Fyrstu sjóprófanir hverfilsins tókust framar öllum vonum í langflestum atriðum.  Reyndar urðu tvö óvænt atvik til þess að mælingar kláruðust ekki í þessari fyrstu lotu, en þau voru smávægileg í heildarmyndinni. 
Farið var frá Keflavík að Hornafirði miðvikudaginn 24. júlí á tveimur bílum.  Fleka og hverfli var staflað í einingum í flutningabíl Valorku ásamt verkfærum og fleiru, og var eins og stærð bílsins væri sniðin að plássþörfinni.  Gúmbátur var dreginn á vagni aftan í jeppa.  Jóhann Eyvindsson, hönnuður og járnsmiður með meiru, var aðstoðarmaður í þessari ferð og ók vörubílnum en undirritaður jeppanum.  Lítilsháttar tafir urðu á leiðinni þar sem kælikerfi flutningabílsins vann ekki sem skyldi, en á Hornafjörð var komið um kvöldið. 

Fimmtudagur fór í samsetningar flekans og undirbúning.  Stoðgrind flekans var sett saman við skábraut í smábátahöfn Hornafjarðar; henni lyft upp á landhjól; flotrörin tvö ströppuð undir; belgir blásnir upp í endum þeirra; dekkeiningar lagðar niður; flekanum rennt í sjóinn og mælahúsi lyft á dekkið.  Við bakkann var samsetningin kláruð; landhjólin tekin upp; lyftirammi settur upp; lyftigálgi settur upp; hverfilöxull settur í legur; blöð fest á hann; vélarkassa komið fyrir og flekinn gerður klár að öðru leyti.  Síðan var hann dreginn að dýpri bryggjukanti og lyftibúnaður prófaður, sem gekk vel.  Flotjafnvægi í flekanum reyndist mjög gott, en það hafði reyndar verið prófað í Njarðvíkurslipp fyrir austurferðina.  Að síðustu var straumhraðamæli komið fyrir í sínum gálga.

Föstudagur 26. júlí var hinn stóri dagur fyrstu prófana.  Byrjað var á því að fá lánaða tvo netadreka frá útgerð Sigurðar Ólafssonar og útbúa botnfestingar með hanafótum í báðar áttir og strekkimöguleika í hverju horni flekans.  Síðan voru mælar tengdir við tölvu og prófaðir.  Lítilsháttar hnökrar voru á gagnavistun en ekki óyfirstíganlegir.  Liggjandi var í Mikleyjarál um kl 15.00 og þá var flekinn dreginn þangað með lóðsbátnum.  Að beiðni undirritaðs var innri drekanum fyrst lagt og dró lóðsbáturinn hann þar til festu var náð, en þá var hinum kastað.  Þetta reyndust mistök, eins og síðar kom í ljós, þar sem straumhraði jókst nú inn álinn og drekinn straummegin hafði lakari festu.  Hverflinum var slakað niður og innan skamms tók hann að snúast um leið og straumur jókst.  Ekki var annað að sjá en hann ynni eins og til var ætlast og skilaði greinilega töluverðu afli.  Mælingar voru vart byrjaðar fyrir alvöru þegar drekinn straummegin missti festu og flekinn slóst undan straum þar til hinn tók í.  Hverfillinn náði að flækja slakri festinni utan um sig, en eftir nokkuð vafstur tókst að losa hann.  Tekið var til við mælingar að nýju, en nokkur tími fór í að skoða bestu leiðir til vistunar gagna úr báðum mælum í einu.  Straumhraðinn jókst nú mjög hratt í sundinu og iðuhverflar mynduðust við allar mótstöður, auk þess sem hraði hverfilsins og átak jókst að mun.  Upp úr kl 16.30 stöðvaðist hann skyndilega, og þegar híft var úr gruggugu vatninu kom í ljós að þrjú blöð höfðu brotnað algerlega undan álaginu og fleiri voru löskuð.  Ljóst var að þar með væri þessari prófunarferð lokið og að styrkja yrði blöðin fyrir næstu keyrslu.  Þetta voru þó á engan hátt nein vonbrigði:  Hverfilblöðin voru höfð þunn og veikbyggð af ásetningi, þar sem þörf var á að prófa til hins ítrasta hvaða þykkt nægði til að standast átökin en lágmarka mótstöðu.  Hér var því komið upp „ánægjulegt vandamál“, þar sem ljóst var með þessu að hverfillinn fangaði aflið mjög vel.  Beðið var þar til hámarksstraumhraða var náð í sundinu og tekin mæling.  Reyndist hann þá um 1,2 m/sek.  Lóðsbáturinn kom svo um kvöldið; hífði upp drekana og dró flekann að bryggju.

