althingi
Til hamingju framtíðarkynslóðir Íslendinga!   Þau merku kaflaskil hafa orðið í íslenskri orkusögu að í fyrsta sinn er hafin vinna að stefnumótun sem varðar stærstu og hreinustu orkulindir landsins; sjávarorku.  Alþingi samþykkti, á lokadegi þingsins 16. maí 2014, þingsályktunartillögu „um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku“. Þverpólitísk samstaða var á Alþingi um þessa fyrstu alvöru stefnumótun í orkumálum, en hún er fram komin fyrir atbeina undirritaðs.
 
Hugmynd að þingsályktunartillögu um sjávarorku var fyrst sett fram af stofnanda Valorku í erindi til iðnaðarnefndar Alþingis 23.08.2010.  Í ársbyrjun 2011 sendi hann stjórnvöldum samantektina „Sjávarfallaorka og hagsmunir Íslendinga“, þar sem vakin var athygli á hinum gríðarmiklu hagmunum þjóðarinnar á þessu sviði, þar sem sjávarfallaorka væri að öllum líkindum stærsta orkuauðlind Íslands; áreiðanlegasta orkuauðlind sem völ er á; sú orkuauðlind sem unnt er að nýta með umhverfisvænstum hætti og að hérlendis skorti allar rannsóknir á því sviði.  Auk þess var vakin athygli á verkefnum Valorku ehf, sem eru fyrstu verkefni í tækniþróun sjávarorku hérlendis og fyrsti hverfillinn sem fundinn hefur verið upp á Íslandi.  Síðar á því ári var sá hverfill valinn besta uppfinning heims af Alþjóðasamtökum uppfinningafélaga.  
Undirritaður stakk upp á því við alþingismenn í mars árið 2010 um að sett yrði fram þingsályktunartillaga um sjávarorku; átti fund með nokkrum þingmönnum síðar það ár, og lagði í framhaldi af því fram uppkast að þingsályktunartillögu ásamt greinargerð.  Skúli Helgason, þá þingmaður Samfylkingar, útfærði síðan þessa tillögu í samráði við Valdimar; bar hana undir nokkra sérfræðinga og leitaði síðan eftir stuðningi þingmanna.  
Kynning Valorku og Skúla á nauðsyn stefnumótunar bar öflugan árangur, því þegar tillagan var lögð fram í fyrsta skipti, hinn 31.mars 2011, stóðu að henni 22 alþingismenn úr öllum flokkum á Alþingi, eða yfir þriðjungur þingheims. Hinsvegar dagaði tillagan þá uppi í þinglok eftir fyrri umræðu.  Þau áttu eftir að verða örlög hennar tvisvar sinnum enn, og sýnir það e.t.v. best áhrif hagsmunahópa á framgang þingmála.  Að baki þessari tillögu stóð hvorki fjársterkur aðili né fjöldi atkvæða sem þrýsti á; heldur „einungis“ hagsmunir framtíðarkynslóða þjóðarinnar.  
Í fjórða skiptið var tillagan lögð fram í ársbyrjun árið 2014, og þá fyrir forgöngu Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns og fyrrum fjármála- og atvinnuvegaráðherra.  Enn sem fyrr var tillagan lögð fram af þriðjungi þingheims; 21 þingmanni úr öllum flokkum á Alþingi.  Um tíma leit út fyrir að örlög hennar yrðu enn þau sömu, en á síðustu stundu áttaði þingheimur sig á mikilvægi málsins og að frekari tafir yrðu ekki til að auka margumtalaða og brothætta virðingu Alþingis.  Tillagan var því afgreidd út úr atvinnuveganefnd og síðan samþykkt einróma í lok síðasta þingdags; 16. maí 2014.
 
Efni þingsályktunarinnar er það að atvinnuvegaráðherra skuli skipa þriggja manna nefnd til að móta stefnu í rannsóknum og nýtingarmöguleikum sjávarorku við Ísland; hefja uppbyggingu gagnagrunns og efla alþjóðlegt samstarf á því sviði.  Allt eru þetta atriði sem Valorka hefur unnið að, eins og kemur fram í greinargerð ályktunarinnar. Til dæmis er Valorka enn eini aðilinn í tækniþróun sjávarorku á landinu; Valorka býr yfir umfangsmesta og ítarlegasta gagnasafni landsins á þessu sviði og Valorka hefur nú þegar myndað nokkur alþjóðleg tengsl.  Valorka hefur einnig undirbúið eina verkefni landsins sem lýtur að heildstæðum sjávarorkurannsóknum.  Efnt var til samvinnu við Hafrannsóknastofnun um þann þátt í ársbyrjun 2010, með verkefninu „Rannsóknamiðstöð sjávarorku“.  Það verkefni er nú allvel undirbúið, og út frá því gengið að rannsóknir geti hafist án verulegra fjárútláta.  Hafrannsóknastofnun er lögformlegur aðili rannsókna í hafi og þessi verkefni falla vel að öðrum á hennar vegum.  Hinsvegar þarf að bæta við mælitækjum, og hefur verið lögð fram beiðni um lítilshárrar fjárveitingu til þess á fjárlögum ársins 2015.  Einnig verður samstarf í þessu efni við Háskóla Akureyrar, Verkís, Færeyjaháskóla og fleiri aðila.  
 
