Nú hefur Tækniþróunarsjóður ákveðið að hefja aftur stuðning við verkefni Valorku; eina íslenska verkefnið á sviði sjávarorkutækni.  TÞS mun veita þriggja ára framhaldsstyrk, gangi verkefnið að vonum.  Valorka fagnar að sjálfsögðu þessari líflínu, sem kom á síðustu stundu; verkefnið hefði að öðrum kosti drepist á þessu sumri þrátt fyrir góðan árangur.  Ekki hefur fengist nein skýring á þeirri furðulegu ráðstöfun Tækniþróunarsjóðs að stöðva styrkveitingar í eitt og hálft ár.  Sá hiksti hefur valdið verkefninu skaða, og sett forskot Íslendinga á þessu sviði í hættu.  Batnandi manni er þó best að lifa, og Valorka væntir góðs samstarfs við TÞS næstu 3 árin.

Íslenska nýsköpunarumhverfið er þó samt við sig, hvað varðar skipulags- og stefnuleysi; hagsmunapot og fordóma. Eins og allir vita, gera samkeppnissjóðir kröfu um 50% mótframlag sinna styrkveitinga.  Oft er unnt að finna leiðir til að brúa það þegar um skammtímaverkefni er að ræða.  Þegar um langtímaverkefni er að ræða, líkt og verkefni Valorku, er ekki unnt að búast við slíkum reddingum af hendi frumkvöðulsins.  Þá þurfa tveir samkeppnissjóðir að vinna saman með samfjármögnun; og er beinlínis til þess ætlast t.d. í reglum TÞS.  Verkefni Valorku heyra undir starfssvið Orkusjóðs, auk TÞS.  Orkusjóður hefur verið fjársveltur af Alþingi, og fékk t.d. einungis um 19 millj.króna til styrkveitinga á þessu ári.  Hann hefur þó á liðnum árum riðið baggamuninn sem mótframlag Valorku við TÞS.  

Á þessu ári skipaði ráðherra nýja stjórn Orkusjóðs í stað orkuráðs.  Hennar fyrstu verk lofa ekki góðu um framhaldið.  Nú brá svo við að Valorku var synjað um styrk, þrátt fyrir að hann væri augljóslega forsenda fyrir mótframlagi við styrk TÞS.  Með því stefnir Orkusjóður verkefnum Valorku aftur í bráða hættu, enda er hann eina úrræðið sem Valorka hefur um mótframlag.  Valorka fór fram á að Ragnheiður Elín atvinnuvegaráðherra beitti heimild sinni til að breyta niðurstöðu stjórnarinnar, en hún hafði ekki fyrir því að svara erindinu.  

Nýlega fór verkefnisstjóri Valorku framá að fá lista yfir styrkveitingar Orkusjóðs, og varð Jakob Björnsson framkvæmdastjóri sjóðsins góðfúslega við því.  Ekki verður annað sagt en þarna komi margt furðulegt í ljós, svo ekki sé fastar að orði kveðið.  Til úthlutunar hafði stjórnin núna 19.250.000 krónur.  Tvær styrkveitingar stinga þarna sérstaklega í augu; báðar til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.  Annarsvegar fær NMÍ 3,6 millj.kr vegna "Ljósveiðar- orkusparnaður í togveiðum" og hinsvegar 1 millj.kr vegna "vistvæns eldsneytis úr afgasi jarðhitavirkjana".  Við þetta er ýmislegt að athuga:  

Í fyrsta lagi er það í meira lagi ámælisvert að Nýsköpunarmiðstöð Íslands skuli yfirhöfuð geta sótt um styrki úr Orkusjóði og öðrum samkeppnissjóðum.  Stofnuninni er að lögum ætlað að vera frumkvöðlum til ráðgjafar og stuðnings við framgang verkefna þeirra, og m.a. veita þeim aðstoð við styrkumsóknir í samkeppnissjóði.  NMÍ vinnur augljóslega gegn þessu höfuðverkefni sínu með því að sækja sjálf um styrki í sömu sjóði og keppa þar með við skjólstæðinga sína og samstarfsaðila.  Sú samkeppni er dæmd til að verða harla ójöfn; hinum almenna frumkvöðli í óhag, þar sem NMÍ er ríkisstofnun með ómæld ríkisframlög í sínum sjóðum; með herskara sérfræðinga á sínum vegum og með ríkisrekið skrifstofulið; sérhæft í áætlanagerð og styrkumsóknum.  Auk þess er forstjóri NMÍ sjálfur andlit þessara verkefna NMÍ; með alræðisvöld á sviði nýsköpunar, þar sem í Nýsköpunarmiðstöð Íslands er engin stjórn.  Hvaða sjóður getur neitað slíkri stofnun um styrk?  Þetta leiðir hugann að því bananalýðveldi sem íslenskt nýsköpunarumhverfi óneitanlega er; veldi æviráðinna forstjóra vegur þar þyngra en þjóðarhagur.