Ákveðið var að breyta áætlunum og í stað þess að fara með búnaðinn aftur til Keflavíkur að reyna að koma honum í geymslu á staðnum.  Guðni Karlsson vörubílsstjóri reyndist fús að reyna að lyfta hverflinum í heilu lagi, eftir að hús og drekar höfðu verið hífðir í land, og gekk það að óskum.  Honum var síðan komið fyrir í porti Hornafjarðarbæjar, en fyrir lá boð bæjarins um það.  Flutningabíllinn var einnig skilinn eftir ásamt fleiru af búnaði, og farið suður á jeppanum með gúmbátinn í eftirdragi. 

Þessi prófun var í heild mjög árangursrík.  Prófunarflekinn stóðst væntingar í alla staði og þar með er komin fyrsta tilraunastöð landsins til prófunar á sjávarfallahverflum í sjó.  Þar er unnt að mæla alla þætti sem máli skipta á vísindalegan hátt og með rafrænni samtímaskráningu; átak, snúningshraða og straumhraða, auk annarra gilda.  Auk þess er hægt að nota aflið til að framleiða rafmagn í litlum mæli, þó það hafi ekki verið gert í þessari stuttu tilraun.  Hverfillinn sjálfur stóð einnig undir væntingum, svo langt sem það náði að þessu sinni.  Verður spennandi að halda áfram prófuninni með stekbyggðari blöðum, en reiknað er með að það geti orðið um miðjan ágúst nk.

Ástæða er til að þakka öllum þeim á Hornafirði sem greiddu götu þessarar prófunar og hafa lýst góðvilja í garð verkefnisins.  Jafnan voru menn reiðubúnir til aðstoðar ef eftir var leitað og lögðu mikið á sig í þeim efnum.  Gestrisni Agnesar og Guðbjartar á Kirkjubraut 10 keyrði úr öllu hófi meðan prófunartvíeykið stóð þar við, eins og þeirra er vani; þar svignuðu borð undan veitingum.  Hafnarstarfsmenn; Vignir og Torfi,  lögðu sig fram um aðstoð af öllu tagi, t.d. varðandi aðkomu lóðsbátsins Björns lóðs.  Hilmar Erlingsson og félagi hans Gísli Karl redduðu botnfestingum; Guðni Karlsson brást vel við og flutti prammann þó um helgi væri, og þannig mætti áfram telja.  Fjöldi bæjarbúa lagði leið sína niður að höfn þessa daga og margir lögðu til hvatningarorð og góðar ráðleggingar.  Hafið þökk íbúar Hornafjarðar. 

