hornafjardarhofnÍ lok júlí 2012 fór verkefnisstjóri Valorku á Hornafjörð til að skoða aðstæður til fyrirhugaðra sjóprófana.  Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur boðið aðstöðu og aðstoð.  Ekki stóð á efndunum í því efni.  Sigurður Guðmundsson hafnsögumaður tók á móti verkefnisstjóra og sigldi með hann á hafnsögubátnum Birni lóðs inn á Mikleyjarál.  Þar virðast hinar ákjósanlegustu aðstæður til prófana.

Meðfylgjandi mynd gefur hugmynd um afstöðuna en hún er tekin að láni af vef Hornafjarðarbæjar.  Horft er til ASA yfir Hornafjarðarhöfn.  Innsigling að höfninni er þar frá hægri en ósinn sjálfur sést ekki.  Vinstra megin sér í Mikleyjarsund, milli Mikleyjar fjær og Álaugareyjar nær en sú síðarnefnda er nú tengd fastalandinu með uppfyllingu.  Állinn er því eins nálægt höfninni og hugsast getur en samt utan skipaumferðar.

Aðstæður til prófanana í Mikleyjarál virtust í fljótu bragði jafnvel álitlegri en áður var talið.  Líklega væri hentugast að leggja prammanum fram af húsinu sem sjá má á myndinni næst bakkanum í Álaugarey.  Þar er straumhraði mikill; fer líklega töluvert yfir 2 m/sek þegar mest er.  Það er nokkuð meiri straumhraði en áætluð marknotkun hverfilsins en umframálagið nýtist til prófana og unnt er að lyfta hverflinum uppúr yfir stífasta fallið.  Mjög aðdjúpt er við bakkana og var unnt að reka stefni lóðsbátsins á þurrt en samt hafa 8 m dýpi við skut.  Því er möguleiki að leggja flekanum nálægt bakkanum, með festar á aðra hlið uppí land en hinsvegar í dreka.  Þarf þó að taka tillit til iðustrauma við bakkann. 

Líklega verður heppilegast að setja flekann saman við smábátahöfnina, en hún er hægra megin við miðju á myndinni.  Grindinni yrði þá rennt í sjóinn niður skábraut sem þar er og sett saman að fullu við flotbryggjuna.  Boðin er aðstoð lóðsbátsins við að koma flekanum á sinn stað, svo og aðstaða til geymslu búnaðarins í porti hjá áhaldageymslu sveitarfélagsins.  Í kaffistofu hafnarvogar hitti verkefnisstjóri m.a. umsjónarmann áhaldahússins og fleiri ráðamenn á staðnum. 

Bæjarstjórnendur á Hornafirði hafa sýnt sjávarfallaorku meiri áhuga en aðrar sveitarstjórnir.  E.t.v. má rekja þann áhuga að einhverju leiti til nálægðar staðarins við þessi miklu náttúruöfl.  Allt atvinnulíf þessarar miklu útgerðarmiðstöðvar er komið undir skilningi á sjávarföllum og lausnum á vandamálum sem þeim tengjast.  Ekki er því að undra að menn vilji fylgjast með öllum möguleikum sem kunna að opnast varðandi nýtingu þessarar orku.  Með hinu góða boði sínu um aðstöðu og aðstoð tekur Hornafjarðarbær forystu meðal sveitarfélaga hérlendis og þó víðar væri leitað.  Aðstæður í Hornafirði eru einstæðar og þar gæti verið skynsamlegt að koma upp alþjóðlegri prófunarstöð í líkingu við hina skosku EMEC, nema jafnvel enn fjölhæfari.  Með Valorka hverflunum eru Íslendingar nú þegar í fremstu röð varðandi nýtingu lághraða sjávarorku.  Við höfum núna einnig tækifæri til að taka forystu á sviði hverflaprófana með hinni einstöku aðstöðu á Hornafirði.  Nýting hinnar hreinu sjávarorku mun hefjast af miklum krafti innan fárra ára.  Því er mikilvægt að hérlendis séu greind tímanlega þau sóknarfæri sem því fylgja og þau nýtt til atvinnu- og verðmætasköpunar.

Hafi Hornfirðingar hinar bestu þakkir fyrir sína aðstoð og skilning varðandi verkefni Valorku.