Í öðru lagi er þessi styrkveiting Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ámælisverð í ljósi þess að Nýsköpunarmiðstöð hefur meiri möguleika á því en t.d. Valorka að leita annarra leiða eftir stuðningi við sín verkefni.  Ljósvörpuverkefni NMÍ, sem hefur yfir sér mikinn ævintýrablæ, er t.d. styrkhæft úr þróunarsjóði sjávarútvegsins: AVS, en fyrir liggur að verkefni Valorku eiga þar ekki möguleika á stuðningi.  Vítavert verður að teljast að hinu nauma styrkfé Orkusjóðs sé ráðstafað til aðila sem hafa sík úrræði og önnur verkefni, sem þó heyra meira til sviðs orkuframleiðslu, eru sett á guð og gaddinn.  Hér er um forkastanleg vinnubrögð að ræða.

Í þriðja lagi er styrkveiting Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ólögmæt, eins og að henni var staðið.  Árni Sigfússon, stjórnarformaður Orkusjóðs sem styrkinn veitti, og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem styrkinn fékk, eru bræður.  Framkvæmdastjóri Orkusjóðs staðfesti við mig í dag að Árni hefði ekki vikið sæti þegar styrkveitingin var samþykkt í istjórn Orkusjóðs.  Því stangast þessi styrkveiting á við 2. kafla stjórnsýslulaga nr 37/1993 og hlýtur að dæmast ómerk.  

Þessi hroðvirknislegu vinnubrögð stjórnar Orkusjóðs og viðkomandi ráðherra eru því miður ekki einsdæmi; miklu heldur má líta á þau sem lýsandi dæmi fyrir það óskipulag og þá óeðlilega hagsmunagæslu sem einkennir íslenskt nýsköpunarumhverfi.  Í þetta kerfi er dælt síauknu skattfé; ár frá ári, án þess að nokkur tilraun sé höfð uppi í þá átt að gera það skilvirkara, gagnsærra og heiðarlegra.  Einu samtök almennra frumkvöðla hafa ítrekað bent stjórnvöldum á það sem betur mætti fara.  M.a. sendu Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna erindi í mörgum liðum til alþingismanna og stofnana fyrir fáum árum.  Alþingi svaf áfram á verðinum, en stjórnarmenn SFH fengu hótanir og svívirðingar hinna mosavöxnu stofnanaformanna í sín ritlaun.  Áfram var skattfé mokað hugsunar- og eftirlitslaust í þennan óskapnað í nafni nýsköpunar og framfara; Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna var vandlega haldið utan við alla ákvarðanatöku í kerfinu og að auki refsað með niðurskurði á fátæklegum ríkisstyrk.

Valorka mun senda viðeigandi eftirlitsstofnunum sínar athugasemdir varðandi gerðir stjórnar Orkusjóðs.  Auk þess mun Valorka senda alþingismönnum bréf til að vekja athygli á málefnum Orkusjóðs; annarsvegar hinum skammarlega lágu framlögum (19 milljónir til allrar orkuþróunar í landinu!) og hinsvegar hinum óeðlilegu starfsháttumog hagsmunatengslum sem hér hafa verið rakin.

Valdimar Össurarson, frkvstj Valorku
og formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna.

Verkefni Valorku; einu þróunarverkefni Íslendinga á sviði sjávarorkutækni, hafa verið í biðstöðu frá haustinu 2013.  Ástæða þess er ekki sú að verkefnin hafi ekki staðið undir væntingum; þvert á móti hafa þau skilað árangri langt umfram björtustu vonir.  Þessa stöðu má alfarið rekja til þess áhugaleysis, tómlætis, og jafnvel fordóma, sem stjórnvöld hafa gagngert og meðvitað sýnt verkefninu.