Valdimar Össuraron

Lögð hefur verið fram umsókn um einkaleyfi fyrir síðustu gerð Valorka-hverflanna; gerð V5, en það er sú gerð sem nú fer í sjóprófanir.  Hverflar Valorku hafa tekið jöfnum og stöðugum framförum og breytingum frá því verkleg þróun hófst árið 2008.  Eins og flestir vita er grunnhugmynd þeirra sú sama og gamla vatnshjólsins, sem ekki hefur tekið grundvallarbreytingum í meira en tvöþúsund ár.  Í hverflum Valorku er vatnshjólið í raun fundið upp að nýju með því að á því eru gerðar grundvallarbreytingar til að það verki á kafi í straumvatni.  Í gerð V1 var þetta leyst með því að ásinn var í tvennu lagi; hliðar vatnshjólsins voru gerðar keilulaga og þeim hallað ásamt áshlutunum; blöðin sett á liði til hliðanna og í miðju, þannig að þau yrðu opin öðrumegin við ásinn en lokuð hinumegin og þar með fengið mismikið átak straumsins á hjólhelmingana.  Í gerð V2 voru settir teinar í stað fastra hjólhliða, þannig að blöðin geta verið stærri og stýra sér betur.  Í V3 er aðeins ein hjólhlið; blöðunum er fest báðumegin á hana; þau eru bogin í jaðra, þannig að straumur opnar þau öðrumegin en lokar þeim hinumegin hjólmiðju.  Í þeirri gerð, og þeim sem á eftir komu, er beinn öxull og unnt að raða mörgum hverflum á sama ás.  Með V4 er farin önnur leið og hjólhliðum kastað alveg fyrir róða.  Þar er hvert blað tengt blaðinu hinumegin við ásinn með pinna sem gengur gegnum ásinn og er stefna blaðanna ólík í hverju blaðpari, þannig að þegar annað er opið er hitt lokað, en halli þeirra á pinnanum veldur opnuninni.  Gerð 5 má heita sambræðingur fyrri tegunda, þar sem hvert blað er frítt og sjálfstætt, en pinni þess er hallandi miðað við ásinn.  Blaðið er opið öðrumegin við ásinn; færist undan straumi og lokast þegar hann kemur í bakið á því; opnast síðan aftur straummegin vegna halla pinnans.  Það er einkum þessi virkni á halla pinnans sem sótt er um einkaleyfi fyrir, en einnig fleiri atriði.
Undirritaður skrifaði sjálfur einkaleyfisumsóknina og kröfugerð á ensku; byggt á texta sem lögfræðingar Árnason Faktor höfðu gert við fyrri einkaleyfisumsóknir.  Sigurður Ingvarsson hjá Árnason Faktor las yfir, en sá ekki ástæðu til breytinga að svo stöddu.  Ingvar magnússon teiknari og verkfræðingur hjá Viz hönnunarstofu gerði einkaleyfisteikningar, byggðar á líkani sem farið hafði í kerprófanir.  Einkaleyfisumsóknin var lögð inn hjá Einkaleyfastofu 22. júlí 2013.

Þá er komið að því: Gert er ráð fyrir að sjóprófanir fyrsta íslenska hverfilsins og fyrstu íslensku sjávarfallavirkjunarinnar hefjist á Hornafirði innan örfárra daga. Allt er að verða klárt. Smíðaður hefur verið 25 m² fleki sem fljóta mun á yfirborðinu. Neðan í hann verður hverflinum fest, en hann er rúmir 2m í þvermál. Unnt er að lyfta honum úr sjó með sérstökum búnaði til eftirlits. Hverfillinn vinnur við straum úr báðum áttum. Átakið er fært uppúr sjó, þar sem það er mælt, ásamt snúningshraða, og skráð rafrænt til síðari úrvinnslu. Um leið er mældur straumhraði og straumstefna með vönduðum mæli sem fenginn var til verkefnisins.

Prófanirnar fara fram á Hornafirði, en þar eru aðstæður allar hinar bestu hérlendis til prófana á þessu stigi eins og lýst hefur verið í fyrri fréttum hér á síðunni. Fenginn var gamall flutningabíll til að koma búnaðinum austur, en hann mun jafnframt verða aðstaða á staðnum.

Þessi áfangi er ekki aðeins mikilvægur fyrir þróunarverkefni Valorku ehf heldur markar hann nokkur tímamót í orkusögu Íslands. Þetta verður í fyrsta sinn, eftir því sem næst verður komist, sem íslenskur hverfill er prófaður við sínar vinnsluaðstæður, svo furðulega sem það nú hljómar í ljósi langrar sögu raforkunýtingar hérlendis. Þetta verður líka í fyrsta sinn sem prófuð er sjávarfallavirkjun hérlendis sem ætluð verður til raforkuframleiðslu. Með því er opnaður nýr kafli í orkusögu landsins, en gera má ráð fyrir að þessi umfangsmesta, áreiðanlegasta og umhverfisvænsta orkulind landsins verði uppistaða raforkuframleiðslu hérlendis innan fárra áratuga. En hér gæti einnig verið um kaflaskil á heimsvísu að ræða. Ekki er vitað um neinn annan hverfil í heiminum sem náð hefur að komast í sjóprófanir og ætlaður er til orkuvinnslu úr annesjaröstum, þar sem straumhraði er oftast undir 2 m/sek. Standist þessi íslenski hverfill þær væntingar sem til hans eru gerðar, og vísbendingar hafa fengist um í undangengnum kerprófunum, þá má ætla að hann verði leiðandi á markaði sem fyrirsjáanlega verður ört vaxandi í nánustu framtíð. Hér gæti því verið um verulega hagsmuni að ræða fyrir okkur Íslendinga; ekki einungis til nýtingar okkar umfangsmiklu orkulinda sjávarfallaorku heldur á sviði framleiðslu og sölu tæknivöru, en þar erum við núna eftirbátar flestra okkar samanburðarlanda.

