Í sumar verða kaflaskil í virkjanasögu Íslands þegar fyrsti íslenski sjávarfallahverfillinn verður prófaður í sjó.  Aðeins einu sinni áður hefur hverfill verið nýttur í sjó við Íslandsstrendur, en það var þegar virkjað var í Brokey fyrir nær einni öld og þá notuð erlend uppfinning.  Valorka-hverflarnir eru íslensk uppfinning og í fremstu röð hverfla til nýtingar hægra  strandstrauma.  Þessar sjóprófanir verða einnig merkur áfangi í þróunarferli Valorka-hverflanna.

Að undanförnu hefur verið unnið að undirbúningi að smíði líkans af gerðinni V-5, en hún verður fyrsta gerð hverfilsins til prófunar.  V-5 hefur komið vel út í kerprófunum og sýnt yfirburði yfir fyrri tegundir, þó V-4 standi henni ekki mikið að baki.  Nú liggja fyrir áætlanir um smíðina í öllum megindráttum.  Þetta þróunarstig felst í smíði og prófun mun stærra hverfillíkans en notað var í kerprófunum.  Hverfilhjólin verða tvö tvöföld sett eða 20 blöð samtals;um  2,5 m í þvermál.  Þeim verður fest neðan í fleka sem flýtur á yfirborði, en honum verður lagt í sundi þar sem sjávarfalla gætir. Flekinn verður um 7x7 m að stærð; fleytt með sverum rörum.  Búnaður er til að lyfta hverflunum úr sjó í flutningi og til skoðunar, og búnaður til átaks- og straumhraðamælinga. Tilgangur prófananna er m.a. að sannreyna orkunýtingu og ýmsa þætti í hönnun hverfilsins.

Gert er ráð fyrir að prófa hverfilinn fyrst í Hornafirði; í ál milli Álaugareyjar og Mikleyjar sem nefnist Mikleyjaráll.  Þarna ligjga fyrir ágætar mælingar á aðstæðum, s.s. stærð sundsins og straumhraða.  Aðstæður eru þar að mörgu leyti ákjósanlegar fyrir prófanir með fleka, þar sem ölduálag er fremur lítið og stutt er milli sjósetningar- og prófunarstaðar.  Gangi allt að óskum er líklegt að prófað verði á fleiri stöðum á landinu í sumar.

Mikið einvalalið hefur komið að undirbúningi þessa prófunaráfanga.  Nýlega bættist verkefninu góður liðsauki.  Kristján Björn Ómarsson; hugvitsmaðurinn að baki hinum nýja blöndungi Fjölblendis, hefur veitt mikilvæga ráðgjöf um hönnun og smíði; Grétar Franksson hjá Ísótækni hefur einnig komið að hönnuninni og mun taka að sér nokkra smíðaþætti og Ingvar Magnússon hjá Viz ehf mun taka að sér ýmis verkefni, en hann er hönnuður og sérfræðingur í SolidWorks hönnunarforriti.  Fyrri samstarfsaðilar hafa unnið ötullega að þessum áfanga, s.s. Vigfús Arnar Jósepsson sem sér um verkfræðilega útreikninga og Aðalsteinn Erlendsson sem veitt hefur alhliða ráðgjöf.  Þá mun Jóhann Eyvindsson koma verulega að smíði og hönnun flekans en hann hefur reynslu í járnsmíði, teiknun o.fl.