straumar hitiStórt skref hefur verið stigið í undirbúningi rannsókna á stærstu og tryggustu orkulind Íslands; sjávarfallaorku.  Samhliða sínu þróunarstarfi hefur Valorka unnið að því um nokkurra ára skeið að koma á fót faglegum rannsóknum á sviði sjávarorku við landið.  Þetta svið rannsókna hefur verið algjörlega sniðgengið hérlendis að frátöldum örfáum staðbundnum athugunum.  Efir því sem þróunarstarfi  Valorku vindur lengra fram hefur þörfin á þessum rannsóknum orðið sífellt brýnni. 

Rannsóknir á sjávarorku eru því einn hlutinn af því frumkvöðlastarfi sem Valorka hefur þurft að leiða til að unnt sé að þróa hérlendis og taka í notkun þá tækni sem fyrirtækið vinnur að, en hér hefur áður verið greint frá vinnu Valorku við að fá fram stjórnvaldsstefnu á þessu sviði með þingsályktun.  Framkvæmdastjóri Valorku hefur um langt skeið verið í sambandi við Hafrannsóknastofnun og notið þaðan góðra upplýsinga og ráðlegginga.  Hefur Héðinn Valdimarsson haffræðingur verið mikill viskubrunur og jafnframt áhugasamur um verkefni Valorku; bættar mælingar og aukinn tækjakost til rannsóknaverkefna.  Stjórnendur Hafró hafa sömuleiðis verið áhugasamir.  Ljóst er að rannsóknir á straumum og straumahegðan í orkuríkum röstum við ströndina er forsenda þess að áætla umfang orku á hverjum stað og möguleika á nýtingu hennar.  Þær mælingar hafa nánast hvergi farið fram á slíkum stöðum.  Slikar mælingar falla án nokkurs vafa innan verkahrings Hafró.  Stofnunin er reiðubúin að takast þær á hendur en til þess þarf að lágmarki að kaupa nokkrar vandaðar straumsjár.  Þær eru alldýr tæki, eða um 5 milljón krónur stykkið.  Þeim er lagt á botn í nokkra mánuði; safna gögnum um straumhraða með dopplermælingum og eru síðan endurheimtar.  Valorka og Hafrannsóknastofnun hafa í sameiningu sótt um stuðning til Tækjasjóðs Rannís til kaupa á slíkum mælum, en tvívegis verið hafnað.  Slíkur er skilningurinn á nýrri orkutækni; en vonandi áttar Rannís sig fljótlega á nauðsyn þess að fylgja nútímanum í orkurannsóknum.

Valorka hefur einnig átt í viðræðum við Sveitarfélagið Hornafjörð.  Annarsvegar hafa þær snúist um aðstöðu vegna fyrirhugaðra flekaprófana hverfilsins, en hinsvegar um athuganir á sjávarorku á svæðinu og möguleika á að koma upp prófunarmiðstöð.  Tengiliður Valorku í þessum viðræðum hefur verið Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri, en hann er áhugasamur um framfarir á þessu sviði.  Hagsmunir Hornafjarðarbæjar eru augljóslega miklir þegar kemur að nýtingu sjávarorku:  Svæðið tilheyrir svokölluðum köldum svæðum; þar eru hvorki möguleikar á vatnsaflsvirkjunum né jarðhita.  Sjávarfallastraumar eru miklir í Hornafjarðarósi, sem unnt væri að nýta með tiltölulega einföldum aðgerðum í þeirri lygnu sem þar er og ekki þarf að leiða orkuna um langan veg.  Straumasvæðið undan Austfjörðum er gífurlega víðfeðmt og öflugt.  Síðast en ekki síst þá er ölduorka hvergi meiri við norðanvert Atlantshaf en við suðurströnd Íslands.  Ljóst má því vera að staða Hornafjarðar í orkumálum mun breytast verulega þegar nýting sjávarorku hefst að einhverju marki.

Fleiri öflugum stoðum hefur verið skotið undir þennan hóp hagsmunaaðila á sviði sjávarorkurannsókna á þessu ári.  Háskólinn í Færeyjum, öðru nafni Fróðskaparsetur Föroya,  hefur unnið að ýmsum rannsóknum á sviði sjávarauðlinda.  Þar á meðal hafa Færeyingar rannsakað töluvert sjávarstrauma og aðra þætti sjávarorku mun ítarlegar en hér hefur verið gert.  Skýringin kann að liggja í öðruvísi hagsmunum, þar sem orkuþörf þar er nú fullnægt að mestu leyti með keyrslu dísilvéla og því brýn þörf á nýrri og umhverfisvænni orkuöflun.  Sjávarfallastraumar eru stríðir í sundunum milli eyjanna og því er sá kostur mjög nærtætkur.  Því var erindi Valorku vel tekið þegar leitað var eftir samstarfi.  Tengiliður Fróðskaparsetursins er Bardur Niclasen haffræðingur.  Mikill fengur er að þessu samstarfi.  T.d. verður fróðlegt að skoða hvernig nýta megi reynslu Færeyinga við fyrirhugaðar rannsóknir sjávarorku hér; skoða samvinnu á sviði tækniþróunar og eins gefur þetta samstarf færi á fjármögun í samnorræna sjóði. 
Annar nýr samstarfsaðili á sviði sjávarorkurannsókna er Háskólinn á Akureyri.  Þetta samstarf er tilkomið gegnum tengsl Hafrannsóknastofnunar, en Steingrímur Jónsson haffræðingur er náinn samstarfsmaður Héðins Valdimarssonar og starfsmaður Hafrannsóknastofnunar, jafnframt því sem hann er prófessor við Háskólann á Akureyri.  Með aðilid þeirra Héðins og Steingríms er skotið eins faglegum stoðum undir straumarannsóknirnar og kostur er.