Mikil þörf er á sjávarorkurannsóknum við Ísland, og stöndum við grannþjóðum töluvert að baki í þeim efnum. Heildarlíkan sjávarfalla var gert fyrir nokkru á vegum VST og er það nú vistað hjá Siglingastofnun.  Það sýnir hinsvegar ekki straumhraða í einstökum röstum, og reyndar liggur ekki fyrir ein einasta vísindaleg mæling straumhraða í þeim. Staðbundnar straumhraðamælingar eru brýnasta verkefnið í sjávarorkurannsóknum, og er stefnt að því að þær hefjist innan tíðar á vegum Rannsóknamiðstöðvar sjávarorku.  Þær verða gerðar með dopplerstraumsjám sem lagt verður á hafsbotn yfir nokkurra vikna skeið.  Þar safna þessir mælar nákvæmum mælingum sem síðar er unnið úr eftir að þeir hafa verið endurheimtir.  Einnig verður notuð vönduð dopplerstraumsjá Valorku, en hún er ætluð til nota í báti.  Eftir þessum gögnum geta sérfræðingar metið orku og hegðun sjávarfallastrauma fyrir hvern stað.  Slíkar rannsóknir eru einnig nauðsynlegar til að unnt sé að skipuleggja prófanir frumgerðar hverfla, eins og þess sem Valorka þróar nú.  
 
Valorka ehf þakkar öllum sem eiga þátt í því að þessi mikilvæga stefnumótun er nú hafin.  Eftirtaldir þingmenn hafa borið tillöguna fram á Alþingi, þó allir þingmenn tveggja kjörtímabila eigi þar einnig hlut að máli:  Skúli Helgason (1.flm upphafl.); Oddný Harðardóttir (1.flm síðar); Björgvin G. Sigurðsson; Jónína Rós Guðmundsdóttir; Sigmundur Ernir Rúnarsson; Gunnar Bragi Sveinsson; Þráinn Bertelsson; Þorgerður K. Gunnarsdóttir; Birgitta Jónsdóttir; Siv Friðleifsdóttir; Lilja Rafney Magnúsdóttir; Birkir Jón Jónsson; Ragnheiður Ríkharðsdóttir; Vigdís Hauksdóttir; Sigurður Ingi Jóhannsson; Guðmundur Steingrímsson; Kristján L. Möller; Magnús Orri Schram; Margrét Tryggvadóttir; Tryggvi Þór Herbertsson; Þór Saari; Árni Þór Sigurðsson; Ásmundur Friðriksson; Björt Ólafsdóttir; Bjarkey Gunnarsdóttir; Elín Hirst; Guðbjartur Hannesson; Helgi Hjörvar; Helgi Hrafn Gunnarsson; Páll Jóhann Pálsson; Páll Valur Björnsson; Silja Dögg Gunnarsdóttir; Svandís Svavarsdóttir; Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson.  Einnig nefndarmenn atvinnuveganefnda; þingforsetar og þingflokksformenn sem átt hafa þátt í framgangi tillögunnar.  Þó hér sé fyrst og fremst um framfaramál þjóðarinnar að ræða er um leið ljóst að þetta er ein af forsendunum fyrir áframhaldi brautryðjandaverkefna Valorku á sviði sjávarorku, og fyrir það er þakkað.  Valorka væntir um leið áframhaldandi skilnings Alþingis og góðs samstarfs við ríkisstjórn á hverjum tíma.
 
Nú tekur við hið vandasama verkefni atvinnuvegaráðherra að finna öfluga og hæfa menn í þessa stefnumótun. Vonandi tekst þar vel til og vonandi tekst ráðherra að forðast áhrif voldugra hagsmunaaðila á svið orkumála við þá skipan.  Ítök stóru ríkisreknu orkufyrirtækjanna, s.s. Landsvirkjunar og Rarik, eru mjög mikil í öllu stjórnkerfinu, eins og Valorka hefur kynnst í sínum verkefnum.  Þau voru ekki hvetjandi til þeirrar stefnumótunar sem hér um ræðir, enda ekki um þeirra hagsmunamál að ræða.  Það er skylda stjórnvalda að vernda nýja sprota eins og Valorku gegn yfirgangi markaðsráðandi orkurisa, og verður að ætla að ráðherra takist vel til í því efni.  
 
Enn bíður Valorka þess nauðsynlega stuðnings opinberra sjóða sem um var rætt í síðustu frétt.  Spurningunni um vilja stjórnvalda í málefnum eina íslenska sjávarorkufyrirtækisins var ekki svarað nema að hluta með þessari ályktun Alþingis.  Enn fást engin svör sem óskað hefur verið eftir frá þremur ráðherrum:  atvinnuvega-; umhverfis- og forsætisráðherra, um það hvort Valorku verður tryggður sanngjarn hluti í fjárveitingum til græna hagkerfisins.  Þeir sjóðir liggja ónotaðir ár frá ári á sama tíma og verkefni Valorku hafa verið nánast í stöðvun frá síðustu áramótum.  Ekki hefur verið unnt að greiða út laun og undirbúningur sjóprófana í sumar hefur ekki getað hafist.  Þær tafir eru alfarið á ábyrgð viðkomandi ráðuneyta og stofnana.  Vonir standa til að úr þessu ástandi geti ræst á næstu dögum, en von er á svörum frá forsætisráðuneyti og viðtali við umhverfis- og auðlindaráðherra.  Meira um framvindu þess fljótlega hér á síðunni.
 
Valdimar Össurarson