Þegar verkefnisstjóri hóf vinnu að verkefninu hafði hann verið atvinnulaus eins og fleiri; enda í miðju mesta efnahagshruni sem yfir þjóðina hefur dunið.  Þá var ákveðið að láta reyna á hugmyndir sem þróast höfðu um langan tíma, varðandi virkjun hinna orkuríku hafstrauma við annes.  Eftirspurn á heimsvísu eftir grænni orku var ört vaxandi, en um leið var þróun á þessu sviði komin stutt á veg.  Gagnleg tæknilausn gæti því reynst mjög verðmæt; ekki aðeins fyrir hugvitsmanninn, heldur ekki síður íslenska þjóð.  Eftir algjört skilningsleysi í byrjun, hrökk stuðningsumhverfið í gang.  Tækniþróunarsjóður veitti frumherjastyrk og síðan þriggja ára verkefnastyrk; Orkusjóður hóf að styrkja verkefnið og smærri aðilar sýndu skilning og stuðning.  Fyrstu tegundir hverfilsins reyndust hafa algert nýnæmi og einkaleyfi vegna þeirra varð um leið fyrsta einkaleyfi á íslenskum hverfli.  Þróun var haldið áfram, með öflugu teymi sérfræðinga; fleiri tegundir þróuðust og voru prófaðar í straumkeri með góðum árangri.  Hverfillinn hlaut ýmsar viðurkenningar erlendis; t.d. gullverðlaun International Inventors Awards árið 2011 og gullverðlaun á stærstu uppfinningasýningu vestanhafs 2014.  

Sumarið 2013 hófst næsta stig þróunar; sjóprófanir stærri hverfla.  Til þeirra var valið sund í Hornafirði, þar sem aðstæður eru ákjósanlegar.  Hönnuð var og smíðuð, fyrsta og eina prófunarstöð hverfla á landinu; stór fleki með vönduðum mælibúnaði.  Neðan í hann var hverfillinn festur, þannig að unnt væri að hífa hann úr sjó til skoðunar, og flekanum lagt við stjóra á sundinu með góðri aðstoð hafnarstarfsmanna.  Einungis náðist að prófa tilraunastöðina sjálfa og undirbúa prófanir hverfilsins fyrir haustið 2013.  Reyndar var það merkur áfangi:  Ekki einungis fyrir það að þá hófust í fyrsta skipti tilraunir hérlendis til orkufarmleiðslu úr sjó, heldur ekki síður fyrir það að þá var í fyrsta skipti í heiminum prófaður hverfill sem ætlað er að vinna orku úr sjávarföllum utan straumhörðustu sunda.  

Á sama tíma rann út verkefnisstyrkur Tækniþróunarsjóðs, sem var meginundirstaða fjármögnunar verkefnisins.  Sótt var um framhaldsstyrk en honum var synjað án skynsamlegra skýringa.  TÞS gerði kröfu um söluáætlun til 20 ára, en hvert mannsbarn veit að ekki er unnt að áætla sölu á tæki sem ekki er búið að þróa; þaðan af síður ef markaður og markaðsverð hefur ekki enn náð að þróast.  Hér var því kominn upp sá galli í stuðningsumhverfinu að það getur ekki styrkt þróunarverkefni nema þau snúi að þekktri tækni og markaður sé þegar myndaður.  Þessi galli mun um aldur og ævi útiloka Íslendinga frá allri langtíma tækniþróun, eins og hér um ræðir; verði hann ekki lagfærður.  Verkefnið var því komið í frost.  Aftur var sótt um, vorið 2014; nú með 20 ára áætlun, byggðri á áætluðum forsendum.  TÞS hafnaði núna á þeim forsendum að rökstuðning vantaði, auk þess sem nú var gerð krafa um aðkomu "öflugs aðila".  Spurt var um skýringar og benti TÞS á t.d. Nýsköpunarmiðstöð Íslands.  Þó sú krafa væri fyllilega órökstudd var þetta látið eftir; og gerður samstarfssamningur við Nýsköpunarmiðstöð.  Enn var sótt um haustið 2014, og án langtímaáætlunar; enn hafnaði TÞS og heimtaði þá áætlun.  Sótt hefur verið um í fjórða skiptið og nú fékk NMÍ nær frjálsar hendur um að gera 20 ára áætlun með sínum aðferðum.  Er nú beðið niðurstöðu TÞS, sem vænta má í mai eða júní nk.  

