althingi_logoÁ Alþingi hefur nú verið lögð fram „Tillaga þingsályktunar um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi“ (þskj. 1168-657. mál)  Flutningsmenn eru 22, úr öllum flokkum á Alþingi, en fyrsti flutningsmaður er Skúli Helgason.  Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að fela iðnaðarráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands.  Jafnframt er ráðherra falið að byggja upp gagnagrunn um nýtingu sjávarorku; stuðla að framgangi tækniþróunar á þessu sviði og athuga með alþjóðlegt samstarf.

Tillagan markar tímamót í sögu orkumála á Íslandi, á fleiri en einn hátt.  Í fyrsta lagi er hér í fyrsta skipti mótuð stjórnvaldsstefna um rannsóknir á sviði sjávarorku; stærstu orkulinda landsins.  Í athugasemdum er vikið sérstaklega að því samstarfi sem Valorka átti frumkvæði að; Rannsóknamiðstöð sjávarorku, sem er samstarfsverkefni með Hafró, Verkís og e.t.v. fleirum.  Í öðru lagi er hér kominn sá jarðvegur sem nauðsynlegur er til að Ísland hafi möguleika á að verða leiðandi í tækniþróun á sviði sjávarorkunýtingar.  Með samþykkt þessarar tillögu standa verkefni eins og þróun Valorka-hverflanna jafnfætis við önnur þróunarverkefni, t.d. að því er varðar stuðning samkeppnissjóða, og er verkefnis Valorku getið sérstaklega í athugasemdum.  Í þriðja lagi má gera ráð fyrir því að í kjölfar tillögunnar komist á fót hérlendis aðili sem einbeitir sér að söfun og utanumhaldi gagna og fróðleiks á þessu sviði og gegni þar miðlunarhlutverki.  Verulega hefur á þetta skort, eins og glögglega hefur komið fram í starfi Valorku ehf.  Líklega er gagnasafn Valorku ehf nú það heillegasta og best uppfærða á landinu varðandi þennan málaflokk, og mun fyrirtækið áfram leggja sig fram um gagnasöfnun og -miðlun á þessu sviði.  Í fjórða lagi er nú stefnt að því að Ísland verði aðili að alþjóðasamstarfi á sviði sjávarorku.  Þetta er enn ein forsenda þess að Ísland sé hæft í samkeppni um tækniþróun og hagnýtingu á þessu sviði.  Að öllu þessu samanlögðu má fullyrða að fátt hefur Alþingi tekið sér fyrir hendur í seinni tíð sem hefur jafn mikla þýðingu fyrir komandi kynslóðir Íslendinga. 

Valorka ehf hefur beitt sér nokkuð fyrir því að hafin verði stefnumörkun af þessu tagi.  Verkefnisstjóri hefur átt fundi með þingmönnum, en einnig var dreift á Alþingi samantektinni „Sjávarfallaorka og hagsmunir Íslands“, sem e.t.v. hefur vakið umhugsun.  Margt í orðalagi tillögunnar má rekja til þess sem Valorka hefur lagt til.  Annað hefur ratað inní hana frá öðrum; sumt af því til bóta en annað ekki.  Ljóst er að Valorka mun gera athugasemdir til lagfæringa á orðalagi á stöku stað þegar tilagan fer í umsagnaferli.

Tillagan markar e.t.v. ekki síður tímamót á hinu pólitíska sviði, en að henni stendur rúmur þriðjungur alls þingheims; 22 þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi; jafnt úr stjórn og stjórnarandstöðu.  Þessi mikla samstaða er öflugur vitnisburður þess að þegar kemur að framtíðarsýn og umhyggju fyrir hag komandi kynslóða geta allir þingmenn verið sammála; öll pólitísk landamæri hverfa.  Þingmenn eiga miklar þakkir skildar; ekki síst þeir sem mikið hafa lagt á sig við undirbúning og framlagningu tillögunnar.