Enn virðast íslensk stjórnvöld þó vera illa á verði í þessum efnum. Í orkumálum gætir lítillar fyrirhyggju; þar skortir bæði framtíðarsýn og markmiðssetningu. Undirritaður hefur lengi reynt að benda íslenskum stjórnvöldum á staðreyndir í þessum efnum, m.a. með því að vísa í erlendar rannsóknir. Þær skýrslur sem sjá má hér á síðunni, undir flipanum „fróðleikur og skýrslur“ hafa verið sendar stjórnvöldum og eru reyndar ítarlegasta yfirlit um sjávarorku sem tekið hefur verið saman hérlendis. Framkvæmdavaldið sýnir lítil sem engin lífsmörk í þessum efnum. Stefnumótunarvaldið; Alþingi, gerði örlitla tilraun til að sinna sínu hlutverki með því að fram var lögð þingsályktunartillaga um rannsóknir og þróun sjávarorku, fyrir áeggjan undirritaðs. Hinsvegar var sú tilaga svæfð í þrígang, nú síðast í vor. Verkefnið hefur notið skilnings hjá Tækniþróunarsjóði, en honum er einungis heimilt að veita til helmings áætlaðs kostnaðar. Verkefnið fellur undir svið Orkusjóðs en honum hefur lengi verið haldið í fjársvelti og hefur t.d. ekki nema úr 25 milljónum að spila í styrkjum allt þetta ár. Ekki fékkst þaðan styrkur á síðasta ári, og styrkur hans til verkefnisins á þessu ári er ekki nægur þó þakkarverður sé. Því gæti farið svo, að óbreyttu, að þetta eina þróunarverkefni Íslendinga á sviði sjávarfallaorku; þróun fyrsta íslenska hverfilsins, muni deyja drottni sínum eftir þær prófanir sem framundan eru. Það slys gerist á sama tíma og hálfur milljarður af almannafé er notaður til að reisa hérlendis tvær erlendar vindmyllur sem einkum nýtast til markaðssetningar á stærsta orkufyrirtæki landsins. Nauðsynlegt er að rannsaka hagkvæmni vindorkunýtingar eins og annarra orkuforma, en hér var bruðlað um of á kostnað annarrar orkuþróunar í landinu. Fyrirspurningum Valorku um framtíð síns brautryðjandaverkefnis er ýmist ekki svarað af stjórnvöldum, eða þeim er varpað endalaust milli ráðuneyta og stofnana.

Öllum stjórnmálaflokkum er það sameiginlegt að lofa því að stuðla að nýtingu íslensks hugvits til verðmæta- og atvinnusköpunar. Oftast virðist annað vera uppi á teningnum þegar sömu flokkar eru komnir í ráðandi aðstöðu; þá man enginn lengur eftir þeim sem vilja leggja sig fram um nýsköpun í þágu framfara og þjóðarhags.

Verkefnið hefur hingað til sannað gildi sitt og gefið ástæðu til mikillar bjartsýni. Helstu skuggahliðar þess eru þær sem varða viðskipti við stjórnvöld. Sú saga verður nánar rakin þegar saga þessa fyrsta sjávarorkuhverfils Íslendinga kemur fyrir almenningssjónir.

Valorka þakkar samstarfsfólki sínu fyrir vel unnin störf hingað til og óskar því til hamingju með áfangann.

Valdimar Össurarson

Efnt hefur verið til samstarfs um rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarorku undir heitinu Nordic Tidal Energy (NTE).  Að verkefninu standa í byrjun: Hafrannsóknastofnun; Sveitarfélagið Hornafjörður; Valorka ehf; Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Færeyjum (Fróðskaparsetur Føroyja). 