Vegna þessarar tregðu helsta stuðningsaðila verkefnisins, hefur það verið í stöðvun í þrjú misseri.  Orkusjóður hefur að vísu hingað til reynst viljugur til stuðnings, en honum er haldið í fjársvelti af stjórnvöldum.  Þrátt fyrir tuga milljarða tekjur þjóðarinnar af orkusölu ár hvert, fær Orkusjóður einungis 30 milljónir til allrar orkuþróunar í landinu!  Jafnvel þó Valorka fái allt að tíunda hluta þess fjár þá dugir það ekki eitt sér til að þoka verkefninu áfram.   Sá styrkur hefur dugað til að halda aðstöðu og tækjum, en verkefnisstjóri hefur þurft að lifa á örorkubótum konu sinnar.  Þannig er háttað stuðningi við íslenska hugvitsmenn sem hlýða kalli stjórnvalda um framlag til atvinnu- og verðmætasköpunar!

Ríkisstjórn Íslands var spurð álits á því hvort leggja ætti niður þessi einstöku verkefni, á sama tíma og þau hefðu skilað einstökum árangri og skapað Íslandi einstaka stöðu til forystu á nýju sviði orkutækni.  Spurt var hvort Valorka ætti t.d. rétt á stuðningi af þeim hundruðum milljóna sem ráðstafað hefur verið sl 3 ár til "græna hagkerfisins". Ríkisstjórnin synjaði alfarið um stuðning af þeim lið, enda hefur hann að mestu leyti farið í menningarmál og fornleifavernd.  Hinsvegar fékk Valorka yfirlýsingu ríkisstjórnar, undirritaða af forsætisráðherra, þar sem þakkað er fyrir hið einstaka frumherjaverkefni Valorku og lýst von ríkisstjórnar um að verkefnin "muni skila þeim árangri sem að er stefnt"!  Valorka hefur gert ítrekaðar tilraunir til að spyrja hin ýmsu viðkomandi ráðuneyti eftir skýringum á þessum orðum; hvernig ríkisstjórnin hyggist tryggja það að verkefnin geti þróast áfram; en engin svör fást frá ráðuneytum.  Þau virðast ekki þurfa að svara erindum sem til þeirra er beint.  Valorka fór fram á beint framlag ríkisstjórnar til að verkefnin gætu lifað framá þann tíma að styrkur TÞS væri í höfn, en var ekki virt svars.

Valorka leitaði eftir því við Landsvirkjun að hún gerðist fjárhagslegur bakhjarl verkefnanna.  Slíkur stuðningur væri fullkomlega rökréttur og eðlilegur, þar sem Landsvirkjun tekur inn nánast allar tekjur af sölu orkuauðlinda þjóðarinnar; ekkert væri sjálfsagðara en að stutt væri við samfélagsverkefni í orkuþróun af þessu tagi af því fé.  Þessu hafnaði Landsvirkjun með þeim "rökum" að stuðningur við tækniþróun samrýmdist ekki megintilgangi fyrirtækisins.  Þetta eru falsrök, sem sést best á því að Landsvirkjun ver miklum fjárhæðum í sína eigin tækniþróun, t.d. varðandi innleiðingu vindmyllutækni.  Auk þess er hikaði Landsvirkjun ekki við að leggja fé í Sjávarorku í Stykkishólmi, í samstarfi við Rarik og fleiri.  Þetta svar Landssvirkjunar byggir því á alfarið á fordómum og meinbægni í garð Valorku.  Ámælisvert er að forstjórar Landsvirkjunar fái þannig sjálfdæmi um ráðstöfun arðs af sameiginlegum orkuauðlindum þjóðarinnar.

