Skrifað hefur verið undir samsarfssamning milli Valorku ehf og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.  Nýsköpunarmiðstöð hefur lýst vilja til að verða Valorku til ráðgjafar um þróunarvinnu hverflanna og aðstoða við verkefnisstjórnun, auk þess að koma að verkfræðilegu mati prófana.

Valorka hefur áður notið aðstoðar NMÍ á ýmsa vegu.  T.d. veitti Geir Guðmundsson verkfræðingur góð ráð þegar verkefnisstjóri Valorku hóf fyrstu kannanir sínar varðandi nýtingu sjávarorku, og aftur síðar þegar fyrstu gerðir hverflanna fóru að mótast.  Það ár kynnti forstjóri NMÍ hverflana stuttlega á opnum ársfundi stofnunarinnar.  Valorka hefur einnig notið aðstoðar NMÍ í ráðgjöf við skoðun styrkjamöguleika í erlendum samstarfssjóðum.

nmilogoAðkoma NMÍ mun án efa auka á ýmsan hátt möguleika verkefnisins til framgöngu.  Með henni opnast aðgangur að þekkingu og reynslu varðandi framgang nýsköpunarverkefna, en það skapar aukinn trúverðugleika í samskiptum við stjórnkerfi, stofnanir og sjóði.  Til dæmis  er þess vænst að þetta samstarf auki líkur á framhaldsstyrk til verkefnisins frá Tækniþróunarsjóði, en hann er helsta forsenda þess að unnt sé að halda verkefninu áfram.  Tækniþróunarsjóður hefur í tvígang synjað um framhaldsstyrk, haustið 2013 og vorið 2014, en þær synjanir hafa stoðvað framgang verkefnisins og valdið verulegum erfiðleikum.  Skilja mátti af matsblöðum og í viðtölum við starfsmenn TÞS að sjóðurinn teldi vanta aðkomu öflugra ráðgjafaraðila að þróunarverkefninu áður en lengra væri haldið.  Þetta skilyrði er nú uppfyllt ríkulega með því að ekki einasta er tryggð aðkoma helstu opinberu stofnunar landsins á sviði nýsköpunarmála, heldur einnig verkfræðileg aðstoð.  Að auki liggur fyrir eindregin stefna íslenskra stjórnvalda um að kanna til fulls möguleika á sjávarorkunýtingu.  Er því fastlega búist við að umsögn haustið 2014, sem nú hefur verið lögð inn, verði samþykkt og verkefni Valorku komist í gang á ný.

Efnis-, líf- og orkutæknideild NMÍ verður hinn eiginlegi samstarfsaðili Valorku hjá NMÍ.  Framkvæmdastjóri hennar er Kristján Leósson, en helsti tengiliður við Valorku verður Geir Guðmundsson verkfræðingur.  Geir hefur mikla þekkingu á sjávarvirkjunum og hefur fylgst með þróun þeirra, ekki síður en verkefnisstjóri Valorku.  Hann veitti verulega aðstoð í umsóknargerð Valorku, ásamt öðrum hjá NMÍ.  Vænst er árangursríks samstarfs Valorku og NMÍ.