Framkvæmdastjóri Valorku tók nýlega við viðurkenningu frá Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka.  Fjórir aðilar hlutu styrki að þessu sinni, og fyrir utan Valorku voru það Marsýn ehf; Klappir ehf og hugbúnaður til greiningar síldarstofna.  Styrkur Íslandsbanka til Valorku er 2 milljónir króna og mun koma að góðum notum í þróun íslenskrar sjávarorkutækni.  Íslandsbanki sýnir með þessu mikla framsýni og vilja til endurreisnar atvinnulífs og verðmætasköpunar þjóðarinnar.  Þannig hugsun mætti vera uppi á borðum hjá fleiri stofnunum í fjármálaþjónustu, en um svipað leyti barst synjun á stuðningi frá Landsbankanum, og hann hafði áður hafnað boði um að verða sérstakur bakhjarl þessa einstaka framfaraverkefnis.  Sá banki hefur verið viðskiptabanki Valorku frá upphafi en að sjálfsögðu ber ávallt að beina viðskiptum þangað sem skilningur og framtíðarsýn er mest.

 

Íslandsbanka er þökkuð þessi einstaka framsýni og stuðningur við uppbyggingu íslenskrar verðmætasköpunar.

Nýlega var farið í stuttan mælingaleiðangur í Ósa, en svo nefnist vogurinn norðan Hafna; vestantil á Reykjanesskaga.  Þarna hagar svo til að um 2ja ferkílómetra vogur gengur til austurs inn af ströndinni, og greinist í fjölmarga litla krika með nesjum á milli.  Ósavogurinn er allur grunnur, en þó einkum yst; norður af Höfnum.  Þar er garður skerja og hleina sem sumar eru alltaf uppúr; aðrar uppúr á fjöru en einnig mikið flágrynni sem aldrei kemur úr sjó.  Um þennan skerjagarð þarf að komast töluverður sjór á hverri flæði, eða líklega 2 til 3 milljónir rúmmetra, fjórum sinnum á sólarhring.  Fyrirfram var því búist við að töluverður straumþungi væri í rennum eða lænum sem eru þarna milli skerjanna.

Farið var af skábrautinni sem herinn skildi eftir sig í Þórshöfn; hinum fornfræga verslunarstað Suðurnesja norðan Ósa.  Slöngubát var þar rennt niður í víkina og siglt stutta vegalengd inn að grynningunum.  Þar var lagst við stjóra; straumhraðamæli Valorku slakað undir yfirborðið og hann tengdur fartölvu.  Mælt var á þremur stöðum í þessari fyrstu atrennu og mælistaðir merktir á kort.  Straumhraði reyndist vera frá um 0,5 m/sek og upp í um 1 m/sek.  Meiri straumur er greinilega sumsstaðar, enda eru víða boðafoll á grunnum flúðum.  Tærleiki sjávar er nokkuð mikill

Ætlunin með þessum mælingum er einkum að skoða hvort þarna gætu verið hentugar aðstæður til prófana á hverflum Valorku.  Staðurinn hefur ýmsa kosti til slíks; t.d. nálægð við vinnustofu Valorku; tærleika sjávar; góða aðstöðu til sjósetningar og fremur litla hættu á árekstrum við aðra starfsemi.  Auk þess virðist skerjagarðurinn vernda vænlega prófunarstaði frá sjógangi.  Hinsvegar eru nokkrir augljósir ókostir, svo sem miklar grynningar; iðuköst vegna botnlags; slæmt aðgengi að innsvæðum landleiðis; skortur á þjónustu og aðstöðu við landið o.fl.  Ekki hefur verið kannað hvort prófanir kynnu að rekast á við aðra hagsmuni, t.d. varðandi æðarvörp, og hver er vilji landeigenda.

Í Ósum er töluverð orka sem eflaust kemur einhverntíma til álita að nýta.  Núna er fyrst og fremst verið að kanna hvernig svæðið hentar til prófana.  Verður þeim könnunum haldið áfram á komandi vori.

Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur og fræðimaður heimsótti Valorku seinnipart oktobers ásamt kvkmyndagerðarmanninum Valdimar Leifssyni.  Erindið var að taka upp efni til sýningar í vísindaþáttum Sjónvarpsins, sem Ari Trausti hefur séð um síðastliðna vetur við miklar vinsældir.  Í upphafi var ætlunin að taka einnig upp prófanirnar í Hornafirði, en það náðist ekki á þeim stutta tíma sem þær stóðu sl haust.  Valdimar kynnti þróunarsögu hverfilsins í stuttu máli; stöðu verkefnisins og hvað líklega væri framundan.  Einnig voru hugleiddir þeir möguleikar sem nú eru að opnast á sviði sjávarorku, ekki síst með tiilkomu þessarar íslensku tækni.  Ari Trausti var áhugasamur um verkefnið og margs var spurt á báða bóga, enda hafa fáir betri yfirsýn í heimi íslenskra vísinda en Ari Trausti.

Þessir þættir Ara Trausta og Valdimars fyrir Sjónvarpið, og með aðkomu fjölmargra aðila á sviði nýsnköpunar, eru lofsvert framtak.  Gjarnan mætti vera meira um það að fjölmiðlar fjölluðu um hugvit og nýsköpun, þó ekki væri nema til að hvetja til framtaks í þeim efnum.