Verkefni Valorku hafa þá sérstöðu að hverflaþróun er í eðli sínu langtímaverkefni; ekkert sambærilegt verkefni hefur verið unnið hérlendis.  Fjárþörf slíkrar þróunar vex verulega þegar framí sækir; og ekki er unnt að ætla íslenskum samkeppnissjóðum að halda því uppi til enda.  Til að tryggja íslenska hagsmuni ætlast Valorka til þess að íslenskir samkeppnissjóðir styðji verkefnið framá það stig sem nú er hafið; að sjóprófanir verði kláraðar; einkaleyfi verði tekin á þeirri gerð sem best reynist og að staðfesting sérfræðinga liggi fyrir ("proof of concept").  Það þrep ætti á nást á næstu 2-3 árum ef verkefnið kemst aftur af stað.  Eftir það er verkefnið boðlegt alþjóðlegum stórum fjárfestum sem bera það uppi til markaðar.  Slíka fjárfesta skortir ekki; einn slíkur hefur þegar rætt við Valorku með aðkomu í huga, og er tilbúinn að halda þeim viðræðum áfram þegar fyrrnefnd atriði eru í höfn.  Hvarvetna í heiminum (nema e.t.v. á Íslandi) er litið til sjávarorku sem vænlegs fjárfestingarkosts til framtíðar.

Í lokin skal hér gerð grein fyrir því fé sem Valorka hefur þegið frá samkeppnissjóðum til þessa, til þróunar síns verkefnis.  Á rúmlega sex árum hefur Valorka fengið alls 37,8 milljónir úr íslenskum samkeppnissjóðum til sinna verkefna, og vega þar þyngst styrkir Tækniþróunarsjóðs.  Þessir styrkir hafa að mestu leyti gengið til ríkissjóðs aftur í formi skatta og húsaleigu, en eftir standa nokkur mælitæki, frumgerðir og prófunarstöð hverfla, auk mesta ávinningsins sem er möguleiki til mikillar verðmætasköpunar.  Þessa upphæð má svo bera saman við það að hverfill í þróun erlendis hefur fengið yfir 20 milljarða í þróunarfé, en er enn ekki kominn í sjóprófanir.  

Í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr; þeirrar sem gefið hefur yfirlýsingar um mikilvægi og nauðsyn verkefnisins; hefur stuðningi við verkefnið nánast verið hætt.  Einungis 3ja milljóna styrkur Orkusjóðs 2014 hefur fengist á þeim tíma. Ríkisstjórnin hefur synjað verkefninu um alla styrki af safnliðum; um stuðning frá græna hagkerfinu og um beint framlag frá ríkisstjórninni, sem þó styrkir ýmis þörf málefni önnur.  Ef stjórnvöld ákveða núna, með aðgerðaleysi sínu og áhugaleysi, að eyðileggja þetta verkefni; munu þau jafnframt bera ábyrgð á því að þetta fé glatast með öllu.  

Örlög þessa íslenska hverfils munu ráðast á næstu dögum og vikum.  Hann hefur þegar markað sín spor í íslenska orkusögu, en það er undir stjórnvöldum komið hvort tækifærin verða nýtt í þágu komandi kynslóða.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þá miklu þróun sem nú á sér stað erlendis á sviði sjávarorkutækni, má benda á grein í tímaritinu Renewable Energy World:http://www.renewableenergyworld.com/rea/news/article/2015/04/marine-energy-sector-continues-growing-worldwide-despite-economic-setbacks?cmpid=WNL-Friday-April17-2015 , sem vísar í nýútkomna ársskýrslu sjávarorkudeildar Alþjóða-orkumálastofnunarinnar (IEA-OES) fyrir árið 2014.  Nýr framtíðarmarkaður orkuvinnslu og orkutækni er í mótun.  Verkefni Valorku hafa komið Íslendingum í fremstu röð þróunar.  Ætla stjórnvöld að eyðileggja það tækifæri; svipta framtíðarkynslóðir möguleikum og lítilsvirða íslenskt hugvit?

 

sigrun umhvradherraÍ útvarpsættinum "Sprengisandur" á Bylgjunni 22.mars 2015, ræddi þáttastjórnandinn, Sigurjón M. Egilsson, við Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra og Svandísi Svavarsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra. 

Fram komu merkar yfirlýsingar að hálfu umhverfisráðherra sem ber að fagna og halda til haga:  Ráðherra sagði m.a.

"Ég skil ekki hversvegna við leggjum ekki meira fé í rannsóknir varðandi orkumál og nýja tækni.  Finnst sérkennilegt að við skulum ekki hafa þróað í heiminum almennt nýja tækni til vinnslu á orku, þannig að við getum lagt af gerð virkjunarlóna og annars sem er að skemma landið.  

