Fyrstu sjóprófanir hverfilsins tókust framar öllum vonum í langflestum atriðum. Reyndar urðu tvö óvænt atvik til þess að mælingar kláruðust ekki í þessari fyrstu lotu, en þau voru smávægileg í heildarmyndinni.
Farið var frá Keflavík að Hornafirði miðvikudaginn 24. júlí á tveimur bílum. Fleka og hverfli var staflað í einingum í flutningabíl Valorku ásamt verkfærum og fleiru, og var eins og stærð bílsins væri sniðin að plássþörfinni. Gúmbátur var dreginn á vagni aftan í jeppa. Jóhann Eyvindsson, hönnuður og járnsmiður með meiru, var aðstoðarmaður í þessari ferð og ók vörubílnum en undirritaður jeppanum. Lítilsháttar tafir urðu á leiðinni þar sem kælikerfi flutningabílsins vann ekki sem skyldi, en á Hornafjörð var komið um kvöldið.
Fimmtudagur fór í samsetningar flekans og undirbúning. Stoðgrind flekans var sett saman við skábraut í smábátahöfn Hornafjarðar; henni lyft upp á landhjól; flotrörin tvö ströppuð undir; belgir blásnir upp í endum þeirra; dekkeiningar lagðar niður; flekanum rennt í sjóinn og mælahúsi lyft á dekkið. Við bakkann var samsetningin kláruð; landhjólin tekin upp; lyftirammi settur upp; lyftigálgi settur upp; hverfilöxull settur í legur; blöð fest á hann; vélarkassa komið fyrir og flekinn gerður klár að öðru leyti. Síðan var hann dreginn að dýpri bryggjukanti og lyftibúnaður prófaður, sem gekk vel. Flotjafnvægi í flekanum reyndist mjög gott, en það hafði reyndar verið prófað í Njarðvíkurslipp fyrir austurferðina. Að síðustu var straumhraðamæli komið fyrir í sínum gálga.
Föstudagur 26. júlí var hinn stóri dagur fyrstu prófana. Byrjað var á því að fá lánaða tvo netadreka frá útgerð Sigurðar Ólafssonar og útbúa botnfestingar með hanafótum í báðar áttir og strekkimöguleika í hverju horni flekans. Síðan voru mælar tengdir við tölvu og prófaðir. Lítilsháttar hnökrar voru á gagnavistun en ekki óyfirstíganlegir. Liggjandi var í Mikleyjarál um kl 15.00 og þá var flekinn dreginn þangað með lóðsbátnum. Að beiðni undirritaðs var innri drekanum fyrst lagt og dró lóðsbáturinn hann þar til festu var náð, en þá var hinum kastað. Þetta reyndust mistök, eins og síðar kom í ljós, þar sem straumhraði jókst nú inn álinn og drekinn straummegin hafði lakari festu. Hverflinum var slakað niður og innan skamms tók hann að snúast um leið og straumur jókst. Ekki var annað að sjá en hann ynni eins og til var ætlast og skilaði greinilega töluverðu afli. Mælingar voru vart byrjaðar fyrir alvöru þegar drekinn straummegin missti festu og flekinn slóst undan straum þar til hinn tók í. Hverfillinn náði að flækja slakri festinni utan um sig, en eftir nokkuð vafstur tókst að losa hann. Tekið var til við mælingar að nýju, en nokkur tími fór í að skoða bestu leiðir til vistunar gagna úr báðum mælum í einu. Straumhraðinn jókst nú mjög hratt í sundinu og iðuhverflar mynduðust við allar mótstöður, auk þess sem hraði hverfilsins og átak jókst að mun. Upp úr kl 16.30 stöðvaðist hann skyndilega, og þegar híft var úr gruggugu vatninu kom í ljós að þrjú blöð höfðu brotnað algerlega undan álaginu og fleiri voru löskuð. Ljóst var að þar með væri þessari prófunarferð lokið og að styrkja yrði blöðin fyrir næstu keyrslu. Þetta voru þó á engan hátt nein vonbrigði: Hverfilblöðin voru höfð þunn og veikbyggð af ásetningi, þar sem þörf var á að prófa til hins ítrasta hvaða þykkt nægði til að standast átökin en lágmarka mótstöðu. Hér var því komið upp „ánægjulegt vandamál“, þar sem ljóst var með þessu að hverfillinn fangaði aflið mjög vel. Beðið var þar til hámarksstraumhraða var náð í sundinu og tekin mæling. Reyndist hann þá um 1,2 m/sek. Lóðsbáturinn kom svo um kvöldið; hífði upp drekana og dró flekann að bryggju.
Ákveðið var að breyta áætlunum og í stað þess að fara með búnaðinn aftur til Keflavíkur að reyna að koma honum í geymslu á staðnum. Guðni Karlsson vörubílsstjóri reyndist fús að reyna að lyfta hverflinum í heilu lagi, eftir að hús og drekar höfðu verið hífðir í land, og gekk það að óskum. Honum var síðan komið fyrir í porti Hornafjarðarbæjar, en fyrir lá boð bæjarins um það. Flutningabíllinn var einnig skilinn eftir ásamt fleiru af búnaði, og farið suður á jeppanum með gúmbátinn í eftirdragi.
Þessi prófun var í heild mjög árangursrík. Prófunarflekinn stóðst væntingar í alla staði og þar með er komin fyrsta tilraunastöð landsins til prófunar á sjávarfallahverflum í sjó. Þar er unnt að mæla alla þætti sem máli skipta á vísindalegan hátt og með rafrænni samtímaskráningu; átak, snúningshraða og straumhraða, auk annarra gilda. Auk þess er hægt að nota aflið til að framleiða rafmagn í litlum mæli, þó það hafi ekki verið gert í þessari stuttu tilraun. Hverfillinn sjálfur stóð einnig undir væntingum, svo langt sem það náði að þessu sinni. Verður spennandi að halda áfram prófuninni með stekbyggðari blöðum, en reiknað er með að það geti orðið um miðjan ágúst nk.
Ástæða er til að þakka öllum þeim á Hornafirði sem greiddu götu þessarar prófunar og hafa lýst góðvilja í garð verkefnisins. Jafnan voru menn reiðubúnir til aðstoðar ef eftir var leitað og lögðu mikið á sig í þeim efnum. Gestrisni Agnesar og Guðbjartar á Kirkjubraut 10 keyrði úr öllu hófi meðan prófunartvíeykið stóð þar við, eins og þeirra er vani; þar svignuðu borð undan veitingum. Hafnarstarfsmenn; Vignir og Torfi, lögðu sig fram um aðstoð af öllu tagi, t.d. varðandi aðkomu lóðsbátsins Björns lóðs. Hilmar Erlingsson og félagi hans Gísli Karl redduðu botnfestingum; Guðni Karlsson brást vel við og flutti prammann þó um helgi væri, og þannig mætti áfram telja. Fjöldi bæjarbúa lagði leið sína niður að höfn þessa daga og margir lögðu til hvatningarorð og góðar ráðleggingar. Hafið þökk íbúar Hornafjarðar.
Valdimar Össuraron