Bæjarráð Hornafjarðar heimsótti vinnustofu Valorku 28. ágúst sl og hélt fund með verkefnisstjóra.  Í þessum góða gestahópi voru Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri; Ásgerður K. Gylfadóttir, forseti bæjarstjórnar og bæjarstjórnarmennirnir Reynir Arnarson og Valdimar Einarsson.  Valdimar kynnti Hornfirðingum þróunarsögu hverfilsins og sýndi ýmislegt sem starfseminni viðkemur.  Sest var að fundi og málefni Valorku og sjávarorku rædd vítt og breitt.  Hornfirðingar eru mjög áhugasamir um prófanir Valorku og vilja greiða götu þeirra.  Áfram verður þar í boði aðstoð og aðstaða.  Atvinnuþróunarsjóður bæjarins veitti verkefninu styrk á þessu ári og möguleiki er á frekari stuðningi.  Velvilji Hornfirðinga er Valorku mikils virði, enda er þarna einstök aðstaða til prófana.  Vonast er til að verkefni Valorku muni reynast Hornfirðingum mikilvæg til framtíðar litið, og þá í ýmsum skilningi.  Nú þegar vekja þessar einstöku tilraunir athygli á staðnum.  Í öðru lagi er líklegt, ef rétt er á málum haldið, að á Hornafirði geti orðið alþjóðleg prófunarmiðstöð á sviði sjávarorku.  Nú þegar eru komnar af stað athuganir í því efni í samvinnu við erlenda aðila.  Í þriðja lagi liggja gríðarlegir framtíðarhagsmunir Hornfirðinga í því að eiga möguleika á nýtingu hinna miklu orkuauðlinda sjávarorku sem á svæðinu eru.

 

 

Um svipað leyti og þessi fundur var haldinn varð ljóst að Hjalti Þór myndi láta af starfi bæjarstjóra að eigin ósk og fara til starfa á öðrum vettvangi.  Valorka ehf vill því hér með þakka Hjalta Þór fyrir einstaklega gott samstarf og aðstoð við verkefnið.  Hann er einn þeirra fáu sem strax í upphafi sýndu því mikinn áhuga, skilning og velvilja og var ávallt boðinn og búinn að leita leiða til að verða að liði.  Vafasamt er að verkefni Valorku væri enn starfandi í dag ef ekki væri fyrir slíka hvatningu örfárra eldhuga.  Um leið og eftirsjá er að Hjalta Þór af stóli bæjarstjóra er það mikið fagnaðarefni að bæjarstjórn Hornafjarðar skuli sýna staðfastan vilja til að halda áfram þeirri einstöku samvinnu sem hafin er milli frumkvöðuls á sviði sjávarorku og framsýnasta sveitarfélags landsins í orkumálum.

Prófun hverfilsins í Mikleyjarál í Hornafirði var haldið áfram 13. ágúst 2013.  Nú var búið að styrkja blöðin sem létu undan álaginu áður.  Einnig var bættur frágangur á blaðstoppurum og sérstök tölva var nú tengd straumhraðamælinum, sem tryggði betur  gagnavistun og samtímaálestur, en önnur talva var tengd átaks- og snúningshraðamæli.  Prófanir voru gerðar af undirrituðum með aðstoð Jóhanns Eyvindssonar eins og fyrri en heimamenn komu að þeim á ýmsan hátt.  Guðni vörubílstjóri kom flekanum í höfnina þar sem blöðum og öðrum búnaði var komið fyrir.  Drekar voru þyngdir og lóðsbáturinn undir stjórn Torfa og Brynjólfs dró lítillega í þá til festingar áður en flekinn var bundinn í.  Flekanum var snúið þannig að blöð opnuðust á efri helmingi hverfilsins, en útstraumur var að byrja í Mikleyjarál.  Blöðin hegðuðu sér í alla staði eins og við var búist í þetta skiptið og góðar mælingar fengust þegar straumurinn jókst. 

Þegar skammt var til mesta straumþunga gerðist það sama og í fyrstu prófun, að flekinn tók að draga drekann straummegin.  Hinum var samstundis sleppt með bauju til að forða því að festin flæktist fyrir.  Augljóst er að enn þarf að bæta botnfestu, enda tekur hverfillinn mikið á sig þegar hann er niðri.  Þegar verið var að hífa hverfilinn upp bilaði vindubúnaðurinn.  Það kom þó ekki að sök þar sem skýrar mæliniðurstöður voru komnar í tölvuvistun, og var því ákveðið að kalla eftir lóðsinum og haldið að bryggju.  Hafnarverðir tóku síðan að sér að sækja drekana og koma þeim til eigenda.  Ýmis atvik gerðust sem ekki voru fyrirséð.  Meðal þess má nefna má að maður lenti í sjónum en bjargaðist fyrir eigið snarræði og annarra.  Selur kom þétt upp að flekanum og virti fyrir sér það sem líklega verður nýtt og algengt leiktæki á hans slóðum innan tíðar.  Flekanum var aftur komið fyrir í geymslu hjá Hornafjarðarbæ, en annar búnaður var settur í flutningabílinn og tekinn með að Ásbrú. 

Fyrir liggur að yfirfara niðurstöður mælinga og er ekki tímabært að greina frá þeim á þessari stundu.  Flest virðist það vera í samræmi við það sem við var að búast en eftir er að reikna inn áhrif ýmissa þátta, s.s. innra viðnáms í drifbúnaði o.fl.
Bestu þakkir til þeirra sem komu að þessum prófunum á einn eða annan hátt, svo og til þeirra fjölmörgu sem sýnt hafa þeim áhuga og hvatningu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar.

Valdimar Össurarson

Subcategories