Ég er spennt fyrir sjávarföllum; að við getum virkjað þá orku sem þar er að hafa, en við höfum kannski ekki ýtt nógu mikið eftir því.  Tiltölulega nýverið erum við farin að nýta vindorkuna og hún skilar meiri árangri en við bjuggumst við.  En vindorkan er ekkert alveg heilög; þar er margt sem við þurfum að skoða frá umhverfislegu sjónarmiði.  Það eru ýmsir möguleikar; ég vil gjarnan skoða fleiri möguleika".  

Sigurjón spurði hvort ráðherra teldi þurfa að verja meira fé til að kanna aðra möguleika, s.s. vindorku og sjávarföll, og ráðherra játaði því skýrt og skilmerkilega.  

Svandís nefndi sjóði sem ætlað hefði verið að styðja rannsóknir og þróun slíkra grænna orkugjafa; Loftslagssjóð og fjárveitingar græna hagkerfisins; spurði hvort ætlunin væri að endurreisa græna hagkerfið?  Sigrún umhverfisráðherra sagðist ekkert endilega vilja endurreisa það undir því nafni.  

Svo mörg voru þau orð.  Yfirlýsingar ráðherra eru vissulega ánægjulegar og þakkarverðar.  Hinsvegar eru þær e.t.v. merkilegastar fyrir þeirra hluta sakir að núverandi ríkisstjórn hefur hingað til ekki staðið við bakið á eina þróunarverkefni Íslendinga í sjávarorku, þrátt fyrir að það hafi skilað einstökum árangri; þrátt fyrir að það hafi komið Íslendingum í fremstu röð tækniþróunar á sínu sviði og þrátt fyrir jákvæðar skriflegar yfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar.  Þvert á móti hefur þessu verkefni gengið flest í móti á þessu kjörtímabili, að því er stjórnvöldum við kemur:  Styrkfé hefur verið synjað frá Tækniþróunarsjóði án skýringa; Orkusjóði hefur áfram verið haldið í fjársvelti; Landsvirkjun hefur sýnt verkefninu hroka og synjað um aðstoð á sama tíma og varið er háum upphæðum af almannafé til vindorkuþróunar; iðnaðarráðherra sýnir verkefninu sinnuleysi; umhverfisráðherra synjaði um aðstoð af fjárveitingum til græna hagkerfisins; verkefninu hefur verið varpað fram og aftur milli ráðuneyta án þess að nokkur vilji koma því til aðstoðar og nú síðast keyrði um þverbak.  Þá sótti Valorka um beinan stuðning ríkisstjórnarinnar með tilvísun annarsvegar til fyrri fordæma og hinsvegar til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sjálfrar um góðan hug og væntingar til verkefnisins. Ríkisstjórnin svaraði þessu erindi ekki skýrt en lét í það skína að engin aðstoð fengist.  Ítrekuð hefur verið beiðni um svör.  Yfirlýsingar ríkisstjórnar má lesa hér á vefsíðunni, en þær hafa hingað til reynst orðin tóm.  Fyrsti íslenski hverfillinn og fyrsta tilraun Íslendinga til nýtingar sjávarfalla er nú að deyja drottni sínum vegna sinnuleysis stjórnvalda.

Það kemur því ánægjulega á óvart að verkefnið skuli nú hafa eignast bandamann í umhverfisráðherra.  Með þessi ummæli ráðherra að veganesti mun Valorka nú þegar óska eftir fundi með ráðherra og inna hana eftir því hvernig megi bjarga verkefninum úr þeirri stöðvun sem þau hafa verið í að undanförnu vegna skorts á stuðningi stjórnvalda.  Einnig munu alþingismenn allir verða spurðir um sín viðhorf í þessu efni og send verða erindi í viðeigandi nefndir þingsins.

forsetiVerkefnisstjóri Valorku átti fund á Bessastöðum með forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, hinn 27. janúar sl og kynnti fyrir honum verkefni Valorku ehf.  Forseti hafði heyrt af verkefnum Valorku og vildi heyra meira um þau, en sem kunnugt er þá hefur hann beitt sér mjög á alþjóðavísu í málefnum umhverfismála og hreinnar orku.  Nýtur hann mikillar alþjóðlegrar virðingar fyrir þau störf.  Forseti var þá nýkominn heim af heimsþingi hreinnar orku sem haldið var í Abu Dhabi, en þar var hann m.a. í forsæti dómnefndar fyrir hin virtu Zayed orkuverðlaun.