Verkefnið er til komið í kjölfar samstarfs sem Valorka hefur átt við Hafró og Hornafjarðarbæ, en um nokkurn tíma hafa þessir aðilar leitað leiða til að hefja heildstæðar rannsóknir á sjávarföllum við Ísland á vísindalegan og skipulegan hátt.  Fyrir langvarandi baráttu Valorku hillir nú undir stjórnvaldsstefnu á þessu sviði, þó enn sé hún ekki í höfn.  Hinsvegar virðist enn ekki skilningur eða geta hjá stjórnvöldum fyrir því að veita fé í þessar rannsóknir.  Hafa samstarfsaðilar því leitað eftir stuðningi erlendra samstarfssjóða, eftir því sem boðist hefur.  Sótt var um IPA-styrk til Evrópusambandsins, en í ársbyrjun 2013 varð ljóst að hann fengist ekki þó verkefnið hlyti þar góða einkunn.  Samstarfinu óx fiskur um hrygg með aðild Háskóla Akureyrar.  Faglegur stjórnandi straumarannsókna verða Héðinn Valdimarsson haffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, en hann vinnur í samstarfi við Steingrím Jónsson haffræðing og prófessor hjá Háskóla Akureyrar.  Enn var samstarfsgrunnurinn efldur með aðild Færeyjaháskóla, en þar fæst dýrmæt reynsla og ráðgjöf þar sem Færeyingar eru komnir lengra í straumrannsóknum og kortlagningu orkuríkra svæða.  Helsti tengiliður í Færeyjum er haffræðingurinn og háskólakennarinn Bardur Niclasen.  Hornafjarðarbær er aðili að samstarfinu vegna áhuga á sjávarorku svæðisins og mögulegri nýtingu hennar.  Valorka ehf hefur hvatt til samstarfsins, enda eru rannsóknir á einstökum svæðum algjör forsenda þess að unnt verði að þróa áfram fyrsta íslenska hverfilinn og skipuleggja notkun hans hérlendis.  Verkefnisumsjón er í höndum framkvæmdastjóra Valorku, ásamt faglegri stjórn tækniþróunarhluta verkefnisins.

Á grunni samstarfsins við Færeyjaháskóla hefur nú verið sótt um styrk til NORA samstarfssjóðsins, en hann hefur það hlutverk að stuðla að rannsóknum og nýtingu auðlinda samstarfslandanna; Íslands, Færeyja, Grænlands og N-Noregs.  Góðar vonir þykja á að stuðningur fáist, enda fellur verkefnið einkar vel að markmiðum sjóðsins.

Eins og lýst hefur verið í skýrslum og vefsíðu Valorku þá má leiða líkum að því að sjávarfallaorka sé ein stærsta orkulind Íslendinga, af þeim sem næstu kynslóðum eru tiltækar.  Víst er að hún er sú stöðugasta og sú sem nýta má með minnstum áhrifum á umhverfið.  Niðurstöður rammaáætlunar um vatnsföll og jarðhita sýna svart á hvítu að í þeim orkuformum höfum við þegar nýtt meira en helminginn og líklegt er að þær orkulindir verði fullnýttar fyrir árið 2050 ef orkueftirspurn verður í líkngu við það sem verið hefur, eins og sjá má í kynningu Valorku.  Þess verður að vænta að stjórnvöld taki sig á í þessum efnum og að fé verði lagt til byrjunarrannsókna á grunni þessa samstarfs, sem er hið víðtækasta og faglegasta sem stofnað hefur verið til í þessum efnum.

Atvinnuvega- og fjármálaráðherrar Íslands og Færeyja undirrituðu 5.mars 2013 viljayfirlýsingu um aukið samstarf á sviði orku- og nýsköpunarmála.  Þessi yfirlýsing gegnur í sömu átt og verkefnið og verður því væntanlega mikill styrkur.  Því hefur verkefnisstjóri í dag sent öllum fjórum ráðherrum skeyti þar sem yfirlýsingunni er fagnað.

