Prófun hverfilsins í Mikleyjarál í Hornafirði var haldið áfram 13. ágúst 2013.  Nú var búið að styrkja blöðin sem létu undan álaginu áður.  Einnig var bættur frágangur á blaðstoppurum og sérstök tölva var nú tengd straumhraðamælinum, sem tryggði betur  gagnavistun og samtímaálestur, en önnur talva var tengd átaks- og snúningshraðamæli.  Prófanir voru gerðar af undirrituðum með aðstoð Jóhanns Eyvindssonar eins og fyrri en heimamenn komu að þeim á ýmsan hátt.  Guðni vörubílstjóri kom flekanum í höfnina þar sem blöðum og öðrum búnaði var komið fyrir.  Drekar voru þyngdir og lóðsbáturinn undir stjórn Torfa og Brynjólfs dró lítillega í þá til festingar áður en flekinn var bundinn í.  Flekanum var snúið þannig að blöð opnuðust á efri helmingi hverfilsins, en útstraumur var að byrja í Mikleyjarál.  Blöðin hegðuðu sér í alla staði eins og við var búist í þetta skiptið og góðar mælingar fengust þegar straumurinn jókst. 

Þegar skammt var til mesta straumþunga gerðist það sama og í fyrstu prófun, að flekinn tók að draga drekann straummegin.  Hinum var samstundis sleppt með bauju til að forða því að festin flæktist fyrir.  Augljóst er að enn þarf að bæta botnfestu, enda tekur hverfillinn mikið á sig þegar hann er niðri.  Þegar verið var að hífa hverfilinn upp bilaði vindubúnaðurinn.  Það kom þó ekki að sök þar sem skýrar mæliniðurstöður voru komnar í tölvuvistun, og var því ákveðið að kalla eftir lóðsinum og haldið að bryggju.  Hafnarverðir tóku síðan að sér að sækja drekana og koma þeim til eigenda.  Ýmis atvik gerðust sem ekki voru fyrirséð.  Meðal þess má nefna má að maður lenti í sjónum en bjargaðist fyrir eigið snarræði og annarra.  Selur kom þétt upp að flekanum og virti fyrir sér það sem líklega verður nýtt og algengt leiktæki á hans slóðum innan tíðar.  Flekanum var aftur komið fyrir í geymslu hjá Hornafjarðarbæ, en annar búnaður var settur í flutningabílinn og tekinn með að Ásbrú. 

Fyrir liggur að yfirfara niðurstöður mælinga og er ekki tímabært að greina frá þeim á þessari stundu.  Flest virðist það vera í samræmi við það sem við var að búast en eftir er að reikna inn áhrif ýmissa þátta, s.s. innra viðnáms í drifbúnaði o.fl.
Bestu þakkir til þeirra sem komu að þessum prófunum á einn eða annan hátt, svo og til þeirra fjölmörgu sem sýnt hafa þeim áhuga og hvatningu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar.

Valdimar Össurarson