Hr. Ólafur Ragnar var mjög áhugasamur um verkefni Valorku og spurði margs eftir kynningu verkefnisstjóra.  Honum finnst mikið hafa áunnist á stuttum tíma, með því að hverfillinn er nú í fremstu röð tækni til virkjunar hægra annesjastrauma, og eini hverfillinn hérlendis sem hlotið hefur einkaleyfi.  Verkefnisstjóri spurði forseta einnig um hans viðhorf, í ljósi hinnar víðtæku reynslu og starfa á hinu alþjóðlega sviði.  Forseti telur að verkefnið ætti að vera hægt að kynna erlendis og fá að því öfluga samstarfsaðila og fjármögnun, en mikilvægt sé að undirbúningur hér heima sé eins vandaður og best verður á kosið.  Hann óskaði eftir að fá að fylgjast með framgangi verkefnisins, og sagðist fylgjast með því af áhuga.

Valorku er það heiður að njóta velvildar forseta, og það er Íslandi mikið happ að hafa forseta sem nýtur svo víðtækrar virðingar á sviði umhverfisverndar og hreinnar orku.

 

Skrifað hefur verið undir samsarfssamning milli Valorku ehf og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.  Nýsköpunarmiðstöð hefur lýst vilja til að verða Valorku til ráðgjafar um þróunarvinnu hverflanna og aðstoða við verkefnisstjórnun, auk þess að koma að verkfræðilegu mati prófana.

Valorka hefur áður notið aðstoðar NMÍ á ýmsa vegu.  T.d. veitti Geir Guðmundsson verkfræðingur góð ráð þegar verkefnisstjóri Valorku hóf fyrstu kannanir sínar varðandi nýtingu sjávarorku, og aftur síðar þegar fyrstu gerðir hverflanna fóru að mótast.  Það ár kynnti forstjóri NMÍ hverflana stuttlega á opnum ársfundi stofnunarinnar.  Valorka hefur einnig notið aðstoðar NMÍ í ráðgjöf við skoðun styrkjamöguleika í erlendum samstarfssjóðum.

nmilogoAðkoma NMÍ mun án efa auka á ýmsan hátt möguleika verkefnisins til framgöngu.  Með henni opnast aðgangur að þekkingu og reynslu varðandi framgang nýsköpunarverkefna, en það skapar aukinn trúverðugleika í samskiptum við stjórnkerfi, stofnanir og sjóði.  Til dæmis  er þess vænst að þetta samstarf auki líkur á framhaldsstyrk til verkefnisins frá Tækniþróunarsjóði, en hann er helsta forsenda þess að unnt sé að halda verkefninu áfram.  Tækniþróunarsjóður hefur í tvígang synjað um framhaldsstyrk, haustið 2013 og vorið 2014, en þær synjanir hafa stoðvað framgang verkefnisins og valdið verulegum erfiðleikum.  Skilja mátti af matsblöðum og í viðtölum við starfsmenn TÞS að sjóðurinn teldi vanta aðkomu öflugra ráðgjafaraðila að þróunarverkefninu áður en lengra væri haldið.  Þetta skilyrði er nú uppfyllt ríkulega með því að ekki einasta er tryggð aðkoma helstu opinberu stofnunar landsins á sviði nýsköpunarmála, heldur einnig verkfræðileg aðstoð.  Að auki liggur fyrir eindregin stefna íslenskra stjórnvalda um að kanna til fulls möguleika á sjávarorkunýtingu.  Er því fastlega búist við að umsögn haustið 2014, sem nú hefur verið lögð inn, verði samþykkt og verkefni Valorku komist í gang á ný.

Efnis-, líf- og orkutæknideild NMÍ verður hinn eiginlegi samstarfsaðili Valorku hjá NMÍ.  Framkvæmdastjóri hennar er Kristján Leósson, en helsti tengiliður við Valorku verður Geir Guðmundsson verkfræðingur.  Geir hefur mikla þekkingu á sjávarvirkjunum og hefur fylgst með þróun þeirra, ekki síður en verkefnisstjóri Valorku.  Hann veitti verulega aðstoð í umsóknargerð Valorku, ásamt öðrum hjá NMÍ.  Vænst er árangursríks samstarfs Valorku og NMÍ.

Subcategories