftir að því þróunarstigi er náð er leiðin mun greiðfærari að aðkomu öflugra samstarfsaðila og umtalsverðri fjármögnun frekari þróunar.  Smíðað var líkan hverfilsins sem hentað gæti til prófana í tilraunafleka Valorku, með lítilsháttar breytingum á honum.  Hverfillinn er 25 metra langur, með 16 blöðum sem hvert verður um 2,2 m², þannig að þrýstiflotur í heild verður um 35 m².  Hverfillinn er þó ekki nema um 50 kg að þyngd.  Hver hluti hans er flotjafnaður, þannig að hverfillinn hvorki flýtur né sekkur, heldur helst á því dýpi sem honum er ætlað.  Nokkrar leiðir eru mögulegar til prófana.  Ein er að draga flekann í lygnum sjó og mæla um leið straumhraða, núningshraða og snúðvægi.  Aðrar aðferðir eru að leggja fleka og hverfli í straumi.  Önnur endaeiningin er í festingum í flekanum, sem unnt er að hífa úr sjó, en hin er ýmist dregin á eftir eða fest við botn; eftir prófunaraðferð.

Hverfillinn var tilbúinn vorið 2018 og vinna komin vel á veg við breytingar á flekanum.  Fyrr um veturinn hafði verið sótt um framhaldsstyrk TÞS sem tæki við þegar fyrri styrkur rynni út á miðju sumri.  Styrkbeiðninni var hafnað án nokkurs rökstuðnings.  Sá fyrirsláttur var gefinn að "markaðssamkeppni hefði ekki verið nægilega könnuð".  Þetta er fráleitur fyrirsláttur, í ljósi þess að enginn markaður er til á þessu sviði; hvorki varðandi hverfla né orkuframleiðslu úr sjávarföllum.  Sýnir þetta e.t.v. betur en annað hve rökþrota stjórnvöld eru, en þó staðföst, í þeirri viðleitni að bregða fæti fyrir verkefnið.  Óskað var skýringa hjá TÞS, en því bréfi hefur ekki verið svarað og tengiliður Valorku hjá TÞS gat ekki á nokkurn hátt skýrt þessa framkomu sjóðsins.

Valorka efndi til samstarfs við verkfræðifyrirtækið Verkís ehf um aðkomu að verkefninu, svo fremi að tækist að afla því fjár til frekari þróunar.  Ekki er að efa að þetta samstarf mun reynast mikilvægt, enda býr Verkís yfir þekkingu og reynslu á mörgum þeim sviðum sem mjög reynir á þegar til sjóprófana kemur.  Fyrir er samstarf Valorku við Halldór Pálsson, prófessor í vélaverkfræði við HÍ, sem verið hefur verkefninu innan handar um sérfræðiþekkingu frá upphafi og meðumsækjandi að styrkjum.

Fest voru kaup á báti, sem nýtast mun verkefninu á ýmsan hátt.  Hann er af gerðinni Quicksilver Pilothouse; 6,3m langur með 120 hö dísilvél og góðum vagni; og hlaut nafnið "Bjartur".  Báturinn mun koma að góðum notum við prófanirnar, en fyrir á Valorka góðan slöngubát.  Með honum opnast einnig möguleiki til mælinga á straumhraða svæða.  Þá yrði notaður hinn vandaði ADCP-straumhraðamælir sem Valorka hefur átt í nokkur ár en ekki getað nýtt vegna bátleysis.  Með þessum öfluga dopplermæli er unnt að mæla straumhraða á þrennskonar dýpi í einu, um leið og siglt er yfir svæðið.  Tölva leiðréttir fyrir hraða bátsins og reki.  Valorka sótti um það til ráðuneytis orkumála að tryggð yrði lítilsháttar fjárveiting til þessa verkefnis á fjárlögum 2019, en því erindi stakk ráðuneytið undir stól án þess að svara.  Fyrirliggjandi er þó álit ráðherraskipaðrar nefndar með vísan í ályktun Alþingis um að slíkar mælingar skuli hafnar.  

Þegar þessi andstaða stjórnvalda var ljós, og ljóst að ekkert styrkfé fengist sumarið 2018 var ákveðið að fresta sjóprófunum.  Til þeirra hefði þurft nokkurn mannskap; líklega 2-3 ásamt verkefnisstjóra og sérfræðingum.  Þess í stað var ákveðið að sækja aftur um styrk TÞS haustið 2018; bæta umsóknina eftir því sem framast væri unnt og stefna að sjóprófunum sumarið 2019.

En ríkisvaldið ríður ekki við einteyming þegar kemur að því að klekkja á nýsköpun og sprotum.  Þannig var málum háttað að þegar bandaríski herinn hætti að vernda okkur og fór af landi brott, gaf hann íslensku þjóðinni allar fasteignir sínar á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll.  Ríkið stofnaði fyrirtækið Kadeco til að sjá um eignirnar og svæðið, sem hlaut nafnið Ásbrú.  Í bankahruninu stuttu síðar beindu stjórnvöll ákalli sínu til hugvitsmanna og frumkvöðla um aðstoð við að koma efnahagslífinu aftur í gang.  Stofnsettu þau m.a. í því skyni frumkvöðlasetrið Eldey í einu af húsum hersins og buðu þeim þar aðstöðu fyrir lágmarksleigu.  Valorka var einn þeirra sprota sem þetta þáðu og hefur verkefnið verið þar til húsa síðan.  Áratug eftir hrunið voru stjórnvöld búin að steingleyma öllum lofsöng sínum um frumkvöðla.  Ævintýramenn og braskarar bönkuðu uppá og vildu fá þessar ríkiseignir fyrir lítið, til að leigja þær út á uppsprengdu verði.  Var það að látið eftir, með þeim afleiðingum að nú er búið að segja öllum frumkvöðlum Eldeyjar upp leigunni og reka þá út á götu.  Því er fyrirséð að Valorka verður á hrakhólum með aðstöðu, takist ekki að leysa úr þeim málum áður en uppsögn leigu rennur út vorið 2019; þökk sé stjórnvöldum!

Veturinn 2018-19 verður unnið að lítilsháttar breytingum á líkaninu sem fyrirhugað er að prófa, ásamt öðrum þáttum verkefnisins.  Þó hérlendis séu stjórnvöld áhugalaus og láti alfarið stjórnast af hagsmunum stóru orkurisanna er aðra sögu að segja af erlendum vettvangi.  Hvarvetna leggja heimsríki stóraukna áherslu á að ná tökum á hinum gríðarmiklu og hreinu orkulindum sjávarfalla.  Fyrir nokkrum árum voru þau knúin áfram af skuldbindingum í Parísarsamningnum.  Nú er það nakinn raunveruleikinn sem rekur á eftir.  Öfgar í veðurfari hafa sannfært öll stjórnvöld, önnur en Íslendinga og Trump, um nauðsyn þess að hraða orkuskiptum og nýta hreinar orkulindir.  Vera kann að Valorka verði hrakin úr landi með sín verkefni.  Það kemur í ljós innan fárra mánaða.

Subcategories