Mikilvægur þáttur í þróunarstarfi Valorku er kynningarstarf og fræðsla. Það fylgir reyndar allri þróunarstarfsemi, en hvergi er það eins mikilvægt og í frumkvöðlastarfsemi sem þessari:  Þegar bryddað er á notkun nýrrar og mikilvægrar auðlindar sem ekki hefur verið nýtt áður; þegar lítið örfyrirtæki þarf að hasla sér völl meðal risa á orkumarkaði sem hafa lítt takmörkuð ítök og fjárráð; þegar opna þarf fyrir skilning stjórnvalda á málefni sem lítil sem engin umræða hefur áður verið um og nánast er óþekkt í skólakerfi og akademsku starfi; og þegar flestir fjölmiðlar eru fremur uppteknir af æsifregnum og fánýtum tískufyrirbærum en því sem hagnýtt kann að reynast.

Valorka hefur því lagt mikla áherslu á að nýta þau raunhæfu tækifæri sem gefast til að kynna verkefnið, bæði meðal almennings og í skólum.  Svo virðist sem fjölmiðlar séu í þann veginn að vakna til meðvitundar um þá möguleika sem verkefnið mun að öllum líkindum skapa, þó enn sé langt í land með að skilningur vakni almennt á raunverulegri stöðu og horfum í orkumálum Íslendinga.  Allri umræðu um slíkt hefur markvisst verið haldið niðri af stórum orkufyrirtækjum og stofnunum á þessu sviði, og má líkja þeirri þöggun við umfjöllun um "íslenska fjármálaundrið" stuttu fyrir fjármalahrunið.  E.t.v. þarf þjóðin að lenda í orkukreppu til að vitræn umræða hefjist almennt um orkumál.

Undirritaður hélt gestafyrirlestur um verkefnið á umhverfis- og auðlindasviði Háskóla Íslands hinn 22. febrúar 2013.  Þetta er í annað sinn sem hinn framsýni kennari Þröstur Þorsteinsson biður um kynningu á verkefnum Valorku, sem er ánægjulegt.  Nemendur á þessu sviði koma úr flestum heimshornum og því var fyrirlesturinn á ensku.  Teknar voru saman glærur og farið yfir verkefni Valorku og sjávarfallaorku almennt.  Nemendur voru áhugasamir og margar spurningar komu í lok fyrirlestrarins, sem tók nær tvær klukkustundir.

hornafj orkuradst_mar2013Hornafjarðarbær sýndi enn eitt framtakið á sviði orkumála með því að boða til orkuráðstefnu 28.febrúar 2013.  Þar var undirrituðum boðið að halda erindi um sjávarorku, ásamt fríðum hópi fyrirlesara úr mörgum orkutengdum greinum. Nánar um ráðstefnuna má lesa á vef Hjalta Þór Vignissonar bæjarstjóra.  Margt fróðlegt kom fram í erindunum og greinilegt að gróska er mikil í orkumálum, ekki síst kringum framsækin sveitarfélög eins og Hornafjörð.

Pétur Halldórsson, umsjónarmaður hins fróðlega þáttar "Tilraunaglasið" á Rás-1 í Rúv, hafði samband við undirritaðan í kjölfar orkuráðstefnunnar á Hornafirði, og var viðtalið sent út 8. mars 2013.  Þar má líklega heyra ítarlegustu lýsinguna á hverflum Valorku sem birst hefur til þessa, og er frágangur Péturs á viðtalinu til fyrirmyndar.  Hægt er að heyra viðtalið hér; á vefsvæði Tilraunaglassins.

Þá var umfjöllun í kvöldfréttatíma RÚV 11.mars 2013, þar sem lýst var erfiðleikum við fjármögnun þessa fyrsta hverfils Íslendinga og litlum skilningi stjórnvalda, ásamt því sem sagt var frá fyrirhuguðum sjóprófunum.

Glærur sem kynntar voru á ráðstefnunni á Höfn má sjá hér; "kynning á sjávarorku og verkefnum Valorku".

Valorka þakkar þeir sístækkandi hópi sem sýnt hefur áhuga á nýjum aðferðum í orkuvinnslu og nýtingu nýrra orkulinda.

Valdimar Össurarson 

Subcategories